Surtur frændi

Drengur fékk hús úr legókubbum í jólagjöf. Hann setti það saman á tveimur klukkutímum. Stúlka fékk dúkkuhús. Drengur og stúlka elskuðu nýju húsin sín.

Þá kom í heimsókn Surtur frændi. Hann var kallaður Surtur því hann var alltaf í svörtum skóm og hafði alltaf skóbón í vasanum, því samkvæmt honum var ekkert mikilvægara við manneskju en skórnir hennar. Hann sá húsin. Brosandi spurði hann Dreng og Stúlku hvort þau vildu ekki stærri og flottari hús. Þau sögðu nei, þau voru meira en ánægð með það sem þau höfðu.

Surtur tók samt húsin og stakk þeim ofan í poka. Svo rauk hann á dyr. Drengur og Stúlka skældu í pabba og mömmu. Fyrst trúðu þau þessu ekki. Héldu að börnin væru að ljúga. En börnin tóku fram potta og pönnur, lömdu þær og grenjuðu hástöfum þar til loksins var hlustað á þau.

"Hvar eiga legókallarnir mínir að sofa?" spurði Drengur.

"Hvar eiga dúkkurnar mínar að baka?" spurði Stúlka.

Pabbi hringdi í Surt frænda og spurði hvað hann meinti með að taka hús barnanna með sér. 

"Hafðu engar áhyggjur," svaraði Surtur. "Þau fá húsin til baka, sjöfalt."

Pabbi sagði börnunum að allt yrði í lagi. Þetta myndi reddast. En ekkert gat huggað þau. Gráturinn jókst, og þau vældu daginn út og inn.

Mamma hringdi í Surt og spurði hvað hann ætlaði að gera við húsin, og svaraði Surtur frændi, "Ég hef hugsað mér að gefa fátækum börnum þessi hús. Þegar ég sá hvað þau glöddu mikið ykkar börn, gat ég ekki annað en séð fyrir mér hamingjuna í augum barna sem ekki eiga neitt."

"Viltu vinsamlegast skila þessum húsum strax. Þú hefur engan rétt til að taka þau og engan rétt til að gefa þau."

"Kærðu mig bara. Hver heldurðu að taki afstöðu gegn manni sem gefur fátækum, sem lofar að gefa meira til baka en hann tekur, manni sem spurði áður en hann tók? Manni sem er í fægðum skóm?"

Mamma hringdi næst í lögregluna. Þar var henni sagt að þetta mál væri tekið alvarlega, en að fyrst yrði hún að gefa skýrslu og koma með sönnunargögn sem sýndu ótvírætt að umræddur Surtur hafi stolið húsunum. 

Mamma og pabbi fóru niður á lögreglustöð og gáfu skýrslu. 

Viku seinna fengu þau bréf frá rannsóknarlögreglunni sem sagði að Surtur hefði tjáð þeim að hann hefði gert þetta með þeirra vitund, og þar sem þau vissu af þessu, þá gæti lögreglan ekkert gert. Þar að auki kom Surtur afar vel fyrir og var í gljáfægðum skóm.

Mamma og pabbi sögðu Dreng og Stúlku frá þessu, en börnin gátu ekki lengur grátið og þess í stað tóku þau djúp andvörp öðru hverju.

Smám saman hjaðnaði yfir sárin. Tíminn leið og kom að næstu jólum. Árið hafði verið dapurt fyrir börnin. Þau höfðu ekki geð í sér til að læra í skólanum yfir vorið og komu sér sífellt í vandræði. Svo kom sumar sem leið alltof fljótt og næsta skólaár skall á með meiri hraða en áður. Þá voru kennarar betur undirbúnir fyrir þessi börn og höfðu undirbúið sérstök úrræði fyrir þau.

Á aðfangadag hringdi dyrabjallan. Drengur fór til dyra. Þar stóð Surtur. Drengur tók andköf. Surtur gaf honum tvo stóra pakka, klappaði honum á kollinn og sagði "gleðileg jól" áður en hann tók til fótanna svo að glampaði á iljar hans.

Drengur gekk klökkur inn í stofu og setti pakkana á gólfið. 

"Hvað er að?" spurði mamma. 

"Ég veit það ekki, en eitthvað vont," sagði Drengur og setti pakkana undir jólatréð. 

Eftir mat voru pakkarnir opnaðir og þegar kom að pökkum Surts voru þeir settir til hliðar, enda voru þeir stórir og flottir. Umbúðirnar glansandi rauðar og gylltar með glimmer. 

Í augum barnanna glampaði von um að nú fengju þau loksins húsin sín aftur. 

Drengur og Stúlka opnuðu pakka sína samtímis. Inni í pökkunum voru kassar. Á kassana höfðu verið límdar myndir af höll í Indlandi og kastala í Skotlandi. Innan í kössunum voru ekki hús, heldur litir og A4 arkir.

Á gulum miða stóð:

"Notið ímyndunaraflið. Teiknið húsin sem ykkur langar í."

Drengur og Stúlka litu á foreldra sína, lögðu frá sér pakkana, fóru inn í herbergi sín og lokuðu hljóðlega á eftir sér.

Mamma og pabbi settust niður við eldhúsborðið. Þau sátu þar þögul um stund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Óskars

rosalega er þetta góð "dæmisaga" smellpassar við það sem er að gerast á Íslandi

Sigrún Óskars, 4.12.2010 kl. 19:14

2 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

þetta er með betra smásögum sem maður hefur lesið núna.

Úrsúla Jünemann, 4.12.2010 kl. 20:31

3 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Ég  segi eins og krakkarnir myndu segja, "og hvað svo"?

Guðmundur Júlíusson, 4.12.2010 kl. 23:51

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir hrósið, Sigrún og Úrsúla.

Guðmundur: Það er stóra spurningin.

Hrannar Baldursson, 5.12.2010 kl. 07:33

5 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Ég hef verið að fylgjast með þér Hrannar. Nú ertu greinilega að safna kröftum eftir allar stóru deilurnar hér í haust, því þú hefur tekið þér langt frí frá blogginu.

Það verður þó að segjast að þú ert efni í skáld, eins og þú setur þessa sögu á þrykk.

Auðvitað ertu fjölhæfur eins og svo margir skákmenn ættu að vera. En skáld, það er merki um hugsjónaríkan mann, enda er þín réttlætiskennd mikil.

Nú nota ég tækifærið og þakka þér fyrir frábæran dugnað og áhugaverða pístla á árinu. Svo eru jólin framundan og ég óska þér gleðilegrar hátíðar með von um gott nýtt ár 2011 fyrir okkur öll.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 16.12.2010 kl. 22:37

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk félagi,

Það hefur einfaldlega verið gífurlega mikið að gera hjá mér. Hef verið mikið á ferð og flugi, er í augnablikinu staddur á Houston flugvelli í Texas á leið til Mexíkóborgar eftir nokkrar mínútur.

Loksins kominn í jólafrí. :)

Jólakveðjur heim til þín og okkar góðu félaga,

Hrannar

Hrannar Baldursson, 17.12.2010 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband