Síðasta vígi íslenskra fjölmiðla fallið?
23.1.2010 | 09:51
Samkvæmt "Spjaldskrá um fjölmiðlafrelsi" var fjölmiðlafrelsi á Íslandi verulega skert á árunum 2008 og 2009. Þessi rannsókn hefur verið gerð árlega frá 2002 og Ísland alltaf verið mælt meðal efstu þjóða. Það er að breytast.
Spjaldskráin er byggð á spurningarlista þar sem spurt er um beinar árásir á fjölmiðlamenn og fjölmiðla, sem og um óbeinar árásir gegn fjölmiðlum. Aðeins er fjallað um frelsi, ekki gæði.
Það væri áhugavert að spá fyrir um hvernig staðan verður árið 2010. Við erum ennþá í sæmilega góðum málum á heimslistanum. Erum í 9. sæti af 175 þjóðum. En slíkt getur breyst hratt. Ég spái því að árið 2010 dettum við út af topp 10 listanum yfir fjölmiðlafrelsi, en eins og staðan er í dag, mælumst við með minnsta fjölmiðlafrelsið á Norðurlöndum.
Af hverju hefur þetta breyst á Íslandi? Er það vegna þess að Bónusklíkan á helming íslenskra fjölmiðla og Björgúlfsklíkan hinn helminginn? Eina varnarvígið hefur verið bloggið og RÚV. Blogg getur ekki talist áreiðanlegur fjölmiðill, þó að ýmsir bloggarar séu áreiðanlegir. RÚV var eina varnarvígið sem stóð eftir.
Nú velti ég fyrir mér hvort að trúverðugleiki RÚV muni hrynja í kjölfar uppsagna og annarra sparnaðaraðgerða, sem hefðu reyndar að mínu mati mátt byrja með niðurskurði á skemmtiefni, þar sem hlutverk RÚV er að vera hlutlaus upplýsingamiðill sem gegnir lykilhlutverki í neyð.
Nú er neyð, og svo virðist sem að mikilvægir upplýsingaþættir hafi verið skornir niður á meðan léttmetið stendur eftir. Þetta er svona svipað og að gefa sveltandi barni súkkulaðimola frekar en máltíð.
Ég spái því að eftir þessa aðgerð muni Ísland falla enn frekar á þessum lista, en þori ekki að spá um hversu mikið. Þegar maður sér utan úr heimi hvernig niðurskurðarhnífnum er beitt, get ég ekki annað en borið þetta saman við hvernig aðrir samtíðarmenn hafa tekið á ríkisfjölmiðlum, og sýnist mér sem að svipaðir hlutir séu að gerast á Íslandi og Kastró var þekktur fyrir á Kúbu, og Chavez í Venesúela.
Danir eru í 1. sæti yfir þá sem geta tjáð sig án áreitis, enda þekktir þessa dagana fyrir að segja nákvæmlega það sem þeir meina, og fá stuðning frá eigin ríki.
Í næstu mynd ber ég saman breytingar á fjölmiðlafrelsi milli Dana og Íslendinga, frá 2002 til 2009. Eins og sést á súlunum hafa verið töluverðar sveiflur hjá Dönum, á meðan Íslendingar hafa verið stöðugir, þar til árið 2008 að breytingar verða dramatískar.
Mynd úr síðasta vígi 300: About.com
Súlurit: HB
"Spjaldskrá um fjölmiðlafrelsi" á Wikipedia.
Athugasemdir
Nú er bara að hvetja alla til að mæta á austurvöll í dag kl 15.
www.nyttisland.is
Lúðvík Lúðvíksson, 23.1.2010 kl. 10:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.