Ég bara verð að deila þessari mynd með ykkur
25.4.2009 | 13:58
Á þessari spaugilegu mynd eru Bjarni Benediktsson og Jóhanna Sigurðardóttir að rífast yfir hausamótum Þórs Saari, í kosningasjónvarpinu frá því í gærkvöldi.
Hvers vegna er verið að kjósa í dag? Einkunnir frá 0-10. Hverjir lenda í fallöxinni?
25.4.2009 | 09:40
Ég reikna með að flestir séu búnir að gera upp hug sinn og ólíklegt að þessi greining hafi einhver áhrif. Samt vil ég birta hana, enda tel ég fátt mikilvægara en að við áttum okkur á því af hverju það eru kosningar í dag, en ekki á hefðbundnum tíma. Því miður tala flestir frambjóðendur eins og auðjöfrar og virðast í litlu sambandi við þjóðina. Vekur það virkilega engar spurningar?
Ef lokaorð formanna til kjósenda er ekki vísbending um hvað er efst í huga þeirra sem vilja komast á þing, og hvort þeir hafi fyrst og fremst sjálfan sig, flokkinn sinn eða þjóðina í huga, þá veit ég ekki hvað. Það kom mér reyndar ekki á óvart að einungis einn frambjóðenda virðist hafa fæturnar á jörðinni og er að hugsa um þá kreppu sem hefur rétt byrjað.
Hugsaðu um eitt: flestir þeir sem eru í ræðustól eru með yfir milljón í mánaðarlaun og telja sig engar áhyggjur þurfa að hafa á ástandinu - það skellur hvort eð er aðeins á þeim sem hafa lágar tekjur eða meðaltekjur.
Ég spyr um mikilvægi, fókus og hvort að viðkomandi átti sig á af hverju það eru kosningar í dag.
Skoðum nánar það sem viðkomandi hafði að segja, og í ljós kemur að einkunnir margra breytast, enda virðast sumir hafa viljandi gleymt að kreppa bíður handan hornsins - um 20% þjóðarinnar hafa þegar fundið fyrir henni, en hún er skammt undan nema takist að fella niður allar erlendar kröfur á Ísland, sem er að mínu mati óskhyggja ein og ekkert sem hefur vísað til þess síðustu mánuði nema grein skrifuð af Gylfa Magnússyni í vikunni - grein sem er algjörlega á skjön við annað sem hann hefur sagt, og merkilegt að þetta komi upp í kosningaviku. Kannski vill hann einfaldlega halda starfinu sínu, sem væri í sjálfu sér ágætt, því hann hefur sýnt mikinn styrk sem viðskiptaráðherra. En ég er hræddur um að þessi grein hans flokkist undir pólitískan áróður.
1
Þór Saari, Borgarahreyfingunni
Við verðum að muna eftir því hvers vegna er verið að kjósa á morgun. Það er verið að kjósa á morgun af því að hér varð algjört efnahagshrun. Stjórnvöld á Íslandi brugðust almenningi algerlega og sveipuðu efnahagsmálin hér í leyndarhjúp, þannig að heimilin lentu á vonarvöl. Við megum ekki gleyma því. Þessi sömu stjórnvöld þau sitja hér í kvöld, allt í kringum mig og bjóða almenningi upp á það að láta kjósa sig aftur á morgun. Við vitum hvað gerðist, hvernig það gerðist og við vitum hverjir bera ábyrgðina. Við megum ekki gleyma því heldur. Það er algjört grundvallaratriði. Ástæðan fyrir því að hlutirnir enduðu eins og þeir enduðu er þó kannski fyrst og fremst sú að við hættum að skipta okkur sjálf af stjórnmálum. Við gleymdum því, við sváfum á verðinum. Við megum ekki gera það. Á morgun þegar við göngum inn í kjörklefann, þá skulum við ekki spyrja okkur þessarar spurningar, aftur og einu sinni, hvað gerðist og hvernig gerðist það. Við vitum hvað það var. Við skulum spyrja okkur þeirrar spurningar, hvað er það sem ég get gert og hvað er það sem mér ber að gera á morgun.
Kjarni málsins og hreint ótrúlegt að leyndarhjúpurinn skuli ennþá vera að virka á um 80% þjóðarinnar, sem virðast ekki átta sig á hvað er í gangi. Ég er hræddur um að ef ekki verði hlustað á þessu skilaboð verði önnur bylting næsta vetur. Kreppan er nefnilega rétt búin að sýna tennurnar. Hún hefur ekki verið sýnileg þeim sem telja sig hafa hreiðrað örugglega um sig og eru skuldlaus. Borgarahreyfingin man af hverju verið er að kjósa í dag.
Fókus: Þjóðin
Einkunn: 10
2
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Framsóknarflokki
Framsóknarflokkurinn fór í gegnum gríðarlega mikla endurnýjun í janúar, svaraði kallinu um endurnýjun í stjórnmálum og hefur innleitt ný vinnubrögð og er að því, til að mynda í efnahagsmálum. Leitar yfirleitt ráða hjá þeim sem best þekkja til á hverju sviði, höfum haft samband við fólk í atvinnulífinu og færustu hagfræðinga við að móta tillögur um það hvernig eigi að bregðast við ástandinu eins og það er núna til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi hrun. Út á það ganga allar tillögur okkar og ég hvet menn til þess að kynna sér þær. Aðalatriðið er kannski það að það sem við höfum séð núna, síðustu daga, er að eina leiðin út úr þessum vanda er að gangast við því að Ísland er búið að taka meira að láni en það stendur undir og því þarf að koma til móts við skuldarana með því að gefa eftir.
Viðurkenna kreppuna og vilja takast á við hana. Framsóknarflokkurinn man hvers vegna er verið að kjósa í dag.
Fókus: Framsóknarflokkurinn
Einkunn: 9
3
Ástþór Magnússon, Lýðræðishreyfingunni
Lýðræðishreyfingin veitir þér frelsi. Á morgun ertu frjáls. Á morgun getur þú kosið þig undan oki gömlu, ónýtu flokkanna. Þú getur kosið þig undan kjaftvaskinu á Alþingi og látið verkin fara að tala. Þú getur sjálfur tekið þátt í atkvæðagreiðslum á Alþingi, í umræðum. Vegna þess að við ætlum að koma á beinu lýðræði, þar sem þú kjósandi átt þitt atkvæði. Þetta er mikilvægasta aðhaldið sem þú getur veitt þessu fólki hér sem mun hugsanlega starfa á þinginu. Þetta er það sem mun færa Ísland út úr kreppunni.
Það er sannleikskorn í þessu hjá Ástþóri. Hann orðar mál sitt hins vegar frekar klaufalega þannig að það lítur út fyrir að maðurinn sé fauti (ég er ekki að segja að hann sé það). Lýðræðishreyfingin man af hverju verið er að kjósa í dag.
Fókus: beint lýðræði (rafræn atkvæðagreiðsla)
Einkunn: 7
4-5
Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri hreyfingunni grænu framboði
Ég vil byrja á því að þakka þjóðinni fyrir kosningabaráttuna fyrir okkar hönd og mína. Ég hef átt marga ánægjulega fundi um allt land og þeir hafa aukið mér bjartsýni. Ég finn það að þjóðin er þrátt fyrir allt, tilbúinn til að berjast og vill það og við getum sameinað kraftana, bæði ungir sem aldnir. Valið er skýrt á morgun. Við getum kosið það sem var, það sem hrundi í október, hugmyndafræði nýfrjálshyggju og græðgi eða við getum kosið manneskjulegra og réttlátara samfélag í norrænum anda. Og einu get ég lofað ykkur góðir kjósendur, Þið ykkar sem kjósið Vinstri hreyfinguna grænt framboð á morgun, þið kjósið heiðarlegan og óspilltan flokk.
Segir satt og rétt frá. Viðurkennir hrunið sem var í október, en ekki kreppuna sem hangir yfir okkur og er að koma fjölda fólks í afar slæma stöðu. Vinstri grænir hafa gleymt af hverju það eru kosningar í dag, en minnast þó á að ástandið sé ekki eðlilegt. Að kjósa heiðarlegan og óspilltan flokk ætti ekki að vera kosningaatriði, heldur sjálfsagt mál.
Fókus: Steingrímur J. Sigfússon
Einkunn: 6
4-5
Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingunni
Þýðingarmestu kosningar í sögu Lýðveldisins eru á morgun. Við höfum það sögulega tækifæri að félagshyggju- og jafnaðarmannaflokkar fái meirihluta, þessir tveir flokkar, til þess að stjórna hér landinu. Þessir flokkar hafa mest haft fjörutíu og fimm prósenta fylgi 1978. Nú er þetta sögulega tækifæri. Og hvað gerist við þær breytingar? Við setjum til hliðar nýfrjálshyggjuna og það sem hún hefur lagt grunn að, því sem við erum núna að ganga í gegnum. Við munum geta breytt hér tekjuskiptingunni, sem hefur verið mjög óeðlileg á undanförnum árum, þar sem hefur orðið risavaxið bil milli fátækra og ríkra í þjóðfélaginu. Og ég segi, það skiptir máli hverjir stjórna. Ef Samfylkingin veðrur leidd til öndvegis í þessum kosningum, þá mun ríkja hér réttlæti og jafnrétti á næstu árum.
Þessi ræða er pólitísk í gegn og látið eins og kreppan sé ekki við dyrnar. Þetta er lýðskrum af verstu gerð, enda hefur Jóhönnu tekist að afla sér góðs orðspor fyrir að vera hreinskilin og koma hlutunum vel frá sér. Það gerir hún ekki hér. Samfylkingin man ekki af hverju það eru kosningar í dag.
Fókus: Samfylkingin
Einkunn: 6
6-7
Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki
Ég vil fyrst og fremst hvetja kjósendur til þess að nýta atkvæði sitt á morgun til þess að hafa áhrif á framtíðina. Ég tel að við Íslendingar eigum að vera stolt, við höfum öll tækifæri í hendi okkar, við erum meðal þeirra þjóða í heiminum sem er með mesta þjóðarframleiðslu á mann. Við verðum hins vegar að nýta auðlindirnar, grípa þau tækifæri sem gefast. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að ríkisstjórnarflokkarnir sem nú sitja, eru ósammála í mikilvægum grundvallaratriðum. Við kjósendur segi ég, spyrjið ykkur að því, hvaða flokkur er líklegastur til þess að skapa ný störf, stuðla að atvinnuuppbyggingu. Okkar leið er leið bjartsýni og vonar. Við ætlum að trúa á kraftinn í fólkinu í þessu landi og ég hvet fólk til þess að kjósa þá leið.
Algjör afneitun og höfðar til kristilegra viðhorfa um von. Sleppir öllu krepputali, enda hefur áróður Sjálfstæðisflokks snúið að því að telja fólki trú um að það sé engin kreppa yfirvofandi. Flokkurinn blekkir með svona töktum. Sjálfstæðisflokkurinn man ekki hvers vegna verið er að kjósa í dag. Þetta er blekkjandi lýðskrum.
Fókus: Sjálfstæðisflokkurinn
Einkunn: 4
6-7
Guðjón Arnar Kristjánsson, Frjálslynda flokknum
Það er alveg ljóst að ef við viljum vernda hér tryggingakerfið og heilbrigðiskerfið, þá þurfum við að ná nýjum tekjum. Það höfum við lagt til í Frjálslynda flokknum. Við treystum því að landsmenn sjái skynsemina í því og rökin fyrir því, að halda frjálslyndum þingmönnum inni á þingi Íslendinga, til að tala þar af skynsemi um málefni framtíðarinnar.
Algjör afneitun: Sleppir öllu krepputali og lætur eins og allt sé í sómanum. Frjálslyndi flokkurinn man ekki af hverju er verið að kjósa í dag og virðist engan veginn átta sig á hvað er að gerast eða hvað þarf að gera.
Fókus: Frjálslyndi flokkurinn
Einkunn: 4
Mér er ekki sama hvernig kosningarnar fara, en mig grunar að um 80% þjóðarinnar séu í afneitun um að kreppan sé á leiðinni. Þessi 20% sem eftir standa ættu að vera nóg til að þjóðin fái rödd á þing, en engu að síður er líklegt að þeir einu sem geta talist fulltrúar þjóðarinnar verði í stjórnarandstöðu.
Ég mun ekki líta á þessar kosningar eins og kappleik, heldur greindarpróf sem lagt hefur verið fyrir þjóðina, þar sem gildi gagnrýnnar hugsunar eru sett ofarlega á blað.
Vonandi fellur þjóðin ekki á þessu prófi.
Lesendum er velkomið að koma með eigin einkunnir í athugasemdakerfinu, en ég óska eftir rökstuðningi.
(Mynd úr Mogganum í dag)
![]() |
Lokaorð formanna til kjósenda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Borgarahreyfingin með 41% fylgi í skoðanakönnun HH
25.4.2009 | 01:52
Ef þú ætlar ekki að taka áhættu og gefa litlum flokki atkvæði þitt, kíktu þá á þetta. Þetta eru góð rök fyrir þá sem ákveða að kjósa ekki litla flokka, að kjósa Borgarahreyfinguna, því að hún er samkvæmt þessari könnun stór flokkur.
Alltof margir kjósa eftir því sem kannanir spá, og átta sig ekki á því að fari þeir eftir spám kannana mun spáin rætast, annars ekki.
Hagsmunasamtök heimilanna settu í gang skoðanakönnun fyrir meðlimi sína. Meðlimir samtakanna eru fólk sem hefur áhyggjur af skuldastöðu heimila sinna og annarra í samfélaginu. Það er ekkert flóknara en það.
Meðlimir samtakanna eru úr öllum stéttum samfélagsins og stjórnarmenn mega ekki vera í framboði fyrir stjórnmálaflokk eða á þingi, en eiga það sameiginlegt að hafa áhyggjur af stöðu mála og reyna að gera eitthvað áður en það verður of seint. Það var meðal annars HH að þakka að útborði fjölskyldna af heimilum þeirra var hætt í febrúar, Alþingi samþykkti þennan frest aðeins þar til í ágúst. Þá er spurning hver verður við völd.
Ef það verður Borgarahreyfingin má reikna með að fjölskyldur í landinu fái forgang, án þess að það gangi af fyrirtækjum og efnahagslífi dauðu, eins og sumir munu sjálfsagt reyna að telja þér trú um.
Það er bara einn flokkur fólksins í framboði: X-O
Það skiptir mig engu máli persónulega hvaða flokkur sigrar í kosningunum í dag, enda er ég á leið úr landi, en mér er samt alls ekki sama um samlanda mína. Svo einfalt er það.
Hérna eru niðurstöðurnar:
Ég lít svo á að þeir sem kjósa ekki Borgarahreyfinguna í dag, eru að tefja nauðsynlegar framfarir um fjögur ár, því að þá verður hreyfingin loks búin að stimpla sig almennilega inn og fer að hala inn atkvæðum.
Málið er að þetta þarf ekki að fara þannig. Það er í höndum kjósenda, ekki þeirra sem mæla kjósendur.
Það ert þú sem merkir eXið á seðilinn þinn, enginn annar, engin önnur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)