Færsluflokkur: Kvikmyndir

Hugrakkasti hobbitinn samkvæmt Mr. Spock er...

Rakst á þetta skondna myndband á flakki mínu um netheima.


Kick-Ass (2010) ****

Kick-Ass-Poster

"Kick-Ass" kemur á óvart. Sagan er vel skrifuð. Persónurnar góðar. Handritið smellið. Tæknibrellur hitta beint í mark. Og hún er betri en "Iron Man 2" og "Robin Hood". Miklu betri. Besta sumarmynd ársins til þessa.

Dave Lizewski (Aaron Johnson) er nörd sem hangir á Facebook og klámsíðum, og með hormónana á fullu, en læðist meðfram veggjum í skólanum og telur sinn eina ofurkraft vera ósýnileika gagnvart stelpum. Eftir að Dave og vinur hans eru rændir af smákrimmum fær hann þá snilldarhugmynd að klæðast ofurhetjubúningi og berjast gegn glæpum. Fyrstu slagsmálin enda illa. Nánast hvert einasta bein í líkama hans er mölvað og í staðinn fær hann fullt af stálbeinum. Það finnst honum svalt. Minnir á Wolverine.

Þrátt fyrir að hafa legið í marga mánuði á sjúkrahúsi ákveður Dave að halda áfram að gera gagn. Hann setur markið reyndar ekki jafn hátt og áður, og ætlar sér nú einfaldlega að gera góðverk eins og að finna týnda ketti. Hann slysast hins vegar til að verja mann sem er á flótta undan harðskeyttum glæpamönnum. Slagsmálin eru tekin upp á vídeó og sett á YouTube þar sem fjöldi manns fylgist með og verður innblástur fyrir aðrar hetjur, sérstaklega Big-Daddy (Nickolas Cage) og hina 11 ára Hit-Girl (Chloe Moretz) sem virðist álíka hæfileikarík ungstjarna og Jodie Foster var þegar hún lék í "Taxi Driver".

Big-Daddy og Hit-Girl eru ekki væmnar ofurhetjur, heldur berjast þau gegn glæpum með drápsvopnum, og hika ekki við að slátra gangsterum á afar blóðugan hátt. Það gæti reynst of mikið af því góða fyrir suma áhorfendur að fylgjast með 11 ára stúlku murka lífið úr nokkrum glæpaklíkum með skammbyssum, vélbyssu, hnífum og fleiri drápstólum.

Big-Daddy er fyrrum lögga sem lenti í fangelsi eftir að hafa komist skuggalega nálægt mafíósanum Frank D'Amico (Mark Strong) og á meðan hann dúsaði fimm ár í steininum lést eiginkona hans við barnsburð og ól hún honum þessa dóttur sem hann síðan þjálfar til að vera einhvers konar Jet-Li-Jackie-Chan-Bruce-Lee drápsvél. Big-Daddy heitir hefnda.

Sonur mafíósans blandar sér í málið og gerir sig að ofurhetjunni Red Mist (Christopher Mintz-Plasse) og Dave, sem hin grænklædda hetja í froskabúningnum Kick-Ass nær loks athygli Katie (Lyndsy Fonseca) sem hann hefur lengi þráð, en ekki á nákvæmlega þeim forsendum sem hann óskar sér. 

Þó að drápin í "Kick-Ass" séu flest frekar ógeðsleg og afdráttarlaus, og smekksatriði hvort þú sættir þig við að gerandinn sé ellefu ára stúlka, þá er "Kick-Ass" með betri ofurhetjumyndum sem gerð hefur verið. Það er nefnilega, eins langsótt og það hljómar, hægt að trúa því að þessar persónur séu til, og maður finnur sársaukann sem þau finna við hvert einasta högg og hopp.

Stíll myndarinnar er mikið í anda gömlu John Woo myndanna "Hard-Boiled" og "The Killer". Auk þess minnir stíllinn töluvert á "Sin City". Hafirðu haft gaman af þessum myndum, þá hefurðu gaman af þessari. Frábær skemmtun sem enginn áhugamaður um ofurhetjur ætti að missa af. Þar að auki skemmir ekki að það er mikill húmor og frásagnargleðin skín í gegn.

"Kick-Ass" er ein af þessum myndum sem líður hratt og ljúft í gegn og er nákvæmlega eins og hún á að vera, hvorki meira né minna.


Capitalism: A Love Story (2009) ***1/2

capitalism_a_love_story

Í "Capitalism: A Love Story" sannar Michael Moore í eitt skipti fyrir öll að kapítalismi er meinsemd á bandarísku samfélagi, þar sem hinir ríku verða vellauðugir og hinir fátæku heimilislausir, og aðeins örfáar hræður standa á milli þeirra, og þessum millistéttarhræðum fækkar ört. Samkvæmt útreikningum Moore á 1% bandarísku þjóðarinnar 95% af þeim eignum sem eru til í landinu. 

Moore sýnir fram á að samfélagshyggja er ekki sú meinsemd sem kapítalistar segja að hún sé, nema þá aðeins fyrir þá sjálfa, en sýnir aftur á móti fram á að kapítalisminn er góður aðeins fyrir kapítalista sem eiga nóg af auði, en ekki fyrir alla hina sem sitja eftir.

Þessi gagnrýni á fullan rétt á sér. Hlutföllin, ekki bara í Bandaríkjunum, heldur einnig á Íslandi og víðar í heiminum, hafa verið að skekkjast alvarlega, þannig að nánast allur auður heimsins safnast á fárra manna hendur, sem hafa ekkert gert til að öðlast þennan auð annað en að eyðileggja fyrir heiðarlegu fólki með því að taka þátt í svikum og prettum sem af einhverjum furðulegum ástæðum standast lagabókstafi.

Vandamálið við kapítalismann er að komið er fram við fólk eins og hluti, verkfæri sem hægt er að skipta um til að hagræða. Sjálfsagt eru upplýsingar í tölvukerfi sérhvers fyrirtækis í dag metin sem meira virði en mannslíf, eins fáránlega og það kann að hljóma. Sumum þætti sjálfsagt eðlilegt að meta upplýsingar og peninga til jafns við hundruð eða þúsundir mannslífa án þess að velta fyrir sér hver munurinn er á manneskju annars vegar og vél eða kerfi hins vegar.

11. janúar 1944 flutti Franklin D. Roosevelt magnaða ræðu. Mig langar að þýða hluta úr henni sem á við um Ísland í dag.

 


 

Þetta ríki var í upphafi og óx til núverandi styrks verndað af ákveðnum ófrávíkjanlegum pólitískum réttindum - meðal þeirra réttinum til málfrelsis, fjölmiðlafrelsis, trúarbragðafrelsis, réttarhöldum með kviðdómi (ekki á Íslandi), frelsi frá ósanngjarnri leit og yfirtöku eigna. Þetta voru réttindi okkar fyrir lífi og frelsi.

En á meðan þjóð okkar hefur vaxið í stærð og mikilvægi - og efnahagskerfi okkar víkkað út - hafa þessi pólitísku réttindi reynst máttlaus til að tryggja okkur jöfnuð í leit okkar að hamingju.

Við höfum áttað okkur á þeim skýra veruleika að sannkalla einstaklingsfrelsi hefur enga tilvistargetu án fjárhagslegs öryggis og sjálfstæðis. "Menn í neyð eru ekki frjálsir menn." Fólk sem er hungrað og atvinnulaust eru það sem gerir harðstjórn að veruleika.

Á okkar dögum hefur þessi efnahagslegi sannleikur verið tekinn sem sjálfsagður. Við höfum samþykkt, má segja, aðra stjórnarskrá þar sem nýr grundvöllur fyrir öryggi og hagsæld getur verið stofnað fyrir alla óháð stöðu, kynþætti eða skoðunum.

Meðal þeirra eru:

Réttur til að vinna gagnlegt og hagkvæmt starf í atvinnuvegum eða verslunum eða bóndabæjum eða námum þjóðarinnar;

Réttur til að vinna sér inn nógu mikil laun til að verða sér úti um viðunandi fæði og klæðnað og tómstundir;

Réttur sérhvers bónda til að rækta og selja framleiðslu sína á verði sem gefur honum og fjölskyldu hans sæmandi lifibrauð;

Réttur sérhvers athafnamanns, meiri og minni, til að stunda viðskipti í andrúmslofti frjálsu undan ósanngjarnri samkeppni og yfirráðum auðhringa heima sem erlendis;

Réttur sérhverrar fjölskyldu til mannsæmandi heimilis;

Réttur á viðunandi heilbrigðiskerfi og tækifæri til að öðlast og njóta góðrar heilsu;

Réttur á viðunandi vernd frá fjárhagslegri ógn þeirri sem fylgir elli, veikindum, slysum og atvinnuleysi;

Réttur á góðri menntun;

Öll þessi réttindi eru undirstöður öryggis. Og eftir að þetta stríð er unnið verðum við að vera tilbúin að færa okkur fram á veginn, við innleiðingu þessara réttinda, til nýrra markmiða mannlegrar hamingju og farsældar.

Þessar fallegu hugmyndir hafa ekki enn verið innleiddar í Bandaríkjunum.

Ég ólst upp í Breiðholtinu og var það bláeygur að trúa því að þessi réttindi væru trygg meðal okkar, en árið 2008 rann upp fyrir mér að það var blekking ein. Loforðin um frelsi og öryggi á Íslandi var lygi falin í orðskrúði stjórnmálamanna, auðmanna og handbenda þeirra héðan og þaðan úr þjóðfélaginu.

Íslendingar töldu sig vera frjálsa þjóð, en voru það ekki, og verða það ekki fyrr en þeir losna undan þeirri heljarkrumlu sem kröfuhafar og bankar ætla sér að nota til að kreista hvern einasta krónudropa úr sérhverju íslensku heimili, sama hvað það kostar.

Ekki gleyma að þegar manneskju er sparkað út af eigin heimili, þarf hún samt einhvers staðar að búa.

Það er gaman en sárt að horfa á heimildarmynd sem segir sannleikann með jafn stingandi háði og Michael Moore gerir. Hugsanlega er eitthvað af Besta flokknum sprottið upp úr samskonar húmor fyrir hinu sorglega og rangláta.


Tekst vel smurðum áróðursvélum að brytja niður fylgi Besta flokksins á síðustu metrunum?

Mikill titringur sem Jóni Gnarr og hans kátu mönnum hefur tekist að koma í gang. Það merkilegasta við þetta allt saman er hvað vinsældir hans bæði pirra og gleðja. Það er hugsanlega enn kaldara á toppnum í stjórnmálum heldur en í listaheiminum.

Það er áberandi hvernig fjórflokkarnir eru fastir í skotgröfum, fyrir utan kannski Sjálfstæðisflokk, sem hefur ekki verið að skjóta eiturpílum að hinum, heldur verið með mun sterkari og vandaðri áróðursbrögð og markaðssetningu. Þeir ná langt á því. Einnig hefði ég getað svarið að þegar ég hlusta á Hönnu Birnu, að hún talar nákvæmlega eins og Þorgerður Katrín. Mér finnst það frekar skondið. Aðrir flokkar eru sífellt að deila á hina flokkana og það stelur frá þeim orku.

Dagur ræðir um atvinnumálin sem aðalmálefni, en þar sem hann er varaformaður flokks sem er í ríkisstjórn og sem einnig hefur Félagsmálaráðuneytið á sínu borði, finnst mér að hann ætti frekar að berjast fyrir því að koma hinum stórskaðlega Árna Páli úr ráðherrastól og setjast sjálfur í hann. Þar held ég að Dagur gerði mikið gagn. Hann er réttur maður á röngum stað í borgarpólitík.

Sóley Tómasdóttir er svolítið spes. Hún fattar ekki að með stöðugum árásum á Sjálfstæðisflokk græðir hún aðeins einhver hatursatkvæði. Á sama hátt getur hún grætt atkvæði með því að ráðast á klám og annað slíkt.

Einar Skúlason er drengur góður, en virðist hafa lítið til málanna að leggja.

Baldvin hjá Reykjavíkurflokknum er töffari sem ætti að fá góð verkefni hjá þeim sem sigrar í þessum kosningum.

Ólafur F. fer með slíku offorsi gegn Framsóknarflokki að það er með ólíkindum. Framsóknarflokkurinn er eins og vængbrotinn fugl í dag, og ég einfaldlega vorkenni honum þegar læknirinn fer að reita af honum fjaðrirnar. 

Helga Þórðardóttir, hjá Frjálslyndum, virðist vilja þjóða samfélagi sínu á einhvern hátt. Virðingarvert. 

Mér líst vel á það sem Jón Gnarr hefur verið að segja um samvinnu, ef hann meinar það, að mikið af góðu fólki sé innan sérhvers stjórnmálaflokks, og hann sé tilbúinn að vinna með því fólki sem sýnir áhuga á að leggja hönd á plóg (vinna vinnuna sína) og fyrir heill borgarbúa.

Ætti ég heima í Reykjavík gæti ég ekki kosið annað en Besta flokkinn. Hins vegar finnst mér afar áhugavert að sjá hvað áróðursmaskínur Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru öflugar, og viss um að þeim hafi tekist að sannfæra fullt af fólki sem er óákveðið.

Besti flokkurinn er ennþá sá fyndnasti. En hann hefur skotið sig í fótinn með því að allt í einu eru farnar að heyrast skynsamar raddir innan hans sem hafa töluvert merkilegt að segja. Ég efast um að fólk sé jafn tilbúið fyrir skynsemi og fyrir húmor.


mbl.is VG útilokar samstarf við Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prince of Persia: The Sands of Time (2010) ***

 

Prince_of_Persia_poster

 


"Prince of Persia: The Sands of Time" er ekki fullkomin, en vel heppnuð kvikmyndaútgáfa af tölvuleik. Sjálfsagt mætti flokka hana í sama gæðaflokk og "Harry Potter", "Pirates of the Caribbean" og "Tomb Raider". Ekki skemmir fyrir að flestir leikarar standa sig vel, fyrir utan suma, eins og pirrandi prinsessu með svo enskan hreim að ég vorkenni Persum, og Ben Kingsley, sem sífellt dregur niður þær ævintýramyndir sem hann leikur í, því hann leikur alltaf sama karakterinn, alltaf með sömu svipbrigðum. Benni Kóngalegi ætti að halda sig við dramað. Þar er hann oft frábær.

Innrásarher Persa ræðst til atlögu gegn heilagri borg vegna þess að njósnir hafa borist um að borgarbúar séu að framleiða öflug sverð og að undirbúa mikla styrjöld gegn Persum. Gjöreyðingarsverði, sko... Þannig að Bandaríkj... ég meina Persar gera árás áður en Írök... ég meina borgarbúum, tekst að ráðast á Persa.

Árásin gengur upp, prinsessan Tamina (Ginna Arterton) handsömuð, en hún hefur staðið vörð um heilagan rýting sem gengur fyrir tímasandi, og konungur Persa fær samviskubit og skammar syni sína fyrir að brjóta niður varnarhlið friðsælustu borgar jarðríkis.

Rýtingurinn er svoldið spes. Þegar og ýtt er á hnapp á skapti hnífsins, sem hlaðinn skal sérstökum galdrasandi, þá getur sá sem heldur á hnífnum ferðast allt að eina mínútu aftur í tímann. Sé hnífnum hins vegar stungið í uppsprettu hins heilaga sands og hnappnum haldið inni, væri fræðilega séð hægt að ferðast miklu lengra aftur í tímann. Um þetta snýst plottið.

Prinsinn Dastan (Jake Gyllenhaal) er einn af þremur prinsum Persíu sem leiddu árásina á borgina, hann var sá úrræðabesti og gerði það að verkum að varnirnar voru brotnar á bak aftur. Dastan er samt ekki alvöru prins. Hann var í æsku götustrákur sem sýndi mikið hugrekki. Sharaman konungur (Ronald Pickup) var vitni að hugrekki og fimi stráksins og ættleiddi hann á staðnum.

Þegar Sharaman konungur er myrtur fyrir augum prinsanna og fjölda vitna er Dastan ásakaður um morðið og allir menn hans drepnir. Hann leggur á flótta og tekur með sér Taminu prinsessu. Á flóttanum lenda þau í ýmsum ævintýrum og hrífast að sjálfsögðu hvort að öðru í leiðinni. Rekast þau meðal annars á skuggalega kaupsýslumanninn Amar (Alfred Molina) sem telur skatta uppsprettu alls hins illa í heiminum og rekur strútaveðreiðar. Amar er ekki jafn illur og hann virðist vera. Hans traustasti félagi er Seso (Steve Toussaint), sem er sérlega klár í hnífakasti. Besta atriði myndarinnar er stutt sena þar sem Toussaint fær að njóta sín í bardaga gegn öðrum miklum hnífameistara. Eftirminnilegur leikari þar á ferð.

Ég hefði viljað sleppa Ben Kingsley algjörlega, því hann er hreinlega ömurlega lélegur sem illmenni í fantasíumyndum. Þess í stað hefði mátt nota höfðingja Hassansin leigumorðingjanna betur og gefa honum aðeins meira en þann virkilega flotta persónuleika sem hann hafði og hina svölu samherja hans, en Gísli Örn Garðarson leikur þennan skúrk feikilega vel og tekst að búa til illmenni sem jafnast á við Mickey Rourke í "Iron Man 2".

Ég hafði gaman af þessu ævintýri.

Mikill hasar, sem er misjafnlega vel útfærður, ekkert sem jafnast á við það besta frá Jackie Chan eða Jet Li, og atriðin afar ójöfn. Jake Gyllenhaal er góð ofurhetja, í fínu formi og tekst að skapa eftirminnilega persónu. Góður endir bjargar myndinni frá því volæði og þeirri klisju sem hún stefndi í að verða.

Frekar brokkgeng mynd, en þegar á heildina er litið frekar skemmtileg stund með poppi og svörtu gosi. 


Árásin á Alþingi og skörungur Wittgensteins

 

witt

 

25. október 1946 hélt vísindaheimspekingurinn Karl Popper fyrirlestur í Cambridge sem bar titilinn "Eru til staðar heimspekileg vandamál?" Ludwig Wittgenstein var fundarstjóri. Wittgenstein hafði haldið því fram að engin raunveruleg heimspekileg vandamál væru til, að öll heimspekileg vandamál væru sprottin úr ófullkomnun tungumálsins. Popper hélt því aftur á móti fram að heimspekileg vandamál væru dýpri en svo að hægt væri að afgreiða þau öll sem tungumálaleiki.

Vitni segja að rifrildið milli þeirra Popper og Wittgenstein hafi stöðugt magnast upp, og Wittgenstein haldið á eldskörungi og beint honum að Popper á meðan þeir þrættu. Loks kom að hinu magnþrungna augnabliki þegar Wittgenstein beindi skörungnum ógnandi að Popper og krafðist þess að Popper gæfi dæmi um raunverulega siðferðilega reglu.

"Þú skalt ekki ógna gestafyrirlesurum með eldskörungum," svaraði Popper að bragði. Wittgenstein brást við með að henda frá sér skörungnum og rjúka út.

Það merkilega við þennan atburð er að hann gerðist á um tíu mínútum og fjöldi vitna var á staðnum, sérfræðingum í þekkingarfræði og rannsóknum á sannleikanum, en þessi vitni gátu aldrei komið sér algjörlega saman um hvað gerðist nákvæmlega á þessum tíu mínútum. Hver og einn upplifði atburðinn á ólíkan hátt. 

Eitthvað ákveðið gerðist, og meðal þess sem gerðist er tjáning á ákveðnum heimspekilegum vangaveltum frá tveimur afar djúpum heimspekingum, sem síðar braust út í einhverju sem virtist hafa verið reiðikast og uppgjöf Wittgensteins. En var þetta uppgjöf eða skýr skilaboð?

Var Wittgenstein að segja með því að kasta frá sér skörungnum og rjúka út að hann væri rökþrota, að honum þætti Popper ósanngjarn, eða staðfesti hann með verki sínu að það var ekkert heimspekilegt vandamál til staðar? Túlkanir manna og skoðanir geta verið jafn ólíkar og jafnvel fleiri en fjöldi einstaklinga í salnum.

Hvað ef við tökum aðeins fyrir staðreyndir málsins. Það sem raunverulega gerðist. Er mögulegt að staðreyndirnar einar sýni annan veruleika en sannleikann sjálfan?

ArasAAlthingi

Mér varð hugsað til þessa atviks sem átti sér stað fyrir 64 árum þegar ég horfið á Kastljós í morgun, og myndbandið sem staðfestir að þingverði hafi verið hrint með tveimur höndum, hægri hendi, eða dottið slysalega á ofn. Einnig kemur fram að forseti Alþingis taldi þingmönnum og húsnæði ógnað af þeim sem ruddust inn á Alþingi þennan örlagaríka dag, þrátt fyrir að sumir þingmenn hafi lítið kippt sér upp við þetta. Þó minnist ég þess að Sif Friðleifsdóttir sem var í ræðustól á þessu augnabliki hafi verið frekar brugðið. Einnig er áhugavert að sjálfur utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, framkvæmdi mörgum árum áður nákvæmlega það sem innrásarmennirnir ætluðu sér, að lesa yfir þingmönnum.

Það er erfitt að segja hvað einhver einn ætlaði sér að gera, hvað þá þeir þrjátíu manns sem ruddust inn í húsið á 3. desember 2008. Aðeins níu þeirra eru ákærðir, hugsanlega vegna þess að ekki tókst að nafngreina hina einstaklingana 21, hugsanlega af annarlegum ástæðum.

En það er öllum ljóst að þessir níu einstaklingar voru ekki að ógna vinnufrið á Alþingi þennan örlagaríka dag, enda hefur ekki verið vinnufriður á Alþingi í mörg ár, eða síðan Alþingismenn byrjuðu að þiggja styrki frá áhrifavöldum í samfélaginu. Það eitt að starfa við að samþykkja lög fyrir heilt þjóðfélag, með sérstaka styrki frá fyrirtækjum og einstaklingum þér til stuðnings, eru ólög í sjálfum sér sem hlutu að leiða á endanum til stjórnmálakreppu.

Það ótrúlega er að stjórnmálamenn í dag virðast ekki átta sig á af hverju styrkir til einstakra þingmanna eða fyrirtækja í þeirra eigu séu það sama og mútur, og að slíkt sé í sjálfu sér rangt - og er það sannarlega siðferðilega þó hugsanlega sé slíkt löglegt, enda engum kannski dottið í hug að setja lög gegn eigin hag, og í grundvelli jafn rangt og að hóta gestafyrirlesara með eldskörungi.

Það eru þingmenn sjálfir sem hafa ógnað þinghaldi á Íslandi með ábyrgðarleysi, mútuþægni, aðgerðarleysi þegar aðgerða er þörf, aðgerða þegar aðgerðarleysi er þörf, skilningsleysi á mikilvægi þess að lög séu jöfn fyrir alla, þiggja laun fyrir ókláruð verkefni (svikin kosningaloforð), og þannig mætti sjálfsagt æra óstöðugan með margfalt lengri upptalningu.

Það þarf uppstokkun á Alþingi. Siðferðilega uppstokkun. Þar þarf að vera fólk sem skilur hvað heiður og mannvirðing er, ekki bara fólk sem kann að hlíða hegðunarreglum á Alþingi og kalla einhvern annan þingmann í einu orði háttvirtan og hálfvita í því næsta.

Ég veit ekki hvað skal koma í staðinn. Sjálfsagt utanþingsstjórn með úrvalsfólki (það er mikið af slíkum Íslendingum en þeir komast einfaldlega ekki að og hafa ekki áhuga á pólitískum sandkassaleik) sem vinnur að því að setja saman nýtt og betra Alþingi. 

Nímenningarnir ætluðu sér að flytja þá kröfu að þingmenn hypjuðu sig út af Alþingi og bæru þannig virðingu fyrir þeirri stofnun sem hefur því miður verið flekkuð af hagsmunapoturum í marga áratugi.

Það er sanngjörn siðferðileg krafa að heiðarlegt fólk setji lögin og heimspekilegt vandamál að þingmenn séu ekki enn búnir að fatta það, eða þá að þeir hafi þegar fattað það og vilji ekkert gera í málinu.


Hvernig munu "Iron Man 8", "Robin in da Hood" og "Die Hard 5" líta út?

Worth 1000 hélt samkeppni á dögunum þar sem gerð voru veggspjöld í Photoshop af framtíð vinsælla kvikmynda. Ansi gaman að efstu sætunum.

Textinn undir myndunum er næstum, en samt ekki alveg þráðbein þýðing.

 

3946696_7c43_625x1000

Þó að "Riðfríi stálmaðurinn" hljómi ekki alveg jafn vel, sér Tony Stark nú eftir vali sínu á hráefnum.

 

3949489_f243_625x1000

Hrói Höttur 800 árum síðar - útlagi verður bankamaður.

 

3948076_59a5_625x1000

Die Hard 5! Bruce Willis er gamli maðurinn sem harðneitar að deyja!

 

Tenglar: Worth 1000


Robin Hood (2010) *1/2

 

robin-hood-movie-poster

 

Hrói Höttur er sígild persóna. Flestir þekkja hann sem ref í teiknaðri Walt Disney útgáfu og margir muna enn eftir Kevin Costner í hlutverkinu sem "Robin Hood: Prince of Thieves" fyrir sautján árum. Besta kvikmyndin um hetjuna, að mínu mati, er "The Adventures of Robin Hood" frá 1938, en þar lék Errol Flynn aðalhlutverkið á eftirminnilegan hátt. Persónan hefur birst í meira en 100 kvikmyndum, og í sumum þar sem gert er miskunnarlaust grín að henni, eins og í "Robin Hood: Men in Tights" eftir Mel Brooks.

"Robin Hood" er leikstýrð af engum öðrum en Ridley Scott með Russell Crowe í aðalhlutverkinu. Cate Blanchett sem Lady Marion. Öll eru þau í eldri kantinum en maður er til í að kíkja á þroskaða túlkun slíkra listamanni á sögupersónu sem er meðal þeirra stærstu. Því miður, myndarinnar vegna, fannst mér ég stundum vera að horfa á "Monty Python and the Holy Grail," sérstaklega í atriði þar sem Robin er margoft kallaður "Sir Robert". Þeir sem þekkja Holy Grail kannast kannski við "The Tale of Sir Robin".

Þar að auki er kvikmyndatónlistin afar misheppnuð. Hún verður oft meira áberandi en sagan sjálf, en það er kannski vegna þess að sagan er kolflöt, og einfaldlega nauðgun á öllum fyrri sögum um Hróa Hött. Russell Crowe og öðrum leikurum tókst ekki að móta persónur sínar á áhugaverðan hátt, og í stað þess að berjast gegn spillingu milli Breta þar sem John prins er illmennið með ýmsa áhrifamenn á sínum snærum til að klófesta Hróa kallinn, eru þeir ekkert annað en peð í höndum landráðamannsins Godfrey (Mark Strong) sem reynir að koma á borgarastyrjöld í Bretlandi til þess að gefa Frökkum tækifæri á árangursríkri innrás.

Fullt af góðum leikurum leikur í þessari mynd. Helsta má nefna William Hurt sem ráðgjafa konungs og Max Von Sydow sem Walter Loxley, en af einhverjum ástæðum var ákveðið að Robert Loxley er ekki Hrói Höttur í þessari mynd, heldur smiðssonurinn Robin Longstride, sem fer í hlutverk hins fallna Robert Loxley, tekur sér eiginkonu hans, Mario (Kate Blanchett) og fær föðurlega sálfræðiráðgjöf hjá Walter. Helstu persónurnar úr sögunum eru til staðar, en þær eru hver annarri flatari. 

Þrátt fyrir allt er myndatakan yfirleitt mjög góð, sem og hvert einasta smáatriði sem á að stimpla inn tíðarandann. Það vantaði bara meiri kraft í þessa sögu. Það vantaði illmenni sem Hrói Höttur þurfti að kljást við og höndla með vitsmunum, kjarki og klókindum, en ekki bara aflsmunum og bogfimi. 

Þeir sem gera ekki of miklar kröfur til kvikmyndaleikstjóra eins og Ridley Scott og þeir sem hafa ekki hugmynd um hvað Hrói Höttur er, gætu haft gaman að þessu. En mér leiddist. Mér leiddist það mikið að ég leit þrisvar á úlnlið minn þar sem úrið átti að vera, en ég hafði gleymt henni heima. Það eru ekki góð meðmæli.

Þessi útgáfa af "Robin Hood" er álíka góð og "Transformers", án Megan Fox.

 

Í stað þess að sjá "Robin Hood" í bíó, kíktu á sýnishornið hér fyrir neðan. Það er miklu betra en myndin sjálf.


The Incredible Shrinking Man (1957) ***1/2

 

IncredibleShrinkingMan

 

 

"The Incredible Shrinking Man" er vísindafantasía eins og þær gerast bestar.

Hjónin Scott og Louise Carey eru á skemmtisiglingu á skútu þegar undarleg þoka læðist yfir þau á meðan Louise er inni í káetu að sækja bjór fyrir Scott. Þessi þoka hjúpar hann einhverju undarlegu efni.

Sex mánuðum síðar telur Scott að föt hans fari víkkandi, en gerir sér fljótt grein fyrir að það er hann sem fer smækkandi. Hann leitar læknishjálpar. Í fyrstu trúir læknirinn ekki að þetta sé að gerast, en getur síðan ekki litið framhjá staðreyndum þegar ljóst er að Scott smækkar töluvert í hverri viku. Vísindamenn fá hann í prófanir og gera sitt besta til að redda honum lyfjum. En ekkert virkar. Scott heldur áfram að smækka.

Loks þarf hann að flytja inn í dúkkuhús og uppgötvar þá að hans eigið heimili getur verið ansi hættulegt fyrir smávaxnar verur, sérstaklega þegar heimiliskötturinn samþykkir hann ekki lengur sem húsbónda heimilisins. Kötturinn hrekur Scott niður í kjallara þar sem hann hittir fyrir enn ógurlegri óvini ásamt því að halda áfram að smækka. 

Nú þarf Scott að aðlagast þessum nýja heimi til að komast af.

Hugmyndin er stórgóð og aðstæðurnar spennandi. Það er hægt að bæta heilmikið bæði dramað og tæknibrellurnar, en myndin er barn síns tíma, þó að hún sé mjög skemmtileg enn í dag. 

Það hefði til dæmis verið áhugavert ef fleiri persónur hefðu lent í þessari dularfullu þoku, og mönnum tækist að stofna nýtt samfélag sísmækkandi fólks, sem þyrftu í sameiningu að takast á við ógnir úr hversdagslífinu sem versna eftir því sem maður er smærri. Svona eins og síhækkandi skuldir þeirra sem skulda gagnvart þeim sem stöðugt græða meira á þessum skuldum. Halo

Ég man eftir atriðum úr þessari mynd síðan ég sá brot úr henni sem barn. Sérstaklega þótti mér bardaginn við kóngulóna vel útfærður og spennandi. Jafnvel flóttinn undan heimiliskettinum er spennandi og sannfærandi.


Date Night (2010) **1/2

 

date-night-poster

 

"Date Night" er gamanmynd sem er stundum svolítið fyndin, enda aðalleikararnir frekar góðir, en söguþráðurinn svo mikil vitleysa og allar aukapersónur svo flatar að myndin í heild er engan veginn eftirminnileg.

Steve Carrell er einn af mínum eftirlætis húmoristum. Mér fannst hann frábær bæði í "Get Smart" og "The 40 Year Old Virgin". Hann var líka góður í "The Daily Show" með Jon Stewart. Nú er hann góður, ásamt ágætri Tina Fey, en í stað þess að ná taki á mér fannst mér eins og leikararnir væru einfaldlega á vappi gegnum kvikmyndastúdíó, þar sem allt er fyrirfram ákveðið og öruggt. Frekar klisjukennt.

Hjónin Phil (Steve Carrell) og Claire (Tina Fey) lifa hversdagslegu lífi, en vikulega fara þau út saman til að krydda tilveruna. Eitt kvöldið skreppa þau á veitingastað í New York án þess að hafa pantað sér borð, og taka borð sem annað par var búið að panta. 

Skuggalegir gaurar reka þau frá borðinu og draga þau út í skuggastund, draga upp skammbyssur og halda að þau séu glæpapar sem stolið hefur minnislykli. Að sjálfsögðu rugla skúrkarnir saman hjónum og þjófum, en hjónin þurfa einhvern veginn að sleppa lifandi frá þessum gaurum og leysa glæpamál sem tengir saman mafíuforingann Ray Liotta og saksóknara New York borgar leikinn af William Fichtner í pervertaskapi. Einnig blandast inn í söguna Mark Wahlberg sem skyrtulaus ofurnjósnari.

Sagan er algjört aukaatriði, leikurinn líka, sem og allt annað fyrir utan þau Steve Carrell og Tina Fey. Þannig að spurningin verður, eru brandaranir þess virði að borga í bíó með barnapössun og öllu því sem fylgir. Svar mitt er nei. Leigðu frekar "Get Smart" og horfðu á hana aftur, eða það sem er enn betra, leigðu þér "Life of Brian" og horfðu á hana þrisvar sama kvöld.

Kíktu á "Date Night" þegar hún kemur á vídeó eða birtist í sjónvarpi. Ekki þess virði að sjá í bíó.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband