Sjoppuprófið

Þegar ég veit ekki hvern ég á að kjósa, reyni ég stundum að setja upp auðskiljanleg dæmi sem segja allt sem segja þarf um frambjóðendur. Spurningin í þessu prófi er hvort flokkunum sé treystandi til að gera það sem þeir eru beðnir að gera. Ég ímynda mér hóp barna og bið þau að skreppa fyrir mig út í sjoppu, en hvert barn hefur eiginleika viðkomandi stjórnmálaflokks, í það minnsta eins og ég sé þá. Vissulega eru svona próf ákveðin einföldun og fram koma mínir eigin fordómar í garð flokkanna. En til þess er leikurinn gerður, að átta mig á eigin hug og hafa betri forsendur til að taka ákvörðun.

Ímyndum okkur að hver og einn stjórnmálaflokkur í Reykjavík sé barn sem við biðjum um að skjótast út í sjoppu til að kaupa hraun og lakkrísrúllu. Öll börnin samþykkja verkefnið og leggja af stað út í sjoppu. Þau fengu klukkutíma.

Sjálfstæðisflokkurinn kemur fyrstur til baka með skært bros á andlitinu en ekkert nammi. 

"Hvar er nammið?" spyr ég.

"Ég ákvað að fara út í banka og leggja peninginn inn á reikning. Þú getur tekið peninginn aftur út eftir 10 ár en hann er á stórgóðum vöxtum."

"Ertu að meina það?"

"Nei, bara að grínast. Mig vantaði aðeins upp í klippingu. Hvernig finnst þér? Ég skal fara aftur út í sjoppu og gera aðra tilraun."

"Farðu heim," segi ég og hristi höfuðið.

Samfylkingin kemur næst, líka með tvær hendur tómar. 

"Hvar er nammið mitt?" spyr ég. 

"Tja, ég hitti gamlan vin fyrir utan sjoppuna og við spjölluðum lengi saman. Það kom í ljós að mamma hans og pabbi eru atvinnulaus, þannig að ég ákvað að gefa honum peninginn."

"Það var nú fallega gert af þér."

"Það hefði verið ennþá fallegra ef foreldrar hans ættu ekki sjoppuna."

"Farðu heim," segi ég og hristi höfuðið.

Vinstri græn kemur næst, líka með tvær hendur tómar.

"Hvar er nammið mitt?" spyr ég. 

"Veistu hvað nammið er óhollt? Þú gætir orðið sykursjúkur og svo er það ekki umhverfisvænt að borða nammi, og svo er Hraun svo ósiðlegt í laginu."

"Nú?" spyr ég. 

"Já. Ímyndaðu þér ef Hrauninu væri hent út í sundlaug. Það myndi grípa um sig skelfing. Stórhættulegt."

"Hvað gerðirðu við peninginn?" 

"Ég fékk mér ís í brauðformi."

"Dóh!" segi ég. "Farðu heim."

Framsókn kemur næst, líka með tvær hendur tómar en frekar kámugan munn.

"Hvar er nammið mitt?" spyr ég?

"Nammið þitt?" segir Framsókn vandræðalega og sleikir út um.

"Farðu heim," segi ég.

Frjálslyndur kemur næstur, líka með tvær hendur tómar.

"Hvar er nammið mitt," spyr ég.

"Ég fór upp á efstu hæð blokkarinnar þarna og prófaði að láta peninginn fljúga inn í sjoppu og sjá hvort nammið kæmi ekki bara til þín. Kíktu í vasann."

Ég kíki í vasann. Ekkert annað en hringur í vasanum.

"Farðu heim," segi ég.

Heiðarleiki og almannaheill eru tvíburðar, þeir koma með pening til baka. Nákvæmlega sömu upphæð og þeir fóru með.

"Hvernig stendur á þessu?" spyr ég. "Hvar er nammið?"

"Okkur fannst nammið of dýrt, þessar álögur í sjoppunni eru ekki heiðarlegar né góðar fyrir almenning í landinu. Svo tekur ríkið gífurlegan skatt af þessu. Við töldum betra fyrir þig að halda peningnum og sleppa þessu bara. Svo þekkja mig margir fyrir heiðarleika og ekki vil ég eyðileggja svoleiðis orðspor."

Þeir rétta mér peninginn og ganga álútir heim á leið.

Reykjavíkurframboð kemur til baka með hraun og lakkrísrúllu. Ég stari gapandi á barnið.

"Takk," segi ég. 

"Það var ekkert," segir Reykjavíkurframboðið og labbar heim.

Besti flokkurinn kemur til baka með málningardollu, nokkur hrísgrjón í lófanum og grjóthlunk.

"Hva...?" styn ég upp.

"Baðstu ekki um Hraun og lakkrís?" spyr Besti flokkurinn og setur upp bros eins og Jókerinn í "The Dark Knight".

 

Í raun stóðst aðeins Reykjavíkurframboðið prófið, en það er svo lítill flokkur að hann varð að gera það til að eiga einhvern möguleika. Helsti galli Reykjavíkurframboðsins er að það er hefðbundið framboð sem snýst um stefnur og loforð, en er ekki þessi bylting sem Íslendingar þurfa á að halda í dag.

Ef ég mætti kjósa í Reykjavík, færi atkvæði mitt til Besta flokksins, fyrst og fremst til að senda atvinnupólitíkusum öllum þau skilaboð að ég vil ekki sjá þá hafa ævilangt lifibrauð af stjórnmálum, að hver einstaklingur ætti ekki að vera lengur en áratug í stjórnmálum, að þeir sem hafa verið að þiggja styrki verði að segja af sér - ekki bara þeir sem fengu háa styrki, líka þeir sem fengu lága styrki, - því það er prinsippið sem skiptir meira máli en upphæðin. Þetta þýðir að breyta þarf algjörlega leikreglum um hvernig fólk kemst að í stjórnmálum, því það er mikill fjöldi fólks sem gæti gert þjóðinni gott með þátttöku sinni, sem dettur ekki í hug að taka þátt eins og staðan er í dag eða hefur verið síðustu ár.

Sjálfsagt væri réttast að setja saman lista yfir alla þá sem geta hugsað sér að starfa að stjórnmálum. Útiloka þá sem eru á sakaskrá. Og draga síðan úr pottinum á tilviljunarkenndan hátt. Brjóti viðkomandi af sér á tímabilinu fengi hann eða hún eina viðvörun, og verði síðan látin fara gerist slíkt aftur.

Lýðræði þarf nefnilega að vera aðgengilegt fyrir alla. Ekki bara þá sem kjósa. Líka fyrir þá sem stjórna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Mæli með þætti Sölva Tryggvasonar á Pressunni, sem ég horfði á eftir að ég skrifaði þennan pistil.

Hann breytti aðeins viðhorfum mínum. 

Í fyrsta lagi sýnist mér Besti flokkurinn ekki lengur standa fyrir grín, heldur heilbrigða skynsemi. Ég er sérstaklega hrifinn af hvernig Jón Gnarr talar um að fá hæfileikaríkt fólk til að vinna saman, og draga úr deilum sem verða til einfaldlega vegna þess að fólk skiptir sér í flokka, ólík lið sem það trúir að standi fyrir gjörólíka hluti.

Í öðru lagi má Ólafur F. fá frí frá stjórnmálum eftir 20 ár í borgarstjórn, þó að hann sé heiðarlegur og standi við orð sín.

Annað er óbreytt.

Hrannar Baldursson, 27.5.2010 kl. 07:14

2 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég er mikill aðdáandi Jóns Gnarr og kýs hann einmitt fyrir helbrigða skynsemi og þá lífsreynslu sem hann kemur með. Sammála um að Ólafur sé heiðarlegur og að hann hafi orðið fyrir djöfulegu einelti sem hefði átt að stoppa. kanski varð hann fyrir því einmitt þess vegna...

Óskar Arnórsson, 27.5.2010 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband