Af hverju eru lygar skaðlegar?

 liar
 
Lygar eru eitt af þeim fyrirbærum í þessum heimi sem vert er að fyrirlíta. Ég er ekki að tala um saklausan skáldskap, eða þegar fólk segir eitthvað rangt vegna þess að það veit ekki betur, heldur þegar það viljandi segir ósatt. Reynir að blekkja með orðum.
 
Sá sem lýgur, getur gert það af ýmsum ástæðum, til dæmis gæti viðkomandi talið að lygin hjálpaði honum að verja slæman málstað, geti verið gagnleg við ákveðnar aðstæður, eða væri einfaldleg skemmtilegri en sannleikurinn. Ástæðurnar eru margar. Helsta uppspretta lyga virðist tengjast hagsmunavörslu, sérstaklega þegar hagsmunirnir tengjast eigin skinni.
 
Afleiðingarnar eru alltaf þær sömu þegar litið er til lengri tíma, skaðlegar fyrir lygarann og það samfélag sem lygarinn lýgur að. Hugsanlega lifir lygarinn við þá sjálfsblekkingu að lygar séu skaðlausar, og einfaldlega nauðsynlegur hluti af leiknum sem þetta líf getur verið í hans huga, og réttlætir sig jafnvel með þeirri hugsun að allir hinir ljúgi líka. Og ekki er ólíklegt að viðkomandi muni taka þetta afar sjúka viðhorf til heimsins, með sér i gröfina.
 
Það er tvennt sem einkennir lygara: þeir eru yfirleitt tilbúnir til að taka sér afstöðu óháð þeim upplýsingum sem fyrir liggja, og þar að auki hafa þeir mikla trú á eigin minni og gáfum. Því varla lýgur sá sem telur sig ekki geta valdið lýginni til lengri tíma? Þeir telja sig klára, en eru það ekki, því að lygin gerir þá sem ástunda hana sífellt heimskari. Sjálfur treysti ég ekki eigin minni. Of oft hefur mig misminnt um staðreyndir og hef upplifað þá sorglegu mæðu sem fylgir því að hitta manneskju og muna ekkert eftir henni. Ef svona erfitt getur verið að muna sannleikann, hversu erfitt ætli það sé að muna lygarnar og aðgreina þær frá sannleikanum til lengri tíma litið? Frekar treysti ég á skilninginn, og gagnrýna hugsun, að virða hlutina fyrir mér í hvert sinn sem ég rannsaka þá, eins og ég sé að gera það í fyrsta sinn.
 
Hvernig gera lygar einstakling heimskari? Jú, sjáðu til. Við tengjum okkur saman í mannlegu samfélagi með orðum, og á meðan setningarnar og meiningarnar í orðunum eru sannar, þá getum við byggt upp traust samfélag saman, treyst hverju öðru, vaxið saman. Þegar lygarar blanda sér í slíkt samfélag, yfirleitt til að láta sig og sín sjónarmið líta betur út, þá hefur það áhrif á hvernig við upplifum  veruleikann.  Þegar við uppgötvum síðan að það er gjá milli veruleikans sjálfs og þess veruleika sem við trúum á, vakna spurningar um hvernig heimurinn sem við upplifum varð að öðru en því sanna. 
 
Unglingar sem vaxa úr grasi sjá stundum hræsnina sem fylgir lygum, því þeir eru tengdir við hinn náttúrulega heim, og eru enn að móta trú sína á heiminum, og þeir sjá í gegnum lygarnar, að minnsta kosti um sinn. 
 
Reynst getur erfitt að rekja þræðina í lyganetinu, og hugsanlega er það vonlaust verk, en sá sem í upphafði lagði fram lygina, hefur tekist að skekkja heimsmyndina, og hefur tekist að rugla samfélagið í rýminu, þannig að það verður veikara fyrir, og tefur fyrir framförum, hugsanlega í einhver ár, en það fer sjálfsagt eftir völdum viðkomandi. 
 
Er eitthvað heimskulegra en slík verk?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er ef til vill til eitthvað heimskulegra.  En ég er sammála þér í því að lygar eyðileggja mikið út frá sér og hittir á endanum lygarann fyrir.  Það er hægt að sjá bara með því að upplifa samfélagið okkar í dag, fólk er orðið svo þreytt og reitt og ruglað því það er búið að skekkja svo allt það sem fólk trúði á.  Hér hefur orðið illvigur skaði sem erfitt verður að bæta úr. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.10.2012 kl. 11:54

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Fólk virðist þrá lygar. Kerfið sem við búum í er byggt á lygum.

Ég sé ekki að það sé á leiðinni á neina vitræna staði... en hey, ég sagði aldrei að fólk væri gáfað.

Ásgrímur Hartmannsson, 6.10.2012 kl. 21:26

3 Smámynd: Valur Arnarson

Sæll Hrannar,

Athyglisverð grein. Hvað finnst þér um skilyrðislausa skylduboðið, þ.e. að alltaf sé rangt að ljúga, sama hverjar kringumstæðurnar séu? Eins og með fyrirspurn morðingjans, hvað eigum við að gera ef morðingi spyr eftir einhverjum sem er okkur nákominn, segjum við til hans eða ljúgum við. Eins með gyðingana sem voru í felum á fiskiskipinu og nasistarnir komu til þess að spyrja hvort hér væru gyðingar í felum. Hvað eiga sjómennirnir að gera?

Hvers vegna er rangt að ljúga? Útfrá hvaða gildismati? Hvað gefur okkur ástæðu til þess að gera það ekki? Mér finnst þú svara þessu að hluta til í greininni, vegna þess að það gerir samfélagið okkar verra. Á þá samfélagið rétt á sér sem gildismat?

Með góðum kveðjum,

Valur Arnarson, 8.10.2012 kl. 00:21

4 identicon

En skaðlegasta lygi allra tíma, sem þú styður Hrannar; Það eru trúarbrögðin, ekkert hefur skaðað fólk eins mikið og trúarbrögð, ekkert gerir fólk jafn heimskt, ekkert jafnast á við lygarnar í trúarbrögðum.. samt styður þú trúarbrögð Hrannar, er þá þessi pistill nokkuð annað en hræsni

DoctorE (IP-tala skráð) 8.10.2012 kl. 09:12

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Ég er sammála þessu mað lygina í greinini Fannar !!en hún hefur samt verið doltið skemmtilegt efni í geginum tíðina svona til gamans!!!,það skylur á milli!!afbryði eru þarna á milli og það bara heillmikil,en það er alltaf gaman að þínum pælingum/Kveðja

Haraldur Haraldsson, 9.10.2012 kl. 15:24

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir góðar athugasemdir.

Ásthildur: Já, þegar traustið hverfur, er erfitt að byggja upp að nýju. Að ávinna sér traust er erfitt. Að ávinna sér traust eftir svik, er nánast vonlaust verk.

Ásgrímur: Hugsanlega þráum við að falleg loforð séu uppfyllt, og þegar við heyrum þessi loforð vaknar von, sem slökknar sjálfsagt ekki fyrr en kemur að næstu kosningum og þeir sem lofuðu öllu fögru eru fallnir á tíma.

Valur: Þetta eru góðar klassískar spurningar. Ég var ekki að velta fyrir mér skylduhugtakinu, en það þýðir ekki að þær vangaveltur séu áhugaverðar og spennandi. Ég þarf meiri tíma til að velta henni fyrir mér.

DoctorE: Trúarbrögð eru ekki lygar, DoctorE, þar sem þar er ekki vísvitandi verið að blekkja fólk. Hugsanlega er eitthvað ósatt við flest trúarbrögð og sjálfsagt margt satt líka, en að kalla trúarbrögð lygar er svona svipað og að kalla hest flóðhest.

Halli: Takk. ;)

Hrannar Baldursson, 9.10.2012 kl. 16:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband