Er Jón Gnarr og flokkur hans bestur?

 

georg

 

Besti flokkurinn er ekki bara grín. Hann er líka háð. Háð er ekki bara grín. Háð er gagnrýnið grín.

Jón Gnarr hefur háð stríð með háði gegn fjórflokknum. Hann er að sigra.

Fjórflokkurinn svarar fyrir sig með skotum á Jón Gnarr um að einhvern tíma hafi hann skráð sig á lista til stuðnings sjálfstæðismönnum, hann sé trúaður, sé ekki alltaf fyndinn, sé ekki hægt að taka hann alvarlega og þar fram eftir götunum.

Ég ólst upp í Breiðholtinu. Í fellahverfinu. Mér þykir vænt um Reykjavík. Síðasta kjörtímabil var óhugnanlegt. Þeir sem komust að kjötkötlum borgarinnar stálu ekki bara öllu kjötinu úr kötlunum, heldur seldu líka katlana og skepnurnar sem nota áttu til næstu áratuga. Þeim fannst þeir bara standa sig nokkuð vel.

Hefðbundinn kosningaáróður hófst með innihaldslausum loforðum, sæmilega mjúkum og loðnum, einhverju sem hægt væri að geyma þar til stutt væri í næstu kosningar og sýna þá einhvern lit til að setja verkefni í gang sem hægt væri síðan að slá á frest eftir næstu kosningar.

Nú kemur Jón Gnarr fram og gefur verstu hugsanlegu kosningaloforð sem hægt er að gefa. Þau snúa að hlutum sem fáir vilja, en loforðin eru það fáránleg að enginn trúir að manninum sé alvara. Ég trúi því ekki heldur. En hvað ef honum er alvara?

  • Hvað ef hann vill tollahlið frá Garðabæ til Reykjavíkur?
  • Hvað ef hann vill slátra skepnum í húsdýragarðinum til að gefa ísbirni að éta?
  • Hvað ef hann vill láta ættleiða róna?

Væri ekki fyndið ef hann stæði við öll kosningaloforðin, fyrsti stjórnmálamaður Íslendinga til að gera slíkt?

Mig grunar að markmið framboðsins sé að sýna fram á fáránleika flokka og hefðbundinna kosninga, en hvað ef ég hef rangt fyrir mér? Hvað ef Jón Gnarr vill einfaldlega fá það sem hann hefur sagt, þægilegt skrifstofustarf þar sem hann hefur nóg af frítíma og getur gert það sem honum sýnist? 

Hvað ef markmiðið er að styrkja leikhúslíf í Reykjavík? Hvað ef raunveruleg uppspretta bakvið framboðið er atvinnuleysið sem bíður listafólks þar sem Páll Magnússon sjónvarpsstjóri hefur boðað niðurskurð á íslensku sjónvarpsefni? Hvað ef þetta er svarið við þeim niðurskurði, og hefur í raun ekkert með gagnrýni á pólitík að gera?

Ég myndi kjósa Besta flokkinn umfram allt hitt sem í boði er, aðallega vegna þess að þetta er eini flokkurinn sem inniheldur engan atvinnupólitíkus. Það er nóg fyrir mig, því ég tel atvinnupólitíkusa vera eina mestu meinsemd þjóðarinnar og starfstétt sem ætti ekki einu sinni að vera til.

Svo er svolítið skondið að þegar fólk kýs Besta flokkinn er það í raun að kjósa Jón Gnarr, og er nokkuð sama um alla þá sem geta streymt inn í stjórnkerfið í kjölfar hans. Það virðist nóg fyrir heilan flokk að hafa eina fyndna manneskju í framboði. Ekkert annað skiptir máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Hrannar, mikið er ég sammála þér. Ég mun kjósa Bezta flokkinn af þeirri einu ástæðu að hann er ópólitízkur. Þessir svokölluðu atvinnupólitíkusar hafa enga sérþekkingu umfram aðra til að stjórna Reykjavík. Loforð eru innihaldslaus, líka loforð Bezta Flokksins, en það skiptir litlu. Þegar á hólminn kemur reyna allir að gera sitt bezta. Og kosturinn við að vera ópólitízkur þá eru menn ekki bundnir af neinu nema vinna sem bezt. Bakhjarlar og flokkseigendur hafa engin áhrif og munu ekki stjórna ákvörðunum. Ef svo Bezti Flokkurinn bregst og gerir upp á bak þá verður það varla verra en síðasta kjörtímabil og Reykjavík mun lifa það af

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.5.2010 kl. 12:27

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Eitt sinn var tollahlið frá Keflavík til Reykjavíkur. Það gekk ágætlega. Svo er tollahlið á milli Reykjavíkur og Akraness sem gengur svo vel að það er löngu hætt við að afleggja það.

Ísbirnir eru í útrýmingarhættu, ekki dýrin sem má finna í húsdýragarðinum.

Mér finnst það alveg vera í samræmi við kenningar þeirra trúarbragða sem flestir íslendingar aðhyllast að rétt sé að ættleiða munaðarleysingja og koma fram við þá sem illa hafa farið út úr lífinu eins og bræður og systur.

Þessi kosningaloforð eru nokkuð skynsöm öll.

Svanur Gísli Þorkelsson, 23.5.2010 kl. 13:18

3 Smámynd: Garún

Ég þoli ekki svona grín!  Ég verð að viðurkenna það.  Finnst alltaf allt lykta eins og einhver gjörningur.  En  því miður  þá er það þannig að þeir sem sitja í borgarstjórn eru þeir sem eru fyrir löngu búnir  að gera sig að fífli og það oft.  Skiptast á  að vera borgarstjórar, baktala hvorn annan, tala í kringum hlutina og gera ekki rassgat.  Ég myndi kjósa besta flokkinn því þó svo að svona grín fari smá í  taugarnar á mér  þá held ég að það þurfi að koma þessu fólki frá völdum sem þarna er....skítsama um flokkapolitík, ég vil bara þessi nöfn burt, Hönnu, Dag, Ólaf og alla hina. 

Garún, 23.5.2010 kl. 19:41

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég fæ nú ekki séð að Ólafur F. hafi unnið til neinna refsinga. Mér hefur kannski einhvers staðar yfirsést?

Árni Gunnarsson, 23.5.2010 kl. 19:53

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Árni, ertu búinn að gleyma Laugavegi 4-6? Þessar 800 milljónir hefðu verið betur varið í þjónustu við borgarana en ekki inn á bankareikning lóðabraskara

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.5.2010 kl. 20:51

6 identicon

mér datt helst í hug að besti flokkurinn myndi selja öll sín atkvæði til hæstbjóðanda. síðan má flokkurinn mín vegna taka alla þá aura og eyða þeim að vild. jón gæti t.d. sent pétur jóhann vin sinn í fitusog og borgað fyrir það. það sem mér finnst hryllilegasta tilhugsunin í þessu öllu saman er sú að ágætis fólk sem hefur skemmt okkur í gegnum tíðina ætlar að fórna sjálfu sér og gerast pólitíkusar hver ætlar að sjá um að vera skemmtilegur. júlíus vífill, dagur b., hanna birna eða ólafur f.? ég reyndar bý ekki í reykjavík svo mér er í raun slétt sama. datt þetta bara í hug.

þórómar (IP-tala skráð) 23.5.2010 kl. 23:02

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Húsafriðun er tilfinningamál. Þar er enginn með einasannleik. Verðlagið sem þarna ræðir um er hluti af þenslusturluninni sem allir vilja gleyma í dag.

Þessi hús voru komin í hendur braskara ef ég man rétt og annað hvort varð að stöðva það með þessu móti eða sleppa öllum áætlunum vernd gamalla húsa.

Árni Gunnarsson, 24.5.2010 kl. 00:59

8 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ólafur F. skaut sig í fótinn með því að gefa bröskurum þennan pening. Þessi ákvörðun var út í hött.

Annars var ég að lesa þýðingu Illuga á viðtali við Jón Gnarr. Get ekki sagt annað en að ég skilji og sé sammála Gnarrisma fram í fingurgóma, og hef ekki fundið neitt að honum. Einfaldlega manneskjulegt framboð Íslendings sem finnst hið eðlilegasta mál að fólk sé eins og það er.

Besti flokkurinn fengi mitt atkvæði hefði ég tækifæri til að gefa það.

Algjör snilld.

Hrannar Baldursson, 24.5.2010 kl. 06:54

9 Smámynd: Billi bilaði

Jú, ég ætla að kjósa Jón Gnarr. En, ég hef skoðað listann nánar, og er líka að fara að kjósa Einar Ben. sem hefur rekið Smekkleysu í áratugi, og Óttar Proppé sem hefur unnið lengi í bókabúð, og Karl Sigurðsson sem er menntaður forritari, og vinnur við vandamálalausnir. Ég er líka að fara að kjósa alla hina sem eru á listanum. Takk fyrir.

Billi bilaði, 27.5.2010 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband