Food, Inc. (2008) ****
25.1.2010 | 18:42
Ef við erum það sem við étum, þá erum við í djúpum skít.
Heimildarmyndin Food, Inc. virðist í upphafi ætla að vera einhvers konar einfalt skólaverkefni, þar sem krakkar gætu hugsanlega valið einhverja vöru úti í búð, og síðan rakið uppruna þeirra. Samkvæmt myndinni er afar ólíklegt að börnin kæmust að sannleika málsins.
Ýmsar áhugaverðar hugmyndir birtust, og sérstaklega frá bónda nokkrum sem hélt því fram að það væri ekki bara óheilbrigt, heldur óheiðarlegt að framleiða mat eins og risafyrirtækin gera í dag. Hann hélt því fram að í dag snerist allt um vinnubrögð, ferla og árangur, allt um spurninguna hvernig hlutirnir eru gerðir, en fáir nenntu að velta fyrir sér af hverju. Ég hef til dæmis ekki velt því alvarlega fyrir mér hvort að kjötið sem ég borða sé ræktað á heilbrigðan hátt, eða það úttroðið af maís á meðan það lifir stuttu offitulífi, en eftir að hafa séð þessa mynd er ég líklegri til að velta fyrir mér því sem ég kaupi úti í búð, og enn líklegri til að forðast skyndibitastaði.
Ástæðan er einföld. Dýr eru víðs vegar alin upp í verksmiðjum, þau troðin út af mat sem þau hefðu aldrei látið í sig úti í guðsgrænni náttúrunni, og fyrir vikið truflast melting þeirra og kjötið verður að einhverju leyti úrkynjað. Þegar grasætur eru látnar éta maís allt sitt líf, er ekki von á góðu. Einnig eru aðstæður við ræktunina hörmulegar, en sagt er í myndinni frá ræktunarverksmiðjum þar sem dýrin troða nánast marvaða í eigin saur, síðan eru dýrin slátruð, þar á eftir hreinsuð og síðan hökkuð.
Sýnt var frá risaverksmiðjum þar sem svínum og kjúklingum er slátrað í massavís, þannig að það minnir helst á lýsingar frá Auswitch í seinni heimstyrjöldinni. Það er magnað hvað þegar er búið að úrkynja dýrin sem við borðum. Það er vonlaust að átta sig á hvort að dýrin hafi verið ræktuð á heilbrigðan hátt, eða hvort genum þeirra hafi verið breytt, eða hvort þau séu klónuð. Og ekki er fyrirséð um afleiðingar þess að borða úrkynjuð dýr. Maður er víst það sem maður étur, ekki satt?
Það er ekki bara hollt að horfa á þessa mynd, hún er líka áhugaverð og hefur þannig skemmtigildi að áhorfanda hlýtur að koma á óvart það sem fyrir augu ber.
Hafir þú aldrei velt fyrir þér af hverju matur er framleiddur á færibandi og hvort að það sé hollt og hverjar afleiðingarnar gætu verið, þá verðurðu að sjá þessa mynd. Hafirðu þegar áttað þig á þessu fyrirbæri, þá mæli ég með að þú mælir með þessari mynd.
Það er ekki þannig orðað í myndinni, en þú getur í raun dregið þá ályktun, að þegar þú kaupir þér hamborgara á skyndibitastað, þá sértu að kaupa blöndu af kjöti, beinum, blóði og skít.
Spurning hvort ég fari ekki að ráði dóttur minnar og gerist grænmetisæta, eða í það minnsta passa mig betur á matnum sem ég kaupi ofan í mig, að maður sé ekki að setja ofan í sig mat sem einungis fylgir stífum stöðlum sem hafa ekkert með heilindi að gera, heldur afköst. Að þetta sé allt sama tóbakið og að allir éti það.
Einnig þótti mér merkileg umfjöllunin um Soja-baunarækt í Bandaríkjunum. En flestar baunir hafa verið erfðaræktaðar og búið að eigna fyrirtæki þær með höfundarrétt. Ef Soja-baunir með þessu erfðaefni finnast á bæjum sem rækta baunir, og bændur borga ekki "stef-gjald" til eigendanna, þá fer þetta risafyrirtæki í mál við bændur, sem geta ekki varið sig vegna þess hversu dýrt er að verjast í slíkum málum.
Þannig virðast stórfyrirtæki vera farin að ryðjast yfir litla manninn, mannréttindi og það sem þeim sýnist, án þess að bera nokkra virðingu fyrir þeim sem standa í vegi þeirra. Það er þessi hugsunarháttur sem olli Hruninu á Íslandi, og hann er að festa rætur enn á ný á meðan ráðþrota ríkisstjórn reynir að bregðast við, en áttar sig ekki á að innan hennar eigin raða er fólk sem vill innleiða þennan skort á hugsunarhætti, því að ákveðinn hópur mun öðlast forréttindi gagnvart þeim sem minna mega sín.
Það er eins og þeir sem eiga gífurlega mikið af peningum, eignist með því réttarkerfið, fjármálakerfið, stjórnmálin og landið. Sjálfsagt heiminn líka. Og troða mat sínum í heimskan almúgann: mig og alla hina.
Ef þessi mynd gerir mig pirraðan með því að fjalla um mín eigin nánu samskipti við matinn sem ég læt ofan í mig, og tengist íslenska efnahagshruninu á skýran hátt, þá ættirðu að hafa nokkuð skýra grein um hvort þig langi til að sjá þessa mynd.
Þessi kvikmynd hefur breytt viðhorfum mínum til eigin matarræðis. Ef heimildarmynd nær það sterkt til manns og sannfærir mann svo algjörlega um að eitthvað alvarlegt sé að í heiminum, og ef maður samþykkir rökin og mótar þannig skoðun sem maður var ekki meðvitaður um áður en horft var á myndina, þá er nokkuð ljóst að viðkomandi kvikmynd fær fullt hús fyrir.
Kannski ekki fimm stjörnur eins og "Avatar". Fjórar stjörnur duga.
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Stórgóð mynd.
Óli Þór Ásgeirsson (IP-tala skráð) 25.1.2010 kl. 20:05
þarf að kíkja á þessa
Ómar Ingi, 25.1.2010 kl. 22:39
Ég hef grun um það að ef við göngum einhverntíma í ESB, þá mun matvælaframleiðsla okkar verða færibandavinna. Við vitum að lömbin sem við borðum eru á fjalli sumarlangt og koma til slátrunar að hausti, svo vitum við að fiskurinn sem er á borðum okkar dags daglega er líka frjáls.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.1.2010 kl. 01:26
Merkilegt innlegg sem vert er að kynna sér. Græðgin útheimtir þessa meðferð á dýrunum, sjálfvirkni og hikleysi. Myndin verður eins konar spegill á það líf sem við lifum og hver við erum. Engin leið er að breyta þessu nema að taka sjálfan sig í gegn, amk spyrja vil ég vera partur af þessu?
Guðmundur Pálsson, 26.1.2010 kl. 05:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.