Færsluflokkur: Ljóð

Hvað er títt, herra forseti?

Nótt eina á Austurvelli vaknaði styttan af Jóni Sigurðssyni til lífs og hélt ræðu yfir sextíu og þremur rónum sem sátu undir stalli hennar og hlustuðu með misjafnlega mikilli athygli og gáfum. 

"Það er ekki allt Steingrími og Jóhönnu að kenna. Þau hafa engin völd vegna þess að þau hafa ekki kjark til að nýta þau mögulegu völd sem þau gætu haft til annars en að hlíða því sem þau áður kölluðu með ákveðinni fyrirlitningu, nýfrjálshyggjunni," sagði styttan af Jóni og rumdi illilega.

"Heyr heyr," sögðu rónarnir og fengu sér sopa.

"Ég hef ekki orðið var við tímabundið jafnvægi, annað en að gríðarlega há lán hafa verið tekin af ríkinu til að fresta skellinum mikla, flóðbylgju sem mun safna upp krafti með samskonar vöxtum og vaxtavöxtum og heimilin hafa þurft að þola, og þessi bylgja mun skella yfir þjóðina á næsta kjörtímabili, þegar kemur að skuldadögum. Vandanum hefur aðeins verið frestað. Þetta er lognið á undan storminum. Kannski við séum í auga fellibylsins?"

"Heyr heyr," sögðu rónarnir og fengu sér að ropa.

"Það er galið að hafa húsnæðislán verðtryggð í þessu ástandi sem nú ríkir. Þau eru ekkert annað en fjötur um fætur þeirra sem reyndu að eignast húsnæði á síðasta áratug. Er það virkilega glæpur sem fólk á að þjást fyrir árum saman, að þola verri örlög en glæpamenn sem dæmdir eru í fangelsi, eða þrælar fyrir daga frelsisstríðsins, og þá yfirleitt til skemmri tíma en húsnæðislánahelvíti með verðtryggingu, vexti og vaxtavexti sem krauma undir?"

"Heyr heyr," sögðu rónarnir raulandi.

"Réttlæti er mikilvægasta verkefnið í dag, það réttlæti að engin mannvera á þessari jörð þurfi að upplifa þrælkun, og þar sem við erum Íslendingar, sjálfstæðir Íslendingar, ættum við að einbeita okkur að því að enginn Íslendingur lifi við þrælkun, eða líði skort á frumþörfum eins og að vanta mat, klæði eða húsnæði. Þegar við erum öll orðin frjáls, getum við svo hjálpað umheiminum."

"Heyr heyr," hrópuðu rónarnir.

"Þegar peningar og markaðslögmál eru meira metin en sjálft mannslífið, þá erum við komin á villigötur, því að peningum og markaðslögmálinu er nákvæmlega sama um þig og þína velferð í lífinu, en ekki hinum manneskjunum, sama hvað þú hefur gert af þér. Jóni forseta er aldrei sama um þig, kæri Íslendingur, hvaðan sem þú kemur, sama hvað þú hefur gert, sama hvort þér sé sama um mig."

"Heyr heyr," sagði einn róninn á meðan hinir rifust.

"Og jú, ég hef fylgst með. Of mikið kannski. En ég hef fylgst með og mér hryllir við þeim hörmungum sem ég hef séð fyrir, og þeim afleiðingum sem skammsýnistefna fjármálakerfisins og ríkisvaldsins mun leiða yfir framtíð landsins, sem sífellt verður myrkari. Því óveðurskýin hrannast upp, og á endanum mun fátt standa eftir án skemmda."

"Vér mótmælum allir," sagði blaðsíða úr bók sem fauk framhjá styttunni af Jóni.


Skilningsleysi, heimska eða grimmd?

Unglingsstúlka sleppur naumlega undan manni sem hefur haldið henni niðri og reynt að nauðga henni. Hún sparkar í klof hans og hleypur undan. Hann eltir. Hún hleypur út á götu og reynir að stoppa bíla sem þjóta framhjá eins og þeim sé stýrt af vélmennum.

Í skugga undir brú liggur lögreglubíll í leyni og bíður eftir að einhver keyri nógu hratt framhjá. Lögreglumennirnir fölna þegar þeir sjá stúlku hlaupa í átt til þeirra og skuggalega veru á eftir henni. 

Stúlkan hleypur upp að lögreglubílnum og bankar í rúðuna. Móðan frá andardrætti hennar skyggir bílstjóranum sýn.

Lögreglumaður stígur út úr bílnum farþegameginn, hin situr kyrr, og sér hvar skuggalegi maðurinn stoppar eftirför sína.

"Hvað er eiginlega í gangi hérna?" spyr lögregluþjónninn.

"Hann... hann..." Stúlkan kom ekki upp öðru orði.

"Þetta er kærasta mín," sagði nauðgarinn og steig nær. Hann var klæddur vönduðum jakkafötum, og greinilega vel efnaður einstaklingur. Hugsanlega í áhrifastöðu.

"Hann... hann..." stamaði stúlkan með kökkinn í hálsinum og benti á myndarlegan manninn.

"Komdu heim," sagði þessi vel gefni og ríki maður.

Lögreglumaðurinn spyr nauðgarann: "Finnst þér ekki að við ættum að hlusta á hvað konan hefur að segja?"

Maðurinn hristi höfuðið. Lögreglumaðurinn kannaðist eitthvað við hann. Já! Hann hafði séð hann í sjónvarpinu. Margoft! Þetta var frægur maður. 

Stúlkan lyppast niður, hefur fallið í yfirlið. Lögreglumaðurinn grípur um handlegg hennar og segir henni að fara til nauðgarans.

"En veistu hvað hann hefur gert mér?" spyr hún grátandi djúpt í eigin hugarheimi og skilur ekkert í grimmd lögreglumannsins. "Þú ert nú eitthvað að ýkja þetta. Þú berð nú einhverja ábyrgð sjálf. Sjáðu kjólinn sem þú ert klædd í og þessa líka blómstrandi fegurð þína. Þú getur ekki kennt manninum um að vera mannlegur," sagði önnur rödd í huga hennar. Kannski var þessi veruleikafirrta rödd úr veruleikanum sjálfum. Hún gat bara ekki trúað því.

Án þess að sleppa henni, biður hún framtíð Íslands, vegsemd og von, að taka við stúlkunni, og sjá til þess að hún sé ekki að trufla lögregluna frá skyldustörfum sínum. Lögreglumaðurinn sest inn í bílinn og skellir á eftir sér, og stillir síðan hraðamælirinn upp á nýtt. 

"Um hvað var þetta?" spyr lögreglukonan í bílstjórasætinu. 

"Það er ungt og skemmtir sér," svarar lögreglumaðurinn og mælir einn á 107. Kveikt er á bláu ljósunum og sírenurnar settar í gang. Lögreglubifreiðin spólar af stað, stekkur yfir kant, og brunar á eftir hinum stórhættulega ökumanni, sem innan skamms verður einhverjum þúsundköllum fátækari.

Nauðgarinn tekur við stúlkunni og dregur hana inn í skuggann undir brúnni, þar sem hún öskrar og æpir á hjálp. Þeir sem heyra loka gluggum og hækka í græjum á meðan það versta gengur yfir.

 

 

Innblásið af dæmisögu Andreu Ólafsdóttur í Reykjavík Síðdegis: "Augljóst að ríkisstjórnin ætlar sér ekki að gera neitt."


Og það var fyrir hundrað árum...

DRAUMUR

Í nótt í döprum draumi
jeg dvaldi, er ljósið hnje:
Í garðinum mínum greri
grænlaufgað rósatrje.

En reiturinn bjarti breyttist
í blómsnauðan kirkjugarð,
döggsæla draumlilju beðið
að djúpri gröf þar varð.

Af trjenu blærinn tíndi
tárhrein og mjallhvít blóm,
og laufin ljósgræn hrundu
með lágum, blíðum hljóm.

Jeg safnaði öllum saman
í silfurblikandi ker;
til foldar, fyr en varði,
það fjell úr hendi mjer.

Úr brotunum dreyrgar daggir
mjer dreyfðust um barm og kinn.
- Hvað þýðir hinn dapri draumur?
Ertu dáinn, ástvinur minn? -

 

- Steingrímur Thorsteinsson, Óðinn, 1911


Haiku um ICESAVE

Æ say f... og Æ say f...
Æ say f... og Æ say f..., Æ say f...
og Æ say f... ICESAVE

Stafir íslenskrar tungu

Áði ég óður í óvissu túr

týndur, þögull, æfur, ör

Önug æra þín ýkt úr móð

Íslands þoku, vé


Undir ís

Undir ís

flæktur í vef

sökkvandi

 

hrópa tár

hljóðlaust frostið

umlykur vök

 

sólin köld

fálmar eftir

stífum fingrum


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband