Skal umbera þá sem misnota tjáningarfrelsið gegn múslimum?
29.3.2008 | 18:48
Kvikmyndinni Fitna er lýst sem lifandi tímasprengju af höfundum hennar, en hún hefst með skopmynd af Múhameð spámanni með tímasprengju í stað heila, og í lok myndarinnar springur sprengjan. Þessari kvikmynd er ætlað að kveikja í múslimum, reita þá til reiða, og hvetja öfgamenn til lífshótana, sambærilega afleiðingar og fylgdu birtingu dönsku skopmyndanna og kvikmynda Theo Van Gogh, en Van Gogh var eins og þekkt er myrtur af öfgafullum múslima eftir að hafa fengið töluvert af hótunum.
Fitna er áróðursmynd beint gegn múslimum. Ef lesið er í tungumál kvikmyndarinnar og það þýtt yfir í rökræna hugsun eru skilaboðin augljós, gert er að jöfnu að múslímar og hryðjuverkamenn séu sama fyrirbærið. Sem er alls ekki satt. Síðan þykjast höfundar vera saklaus fórnarlömb ritskoðunar og hótana, á meðan hið sanna er að þeir kölluðu þetta yfir sig.
Við vitum að til eru hryðjuverkamenn sem ekki eru múslímar, eins og til dæmis þjóðernissinnuðu Bandaríkjamennirnir sem sprengdu opinbera byggingu í Oklahoma árið 1995, og það þarf ekki nema einn múslima til sem ekki er hryðjuverkamaður til að sýna fram á að ekki allir múslímar séu hryðjuverkamenn, - en fordómar ala hins vegar á vanþekkingu og í þessu tilfelli þeirri vanþekkingu sem fylgir að þekkja ekki neinn múslima og þar af leiðandi geta ekki afsannað að allir múslimar séu hryðjaverkamenn.
Í kvikmyndinni er lesið upp úr kóraninum nokkra vafasama kafla, en sambærilega kafla má sjálfsagt finna í hvaða trúarriti sem er, sem ætti náttúrulega aldrei að taka bókstaflega og lifa eftir vilji maður sæmilega friðsamlegt líf. Eftir kaflana er sýnt frá hryðjuverkunum 11. september 2001 þegar tvær farþegaflugvélarnar klesstu á tvíburaturnana, sprengja á lestarstöð í Madrid, aftaka einstaklings, myndir og hljóðupptaka af hollenska kvikmyndaleikstjóranum Theo Van Gogh, sem skotinn var af öfgafullum múslima.
Málið er að þegar ráðist er að heilum trúarbrögðum, heilli lífsskoðun og lífssýn, þá má búast við mótmælum. Opinber mótmæli eru sjálfsögð í þessu tilfelli að mínu mati, rétt eins og ef myndin hefði bendlað Íslendinga, Breiðholtsbúa eða Kristna við hryðjuverkastarfsemi. Slíkum áróðri og lygum er sjálfsagt að mótmæla, enda er slíkur áróður misbeiting á frelsi.
En þar sem til er fjöldi öfgafullra einstaklinga og hópa innan sérhverra trúarbragða, og þeir virðast sérstaklega áberandi þessa dagana þegar um múslima er að ræða, er tilhneigingin að dæma alla múslima fyrir þessa einstaklinga, sem aðeins er brot af heildinni. Að segja alla múslima vera hryðjuverkamenn er eins og að segja öll spendýr vera kríur. Þetta er rangt að tvennu leyti, annars vegar eru kríur ekki spendýr og hins vegar stenst ekki að setja smærri flokk (kríur) yfir stærri flokk (spendýr).
Samkvæmt kvikmyndagerðarmönnunum hefur þessi kvikmynd verið fjarlægð af netinu vegna hótana um manndráp frá öfgafullum múslimum. En þetta eru reyndar þau viðbrögð sem að þeir gátu búist við miðað við efni myndarinnar og viðbrögð öfgafullra múslima gegn áróðri sem gerir lítið úr trú þeirra.
Reyndar held ég að þessi kvikmynd hefði aldrei fengið neina athygli hefði henni ekki verið mótmælt af leiðtogum Arabaríkja og múslima, enda með afbrigðum léleg og illa gerð. Það er ljóst að þessi kvikmynd er ærumeiðandi gagnvart múslimum, og ég játa að ég er efnislega sammála þeirri ósk múslima að gera ráðstafanir gagnvart áróðri sem þessum, en er samt ekki viss um að lögbann eða ofbeldi sé rétta leiðin.
Það er einnig ljóst að kvikmyndin brýtur gegn mannréttindarsáttmála sameinuðu þjóðanna sem stefna að því að verja mannvirðingu einstaklinga og hópa óháð trúarbrögðum. Ef við viljum styðja við mannréttindi, erum við í raun skuldbundin til að styðja kröfu múslima, að minnsta kosti efnislega.
En hver ætli rétta leiðin sé?
Það er hægt að finna þessa kvikmynd á YouTube, en ég hef ekki geð í mér að setja á hana tengil, einfaldlega vegna þess að hún hefur ekkert listrænt gildi, segir ekki satt og hefur tilgang sem er engan veginn réttlætanlegur.
Höfum við frelsi til að segja hvað sem er?
Já. Svo framarlega sem það sem við segjum brýtur ekki gegn öðrum.
Þurfum við að vera ábyrgð fyrir því sem við gerum og segjum ef við erum frjáls?
Já. Annars værum við ekki frjáls.
Sýnir það ábyrgð að útbreiða lygar um heil trúarbrögð?
Nei. Það er misnotkun á frelsi.
Á að grípa til ráðstafana gegn þeim sem misntota frelsið?
Já, en ég veit ekki hvað þarf að gera.
Veist þú það?
![]() |
Arabaleiðtogar mótmæla Fitna" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (85)
Erum við virkilega hamingjusamasta þjóð í heimi?
29.3.2008 | 09:30
Flest setjum við okkur það markmið að verða hamingjusöm í lífinu, og jafnvel eftir lífið. En til þess að nálgast markmiðið verðum við að miða á rétta skotmarkið. Er mögulegt að einhver okkar séu að miða á rangt skotmark? Það held ég. Sumir halda að þeir séu að miða á hamingju þegar þeir í raun eru að miða á farsæld. Leyfðu mér að útskýra:
Undanfarin ár hefur verið í tísku að mæla það hversu hamingjusamar þjóðir eru. Samkvæmt þessu eru þjóðir hamingjusamari eftir því sem að þær uppfylla fleiri félagsleg skilyrði. Nú er talað um að þjóðir Norðurlanda séu hamingjusamir vegna félagslega kerfisins sem þeir fengu í arf frá forfeðrum sínum, og í fyrra sprengdi íslenska þjóðin alla skala sem hamingjusamasta þjóð í heimi samkvæmt alþjóðlegri rannsókn á högum þjóða.
Ég get ekki að því gert. Ég hristi hausinn yfir svona fréttum. Það er ekki verið að tala um hamingjuna, heldur farsæld.
Ég trúi ekki að hægt sé að mæla hamingju þjóðar. Það er hægt að mæla farsæld þjóðar en ekki hamingju. Farsæld er mikil eða lítil eftir því hvernig gengur að uppfylla skilyrði og framkvæma verkefni sem bæta ytri aðstæður í lífinu. Farsæld má ekki rugla saman við hamingju. Alls ekki. Manneskja sem tekur sín fyrstu spor í hinu harða lífi og heldur að farsæld sé það sama og hamingja, sér farsældina fyrir sér og eyðir mörgum árum í að öðlast hana, áttar sig hugsanlega ekki fyrr en of seint eða aldrei að hún setti sér ónákvæmt markmið.
Það eru til ýmsar kenningar um hamingjuna, hvað hún er og hvernig best er að öðlast hana. En í grundvallaratriðum skiptast skoðanir fólks í tvennt, annars vegar eru það þeir sem telja að hamingja sé eitthvað sem hægt er að höndla, telja og mæla - en þetta kalla ég farsæld, á meðan hinn hópurinn sér hamingjuna sem eitthvað handan okkar skilnings, ósnertanlegt og ómælanlegt - þetta kalla ég hamingju. Ég held að við séum samt í grunninn flest sammála um hvað hamingja er en ruglum bara saman hugtökum af því að við höfum ekki hugsað þau af sömu dýpt. Málið er að þegar við höfum eitthvað tvennt til að velja um, annað þeirra er sýnilegt og áþreifanlegt, en hitt ekki, þá höfum við tilhneigingu til að velja það sem við getum höndlað og jafnvel eignast, heldur en eitthvað sem við vitum ekki einu sinni hvort við getum snert.
Sumir einstaklingar virðast þurfa að setja sér áþreifanleg markmið í lífinu sem er raunhæft fyrir þá að ná, og þannig verði þeir hamingjusamir; og svo þegar markmiðinu hefur verið náð, þá þarf að setja sér nýtt og hærra markmið, komast lengra, og í stað þess að vera í góðu standi, vera í betra standi en allir hinir. Þetta er lýsing á farsæld.
Sumir einstaklingar virðast hins vegar setja sér markmið í lífinu sem erfiðara er að mæla. Til er fólk sem setur sér markmið eins og 'Ég stefni á að verða betri manneskja', og þá meina ég ekki betri í hinu og þessu heldur en allir hinir, heldur einfaldlega manneskja sem bætir sig dag frá degi, verður ekkert endilega meiri manneskja, heldur meira manneskja. Það er einmitt það sem menntun snýst um. Ég held einmitt að eftir því sem að maður getur orðið meira manneskja, nálgast maður það að vera hamingjusamur, og í raun muni maður aldrei vita fyrir víst hvort að maður sjálfur sé hamingjusamur - það er aukaatriði - heldur er maður einfaldlega hamingjusamur eða ekki.
Hugsum okkur unga manneskju á Íslandi í dag. Hún fer út í lífið með þann vilja að verða hamingjusöm - en ég held að líkurnar séu töluvert meiri á að manneskjan leiti sér farsældar frekar en hamingju. Svo er auðvitað hægt að leita sér að hvoru tveggja, en þá verður maður að skilja þennan greinarmun og átta sig á að þó að maður sé sáttur og ánægður, þá þýðir það ekkert endilega að maður sé hamingjusamur.
Hér fyrir ofan sérðu þarfapýramída Maslow. Þegar þú hefur uppfyllt allar þessar þarfir, þá er spurningin sú hvort að þú sért farsæl manneskja eða hamingjusöm.
Til að vera farsæll þarftu einfaldlega að uppfylla eigin markmið, til dæmis að eignast nauðsynjar, búa við virðulega samfélagsstöðu, vera í góðu starfi, vera heilbrigð, eða lifa lífi þar sem þér líður vel og þér finnst möguleikar opnir til að gera ýmislegt sem þig langar til að gera. Ég tel þetta vera afar mikilvægt.
Það þarf samt meira til. Þeir farsælu geta nú valið um hvort að þeir vilji verða ennþá farsælli - setja sér fleiri markmið - eða nálgast hamingjuna (eða fá hamingjuna til að nálgast þá) - þar sem líf okkar snýst um að nálgast hið góða eða gefa hinu góða aðgang að okkur sjálfum.Farsæld er gagnleg til að ná frekari markmiðum, en hamingja er markmið í sjálfu sér.
Getur manneskja sem á ekki neitt, ekki einu sinni góð börn eða góða heilsu, gott öryggi eða gott starf, getur sú manneskja verið hamingjusöm í því ástandi sem hún er? Er hamingjan eitthvað sem býr innra með okkur, eitthvað sem þarf að virkja, eitthvað sem þarf að varðveita, eitthvað sem við gerum og erum, eða er hamingjan eitthvað sem við nálgumst eða eitthvað sem nálgast okkur?
Endum þetta með tilvísun í Aristóteles, þar sem hann veltir fyrir sér sams konar hlutum, en er kominn aðeins dýpra, búinn að hafna því að hamingjan felist í auði, virðingarstöðu eða einhverju slíku sem getur verið gagnlegt, heldur eitthvað sem er eftirsóknarvert sjálft sín vegna:
Vissulega er sjón fyrir líkamann eins og rökhugsun fyrir sálina. (Aristóteles - Siðfræði Nikómakkusar)
![]() |
Fengu hamingjuna í arf frá víkingunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)