Besta myndbandaleiga Norðurlanda brennd til kaldra kola?
30.8.2009 | 15:55
Laugarásvídeó er sú leiga sem ég heimsæki þegar ég veit af einhverri kvikmynd sem ég hef ekki ennþá séð. Þar voru rekkar fullar af gömlum vídeóspólum með efni sem hefur ekki verið endurútgefið, og hægt að finna allar bestu sjónvarpsseríurnar á staðnum, sem og nýlegar alþjóðlegar myndir.
Það að einhver skuli vilja brenna Laugarásvídeó til kaldra kola er náttúrulega furðulegt fyrirbæri.
Vonandi gengur Gunnari vel að endurheimta tapið og byrja upp á nýtt, enda var ekki síst gildi í góðum ráðum sem maður fékk stundum frá starfsmönnum leigunnar, hvort sem maður hafi þurft á því að halda eða ekki.
Síðast þegar ég var á Íslandi fór ég á Laugarásvídeó og vona að ég geti kíkt þar inn næst þegar ég heimsæki klakann.
![]() |
Opnum eins fljótt og hægt er |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)

ICESAVE málið virðist hafa snúist um það frá sjónarhorni stuðningsmanna þess að friða Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að afgreiða lán til Íslands, sem mun síðan hafa keðjuverkandi áhrif þannig að aðrar þjóðir og lánastofnanir verði tilbúnar að lána íslensku þjóðinni ennþá fleiri milljarða? Ég hef þegar fjallað um hvað þetta sjónarhorn er dapurt, til dæmis hér, og mun ekki fara nánar út í þá sálma.
Þegar peningurinn loks kemur í hús, í hvað á hann að fara?
Stjórnmálamenn hafa talað um að þessi peningur verði nauðsynlegur til að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang. Hvað þýðir það?

Þýðir þetta að lánin eigi að nota til að borga afborganir af gjaldföllnum stórlánum fyrirtækja, til að tryggja að þau fari ekki endilega á hausinn?
Ef svo er, væri ekki einfaldlega verið að varpa peningunum á spillingarbálið, rétt eins og gert var með 500 milljarða úr ríkissjóði í maí 2008?

Mér þætti vænt um að vita hvað eigi að gera við þennan pening, og tel að betra væri að Ísland fengi ekki þessi lán fyrr en búið er að uppræta þá spillingu sem virðist hafa náð tökum á sérhverju íslenskumælandi barni, það er að segja öllum nema Davíð Oddssyni, samkvæmt Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni.

Í fullri alvöru: fyrst nákvæmlega ekkert hefur verið gert af viti til að uppræta spillinguna og stórþjófnaðinn sem átt hefur sér stað síðustu árin, annað en að óháður þáttarstjórnandi í sjónvarpi fékk Evu Joly til ráðgjafar, er ríkinu treystandi til að taka við þessu láni þannig að ekki verði úr ólán?
Milton Friedman, þó frjálshyggjukenning hans hafi lent í vanda, sumir segja hafi orðið gjaldþrota, áttaði sig þó á þeim vanda sem felst í því að láta ríkið sjá um velferð fólksins. Nú þegar frjálshyggjan hefur fallið, á að fara aftur í sömu hjólförin? Kíktu á þetta myndband, en það lýsir ástæðunni fyrir af hverju frjálshyggjan þótti nauðsynleg, og þykir sjálfsagt enn víða um veröld. Málið er að það er ekki frjálshyggjan sem klikkaði, það er hin mannlega græðgi og hrá efnishyggja sem varð íslensku þjóðinni að falli. Ég sé engar vísbendingar um að græðgin sé horfin eða efnishyggjan orðið undir. Það er bara talað um nýfrjálshyggjuna, eins og hún eigi ekki djúpar rætur í sálarlífi sérhvers einstaklings sem lifað hefur eftir henni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)