Hvað er eiginlega að þessum varðhundum vantrúar?

chch-atheist

Um daginn túlkaði ég  hugtakið "siðgæði" sem trúarhugtak.

Athugasemdakerfið tók kipp. Fjöldi athugasemda var svo mikill að ég treysti mér ekki til að svara þeim öllum, enda ber mér engin skylda til þess og er þar að auki frekar upptekinn við störf mín.

En þegar menn sem telja sig fulltrúaða trúlausra Íslendinga ásaka bloggara um óheiðarleika fyrir að velta hlutunum fyrir sér, krefjast þess að vita hver trúarleg afstaða bloggarans er, og krefjast svara við spurningum sínum eins og bloggarinn sé eitthvað yfirvald á launum; þá get ég ekki annað en velt fyrir mér hvort þessir menn, hefðu þeir völd, myndu vilja ritskoða allt sem þeir eru ósammála, strika út óþægilegar hugmyndir og helst henda tjáningarfrelsinu í eitthvað verra en fangelsi og murka úr því líftóruna.

Ég hef unnið mér til sakar að sýna bæði trúuðum og trúlausum, sem og þeim sem eru þarna einhvers staðar á milli, umburðarlyndi. Þessi glæpur virðist vera það alvarlegur í augum sumra einstaklinga að hann sé verðugur að minnsta kosti klukkustundar hömrun á lyklaborð og mörgum smellum á "Birta".

Þessir blessuðu varðhundar virðast blindir á þann stóra sannleik að ekki allt fólk er með þeirra eigin gleraugu á nefinu eða útsýni yfir herbergi þeirra og tölvuskjá. Sumir virðast vera svona rándýr í eðli sínu sem þola ekkert öðruvísi en þann heim sem þeir sjálfir vilja búa í. Og þeim er sama hvað öðrum finnst, og móðgast jafnvel sé fólk ósammála þeim á forsendum sem eiga meira við trú en rök að styðjast. Þeir fatta ekki að bakvið hinstu rökin hlýtur að vera einhver óskynsamleg skoðun, einhver trú. Þeir eru jafnvel blindir á sína eigin trú og halda að hún sé ekki til.

Þessi ofsi sem einkennir sumar athugasemdirnar eru fyrirtaks dæmi um hvernig samræður ættu alls ekki að fara fram. Þetta er sams konar hegðun og ég hef gagnrýnt í umræðuhefð stjórnmálamanna. Þeir ryðjast fram fyrir alla og þola ekki þegar einhver er ósammála eða skilur tilveruna á annan hátt. Þessir menn hafa þotið fram á ritvöllinn og gert skurk á flestum bloggsíðum þar sem, án þess að hafa lesið hvert einasta rit trúarbragða eða trúleysis um þessi mál, einhver vogar sér að minnast á "trúarbrögð". Fyrir vikið hlýtur hinn þögli meirihluti að stækka, en það er þetta venjulega og skynsama fólk sem nennir ekki að bendla sig við svona rugl.

Þessir tveir menn eru að vinna málefninu "vantrú" mikinn skaða með sínu framferði, og stundum grunar mig að þeir hljóti að vera útsendarar einhvers trúfélags sem vill gera lítið úr þeim sem ekki trúa. Þeir misreikna sjálfa sig svo hrikalega að þeir eru að tryggja samúð trúlausra með trúuðum.

Hafirðu áhuga á að kíkja á þessar furðulegu athugasemdir og bera þær saman við mínar sakleysislegu vangaveltur, er þér velkomið að kíkja í heimsókn á hinar síðurnar, Eftir þjóðfund: Vill þjóðin öflugri kirkju til að styrkja siðgæðið? og Á að banna trúarbrögð í skólum?

Þessi varðhundahegðun hlýtur að eiga sér rætur í einhverjum djúpstæðum sálrænum vandamálum. Mikið vildi ég heyra skoðanir þeirra Freud og Jung á þessum ofsafengnu lyklaborðsvörgum. Sjálfsagt yrði ég samt engu nær.

 


Bloggfærslur 11. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband