Eru einhverjir annmarkar á skáldaleyfi* fjármálaráðherra?

 

John_F_Kennedy_White_House_portrait
 

 

"Þegar völd gera mann hrokafullan, minna ljóð hann á eigin takmarkanir. Þegar völd þrengja áhugasvið og umhyggju manns, minna ljóðin hann á ríkidóm og fjölbreytileika hans eigin tilvistar. Þegar völd spilla, hreinsa ljóð, því að listin sýnir sannleika þess mannlega sem verður að þjóna sem hornsteinn dómgreindar okkar." (John Fitzgerald Kennedy, 1917-1963)

Ljóst er að settur dómsmálaráðherra tók ranga stjórnskipulega ákvörðun og að hún lítur út eins og afsprengi spillingar fyrir almenningi öllum. Hvort sem um spillingu hafi verið að ræða eða ekki, þá hlýtur sú tenging sem fólk gerir við athöfnina að skipta lykilmáli. Oft er grunur um sekt jafn afrifaríkur og sönn sekt. Hverri ákvörðun fylgir ábyrgð hefði ég ætlað. Hvernig ætli þessi ábyrgð verði öxluð?

Ég hjó eftir eftirfarandi í grein mbl.is um þetta mál:

„Umboðsmaður telur annmarka á þessu en þó ekki meiri en svo að hann telur að þeir leiði ekki til ógildingar," sagði Árni Mathiesen við Morgunblaðið í kvöld.

Hlutverk umboðsmanns Alþingis var einungis að meta hvort að um annmarka hafi verið að ræða eða ekki. Hann hefur ekkert að segja um hugsanlegar afleiðingar þessa brots, eins og fram kemur í niðurstöðu umsagnar hans, ef lesið er aðeins lengra:

Úr niðurstöðu umboðsmanns alþingis:

Eins og áður sagði er það niðurstaða mín að tilteknir annmarkar hafi verið á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð setts dómsmálaráðherra við skipun í umrætt embætti héraðsdómara. Að teknu tilliti til dómaframkvæmdar hér á landi og að teknu tilliti til hagsmuna þess sem hlaut skipun í embættið tel ég ekki líkur á að ofangreindir annmarkar leiði til ógildingar á skipuninni. Það fellur hins vegar utan starfssviðs míns að taka afstöðu til þess hvaða lagalegu afleiðingar þessir annmarkar á meðferð málsins kynnu að öðru leyti hafa í för með sér ef um þetta yrði fjallað af dómstólum t.d. í formi skaðabótamáls. Ég beini þó þeim tilmælum til skipaðs dómsmálaráðherra að framvegis verði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem lýst er í áliti þessu við undirbúning og veitingu embætta héraðsdómara.

Við getum ekki sagt að um lögbrot sé að ræða, heldur verður löglærður dómari að skera úr um það. En til þess þarf sjálfsagt einhver að kæra málið, eða hvað? Líklegasta niðurstaðan er að hinir þrír sem metnir voru hæfari kæri málið og semji um sæmilegar skaðabætur frá Ríkinu, og þar með verði málinu lokið.

Væri þá réttlætinu fullnægt?

 

Undarleg er íslensk þjóð!
Allt, sem hefur lifað,
hugsun sína og hag í ljóð
hefur hún sett og skrifað.

Hlustir þú og sé þér sögð
samankveðna bagan,
þér er upp í lófa lögð:
landið, þjóðin, sagan.

Stephan G. Stephansen (1853-1927)

 

* Skilgreining á skáldaleyfi, af vefsetrinu Bókastoðin:

Stundum taka skáld sér skáldaleyfi en með því er átt við að þeir virða ekki settar reglur, t.d. hvað málform eða bragform varðar. Þetta gerði Halldór Laxness til dæmis, en hann hundsaði ng- og nk-reglurnar í stafsetningu og skrifa orð á borð við langur svona ‘lángur’. Skáldaleyfi getur einnig falist í því að hagræða sögulegum staðreyndum eða tíma.


mbl.is Telur nýmæli í niðurstöðu umboðsmanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bolt 3D (2008) ****

Árið 2008 hefur verið gott fyrir teiknimyndir. Þær bestu sem ég hef séð á árinu eru Kung-Fu Panda, Wall-E og Bolt.  Mér finnst Bolt sú besta af þeim þremur, þó að erfitt geti verið að bera þær saman. Bolt hefur nefnilega hjartað á réttum stað, í sögu með ógleymanlegum persónum. Aðeins tvisvar áður hef ég séð teiknimyndir sem mér finnst algjörlega frábærar. Það eru Lion King (1994) og Toy Story (1995). Þetta eru sams konar sögur, persóna týnist, leitar að sjálfum sér og lærir nýjan tilgang með lífinu.

Ég vil taka það sérstaklega fram að ég sá myndina í þrívídd og með íslenskri talsetningu sem var frábærlega unnin.

Bolt er fimm ára gamall hvutti sem heldur að hann sé ofurhundur, en sannleikurinn er sá að hann er sjónvarpsstjarna sem veit ekki að allt í kringum hann er tilbúningur, rétt eins og Jim Carrey sem Truman  í The Truman Show (1999). Reyndar á Bolt sér eina sanna fótfestu í lífinu, en það er skilyrðislaust ást hans á eiganda sínum, stúlkunni Penny. Hann trúir að illmenni séu stöðugt á eftir henni og leggur sig allan fram við að bjarga henni úr vandræðum. Á nóttinni er hann skilinn eftir í hjólhýsi á sviðinu, og komið er í veg fyrir að hann fái nokkurn tíma að sjá hinn raunverulega heim.

Framleiðendur þáttanna óska eftir að einhverjir þættir endi illa. Í lok þáttar er látið sem að Penny hafi verið rænt og Bolt komið fyrir í hundakassa. Allir þættir höfðu endað vel til þessa, þannig að Bolt er virkilega pirraður þegar hann losnar úr kassanum, og tekst að flýja úr hjólhýsinu en þegar hann ætlar að stökkva í gegnum glugga rotast hann og dettur ofan í kassa sem póstsendur er til New York.

Þegar út úr kassanum er komið þarf Bolt að komast aftur til Hollywood og bjarga Penny frá illmenninu með græna augað. Hann fær óvænta hjálp frá kettinum Mittens og hamstrinum Rhino. Hamsturinn Rhino kom mér til að hlæja upphátt nokkrum sinnum, en það hefur ekki gerst síðan ég sá Get Smart (2008) síðasta sumar. Smám saman uppgötvar Bolt að hann hefur lifað í draumaheimi, uppgötvar mikilvægi vináttu og gefst ekki upp í leit að Penny, fyrr en að hann sér að hún hefur fengið annan hund, alveg eins og hann. Þá fyrst þarf hann á sannri vináttu að halda.

Sagan er í raun afar einföld, en framsetningin og persónusköpunin er fyrsta flokks. John Lasseter, frumkvöðull Pixar Studios sá um framleiðsluna á myndinni og má greinilega skynja handverk hans, enda leggur hann alltaf mikla áhersluna á að sagan sé frumleg og skemmtileg, áður en hann fer út í tæknilegri hluti, sem eru samt líka óaðfinnanlegir.


Felur Forseti Íslands slóðina með Jóni Ásgeiri eða kann Ástþór Magnússon ekki að googla?

53d01216ad5ca689

Í morgun kl. 5:27 birti hinn ágæti Ástþór Magnússon samsæriskenningu undir nafninu Forseti Íslands felur slóðina. Hér er greinin:

Á vefnum forseti.is er nú nánast útilokað, nema með einhverri djúpleitartækni, að finna myndir af atburðum tengdum útrásarvíkingum eða ræður forsetans við þau tilefni. Efnið virðist annaðhvort hafa verið fjarlægt eða linkar á það faldir.

Smellið á myndina til vinstri sem sýnir: http://forseti.is/Forsida/Myndasafn/Atburdir en þar finnast ekki lengur linkar á t.d. myndir frá afhendingu Útflutningsverðlauna forseta Íslands til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Þess í stað er fólki sýnd mynd af forsetanum með fólki í hjólastólum og engir linkar á aðra atburði, eins og útrásina, sem þó var meira áberandi í starfi forsetans.

Myndirnir af Jón Ágeiri og forsetanum geta aðeins þeir augum litið sem vita nákvæmlega hvar eigi að kafa undir yfirborðið: http://forseti.is/Forsida/Myndasafn/Atburdir/Utflutningsverdlaun2008/ - Linkar á síðuna hafa verið fjarlægðir og myndirnar faldar öðrum en þeim sem kunna djúpleit á vefnum.

Ljóst er að vef forseta Íslands hefur verið breytt að undanförnu með svipuðum hætti og Bók um forseta sem var breytt eftir að bókin var komin í prentsmiðju þegar hagkerfið hrundi.  Menn tala um að 60 síður hafi horfið úr bókinni. Það virðist orðið mikið feimnismál fyrir Ólaf Ragnar Grímsson að sjást á ljósmyndum með útrásarvíkingum eða hafa flutt hvetjandi ræður fyrir útrásina. Slíkt efni virðist annaðhvort horfið eða slóðirnar faldar (linkarnir) frá þeim sem fara inná heimasíðu forsetans.

Slóðin á afhendingu Útflutningsverðlauna skaut upp í athugasemd við frétt um þetta mál á eyjan.is eftir að ég vakti athygli á þessu máli í fyrri grein minni. Ég fann ekki þessa slóð þegar ég skrifaði fyrri greinina þótt ég hafi eytt meira en klukkutíma á vef forsetans í að leita að þessu. Hvort forsetinn keyrði í Loftsköstum á skrifstofuna til að smella linknum aftur inná síðu sína veit ég ekki. Hinsvegar líkist þetta því sem gárungarnir á sorprit.com kalla "Hreinsgerningar" og þar sagt að Íslandsmeistari í sjónhverfingum viðskiptalífsins kenni þau fræði í Grísaskólanum við Höfðabakka.

Ef googlun er það sem Ástþór Magnússon kallar djúpleitartækni, þá þyrfti hann að sækja almennt tölvunámskeið með bloggvini mínum Bjarna Harðarsyni. Ég ákvað að athuga hvort þetta væri satt og fór beint á google.com og sló inn leitarorðin "forseti.is Jón Ásgeir".

Það komu nokkrar niðurstöður. Ljóst er að Eyjumenn eru að standa sig vel í leitarvélarmálum því að þeir birtust efstir á blaði. Niðurstaðan sem ég sóttist eftir var hins vegar númer fimm í röðinni, nokkuð sem auðvelt er að sjá því að slóðin byrjar á forseti.is:

google_nidurstada_forseti.jpg

Þegar ég smelli svo á niðurstöðuna fæ ég þessa síðu:

forseti_islands_jonasgeir.jpg

Þessi leit tók mig um sekúndu í framkvæmd. (Að skrifa greinina tók aðeins meiri tíma) Wink

Síðan hrun bankana hefur átt sér stað hefur mikið verið ráðist á einstaklinga með einhvers konar níð, sama hvort viðkomandi heiti Davíð, Geir, Björgvin, Ólafur, Jón - það er alltaf verið að finna einhvern sökudólg og hann ásakaður um hitt og þetta, ætlunin að taka orðspor viðkomandi af lífi.

Slíkar upphrópanir skila litlu. Það þarf að rannsaka vandlega hvað gerðist og hver gerði hvað og ákæra þá sem hafa gerst uppvísir um alvarlega spillingu eða glæpi. Dómstóll götunnar er aldrei nákvæmur og sjaldan réttur og er ekki líklegur til að skila okkur réttlæti.

Ólafur Ragnar studdi útrásarvíkingana. Það er rétt. Það gerir hann hins vegar ekki að glæpamanni frekar en allar þær manneskjur sem hafa farið í Bónus eða Hagkaup síðustu 10 árin og keypt eitthvað þar. Ólafur Ragnar hefur stutt þá einstaklinga sem leitað hafa til hans og hjálpað þeim að koma sér á framfæri erlendis. Hvað getur verið slæmt við það?

Þegar í ljós kemur að ástandið er alvarlegt, fer Ólafur Ragnar í fyrirtæki og biður starfsmenn fyrirtækja að hjálpa sér við að leita leiða til að styðja þá Íslendinga sem eiga um sárt að binda vegna kreppunnar. Hvað er slæmt við það?

Ólafur Ragnar hefur verið úthrópaður fyrir þetta og sagt að hann sé bara að leita sér vinsælda. Það er út í hött. Hann var endurkjörinn síðasta sumar til næstu fjögurra ára og hefur því ekkert við vinsældir að gera. Hann hefur sýnt óvæntan styrk og áhuga á að hjálpa þeim sem minna mega sín, og leita leiða til að opna fyrir tækifæri á nýjan leik. 

Einnig hefur Ólafur Ragnar verið gagnrýndur fyrir að hafna fjölmiðlafrumvarpinu. Hann gerði það ekki. Þegar hann skrifaði ekki undir þurfti þjóðaratkvæðagreiðslu til að samþykkja það. Af einhverjum ástæðum fór sú atkvæðagreiðsla ekki fram. Ef forseti telur sig ekki geta skrifað undir lög af einhverjum ástæðum, á hann ekki að skrifa undir þau lög. Það er ekkert flóknara en það.

Hugsanlega verð ég gagnrýndur fyrir að verja Forseta Íslands og á reyndar vini, kunningja og ættingja sem hafa gagnrýnt mig harkalega fyrir að sýna honum og þjóðinni stuðning í verki, en mér er slétt sama. Ég sé ekki betur en að hann hafi lagt sig allan fram við að verja heiður Íslendinga með kjafti og klóm, af heilindum, bæði erlendis og hérlendis, og ég leyfi mér að virða hann fyrir það.

Þannig hefur vonandi einni samsæriskenningu sem á sér enga stoð í veruleikanum verið varpað fyrir borð. Gróa er nefnilega ansi öflug þar til hún er stoppuð með sannleikanum, og hún á jafnvel einhvern mátt þrátt fyrir að sannleikurinn hefur komið í ljós - því hún hefur tilhneigingu til að hlusta aðeins á það sem hentar hverju sinni.

(Það má taka fram að Sverrir Stormsker skrifar aðra grein af sinni alkunnu ritsnilld, væntanlega um sama mál, en er mér greinilega ósammála: Sögufölsun forsetans). Spurning hvort að þetta sé ekki ágætis dæmi um hvernig sögurnar spinnast.

Og enn spinna menn lengra: Ljósmyndir af forseta Íslands með auðmönnum og útrásarvíkingum fjarlægðar af vef embættisins

Ætli þessu verði nokkuð hætt fyrr en allir trúi þessu? Er þetta kannski sprottið úr öfgatrú eins og þeirri að fjölmiðlar ljúgi aldrei?

 


Bloggfærslur 30. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband