7. Óskarsverðlaunin: It Happened One Night (1934) ****
15.4.2007 | 22:25
Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. It Happened One Night frá 1934 er sú sjöunda í röðinni.
It Happened One Night fjallar um Ellie Andrews (Claudette Colbert), dóttur auðkýfingsins Alexander Andrews (Walter Connolly) sem reynir að stjórna lífi hennar. Hún hefur verið svolítið galin á næturlífinu, þannig að faðir hennar fer með hana á skútusiglingu til að halda henni frá landi og vandræðum. Hún stingur sér í sjóinn, kemst til Miami og tekur rútu áleiðis til New York, þar sem hún ætlar að hitta eiginmann sinn, konunginn Westley (Jameson Thomas), og staðfesta giftinguna; en faðir hennar vill ógilda þessa giftingu þar sem hann telur Westley konung ekki vera rétta manninn fyrir hana.
Í rútunni sest hún við hlið æsifréttamannsins Peter Warne (Clark Gable), og á við hann orðastað. Hann kannast strax við stúlkuna, en lætur ekkert á því bera. Þegar töskunni hennar er stolið sér hann aumur á henni og ákveður að hjálpa henni til New York, að því tilskyldu að hann fái einkarétt af sögunni.
Á leiðinni laðast þau hvort að öðru, en vandamálið er að Peter vill að sjálfsögðu ekkert með gifta konu gera, og hún ber varla mikið traust til æsifréttamanns. Á leiðinni stoppa þau á móteli þar sem þau fá herbergi með tveimur rúmum. Peter hengir upp teppi á milli þeirra og kallar það Jeríkó, sem er að sjálfsögðu vísun í traustan vegg úr Biblíunni sem ekkert gat unnið á nema staðfast traust.
Bilið á milli þessara tveggja einstaklinga virðist í fyrstu óyfirstíganlegt, vegna bakgrunns, aldursmunar, skapgerðar og ekki síst vegna þess að Ellie er gift kóngi, - en þar sem þetta er rómantísk gamanmynd og áhorfandinn finnur fyrir sterku sambandi milli þeirra Peter og Ellie, og finnst að þau ættu að vera saman; vitum við nokkurn veginn hvað gerist.
Clark Gable og Claudette Colbert sýna ljómandi skemmtilegan samleik, enda fengu þau bæði Óskarsverðlaun sem besti leikari árið 1934. Frank Capra fékk einnig Óskarinn sem besti leikstjórinn.
Fín mynd þarna sem á jafnmikið erindi til okkar í dag og hún gerði árið 1934. Ég hafði mjög gaman að henni. It Happened One Night er klassísk rómantísk gamanmynd. Hún hefur engu tapað á þeim 73 árum sem liðið hafa síðan hún var tekin upp á filmu; og reyndar er svolítið gaman að sjá gamla bíla, klæðaburð og lest frá 1934 í fínu ástandi.
Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:
Wings (1928) ****
The Broadway Melody (1929) *1/2
All Quiet on the Western Front (1930) ****
Cimarron (1931) ***1/2
Grand Hotel (1932) ***
Cavalcade (1933) ***
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 22:27 | Facebook
Athugasemdir
Stundum getur maður alveg dottið inn í þessar gömlu og fílað sig. Hef ekki séð þessa. man samt eftir nokkrum góðum stundum með einni svona um og yfir sextugt... Annars hélt ég að þú ættir að vera að tefla og stúdera fræðin. Virðist sem þið keppnismenn hangið bara á blogginu milli umferða....
arnar valgeirsson, 15.4.2007 kl. 23:22
Þetta er ein af mínum eftirlætis kvikmyndum. Hún er ákaflega vel gerð á allan hátt.
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 16.4.2007 kl. 11:19
Arnar: ég viðurkenni það að hugurinn hefur ekki verið rígfastur við skákina undanfarið, eins og mörg önnur ár.
Sigurgeir Orri: gaman að heyra. Hún kom mér á óvart þar sem að ég vissi ekkert um hana fyrir sýningu.
Hrannar Baldursson, 16.4.2007 kl. 12:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.