10. Óskarsverðlaunin: The Life of Emile Zola (1937) ***1/2
6.5.2007 | 22:29
Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. The Life of Emile Zola frá 1937 er sú tíunda í röðinni.
Emile Zola (Paul Muni) er fátækur rithöfundur í París sem deilir stúdíóíbúð með listmálaranum Paul Cezanne (Vladimir Sokoloff). Einn daginn sitja þeir félagar inni á kaffihúsi þegar vændiskonan Nana (Erin O'Brien-Moore) flýr þangað undan lögreglunni, en vinirnir bjóða henni sæti og vernda gegn ofsóknum lögreglunnar. Báðir finna þeir innblástur með Nana, en Cezanne teiknar af henni mynd og Zola skrifar um hana bók sem rokselst og gerir hann að vellauðugum manni.
Zola heldur áfram að skrifa. Rit hans eru yfirleitt gagnrýnin á stofnanir og hörmulegu ástandi almúgans sem hann verður vitni að. Fyrir vikið verður hann gífurlega vinsæll, en jafnframt umdeildur penni. Árin líða og Zola missir smám saman áhuga á mannúðarskrifum og gagnrýni. Honum finnst gott að borða og safnar að sér allskonar listmunum alls staðar að úr heiminu. Cezanne, hans gamli vinur, minnir hann á að velgengnin hafi hugsanlega stigið honum til höfuðs.
Þegar Alfred Dreyfus (Joseph Schildkraut), kafteinn í hernum og fjölskyldufaðir, er gerður að blóraböggli fyrir landráð sem einhver innan hæstu raða hersins hefur staðið fyrir - en hershöfðingjarnir ákveða að Dreyfus sé sá seki og byggja mál sitt á því að hann sé af gyðingaættum, og því hljóti hann að vera svikarinn. Dreyfus er gefinn kostur á að svipta sig lífi eða fara fyrir herrétt. Þar sem að hann er blásaklaus krefst hann þess að fá sakleysi sitt sannað. Herréttur dæmir hann til ævilangrar fangavistar, án samskipta við nokkurn mann.
Eiginkona saklausa hermannsins, Lucie Dreyfus (Gale Sondergaard) trúir á sakleysi hans, og leitar til Emile Zola og biður hann um hjálp við að sanna sakleysi manns hennar. Eftir langa umhugsun ákveður Zola að skera upp herör gegn franska hernum, en hann telur sig hafa nóga miklar upplýsingar til að vera sannfærður um sakleysi Dreyfus, enda hefur að auki annar háttsettur foringi í hernum fullyrt að Dreyfus sé saklaus og að hinum raunverulega sökudólgi verið sleppt lausum vegna klúðursins við dóminn um Dreyfus.
Zola skrifar grein til forseta lýðveldisins um spillingu innan hersins. Fyrir vikið er hann kærður af hernum og skipað að gera orð sín ómerk. Hann neitar að gera það og fær snjallan lögfræðing til að verja sig gegn þessum ásökunum, en ætlun hans er að afhjúpa sannleikann í máli Dreyfus með því að ræða um forsendur þess í tengslum við hans eigin ásakanir.
Myndin er stórvel leikin, og þá sérstaklega af Paul Muni í titillhlutverkinu og Joseph Schildkraut í hlutverki Dreyfus sem dæmdur er saklaus og þarf að dvelja mörg ár í prísundinni. Samtölin eru djúp og skörp; og einfaldlega svo rík að maður gæti ekki beðið um meira prótein fyrir heilasellurnar og mannúðarsálina.
Það sem helst situr eftir er þessi orka sem Emile Zola finnur í sjálfum sér þegar hann uppgötvar hversu mikið verk er fyrir höndum við það að gagnrýna ríkjandi kerfi og afhjúpa sannleikann sem alltof margir reyna að hylja sjálfum sér til frama.
Ég mæli sterklega með The Life of Emile Zola.
Óskarsverðlaun:
Besta kvikmynd: Henry Blanke
Besta handrit: Heinz Herald, Geza Herczeg, Norman Reilly Raine
Besti leikari í aukahlutverki: Joseph Schildkraut
Tilnefningar:
Besti leikstjóri: William Dieterle
Besta listræna stjórnun: Anton Grot
Besta hlóðblöndun: Nathan Levinson
Besti leikari í aðalhlutverki: Paul Muni
Besti aðstoðarleikstjóri: Russell Saunders
Besta tónlist: Leo F. Forbstein
Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:
Wings (1928) ****
The Broadway Melody (1929) *1/2
All Quiet on the Western Front (1930) ****
Cimarron (1931) ***1/2
Grand Hotel (1932) ***
Cavalcade (1933) ***
It Happened One Night (1934) ****
Mutiny on the Bounty (1935) ****
The Great Ziegfeld (1936) ***
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:29 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.