Hverju eigum við að trúa og ekki trúa?
6.1.2018 | 13:51
Við getum verið blekkt með því að trúa hinu ósanna, en við getum vissulega einnig verið blekkt með því að trúa ekki hinu sanna. - Sören Kierkegaard
Þegar lygarar geta sannfært okkur um að ábyrgur fréttaflutningur séu lygar einar, eingöngu vegna þess að þeim falla fréttirnar ekki að skapi, og komast upp með það, kviknar sá möguleiki að hinar myrku miðaldir geti endurtekið sig.
Það var afsakanlegt á tímum þegar samskiptatæknin var takmörkuð, og trú á skilyrðislausan sannleika frá æðri máttaröflum eða valdhafa þótti eðlilegur hlutur, en í dag, þegar Internetið hefur tekið sér stöðu sem mannsandinn sjálfur, þar sem við getum fundið upplýsingar um hvað sem er með því einu að gúggla, og komist í samband við nánast hvern sem er, þá sjáum við skýrt og greinilega ennþá meiri þörf en nokkurn tíma áður fyrir skýrri og gagnrýnni hugsun, sem hjálpar okkur að átta okkur á hverju við eigum að trúa, hverju við eigum ekki trúa, og frestun á ákvörðun þegar við höfum ekki nóg rök eða forsendur til að trúa eða ekki trúa.
Ég vil gefa mér að við ættum helst aðeins að trúa því sem er satt og rétt, sannleikanum. Og þá geri ég ráð fyrir að sannleikurinn sé eitthvað sem er alltaf samkvæmt sjálfu sér og í samræmi við upplifun okkar á veruleikanum.
Þetta vekur upp ákveðnar spurningar.
Er sannleikurinn eitthvað algjörlega háð hverjum einasta mannshug? Höndlum við öll sannleikann á okkar eigin hátt, er hann ólíkur fyrir okkur öll, eða er hann eitthvað ennþá stærra? Er sannleikurinn öll þau þekking sem mannsandinn hefur aflað frá örófi alda, til dagsins í dag? Og ef svo er, munu breytingar morgundagsins hafa áhrif á hver sannleikurinn verður þá? Er það sem við vitum ekki um framtíðina hluti af sannleikanum í dag?
Við höfum heyrt að sannleikurinn sé afstæður, og við höfum líka heyrt að sannleikurinn sé algjör. Hvort ætli sé málið?
Ef sannleikurinn er afstæður, þýðir það að þessar síbreytilegur verur sem við erum, sem lifum í þessu síbreytilega lífi, fáum varla höndlað hann, heldur rétt trúað hinu og þessu, og vonandi því sem er rétt, og vonandi ekki trúað því sem er rangt. Og upplýsingarnar og upplifunin breytist dag frá degi, ár frá ári, öld frá öld.
Hins vegar ef sannleikurinn er algjör, þá er hann óbreytanlegur. Af einhverjum völdum höfum við tilhneigingu til að vera svolítið trúgjörn á slíkt fyrirbæri. Þegar við trúum á algjöran sannleik, þá þurfum við fólk sem túlkar hann fyrir okkur, matreiðir okkur útgáfu sem okkur finnst passa, og skapar okkur heim þar sem allt er í röð og reglu.
Sannleikurinn er sjálfsagt einhvers staðar þarna á milli, algjörs skipulags og síbreytilegs kaós, og umfang hans meira en það sem við þekkjum í dag, hann er líka það sem við þekkjum ekki, og það gerir höndlun hans svolítið krefjandi, sérstaklega þegar svo fáar manneskjur virðast hafa raunverulegan áhuga, og tilbúnar að velta honum fyrir sér af dýpt.
En þá kemur þörf fyrir traust, fólk getur ekki endalaust verið að pæla í hlutunum, einhverjum þarf að treysta, og með tíma verður þetta traust að trú, og síðan að trúarbrögðum. Það virðist hluti af okkur að treysta aðeins fáum til að leiða hjörðina, sama þó að þessir fáu hafi ekkert endilega réttu svörin, né réttu spurningarnar, þeir sem þykjast vita betur. Þeim virðist oftast takast að sannfæra hjörðina og öðlast fádæma vinsældir, ná kjöri, að minnsta kosti þar til að í ljós kemur að þeir hafa bara verið að blekkja, jafnvel blekkt sjálfa sig, og þá er það orðið of seint.
Athugasemdir
Þú verður að koma með dæmi um viðfangsefni.
Jón Þórhallsson, 6.1.2018 kl. 15:47
Jón Þórhallsson: ég hef svolítið gaman af dæmalausum pælingum.
Hrannar Baldursson, 7.1.2018 kl. 14:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.