Gran Torino (2008) ***1/2

Ímyndaðu þér nafnlausa kúrekann í spaghettívestrum Sergio Leone, Will Munny úr Unforgiven og allar hinar hetjurnar sem Clint Eastwood hefur túlkað í vestrum, blandaðu þeim saman við Dirty Harry Callahan, hrærðu vel saman þannig að út komi ein persóna sem lifir í nútímanum á áttræðisaldri, en með öll gömlu persónueinkennin og útkoman verður Walt Kowalski í Gran Torino.

grantorino01

Gran Torino er sérlega vel heppnaður nútímavestri um gamlan og fordómafullan kúreka sem í stað þess að ríða um á hestum, notar mest ruggustól, pallbíl og Gran Torino glæsibifreið. Hann þarf ekki að leita upp vandamálin, því að þau koma til hans með breyttu samfélagi. Í gömlu vestrunum riðu hetjur um héruð og björguðu fólki sem lentu í vanda vegna glæpaklíka eða stórkaupmanna. Í nútímanum þarftu ekki að fara út fyrir eigin lóð til að takast á við spillingu í samfélaginu og glæpaklíkur.

Walt Kowalski (Clint Eastwood) hefur misst eiginkonu sína og sér fram á rólega ellidaga á veröndinni með bjór í hendi. Samfélagið hefur breyst. Gömlu nágrannarnir hafa fallið frá og nýir komnir í staðinn, af Hmong ættum - sem er ættbálkur frá Suður Kína.

Þegar glæpaklíka reynir að fá nágranna Kowalski, hinn hógværa Thao (Bee Vang) til að ganga í gengið og plata hann til að stela Gran Torino bifreið Kowalskis, fer aðeins að hitna í kolunum. Kowalski tekst að koma í veg fyrir ránið en kynnist þess í stað Thao, og ákveður að kenna honum að meta það sem er einhvers virði í lífinu.

Film Review Gran Torino

Að sjálfsögðu flokkar Cowalski Hmung fólkið sem asíubúa og tengir það við alla þá fordóma sem söfnuðust saman við þátttöku hans í Kóreustríðinu. Þegar hann uppgötvar að nágrannarnir eru ágætis fólk, verður hann jafnt sem nágrannar hans frekar undrandi.

Kowalski upplifir sín eigin börn og barnabörn sem afskræmingu þeirra gilda sem hann hefur barist fyrir alla sína ævi, og það kemur honum á óvart að hann finnur meira af þessum gildum hjá nágrönnum sínum en eigin fjölskyldu.

Þegar nágrannarnir og Sue Vang Lor (Ahney Her), systir Thao, stúlka sem Kowalski kann sérlega vel við, verða fyrir fólskulegri stórskota- og líkamsárás gengisins, ákveður hann að taka til eigin ráða, finnur gömlu skammbyssurnar og tekur til við að hreinsa þær.

grantorino05

Gran Torino er meistaralega upp byggð og vel sögð saga. Frásagnarstíllinn er ekki skreyttur með miklum tæknibrellum eða skrautlegum klippingum, heldur er undirstaðan í traustu handriti, góðri leikstjórn og rafmögnuðum leik Clint Eastwood í hugsanlega síðasta hlutverki ferilsins. Ef sú verður raunin, get ég ekki hugsað mér betri útgöngu en Gran Torino.


Bloggum betur 2: Skrifaðu alla daga - þannig lærirðu mest

 

writing

Því meira sem þú skrifar, því betur skrifarðu. Þegar þú lærir að hjóla þarftu fyrst að læra að halda jafnvægi. Það sama á við um ritun - tungumálið er þyngdaraflið, hugmyndirnar eru stýrið og verkið sjálft er eins og að knýja hjólið áfram.

Þegar ég þjálfaði nemendur mína í skák við Salaskóla hvatti ég þau til taflmennsku alla daga, og í stað fyrirlestra kom ég inn undirbúnum upplýsingum inn í skákirnar þeirra sjálfra - þannig voru þau líka fljótari að meðtaka þemun. Á æfingum hvatti ég þau til að tala mikið saman og benda á áhugaverða hluti og reyna að greina þá þegar þeir komu upp í þeirra eigin skákum.

Á endanum varð þessi hópur heimsmeistarar, og þegar heim var komið var ég gagnrýndur harkalega fyrir þessa aðferð mína til þjálfunar - þar sem að hún var allt öðruvísi en það sem er viðtekið í dag - aðrir skákþjálfarar og forsprakkar í skákhreyfingunni gagnrýndu mína kennslu með því að segja nemendum mínum að þær væru ekki í lagi, sem er að mínu mati ekki rétt leið til gagnrýni - og með þessu voru eyðilagðar forsendur áframhaldandi þjálfunar minnar með þessum hópi. Og hef ég með öllu hætt skákþjálfun eftir þetta og vikið fyrir þeim aðferðum sem virka ekki en eru þægilegri, eins og alltof títt er um í heiminum. 

 


Þegar við stöndum frammi fyrir tveimur leiðum til að vinna vinnu okkar, léttri leið og erfiðri - þá velja alltof margir léttu leiðina, þar sem að erfiða leiðin virðist einfaldlega vera tímafrekari, útheimta meiri orku og ekki nauðsynleg til að uppfylla skilyrði til launa. Samt hef ég gert það að reglu fyrir sjálfan mig að fara nánast alltaf erfiðu leiðina, nokkuð sem mætir því miður oft skilningsleysi.

Það er ekki bara reynslan sem segir mér að þú lærir mest af því að gera hlutina, heilbrigð skynsemi segir það sama og einnig þau pragmatísku fræði sem ég hef tileinkað mér gegnum árin.

Sjálfsagt er hægt að skrifa daglega án þess að bæta sig, sérstaklega þegar maður heldur að eigin skrif séu fullkomin, en forsenda þess að geta bætt sig er að maður verður að hafa í huga að enginn er fullkominn og alltaf eru til staðar tækifæri til að bæta sig. Þess vegna er mikilvægt að hugsa líka um það hvernig maður skrifar og fylgjast vel með gagnrýni, en passa sig þó á að það taki ekki allan tímann.


Stundum festist ég í handbókum og fræðibókum um ritun, heimspeki, bókmenntir, skák og fleira, og læri heilmikið um viðkomandi efni, en þessi þekking verður einskis virði og fellur í gleymsku ef maður nýtir hana ekki. Þekkingu af einu sviði er hægt að yfirfæra á annað, en ég gerði tilraunir með það fyrir nokkrum árum að beita heimspekilegum uppgötvunum mínum á taflmennsku mína, með góðum árangri.

Mikil taflmennska og aukin nákvæmni hjálpuðu mér síðan að aga úthald og vakandi hug við kennslu og heimspekilegar samræður. Þessa þekkingu og viðhorf til starfsins, hef ég einnig yfirfært yfir á það sem ég skrifa, bæði á blogginu sem og annars staðar.

Ný þekking skilar sér ekki strax, heldur síast hún inn í hæfileika með tíð og tíma, sérstaklega ef maður hefur virkan áhuga á að halda áfram.

Ímyndaðu þér mann sem er sérfræðingur í knattspyrnu og hefur séð alla bestu leiki sem spilaðir hafa verið í heiminum. Samt kann hann ekki að spila knattspyrnu sjálfur. Á knattspyrnuvelli væri hann eins og belja á svelli. Þannig er einnig farið með lesendur og rithöfunda. Þó að þú sért afburðar lesandi og með einstakan ritskilning, þýðir það ekki að þú kunnir að koma frá þér góðum texta. Og jafnvel þó að þú kunnir að skrifa tæknilegan texta, þýðir það ekki að þú kunnir að skrifa skáldlegan texta.

Sá sem er of stór til að læra meira um eigin störf, er ekki líklegur til að stækka meira. (Óþekktur)

 

 

Myndir:

Ritun: Tech Gossips

Heimsmeistarar Salaskóla: Don Hrannar: Íslendingar heimsmeistarar í grunnskólaskák!

Sjón og hugsun: A Timeline of American Thought


Bloggfærslur 14. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband