Les Vacances de Monsieur Hulot (1953) ****
25.4.2010 | 09:23
"Les Vacances de Monsieur Hulot" er klassísk gamanmynd. Ég naut hvers einasta ramma.
Herra Hulot (Jacques Tati) keyrir um á litlum bíl sem gefur stöðugt frá sér skothvelli með pústinu, partar hrynja úr honum við hverja ójöfnu, og hann þarf stöðugt að víkja fyrir stærri bifreiðum og fer hægt yfir, en kemst þó alltaf einhvern veginn á leiðarenda.
Hulot sjálfur er sérstakur karakter. Oftast er hann með pípu milli tannanna og hatt á höfðinu. Hatturinn og pípan eiga það til að fara í ferðalög án eigandans.
Hulot er snillingur í að skapa vandamál hvert sem hann fer. Á meðan hann reynir að laga eitt, geturðu verið viss um að fleiri hlutir fara úrskeiðis á sama tíma sem afleiðing af lagfæringum hans. Hann er algjörlega huglaus og verulega tilfinningasamur, og á í verulegum erfiðleikum með mannleg samskipti.
Flestum er illa við Hulot vegna undarlegrar hegðunar hans, ótillitssemi og vandamálanna sem hann býr til, en sumir eru fullkomlega sáttir við hann og kunna vel að meta þennan undarlega karakter sem hvergi virðist passa inn. Í því felst hjarta myndarinnar.
Uppáhalds atriðið mitt í myndinni virðist svo látlaust og einfalt, en er virkilega vel útfært. Smástrákur heldur á ís í brauðformi í sitt hvorri hendi. Hann þarf að klífa virkilega háar tröppur og opna hurð með hurðarhúni, og þú veist að eitthvað skondið á eftir að gerast með þennan ís. Ímyndunaraflið fer í gang og maður reynir að spá fyrir hvað mun gerast. Atriðið endar á fullkominn hátt, langt frá öllu því sem maður hafði ímyndað sér. Og það hafði merkingu. Það líkaði mér.
Í heimi Hulot hafa allar persónur dýpt og margt fyndið er að finna í ólíkum karakterum. Hulot er ekki eini fókus myndarinnar eins og vill oft verða þegar einhver ógeðslega fyndinn einstaklingur leikur aðalhlutverkið, eins og þegar Chaplin leikur flækinginn, Rowan Atkinson leikur Hr. Bean og Cantinflas leikur ólíkar útgáfur af sjálfum sér.Ólíkir persónuleikar er það sem gerir "Les Vacances de Monsieur Hulot" bæði fyndna og mannlega. Það er til dæmis svolítið sérstakt par í myndinni. Eldri hjón. Konan gengur alltaf þremur skrefum á undan manni hennar sem eltir hana algjörlega áhugalaus um nokkuð sem vekur áhuga hennar, nema þegar hann verður vitni að prakkarastrikum Hr. Hulot. Gullfalleg stúlka fær mikla athygli frá myndarlegum strákum, en hún hrífst aðeins af hinum undarlega Hr. Hulot, sem hefur ekki hugmynd um hrifningu hennar, né um nokkuð eða nokkurn.
"Les Vacances de Monsieur Hulot" er einföld og hugljúf. Án ofbeldis en full af asnastrikum. Síendurtekið lag keyrir í gegnum myndina, sem maður fær leið á meðan myndin rennur í gegn, en hálfsaknar þegar henni er lokið. Tónlistin passar einhvern veginn.
Öll fjölskyldan getur skemmt sér yfir þessari frekar gamaldags en jafnframt klassísku gamanmynd, og manni líður á meðan myndin rúllar áfram eins og maður sé staddur einhvers staðar fjarri öllum áhyggjum og stressi á fjarlægri sólarströnd þar sem maður getur notið þess að fylgjast með hinu sérstaka í fari annars fólks.
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Ég sá nú þessa mynd einhvern tíma, en man ekki almennilega eftir henni. Þyrfti greinlega að rifja hana upp. Hins vegar stendur Trafic alltaf upp úr í mínum huga sem ein besta gamanmynd allra tíma. Þar fór Hulot líka á kostum.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 25.4.2010 kl. 09:54
Trafic er á listanum hjá mér. Reikna með að kíkja á hana í næstu viku.
Hrannar Baldursson, 25.4.2010 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.