Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingar um húsnæðislánþega: "Við eigum með almennum hætti að hjálpa þessu fólki"
1.2.2012 | 19:17
Það geta verið full rök fyrir að fara í þá aðgerð, en þá verða menn að horfast í augu við að það kostar peninga, það er ekki hægt að gera endalaust fyrir alla, og við erum að ræða fyrir hverja á að fara í almennar aðgerðir, af hverju, og hvað erum við tilbúin að kosta miklu til þess. Ég tel að það sé kynslóð hérna sem hefur orðið fyrir meiri áföllum en aðrar kynsóðir í Íslandssögunni. Hún verður fyrir því að kaupa húsnæði eftir ágúst 2004 þegar markaðurinn er á uppsprengdum verðum út af inngripum hins opinbera. Þetta er ungt fólk sem að fær lán fyrir næstum því fullu kaupverði, verður svo fyrir því alvarlega áfalli að það fellur fasteignaverðið, í öðru lagi hækka skuldirnar í verðtryggða kerfinu okkar gríðarlega á fyrstu árunum eftir kaup, og í þriðja lagi verða þau fyrir verulegri kaupmáttarskerðingu, og ég held að það hafi engin kynslóð orðið fyrir jafn mörgum áföllum í einu, og ég held að það sé algjörlega óhjákvæmilegt að við eigum með almennum hætti að hjálpa þessu fólki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2014 kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Til hamingju Sjálfstæðisflokkur! Ísland er ykkar!
21.1.2012 | 15:38
Til hamingju Sjálfstæðisflokkur! Ísland og Alþingi er þitt á nýjan leik. Fall ríkisstjórnar er óhjákvæmilegt. Stórmeistarafléttan í gær er það magnaðasta sem sést hefur í íslenskri pólitík síðan bakstunguhnífarnir fóru á fullt í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Ljóst er að flokksmenn annarra flokka gera sér varla grein fyrir hvað er í gangi og vita ekki að í gær var dagurinn þegar stjórnin tapaði völdum.
Afar snjallt að hafa bandamenn ofarlega í röðum flestra annarra flokka. Öðruvísi komast rétt mál ekki í gegn.
(Broskall gleymdist...)
(...ekki)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2014 kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Komast þau upp með þessa fléttu?
22.12.2011 | 19:00
Kjararáð úrskurðar tveimur dögum fyrir jól að þingmenn og ráðherrar skuli hækka um 5-15% í launum. Þetta kjararáð var kosið af sömu þingmönnum og ráðherrum 15. júní 2010.
Það er tvennt sem mér finnst athugavert við þetta:
1. Kjararáð úrskurðar um kjör hóps sem kýs kjararáð. Er þetta hagsmunaárekstur?
2. Úrskurður birtist tveimur dögum fyrir jól. Getur það verið tilviljun?
Er ætlunin að kæfa málið fyrirfram í jólaösinni? Þessi dagsetning lítur út fyrir að vera skuggalega vel valin og henta vel þingmönnum, ríkisstjórn og kjararáði, því allir verða búnir að gleyma þessu í janúar. Eða hvað?
Þetta lítur út fyrir að vera ein af birtingarmyndum spillingar. Vel skipulögð aðgerð, og sjálfsagt lögleg, en samt spillt.
Transparency International skilgreinir spillingu sem misnotkun valds fyrir eigin hagsmuni. Slík spilling getur gerst hvar sem er, og hægt er að flokka hana sem stóra eða litla, fer eftir því um hversu mikla fjármuni er að ræða og á hvaða sviði hún á sér stað. Það má reikna með að þetta sé stór spilling, enda erum við að tala um umtalsverðar launahækkanir fyrir alla þingmenn og ráðherra, sem sjálfsagt mun kosta ríkissjóð nokkra tugi milljóna á ári. Gaman væri að sjá útreikning á þeim kostnaði sem þessu fylgir.
Frétt frá Seðlabankanum í gær um að allt sé á bullandi uppleið. Jafn áreiðanleg frétt og um smjörkrísuna í Noregi. Stanslaus áróður úr íslenskum ráðuneytum um að allt sé á uppleið, á meðan fólkið lifir greinilega ekki í sama veruleika og þursarnir í fílabeinsturnunum.
Þetta minnir á þann hugsunarhátt sem kom kerfinu í koll árið 2008, þar sem eðlilegt þótti að hagræða hlutunum til að réttir aðilar högnuðust. Minnir svolítið á kúlulánin, einkavæðingu banka og ríkisfyrirtækja. Er þetta ennþá sama klíkan og ennþá að bara undir öðrum formerkjum?
Út Hávamálum:
Gráðugr halr,
nema geðs viti,
etr sér aldrtrega;
oft fær hlægis,
er með horskum kemr,
manni heimskum magi.
Launalækkun dregin til baka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2014 kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Olía á Drekasvæðinu?
23.11.2011 | 18:15
Frétt dagsins í Wall Street Journal er án nokkurs vafa niðurstaða rannsóknar á sýnum frá Drekasvæðinu við Jan Mayen. Niðurstöðurnar gefa tilefni til mikillar bjartsýni. Fundust þar 250 milljón ára steintegundir, en áður var talið að jarðvegurinn á þessu svæði væri of ungur til að olía hefði getað mótast. Nú hefur sú kenning verið afsönnuð.
Ég hafði spurt norskan sérfræðing í olíuborun um möguleika á olíu fyrir norðan Ísland fyrr á þessu ári og hann taldi algjörlega óhugsandi að einhverja olíu væri að finna á þessu svæði, af þeirri ástæðu að landið væri of ungt, það væri í mótun.
Mig hlakkar til að spyrja hann aftur.
Nú hlýtur næsta mál á dagskrá að vera afmáun spillingar úr íslenska stjórnkerfinu, til að þessi líklegi fundur verði ekki hagsmunaöflum einum að bráð, en það er mesta hættan fyrir sérhverja þjóð þegar nýjar náttúruauðlindir finnast.
Takist það eru þetta miklar gleðifréttir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2014 kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bylting í hugarfari ráðamanna?
20.10.2011 | 06:02
Fátækt, vændi, þrælkun, matvælaskortur og skuldafangelsi virðast vera vandamál sem þrífast á Íslandi í dag. Fáir vilja að slík fyrirbæri vaxi í samfélaginu. Það gerist hins vegar þegar umhverfið og forsendurnar gera það að verkum. Ástæðan sýnist mér afar einföld. En einfalda hluti er oft erfitt að sjá.
Djúpi vandinn sýnist mér vera að ríkisstjórn, stjórnmálaflokkar og þingmenn eru sífellt í leit að lausnum, á meðan þau ættu frekar að leita markmiða. Þau kafa ekki nógu djúpt. Reyna frekar að banna afleiðingar vandans heldur en að finna hinar raunverulegu forsendur og koma í veg fyrir þær.
Hagsmunasamtök heimilanna og forseti Íslands hafa verið dugleg að benda á forsendubresti. Valdhafar skilja hins vegar ekki skilaboðin sem annað en árás og heimtufrekju. Svona eins og þegar kirkjunnar menn ofsóttu vísindamenn sem töluðu fyrir nýrri og nákvæmari heimsmynd á miðöldum. Þegar skilningur er ekki til staðar, fer hinn skilningslausi bara í fílu og heldur að sá sem betur veit, eða betur þykist vita, sé bara fífl.
Mikið vildi ég óska að dýpkaði aðeins á skilningi ráðamanna, þeir hættu að leika sér í gæluverkefnum, byrjuðu á að skera niður eigin hroka, bættu við smá auðmýkt og forgangsröðuðu á skipulegan og skynsamlegan hátt.
Slíkt hef ég því miður ekki séð gerast hjá íslenskum stjórnvöldum, og væri slík beiting skynseminnar sú bylting sem þjóðin þarf á að halda í dag.
Vísa frá fjölskyldum vegna fjárskorts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2014 kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Vinstri stjórnviska: skattar, bönn og höft?
16.10.2011 | 08:59
Daginn sem Jóhanna kvað að hennar dagur hafi loksins runnið upp, varð mér ljóst að nú myndi hefjast tímabil skattlagningar og hafta, því það væri það eina sem vinstri stjórnir væru færar um. Af málflutningi vinstri manna síðustu ár var ljóst að forræðishyggjan hjá þeim væri rík, jafnvel hættuleg þar sem hún byggir meira á tilfinningum en rökum. Ég vil taka fram að ég álít sjálfan mig hvorki vinstri né hægri mann, þó að ég telji mikilvægt að mannfólk lifi sínu lífi frjálst og án of mikilla afskipta stjórnvalda. Stjórnmálastefnur pirra mig, þar sem þær eru á endanum ekkert endilega skynsamlegar eða hentugar mannlegu samfélagi.
Stjórnspeki virðist því miður snúa að því að finna leiðir til að halda völdum, hafa áhrif á fjöldan, sannfæra fólk um að eigin hugmyndir séu réttar frekar en að leita sannleikans; í stað þess að huga vandlega að almannaheill, finna leiðir til að gera forsendur fyrir lífi allra þegna ásættanlegar, gera öllum fært að vaxa og vera frjálsir, en jafnframt ábyrgir fyrir frelsi sínu.
Til er kínverskt orðtæki sem mér hefur lengi líkað:
"Gefðu manni fisk og hann hefur nóg að borða í einn dag. Kenndu manni að fiska og hann hefur nóg að borða alla ævi."
Bara að farið væri eftir þessu. Þegar mér verður hugsað til skattpyndingar og fjárkúgunar þeirrar sem á sér stað, sérstaklega á Íslandi í dag, finnst mér spekin orðin frekar öfugsnúin og grunn:
"Tökum mestallan fiskinn af manninum sem þegar kann að fiska og þannig verður ríkishallinn minni. Kenndu honum síðan að rangt sé að fiska og að þannig verndum við náttúruna. Flytji hann úr landi fæðast hvort eð er bara ný börn sem kunna ekki að fiska og ef við kennum þeim það ekki þarf ekki að banna þeim það."
Íslensk stjórnvöld pirra mig og hafa gert frá því ég var barn. Það er eitthvað djúpt að í íslenskum stjórnmálum, því að valdaklíkur virðast alltaf ná völdum, og félagslegur þroski þeirra einstaklinga sem með völdin fara virðist því miður takmarkast við fyrst og fremst eigin hagsmuni og síðan hugsanlega einhverjar línur úr hugmyndafræði eigin flokks.
Hér fyrir neðan má lesa smá öfugsnúna stjórnspeki frá einum helsta höfundi þeirrar vinstristefnu sem íslensk stjórnvöld virðast stefna að í dag, Vladimir Lenin, en sérstaklega Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir og Jón Bjarnason minna mig töluvert á þennan mann, svo mikið að ég velti stundum fyrir mér hvort hann sé fyrirmynd þeirra í stjórnmálum:
"Lygi endurtekin nógu oft verður að sannleikanum." (Skjaldborgin?)
"Bylting er ómöguleg án byltingarlegra aðstæðna; og nánar, ekki allar byltingarlegar aðstæður leiða til byltingar." (Búsáhaldabyltingin?)
"Hvaða kokkur sem er ætti að geta stjórnað landinu." (Flugfreyja?)
"Gefðu mér fjögur ár til að kenna börnunum og sæðin sem ég hef sáð verða aldrei upprætt." (Innræting?)
"Ef félagshyggja gæti aðeins orðið að veruleika þegar gáfnafar allra leyfir það, þá myndum við ekki sjá félagshyggju í að minnsta kosti fimm hundrað ár." (Forræðishyggja?)
"Það er satt að frelsi er verðmætt; svo verðmætt að því verður að skammta vandlega."(Öfugsnúið?)
"Einn maður með byssu getur stjórnað 100 sem eru óvopnaðir." (Löggan?)
"Stefna okkar þarf á áróðri trúleysis að halda." (Vantrú?)
"Besta leiðin til að eyðileggja kapítalískt kerfi er að spilla gjaldmiðlinum." (Krónan?)
"Markmið félagshyggju er kommúnismi." (Óvart?)
"Fjölmiðlar ættu ekki aðeins að vera samantekinn áróður og samantekin mælskulist, heldur einnig samantekinn skipuleggjandi fjöldans." (RÚV?)
"Það er ekkert siðferði í stjórnmálum; heldur er þar hver fyrir sjálfan sig. Skúrkur getur verið gagnlegur einfaldlega vegna þess að hann er skúrkur." (Satt?)
"Að reiða sig á sannfæringu, heilindi og aðra ágæta andlega eiginlega; það er að láta ekki taka sig alvarlega í stjórnmálum." (Spilling?)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2014 kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Af hverju efumst við ekki um ágæti þeirra sem gera okkur illt?
8.10.2011 | 10:23
Í gær sagði góður vinur minn mér að hann sé byrjaður að átta sig á hvað bankafurstarnir og stjórnmálaflokkarnir hafi gert íslensku þjóðinni. Hann hafi einfaldlega ekki viljað trúa því. Það tók hann fjögur ár að átta sig. Hann er afburðargreindur, stálheiðarlegur og traustur.
Ég er farinn að skilja af hverju réttlætið er svona seint í gang á Íslandi.
Við viljum ekki trúa illu upp á neinn, hvað þá upp á menn sem við höfum treyst ævisparnaði okkar fyrir. Við þurfum að geta treyst þessu fólki. Annars myndi sjálf tilvera okkar í samfélaginu riða til falls.
Sannleikur málsins og sjálft réttlætið verður að lifa af þá blekkingaleiki sem eru í gangi. Það er því mikið miklu meira um blekkingar en sannsögli í gangi, og blekkingarnar eru ansi sannfærandi. Sagan segir okkur að málsvarar sannleikans eru þeir sem verða yfirleitt undir, þar til mörgum áratugum síðar að sannleikurinn kemur í ljós, í sögulegu samhengi.
Vonum að hin íslenska þjóð nenni að rannsaka málið og greina hysmið frá kjarnanum, beiti gagnrýnni hugsun á upplýsingar sem hægt er að meta sem áreiðanlegar eða óáreiðanlegar, og átti sig á hvað græðgin hefur gert þessari þjóð, og hvernig hinum ranglátu tekst að réttlæta hið ranga með vísan í götótt lög.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2014 kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ætlar þessi ríkisstjórn aldrei að hlusta?
4.10.2011 | 08:00
"Að ríkisstjórnin hlusti."
Það er ljóst að stjórnvöld eru ekki að hlusta á fólkið, né þingmenn á hver annan, heldur þylja þau stanslaust sömu gömlu tuggurnar. Jóhanna neyddist til að taka við undirskriftum um 34.000 Íslendinga sem eggjuðu ríkisstjórn til að fella niður verðtryggingu og leiðrétta lán heimila sem hafa stökkbreyst eftir hrun, enda eggjuð til þess í beinni útsendingu í Kastljósi og samþykkti það þar. Hunsun hennar á skilaboðum þeim sem fylgdu undirskriftunum er hrópandi. Hún sagðist ætla að taka mið af þeim í setningarræðu sinni, en gerði það ekki.
"Fellið niður verðtrygginguna og lagfærið lán heimila."
Jafnvel forsætisráðherra sjálf skyldi mikilvægi þessa áður en hún komst til valda. Nú virðist hún vilja nota spennuna sem óréttlætið myndar til að þvinga þjóðina inn í ESB, sem er hin eina og sanna töfralausn Samfylkingarinnar. Steingrímur er ekkert skárri. Hann virðist trúa því að allt sé í allrabesta lagi. Hugsanlega fyrir hann sjálfan. Hann er í valdastól. Á sitt eigið heimili. Á hlut í fjármálafyrirtækjum. Það er augljóst hvoru megin línunnar hann stendur. Jóhanna er Samfylkingin. Steingrímur er Vinstri grænir. Aðrir þingmenn verða að hlíða stefnu þeirra og skipunum, annars verða viðkomandi hundeltir með skömmum.
Sumir þingmenn eru góðir, virðast hlusta á fólkið og eigin samvisku, en því miður er það svolítið einangraður hópur sem er hunsaður algjörlega af meirihlutanum. En það er nákvæmlega þetta fólk sem þjóðin vill að tekið verði meira mark á, skynsamt fólk sem hlustar á þjóðina, og á móti hlustar þjóðin á þetta fólk. Þessir hugrökku einstaklingar eru útundan á þingi og verða fyrir stöðugu einelti. Ég vildi að ég gæti hjálpað þeim einhvern veginn, en kann enga aðra leið en að skrifa þeim til stuðnings.
Lánin þarf að lagfæra. Slík lagfæring er ekki ölmusa. Fólk er ekki að betla. Fólk er að krefjast réttlætis. Lán heimila hafa hækkað gríðarlega. Hjá fólki þar sem endar ná ekki saman lengur, og upplifir sig á heljarþröm. Sífellt borgar fólkið meira og meira. Þessi peningur fer beint í feitar pyngjur. Það hefur jafnvel heyrst úr búðum stjórnarinnar að þeim þyki ekki eðlilegt að allir eignist eigið heimili. Aðrir kostir eru: að leigja og lifa við óöryggi vegna uppsagnatíma og vita það að tekjunum er fleygt út um gluggann í vasa þess sem á húsnæðið. Hinn kosturinn er að taka lán til að eignast húsnæði og þar með borga pening sem ætti að vera fjárfesting, en þess í stað reynist lánið vera rán á hábjörtum degi, fara beint í vasa einhvers gæja úti í heimi sem er nákvæmlega sama um íslenskt samfélag.
"Við krefjumst réttlætis!"
Hin afar vandaða Rannsóknarskýrsla Alþingis sannaði að lánin stökkbreyttust vegna þess að bankarnir voru rændir innanfrá. Fólk krefst réttlætis. Það er tvenns konar þetta réttlæti sem fólk krefst:
- Að glæpamönnum sé refsað
- Að skaðinn verði bættur
Hvort tveggja er mikilvægt, en mikilvægast er að skaðinn verði fólki bættur þannig að það geti farið að lifa eðlilegu lífi. Einnig er mikilvægt að sanna glæpina á glæpamennina og refsa þeim af hörku, bæði til að stoppa þá og vera öðrum víti til varnaðar. Hryllingurinn er sá að þetta fólk leikur enn lausum hala og heldur áfram uppteknum hætti.
"Ríkisstjórnina burt, eða að hún hysji upp um sig buxurnar, en ekki endilega nýjar kosningar!"
Þetta hefur verið margendurtekið. Hvorki Ríkisstjórn né Alþingi er treyst, hvorki stjórn né stjórnarandstöðu. Utanþingstjórn eða jafnvel þjóðstjórn virðast einu leiðirnar til að glitti í einhverja von.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2014 kl. 18:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Morfískeppni inni á þingi meðan trommað er á tunnur fyrir utan
3.10.2011 | 21:56
Hvernig getur nokkur heilbrigð manneskja talað um eigin hugmyndir og flokkshagsmuni á meðan fólk trommar fyrir utan þinghúsið? Flestir þingmenn láta eins og enginn sé þarna fyrir utan að óska eftir áheyrn.
Af hverju staldra þingmenn ekki aðeins við og bjóða fólkinu af torginu inn á þing, og leyfa þeim að taka þátt, hlusta á fólkið í stað þess að túlka sjálft sig þvers og kruss eins og þeirra eigin hugmyndir séu það eina marktæka í þessari veröld?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2014 kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eggið sem varð að hænu og mótmælin
1.10.2011 | 21:52
Þingmaður fékk egg í höfuðið. Hann datt. Vankaðist eitthvað. Allt í lagi. Ég vorkenni manninum. En þeta var bara eitt augnablik. Má þar af leiðandi túlka mótmælendur sem ómarktækan og ofbeldisfullan skríl? Varla.
Nú virðist fjallað meira um þetta eina stórhættulega egg í fjölmiðlum heldur en vanda heimila vegna forsendubrests og verðtryggingar. Eggið er orðið að hænu. Hænan verður fljótt að úlfi með þessu áframhaldandi.
Hvað er eiginlega að þeim sem setja fréttirnar saman? Eru þeir ekki alveg að átta sig á samhenginu? Á bara að horfa á dramatíska augnablikið, þetta sem vakti mesta athygli um stund, og gleyma ástæðunni sem knýr mótmælin áfram?
Hvar er rökhugsunin? Hvar er skynsemin? Hvar er tilfinningin fyrir því sem skiptir máli?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2014 kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)