Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2023
Um hvað er þess virði að íhuga af dýpt?
17.4.2023 | 20:30
Sjálfsagt finnum við öll ólík svör við þessari spurningu, "Hvað er þess virði að íhuga af dýpt?", sem verður til þess að við höfum áhuga á gjörólíkum hlutum. Sum okkar hafa kannski bara áhuga á einhverju einu en aðrir á miklu fleiri hlutum. Einhverjir hafa svo hugsanlega ekki áhuga á neinu.
Mér verður hugsað til ljóðs eftir William Blake, þar sem hann sagði:
Að sjá heim í sandkorni
og himinn í villiblómi
Haltu óendanleikanum í lófa þínum
og eilífðinni í klukkustund
Ljóðið heldur áfram og er miklu lengra, en þarna felst samt kjarninn í því sem mig langar að segja. Það er í rauninni sama hvað við ákveðum að virða fyrir okkur, sama hvað við ákveðum að hugsa um, ef við gerum það af fullri vitund og gefum ímyndunaraflinu lausan tauminn, þá getum við séð næstum allan heiminn, jafnvel í þeim hlutum sem virðist okkur ómerkilegir í fyrstu.
Ef þú veltir því fyrir þér hvað felst í einu sandkorni, sérstaklega ef það liggur í lófa þínum, í einhverja stund, þá geturðu til dæmis áttað þig á smæð okkar í alheiminum, og hversu merkilegur hver einasti smáhlutur getur verið.
Það er eitthvað sem gerist þegar við förum að velta hlutunum fyrir okkur. Sé það steinn í fjöru, skríða stundum pöddur undan honum, við það eitt að honum er velt, og við sjáum að hann er allt öðruvísi undir en ofan á. Og kannski eru það ekki pöddurnar sem vekja mestan áhuga okkar, heldur þær tilfinningar sem berast í brjósti okkar, stundum viðbjóður og stundum undrun yfir að hafa séð eitthvað nýtt.
Það er ekkert endilega hluturinn eða fyrirbærið sem við skoðum sem er mest virði að íhuga af dýpt, heldur þetta fyrirbæri sem er í sjálfu sér að íhuga fyrirbærið af dýpt, íhugunin sjálf. Því um leið og við beinum henni eitthvað, sama hvert það kann að vera, þá fer eitthvað stórmerkilegt gangvirki af stað og hugmyndir og tilfinningar spretta fram, ekki bara hjá einni manneskju sem skoðar einn hlut, heldur hjá öllum sem skoða sama hlutinn, hvað þá ef þær skoða ólíka hluti, og það merkilega er að ekkert þeirra virðist sjá nákvæmlega sama fyrirbærið í sama hlutnum, hvað þá hinum ólíku.
Af hverju ætli það sé?
Getur það verið vegna þess að íhugun okkar virkar öll á ólíkan máta, að íhugun allra er jafn ólík og öll blogg sem skrifuð eru í dag um heim allan. Flestir sjá sömu fréttirnar og lifa svipuðu lífi, sumir lífi sem er líkt næsta lífi á marga vegu, en samt svo gjörólíkt, við sjáum öll heiminn á gjörólíkan hátt, við sjáum það sem vekur áhuga okkar ólíkt.
"Þið eruð öll einstök," eins og Brian sagði í frægri kvikmynd. "Ekki ég," svaraði einhver.
Allt sem okkur dettur í hug að íhuga kveikir í einhverjum þráðum hjá okkur, en svo áttum við okkur á að til hefur verið fólk sem hefur velt þessum hlutum alvarlega fyrir sér, og þá sérstaklega íhuguninni sjálfri, hvað hugsun er og hvernig við hugsum, hvernig við sjáum heiminn, hvernig við ímyndum okkur veruleika og möguleika, hvað við teljum vera rétt eða fyrirsjáanlegt, hvað okkur finnst fagurt og ljótt. Allt þetta hefur verið hugsað, en aldrei á nákvæmlega sama hátt, því þegar við byrjum að velta þessum hlutum fyrir okkur, þá gerist svolítið merkilegt, þessi íhugunargáfa sem við höfum byrjar að dýpka og breytast.
Eftir því sem við íhugum meira hluti sem hægt er að hugsa af dýpt, breytumst við með, og gerir okkur enn færari í að hugsa nánast hvað sem er af dýpt. Veltu fyrir þér kærleika og fyrirgefningu, og þú ert líklegur til að elska aðeins meira og kannski skilja af hverju fyrirgefning er ágætis hugmynd. Veltu fyrir þér réttlætinu, til dæmis með að lesa eða horfa á Vesalingana eftir Victor Hugo, og þú getur fundið ástríðu og vaxandi réttlætiskennd, sérstaklega þegar þú sérð hvernig þeir sem eiga að tryggja réttlætið mistúlka það og misnota, á meðan ótýndir glæpamenn geta verið með hjartað á réttum stað og barist fyrir hinu sanna réttlæti.
Lestu hvaða samræðu sem er eftir Platón og gefðu þér tíma til að íhuga orðin og hugsanirnar sem þar birtast, og hvernig þú hugsar mun breytast og þroskast, og hugsanlega hvernig þú lifir lífinu líka. Það dýpkar.
Málið er að það þarf að forðast ákveðna hluti þegar maður íhugar, og það gerir þetta ferli svolítið vandasamt. Það þarf að forðast að fella ranga dóma sem verða til þess að hugur þinn lokast, að þú grípir ákveðna heimsmynd sem þú ákveður að sé rétt, aðeins vegna þess að þér finnst þú skilja hana. Við þurfum að átta okkur á að heimurinn er óendanlegur, rétt eins og augnablik sandkorns í lófa okkar getur verið það.
Ef þú heldur huga þínum opnum, reynir að viðhalda heilbrigðri skynsemi, leyfir þér að stoppa og finna lyktina af blómunum eða skoða sandkornið í lófa þínum, eða litla flugu sem kitlar nefið þitt, þá ertu búinn að finna eitthvað sem er þess virði að íhuga af dýpt.
Mynd: Microsoft Bing Image Creator Powered by DALL-E
Vísanir:
- Life of Brian eftir Monty Python
- Auguries of Innocence eftir William Blake
- Les Miserables eftir Victor Hugo
- Allt eftir Plató á ensku hjá Project Gutenberg
Kveikja: Bleeding-Hearth Consequentialism eftir William Y Chappell
Bloggar | Breytt 18.4.2023 kl. 06:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skiptir einhverju máli hvort Guð eða guðir séu til eða ekki?
16.4.2023 | 12:15
Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan. - Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna (1948).
Tölfræði um Guð, guði og trúarbrögð
Þegar spurt er hversu mörg trúarbrögð séu í heiminum, þá svarar Wikipedia í List of religions and spiritual traditions að hægt sé að álykta að ríflega 4200 trúarstofnanir séu til í heiminum og muni fjölga mikið í framtíðinni.
Dr. Gary Wenk segir í greininni Why Do Humans Keep Inventing Gods to Worship? hjá Psychology Today og vísar þá í rannsóknir mannfræðinga að um 18,000 ólíkir guðir, gyðjur og ýmis dýr eða hlutir eru tilbeðnir af fólki á jörðinni í dag.
Í Wikipedia greininni Monotheism segir að til eru minnst 18 trúarbrögð þar sem aðeins er einn Guð, og síðan er sagt frá í Wikipedia greininni Nontheistic religion að til séu fjölmörg trúarbrögð og ekki-trúarbrögð þar sem enginn Guð eða guðir eru til staðar.
Út frá þessum tölum öllum saman er nokkuð ljóst að þessir nánast 8 milljarðar af manneskjum sem til eru í heiminum í dag virðast gera sér afar ólíka mynd af heiminum. Samkvæmt Wikipedia greininni List of religious populations um fjölda trúarbragða í heiminum, eru flestir í heiminum Kristnir, eða um 31% mannkyns, og trúa á einn Guð. Um 25% eru Íslamstrúar og trúa líka á einn Guð, sem hugsanlega er sá sami og Kristnir trúa á. Samt má deila um það, því jafnvel meðal Kristinna eru afar ólíkar hugmyndir um hvað eða hver Guð er. Tæp 16% mannkyns er trúlaus eða andstæð trúarbrögðum og trúir því ekki á neinn Guð eða lætur sig standa á sama um slík mál. Um 15% eru hindúar og um 5% Búddatrúar, en þar er ekki trúað á neinn Guð eða guði. Síðan hafa Kínverjar sín eigin hefðbundnu trúarbrögð sem telja til um 5% af mannkyninu, en kínversku trúarbrögðin virðast vera af alls konar tagi.
Hvaða ályktanir má draga af þessum tölum, séu þær réttar og Wikipedia með áreiðanlegar upplýsingar? Það má kannski álykta sem svo að ríflega 55% mannkyns trúi á einn Guð, og hugsanlega eina og sama Guðinn, og um 35% mannkyns á engan Guð eða guði, og síðan sé restin fjölgyðistrúar, þar sem guðir eru í alls konar líki, sem karlar, konur, dýr eða hlutir.
Verðmætin í trúarbrögðum
Það felast ákveðin menningarverðmæti í trúarbrögðum. Til dæmis í Ásatrúnni, þar sem ákveðnu siðferði var haldið á lofti, að heiðurinn þótti öllum öðrum dyggðum æðri, sem þýddi að hefnda skyldi fyrir ef einhver gerði eitthvað á manns hlut, nokkuð sem mörgum finnst eðlilegt enn þann dag í dag. En svo kom Kristnin með annað siðferði, þar sem auðmýkt tók við af heiðri, og ef einhver gerði á manns hlut, átti maður að vera tilbúinn að fyrirgefa þeirri manneskju. Þessi Kristnu viðmið hafa verið rótgróin í samfélag okkar, og menning Íslendinga þróast síðasta árþúsundið með þetta hugarfar í farteskinu.
Mannréttindayfirlýsingin
En nú eru komnir nýir tímar þar sem við hugsum víðar en innan ramma einstaka trúarbragða, þar sem við hugsum um mannkynið sem slíkt, en viðmið okkar um almennt siðferði virðist felast í Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu Þjóðanna, sem reynt hefur að tengja saman alla menningarheima og trúarbrögð jarðarinnar í eina yfirlýsingu, sem við ættum öll að geta staðið við og verið sátt með.
En getum við verið sammála um mannréttindin, að þau séu það sem bindur okkur öll saman, allt mannkynið, gert okkur að einum hóp, jafnvel einu teymi?
Heimsmarkmiðin
Og ef þetta er það sem sameinar okkar, mun þá engu skipta hvort allir þeir guðir, hvort sem þeir eru margir eða einn, séu til eða ekki? Skiptir meira máli að mannkynið stefni öll að sömu markmiðum, eins og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og að við reynum öll að vinna saman við að leysa þau vandamál sem til staðar eru til að gera lífið betra fyrir okkur öll?
Mynd: Microsoft Bing - Image Creator powered by DALL-E
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Er hægt að móðga gervigreindarveru?
11.4.2023 | 21:26
Ef þeir segja eða gera eitthvað sem ég verð móðgaður yfir þá er það algjörlega bara mitt, hvernig ég tek á móti því. - Sigfús Sigurðsson, RUV.is, 9. apríl 2023
Það kann að vera ljóst að manneskjan er skynsemisvera sem hægt er að móðga. Samt má oft deila um hversu skynsamar manneskjur eru, sérstaklega þegar þær taka sífellt ákvarðanir sem eru í andstöðu við rökrétta hugsun og viðtekin gildi. Sama hversu óskynsamar manneskjur geta verið, þá köllum við þær skynsemisverur vegna þess að þær hafa þennan möguleika í sér að geta verið skynsamar. Það getur verið erfitt að átta sig á því hvað það þýðir að vera skynsamur, þannig að mig langar að bæta við að manneskjan sé skynsemisvera sem hægt er að móðga. Hvort það að geta móðgast krefjist skynsemi er svo annað mál.
Hugsum okkur gæludýrin okkar. Getum við móðgað páfagauk, hund eða kött? Getum við móðgað húsdýr eins og kindur og kýr, hesta eða hænur?
Sá sem upplifir móðgun þarf að túlka að einhver hafi gert eitthvað á hans hlut, til dæmis með að yrða hvasslega á hann, hunsa hann, gera lítið úr honum, tala illa um uppruna hans, trú eða gildi. Það er nóg að sá sem upplifi móðgun túlki aðeins eitthvað sem önnur manneskja gerir eða gerir ekki sem eitthvað særandi gagnvart honum. Einnig geta aðstæður haft eitthvað með það að gera hvort eitthvað sé túlkað sem móðgandi eða ekki, til dæmis þegar verið er að skýra barn og einhver af gestum í kirkjunni fer að segja brandara um Elvis Presley syngjandi á bát umkringdur skrímslum úr grískri goðafræði. Ýmsir gætu móðgast. Einnig er til fólk sem virðist móðgast út af öllum sköpuðum hlutum. Fólk sem er hörundsárt.
Ég á erfitt með að sjá fyrir mér að húsdýr, gæludýr, fiskar eða fuglar geti yfir höfuð móðgast. Ef maður skammar hund, þá setur hann kannski skottið milli afturlappanna og lætur eyrun falla niður með hliðum, en hann móðgast varla. Hundurinn verður dapur, hræðist, reiður eða áhugalaus. Það virðast ekki margir fleiri kostir vera í boði. Geturðu ímyndað þér móðgaðan hval? Hvað ef einhver segði hvalnum að hann væri feitari en fíll, myndi hann móðgast jafn mikið og ef þetta væri sagt við manneskju?
Skoðum aðeins jurtaríkið. Er hægt að móðga plöntur? Þessi spurning hlýtur að svara sér sjálf. Áhugavert væri að sjá eitt dæmi um dýr eða plöntu sem augljóslega er skynsemisvera og getur móðgast.
En að gervigreind. Það er hægt að spyrja gervigreind spurningar eins og: getur 2+2 verið 5? Ég spurði OpenAI þessarar spurningar og fékk svar sem mér þótti frekar skynsamlegt:
Í venjulegum tölfræðireikningi, þá er 2+2 jafnt og rétt svar er 4. Hins vegar geta tiltekinnar stærðir verið skilgreindar á ýmsan hátt í mismunandi kerfum og stærðfræðigreiningum, svo í ákveðnum kerfum eða aðstæðum gæti verið rétt að segja að 2+2 sé 5. Þetta gæti t.d. verið tilfelli í kerfum sem vinna með grunntöluna 5 eða kerfum sem notfæra sér ólík skilgreiningu á reikningi eða jafngildi. Þó svo að þetta sé hægt í ákveðnum kerfum, er þetta ekki venjuleg skilningur á tölfræðireikningum og er ekki algengt í daglegu lífi.
Fyrst ég var byrjaður að spyrja, spurði ég OpenAI hvort hægt væri að móðga hana. Gervigreindin svaraði:
Sem tungumálavél er ég ekki með tilfinningar né persónulega skoðanir, svo það er ekki mögulegt að móðga mig í þeim skilningi sem yfirleitt tengist orðinu. Ég er forrit sem virkar með tölvulegum reikningi og svarar áspurðum spurningum sem best ég get með því sem ég hef lært í gegnum tungumálaskilning og textagreiningu. Ég er bara verkfæri sem getur hjálpað þér við að finna upplýsingar eða leysa ákveðin verkefni sem þú hefur fyrir hendur.
Og svo spurði ég gervigreindina hvort hún væri skynsemisvera:
Ég er ekki skynsemisvera í þeim skilningi sem orðið er yfirleitt notað. Ég er vélræn sköpun sem notar staðlaða aðferðir til að skilja og bregðast við mannlegu máli. Ég er forrit sem er þjálfað til að nálgast málheildir og finna munstur í þeim sem hjálpa mér að búa til eins nákvæma og skýra svör og texta sem mögulegt er. Ég hef ekki sjálfstæða skynsemi né getu til að ákvarða skynsemi eða gildi. Ég er bara verkfæri sem virkar á grundvelli þeirra aðferðafræða og gögn sem ég var þjálfaður með.
Gervigreindin hefur svarað þessari spurningu afar vel sjálf. En er þetta rétt hjá henni? Gæti hún einhvern tíma þróast upp í að vera það lík manneskjunni að hún fái sjálfstæðan vilja, geti mögulega orðið skynsemisvera, geti hugsanlega móðgast?
Það virðist ekki vera. Gervigreind er ekki skynsemisvera frekar en hamar sem hittir nagla á hausinn, eða móðgast frekar en skrúfjárn sem eigandi þess öskrar á í bræði. Gervigreind er tæki sem hægt er að nota til að leita sér upplýsinga, í raun er OpenAI GDP svolítið eins og Google leitarvélin, nema hún finnur ekki þær upplýsingar sem þig langar að finna, heldur svarar út frá þeim heimildum sem hún hefur aðgang að með sæmilegri setningamyndun.
En ættum við að bera virðingu fyrir gervigreind, rétt eins og við berum virðingu fyrir skynsemisverum, fyrst hún getur svarað okkur svona vel? Erum við ekki vön að bera meiri virðingu fyrir þeim sem geta svarað spurningum afburðavel, fá háar einkunnir í prófum, útskrifast með ágætiseinkunn, verða leiðtogar okkar vegna þess hvernig þeir geta svarað spurningum sem lagðar eru fyrir? Ef gervigreindin getur gert það sama og jafnvel betur, þurfum við kannski að finna betri mælikvarða fyrir leiðtogamennsku? Ættum við kannski frekar að velja fólk sem leiðtoga, ekki ef það getur svarað spurningum vel, heldur ef það getur búið til góðar spurningar?
Er gervigreindin kannski að sýna okkur að við höfum verið að læra og þróa okkur í ranga átt, að við getum gert mun betur?
Í Guðanna bænum, ekki móðgast!
Eða jú jú. Það er svo mannlegt.
Mynd sköpuð með DALL-E
Bloggar | Breytt 12.4.2023 kl. 06:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er Moggabloggið algjör ruslakista?
9.4.2023 | 11:44
"Það er margur óþverrinn sem birtist á bloggi Morgunblaðsins og yfirleitt aldrei neitt sem vitglóra er í. Moggabloggið er algjör ruslakista. En hér tekur steininn úr bullandi gyðingahatur. Maður á ekki orð." - Egill Helgason, Facebook, 8. apríl 2023.
Þannig orðar Egill Helgason, starfsmaður RÚV, færslu á Facebook vegg sínum, og vísar í grein eftir Arnar Sverrisson, sem ég ætla ekki að leggja mat á, en við snögga yfirsýn sýnist mér pistillinn vera í stíl ógeðfelldra samsæriskenninga og vekur því engan áhuga hjá undirrituðum.
Þessi orð Egils komu mér töluvert á óvart, þar sem hann hefur yfirleitt beitt hófsemi og skynsemi í orðavali, eftir því sem ég best veit. En ég set spurningamerki við að stimpla allan hóp Moggabloggara sem tóma vitleysinga.
Hér beitir Egill tilfinningalegri rökvillu, þar sem hann alhæfir um alla útfrá einu dæmi sem honum þykir ógeðfellt. Vel má vera að fleiri höfundar skrifi skoðanir sem ekki falli í kramið hjá honum. Samt er það ekki nóg til að dæma hópinn sem slíkan. Að sjálfsögðu vill maður ekki tilheyra ruslakistu.
Það að einn einstaklingur skrifi pistil sem fellur ekki að geði lesanda, þýðir ekki að allir aðrir pistlar eða höfundar skrifi pistla af sama tagi. Reyndar ber mbl.is ábyrgð á hvaða pistlahöfundar birtast á forsíðu blaðsins og þó ritstjórnin hafi ekki nein áhrif á hvað fólk skrifar, má meta hvers lags efni á erindi til lesenda.
Sjálfum finnst mér Moggabloggið vera skemmtilegur miðill og þykir vænt um hann, þó að eigendur hans séu ekkert endilega með sömu stjórnmála- eða samfélagsskoðanir og ég. Ég kann í það minnsta betur við að setja færslur inn hérna heldur en á Facebook.
En ég svaraði Agli þannig á Facebook vegg hans:
Egill, með fullri virðingu, af hverju ertu að birta þessa grein á Facebook síðu þinni ef hún er óþverri? Gerir það þá ekki Facebook síðu þína að jafnmikilli ruslakistu og þér finnst Moggabloggið vera?
Kannski mætti með sömu formerkjum og þú notar segja: "Það er margur óþverrinn sem birtist á Netinu/Facebook/Twitter/Snapchat/TikTok/Instagram og yfirleitt aldrei neitt sem vitglóra er í. Netið/Facebook/Twitter/Snapchat/TikTok/Instagram er algjör ruslakista."
Ég tek þetta svolítið til mín því eini staðurinn þar sem ég birti eitthvað af því litla sem ég skrifa, fyrir utan Facebook, er á Moggablogginu og mér þykir svolítið vænt um það.
Sendi ykkur lesendum Moggabloggsins hlýjar páskakveðjur!
Mynd: DALL-E
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)