Edge of Darkness (2010) **1/2

photo_01_hires

Hvern langar til að sjá Mel Gibson í hefndarhug og sálarangist? Hvern langar ekki til þess?

Mel Gibson snýr loks aftur á hvíta tjaldið. Í þetta skiptið fyrir framan myndavélina, en undanfarin ár hefur hann sýnt afar góða takta sem leikstjóri. Hann gerir sitt besta til að túlka Thomas Craven, sem Bob Peck hafði gert á snilldarlegan hátt árið 1985 í samnefndum sjónvarpsþáttum á BBC. Gibson nær því miður ekki að bæta neinu við þann karakter sem Peck náði að skapa.

Vísindamaðurinn Emma Craven (Bojana Novakovic) er myrt með haglabyssuskoti í magann í dyragætt föður hennar, lögreglumannsins Thomas Craven (Mel Gibson). Ákveður Craven að rannsaka málið upp á eigin spýtur, en á í mestu erfiðleikum með að takast á við sorgina, og kemst hann lítt áleiðis, fyrr en hann finnur skammbyssu í náttborðsskúffu dóttur sinnar og fer að gruna að eitthvað plott hafi verið í gangi.

Þegar Craven kemst á fund með forstjóranum Jack Bennett (Danny Huston) finnur hann strax að eitthvað gruggugt felst í fyrirtæki hans, en starfsemi þess felst í framleiðslu kjarnavopna fyrir Bandaríkjaher, og kannski eitthvað meira. Það er þetta "kannski-eitthvað-meira" sem kostaði Emmu lífið.

Inn í söguna fléttast CIA hreingerningamaðurinn Jedburgh (Ray Winstone) sem fær allt í einu samvisku þegar hann áttar sig á að hann mun sjálfsagt ekki lifa til eilífðar. Hann fær nóg af spillingu og ákveður að gera eitthvað í sínum málum.

Því miður tekst ekki að flétta sögum þeirra Craven og Jedburgh jafn vel saman og í BBC þáttaröðinnni, þar sem þeir lentu saman í spennandi ævintýrum, fóru saman inn í námu sem stjórnað var af fyrirtækinu ógurlega og lentu í æsilegum skotbardaga. Í þessari útgáfu verður þessi kjarnaþáttur nánast að engu. Og það eru mikil vonbrigði, enda hefði maður haldið að reynt yrði að bæta á einhvern hátt þessa snilldarþætti. 

Það er sjálfsagt ekki hægt, enda BBC serían í flokki með langbesta sjónvarpsefni sem ég hef séð.

"Edge of Darkness" er einfaldlega farartæki fyrir Mel Gibson. Hann hefur alla tíð sérhæft sig í að leika menn með djúp sár á sálinni sem leita hefnda sér til lækninga. Þannig var hann í sínum frægustu hlutverkum sem "Mad Max" í samnefndri seríu, Martin Riggs í "Lethal Weapon" myndunum og sem William Wallace í "Braveheart". Gibson er bestur þegar hann er bandbrjálaður í skapinu og þjakaður af þjáningum, svona yfirleitt. Í þetta skiptið er hann samt óvenju stóískur og ósennilegt að þetta hlutverk fari hátt á frægðarferli vandræðagemlingsins og snillingsins Gibson.

"Edge of Darkness" er engin snilld, en ég gat reyndar ekki annað en glottað þegar Gibson segir í einu atriðinu: 

Well you had better decide whether you're hanging on the cross or banging in the nails.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Sár vonbrigði þessi ræma.

Ómar Ingi, 29.4.2010 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband