Hefur þig dreymt einhverja skemmtilega drauma?

 


 

Draumar geta verið ansi skemmtileg fyrirbæri, hvað svo sem þeir eru og þýða, og hvort sem þeir þýða eitthvað eða ekki. Þegar ég var unglingur dreymdi mig einu sinni sem oftar draum sem sat fastur eftir í minninu.

Ég var á hlaupum undan einhverju gífurlega stóru ferlíki og heyrði dynja mikið og jörðina hrista þegar það nálgaðist mig. Þegar ég leit um öxl sá ég íbúðarblokk stökkvandi á eftir mér, sem útskýrði lætin. Ég var búinn að hlaupa nokkuð lengi og heyra þónokkur hopp þegar ég tók eftir að í belti mínu hékk sverð.

Ég ákvað að gera eitthvað í málunum, og þegar ég heyrði næsta DÚNK, dró ég upp sverðið og stökk inn um aðaldyr byggingarinnar, og beint inn í lyftu þar sem ég hjó á stjórnstöðina. Lyftan þaut upp og í gegnum þakið á byggingunni. Byggingin skjögraði og féll svo á hliðina, steindauð.

Þetta var áður en ég kynntist heimspeki og hafði lesið stórmerkilegar kenningar um að hægt væri að stjórna sjálfum sér í draumum, ef maður bara æfði sig í að vera meðvitaður. 

  • Hefur þig einhvern tíma dreymt svona skemmtilega drauma?
  • Getur þú líka stjórnað þér í þínum draumum?


Mynd: Urban Adventurer

Leikari úr 40 Year Old Virgin handtekinn fyrir grun um morðtilraun á fyrrum kærustu sinni

 

Shelley Malil í 40 Year Old Virgin

 

Hinn 43 ára gamli Shelley Malil var handtekinn á lestarstöð í San Diego, grunaður um að hafa stungið fyrrverandi kærustu sína rúmlega 20 sinnum í andlitið með eggvopni. Hann var á leið til lögfræðings síns þegar hann var handtekinn af lögreglu.

Nágrannar heyrðu konuna öskra, glas brotna, og lögreglumennirnir sem komu á staðinn fundu hana með djúpa skurði á andlitinu, og fluttu hana á gjörgæslu, þar sem hún liggur enn.

Ekki er vitað hvers vegna Malil er grunaður um ódæðið, en hann er fæddur og uppalinn á Indlandi. Hann hefur verið farsæll aukaleikari í frægum sjónvarpsþáttum eins og The West Wing og Scrubs, en er frægastur fyrir að leika gamla sorakjaftinn Haziz í 40 Year Old Virgin.

 

Shelley Malil
 
 

 

Ekki veit ég um sekt hans eða sakleysi, en þegar ég heyri svona fréttir furða ég mig á hversu grimmar manneskjur geta verið. Mér finnst nógu óskiljanlegt að vilja taka líf annarrar manneskju, en að stinga viðkomandi oftar en 20 sinnum í andlitið... Hvað getur valdið þessu?

Það fyrsta sem manni dettur í hug er að árásarmaðurinn hljóti að hafa verið geðveikur eða uppdópaður, og þá rifjast upp mál eins og þegar Roman Polanski var á sínum tíma grunaður um að hafa myrt konu sína og ófætt barn, en síðar kom í ljós að fjöldamorðinginn Charles Manson hafði verið að verki, og með það í huga hlýtur maður að spyrja hvort að grunurinn sé rökstuddur.

 

Myndir: 
 

Úr The 40 Year Old Virgin: Indophile.net

Shelley Malil: Collin Theatre Center

 


Ætlar RÚV að endursýna sigur Íslands gegn heimsmeisturum Þjóðverja á boðlegum tíma?

Það er ekki á hverjum degi sem að Ísland tekur heimsmeistara í karphúsið.Ég lít á það sem beinlínis skyldu RÚV að hliðra öðrum dagskrárliðum fyrir svona viðburði.

Ég, eins og líklega flestir Íslendingar er við vinnu og gat því ekki fylgst með leiknum þrátt fyrir brennandi áhuga, en svo er endursýning skipulögð kl. 0:30 þegar venjulegt fólk er farið að blunda. Má biðja um endursýningu hjá RÚV einhvern tíma milli 17:00 og 23:00 í kvöld?

Loksins hefur maður tilefni til að kveikja á imbakassanum. Ég kveikti á honum á meðan leikurinn við Rússa var í gangi og langar virkilega að sjá þennan leik.


mbl.is Ísland fór hamförum gegn Þjóðverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarfríið búið og liðin er bloggtíð með blóm í haga

 

 

 

Ég hafði 10 daga í sumarfríinu til að gera nákvæmlega það sem mig langaði að gera, svona eins og: ef þú hefðir engum skyldum að gegna í 10 daga, hvað myndir þú gera við tímann? Eitt af því sem ég valdi mér var að einbeita mér að bloggi. Það er mjög spennandi að gefa sér til tíma til að setja sig inn í umræðuna um það sem er efst á baugi og taka virkan þátt.

En þar sem ég er virkur fjölskyldumaður í fullri vinnu, kalla aðrir hlutir en bloggið á fasta athygli mína. Það var gaman að vera með af fullum krafti í þetta korter og þakka ég kærlega fyrir góð viðbrögð.

Ég ákvað að skrifa aðeins greinar um mál þar sem mér fannst eitthvað vanta í umræðuna, ákvað að vanda greinarnar, og blogga sem sjaldnast út frá fréttum. Þetta skilaði mér í 3. sætið á vinsældarlista bloggsins. 

Mig langar að þakka fyrir hvatningu og hrós, og sífellt jákvæða strauma frá bloggsamfélaginu og öðrum þeim sem skrifuðu athugasemdir. 

Í framtíðinni mun ég skrifa færri og styttri greinar á bloggið, og ekki svara öllum athugasemdum. Til þess hef ég einfaldlega ekki tíma.

Á ritvellinum, sem orðinn er mitt áhugamál númer eitt, og hefur tekið við af skákinni sem slíkt, verða í forgangi greinar fyrir ritstjóra tímarits sem sýndi skrifum mínum áhuga, og fær viðkomandi í staðinn vel unnar greinar. Einnig mun ég gefa skáldsögu sem ég er að skrifa meiri tíma og athygli.

Hvað fékk ég út úr þessum 10 dögum á blogginu? Í fyrsta lagi náði ég að kynnast bloggvinum mínum aðeins betur, trú mín á sjálfum mér sem rithöfundi hefur stækkað, mér hefur gefist tími til að kynnast eigin rödd betur. Þessir síðustu 10 dagar voru mér góður leiðarvísir inn í framtíðina.

 

Takk fyrir mig.


Bloggfærslur 12. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband