Bloggfærslur mánaðarins, mars 2023
Hvernig er fjármagn að færast frá lánum yfir á fjármagnseigendur?
23.3.2023 | 07:41
Þetta er eitt dæmi úr veruleikanum. Þau eru örugglega fleiri.
16. mars 2023 greiddi Íslandsbanki eigendum sínum 12,3 milljarða í arð. Sjá frétt.
Á sama tíma hafa mánaðarlegar greiðslur af húsnæðislánum hækkað um rúmar 100.000 af 30 milljón króna lánum og 200.000 af 60 milljón króna lánum. Þessar útborganir virðast fara beint í arðgreiðslurnar. Athugið að nú munu þessar tölur hækka enn meira þar sem stýrivextir eru komnir upp í 7.5% á Íslandi, og verðbólgan mælist yfir 10%.
Samt eru sumir að græða á ástandinu þó að langflestir séu að tapa miklu.
Af hverju fær þetta að viðgangast?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Er stéttaskipting á Íslandi?
18.3.2023 | 08:59
Í gær átti ég mjög góða samræðu við íslenskan framkvæmdastjóra og fjárfesti, en okkur greindi á um eitt atriði, það var svarið við spurningunni hvort stéttaskipting væri á Íslandi. Ég taldi augljóst að svo væri, og ekki bara það, að hún væri að nálgast hættumörk. En svarið var meira byggt á tilfinningu en skýrum rökum, og í dag hef ég ákveðið að velta þessu aðeins fyrir mér og skoða hvort eitthvað sé hæft í þessari tilfinningu minni.
Það voru þrenn rök sem ég hafði í huga þegar við ræddum saman. Ein rökin voru þau að þeir sem hafa auðinn á sínum höndum, og þá sem dæmi sægreifar og erfingjar þeirra, hafa skapað stétt sem ekki allir hafa aðgang að.
Annað sem ég hafði ég huga er að Hjálpræðisherinn og Samkaup bjóða fólki í neyð upp á mat hvern einasta virka dag, þar sem öllum þeim sem þurfa á að halda er boðið að borða í hádeginu, án þess að gert sé upp á milli þeirra sem koma, og þeim einnig gefinn einhver matur til að fara með heim. Samkvæmt heimasíðu Hjálpræðishersins mæta um 180 einstaklingar í mat hjá þeim daglega. Um daginn heyrði ég af fólki tengdu starfinu að fjöldinn hafi tvöfaldast síðustu vikur.
Það þriðja sem ég hafði í huga er hvernig verðbólgan og skortur á raunverulegri baráttu gegn henni er að ýta undir misskiptingu lífsgæða.
Viðmælanda mínum fannst líklegra að mikið væri um nepótisma á Íslandi eða frændhygli, þar sem fyrirtæki og stofnanir eru líklegri til að bjóða fjölskyldumeðlimum eða vinum störf, heldur en ókunnugum eða fólki úr verri fjölskyldum samfélagsins, fólki sem er þekkt fyrir að nenna ekki að leggja á sig vinnu og er ekki treystandi. Ég get auðvitað samþykkt að svo sé, en grunar að vandinn sé dýpri.
Stéttaskiptingu má skilgreina sem togstreitu um takmörkuð verðmæti í samfélagi, þegar einn hópur hefur aðgang að þessum verðmætum en annar ekki.
Þekktar eru sögur úr mannkynssögunni þegar slík togstreita endar í borgarastríði og byltingu. Franska byltingin kemur upp í hugann sem dæmi um slíkt og þegar drottning Frakklands Marie-Antoinette sagði þegar henni var tjáð að þeir verst stæðu hefðu ekkert að borða: Látum þau borða köku. Lítill fjöldi auðmanna hefur margoft þurft að verja sig gegn fjöldanum sem ekki sættir sig við ríkjandi ástand.
Aristóteles lýsir í fjórðu bók sinni um stjórnmál stéttaskiptingu þannig: Vegna þess að hinir auðugu eru yfirleitt fáir, en hinir fátæku margir, líta þeir út eins og illmennin í sögunni, og þegar einn eða annar hópurinn stendur uppi sem sigurvegari, er það sú stétt sem myndar ríkisstjórn. Í bók tvö um stjórnmál segir hann að fátækt sé foreldri byltinga og lýsir síðar í þeirri bók að aðallinn verði ósáttur við tilvistina vegna þess að þeir telji sig verðmætari þegna samfélagsins og þar af leiðandi eiga meiri heiður skilinn; og þetta sé það sem oft veldur uppreisn og byltingu. Hann lýsti þarna viðkvæmu siðferðilegu og samfélagslegu jafnvægi sem þarf að viðhalda, en hann telur það rangt fyrir hina fátæku að taka auðinn af hinum ríku og skipta honum upp á milli sín, eins og er aðferð kommúnismans, og einnig að rangt væri af hinum auðugu að gera almúgann fátækan. (Mín þýðing)
Ég held einmitt að hið síðarnefnda sé að gerast núna á Íslandi, að hinir auðugu og valdhafar í samfélaginu séu að valda aukinni fátækt. Alls ekki hver einasta slík manneskja, heldur stéttin sem slík. Það lýsir sér í viðbrögðum við hárri verðbólgu, að í stað þess að spyrna við henni er aukið við hana, og þar að auki eru stýrivextir misnotaðir gegn þeim sem minna mega sín. Bankar græða meira en nokkurn tíma áður á meðan heimilin blæða. Hver maður hlýtur að sjá hvert þetta stefnir.
Við sáum merki um stéttarbaráttu í verkföllum Eflingar um daginn. Mig grunar að ástandið muni versna enn frekar, vegna áhuga- og aðgerðaleysis stjórnvalda og þeirra sem meira mega sín, að við séum að nálgast þau mörk að fjöldinn geri uppreisn gegn hinum fáu auðugu; og þá verði hinir auðugu dæmdir af almúganum sem hin verstu illmenni, sem að sjálfsögðu verður ósanngjarn dómur, en gæti orðið að þeim ríkjandi dómi sem stýrir samfélaginu næstu árin, ef núverandi valdhafar átta sig ekki á veruleikanum.
Ég ákvað að biðja Open AI að hjálpa mér að svara spurningunni sem ég bar upp í fyrirsögninni, Er stéttaskipting á Íslandi? og bætti við Rökstyddu svarið með tölum frá Hagstofunni, og svarið sem ég fékk á innan við sekúndu var þannig:
Já, á Íslandi er stéttaskipting. Hagstofan birti upplýsingar um stéttaskiptingu í janúar 2021 og sýndi síðan niðurstöðuna:
- Yfirstétt (stjórnendur, fagaðilar og hátt menntað starfsfólk): 15,8% af öllum launaða starfsmönnum
- Millistétt (meðalmenntað og einfalt starfsfólk): 76,7% af öllum launaða starfsmönnum
- Lágstétt (ókyrrðar- og einföld starfsfólk): 7,5% af öllum launaða starfsmönnum
Vel svarað af gervigreindinni og erfitt að þræta fyrir þetta!
Það sem mig grunar að gerist með verðbólgunni og stýringu vaxta eins og verið er að gera í dag er að millistéttin er að minnka hraðar en mælingar sýna og sé að flytjast yfir á lágstéttina. Skellurinn kemur að sjálfu sér ekki fyrr en fastir vextir losna og fólk sér fram á að eiga ekki lengur fyrir skuldum. Það er hin fræga snjóhengja sem í augnablikinu hangir yfir bæði millistétt og lágstétt, en yfirstéttin virðist ekki sjá hana, enda á fullu að að hámarka gróðann.
Ég spurði Open AI annarrar spurningar: Er hættuleg stéttaskipting á Íslandi í dag? og fékk afar flott svar sem ég læt fylgja með, en lagfæri samt einhverja stafsetningu:
Í almennum dráttum er ekki hægt að fullyrða hvort stéttaskiptingin á Íslandi í dag sé hættuleg eða ekki, þar sem það er rökstudd ályktun sem fer eftir mismunandi sjónarhornum og skilgreiningum á hvað stéttaskipting er. Hins vegar eru til ákveðnar hættur sem geta fylgt með mikilli og ójafnri stéttaskiptingu, svo sem hækkandi fjöldi fátækra, vaxandi mismunur á tekjum og auðlindum milli stéttanna, minna jafnrétti og félagsleg samheldni, auk þess sem þetta getur haft neikvæð áhrif á heilsu og velferð fólks í lægri stéttum. Íslenska samfélagið vill vera þekkt fyrir að vera bæði gagnsætt og jafnt, og jafnrétti, félagsleg samheldni og velferð fólks eru mikilvæg gildi í íslensku samfélagi. Því er mikilvægt að reyna að minnka mismun milli stétta, örva jafnrétti og félagslega samheldni. Þetta er áskorun sem er stöðugt á dagskrá íslenska samfélagsins og kröfur eru gerðar til stjórnmálanna og atvinnulífsins að takast á við þessar áskoranir og vinna að velferð og jafnrétti allra þegna samfélagsins.
Ég er í sjálfu sér algjörlega sammála þessu svari og finnst það skynsamlegt, en það sem vekur áhyggjur mínar er að mér sýnist sífellt halla meira á gagnsæi og jafnrétti.
Vísbending um skort á gagnsæi er málið um Lindarhvol, þar sem alþingismönnum er beinlínis bannað að leggja fram fyrirspurnir um málið á Alþingi. Ég hef aldrei heyrt annað eins! Samkvæmt grein 48. stjórnarskrárinnar eru alþingismenn eingöngu bundnir við sannfæringu sína. Samkvæmt þessu er þeim frjálst að spyrja um hvað sem er á þingi, það að Alþingi kjósi sér forseta sem stýrir störfum þess er í 52. grein, sem þýðir að 48. grein ræður, því eftir því sem að grein stjórnarskrárinnar er hærri í listanum, hefur hún meiri völd en þær síðari. Þannig má enginn banna fyrirspurnir um nokkuð mál í þingsal og hið eina rétta af þingmönnum sem hafa fengið slíkt bann er að spyrja samt um málið.
Hugsanlega er ástæðan sú að stjórnvöld standa í málarekstri við einkaaðila og því geta þessar upplýsingar verið viðkvæmar, en fjandinn hafi það, varla svo viðkvæmar að þingmenn og almenningur fái ekki að heyra þær? Einnig var ferlið þar sem hluti af Íslandsbanka var seldur með vafasömum + hætti vísbending um að gagnsæi sé ekki lengur til staðar meðal íslenskra stjórnvalda, og nú hefur almenningur sífellt sterkari tilfinningu fyrir að verið sé að fela eitthvað og ljúga, sem getur varla verið gott fyrir samfélagið og traust innan þess til lengri tíma.
Hin vísbendingin er um jafnréttið og auðinn. En það er útlit fyrir að það sé farið að fjölga í lágstéttum og þeir sem fara með völd virðast ekki sjá neitt að í samfélaginu, þó að einhverjar raddir í minnihlutanum, þá sérstaklega Þorgerður Katrín, hafi orðið var við þennan halla og sífellt spurt, án þess að fá nein vitræn svör. Þorgerður hefur verið í stöðu þeirra sem stjórnuðu og hunsuðu varnaðarmerkin rétt fyrir Hrun, en hún virðist hafa lært mikið af reynslunni og gerir nú sitt besta til að vekja athygli á því að ekki er allt í allrabesta lagi í samfélaginu, að hættumerkin séu til staðar, að það þurfi að bregðast við. En svo virðist samt vera að vegna þess að hún er í minnihluta á þingi að meirihlutinn hafi ákveðið að hlusta ekki á hana og svara fyrirspurnum hennar með innihaldslausu rausi. Sem þýðir aðeins eitt, fleiri þurfa að spyrja þessara spurninga. Það skiptir ekki máli í hvaða flokki það fólk er, það sem skiptir máli er að við sjáum vísbendingar um hvað er að gerast og bregðumst við þeim.
Það þarf að berjast gegn verðbólgunni án þess að minnka hóp millistéttarinnar og stækka hóp þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu. Reyndar væri réttast að útrýma fátækt eins og sjálfbærnimarkmið segja til um lögum samkvæmt.
Það er tími til að bregðast við. Sá tími er núna. En núna er fljótt að líða hjá og verða að því sem var. Ekki verða að fórnarlambi eigin mistaka og aðgerðarleysis. Horfum í staðreyndirnar, sjáum hvað er að gerast og bregðumst við áður en snjóhengjan fellur og snjóflóð ríður yfir borg og byggð. Það viljum við ekki.
En já, ef þú misstir af því í þessari langloku, þá er svarið já, það er stéttaskipting á Íslandi og merki um að hún sé að þróast í hættulega átt.
Mynd: DALL-E 2
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvernig fáum við valdhafa til að berjast gegn verðbólguvánni?
17.3.2023 | 07:14
Það eru furðulegir dagar á Íslandi í dag. Verbólga er yfir 10%, sem þýðir að manneskja sem hefur fengið 1000 kall að láni þarf að borga rúmar 1100 til baka líði ár, sem þýðir að ef hún hefur 10 milljónir að láni verður lánið orðið að meiru en 11 milljónum eftir eitt ár.
Talað er um að þetta sé ástand sem varð bara til vegna aðstæðna úti í heimi og í tengslum við Covid-19; en svo sést að þeir sem geta spyrnt við fótum virðast ekki hafa agann til þess, heldur þvert á móti kasta eld á verðbólgubálið.
Vissulega hækkaði eldsneytið mikið þegar stríðið í Úkraínu hófst, og ljóst er að það er meginforsendan fyrir gríðarlegri verðbólgu. Á Íslandi er eldsneytið dýrt, mun dýrara í flestum öðrum löndum heims, og á síðasta ári hefur það hækkað gríðarlega. Hækkunin hefur orðið til þess að kostnaður við að flytja inn aðföng hefur aukist og að verslanir hafa séð sig knúnar til að hækka vöruverð sitt, sem hefur orðið til þess að íslenskir viðskiptavinir, rétt eins og fyrirtækin, leita út fyrir landsteinana með vörukaup sín. Því af hverju ætti almenningur ekki líka að bregðast við þessum verðhækkunum?
Fyrirtæki og heimili sem skulda 1 milljón horfa fram á að eftir ár verði skuldin orðin að 1.1 milljón. Þetta þýðir að ef skuldin er 100 milljónir í ár, verður hún rúmar 110 milljónir að ári, það er að segja sé skuldin verðtryggð. Það er ennþá aðeins hagstæðara að vera með óverðtryggð lán, en 100 milljóna skuld af óverðtryggðu með bestu hugsanlegu kjörum verður að 108 milljóna skuld eftir ár. Hvert einasta hálfa prósent í stýrivaxtahækkunum virkar nefnilega ekki eins og í fyrri verðbólgum, því það er ekki verið að ráðast á orsök vandans, heldur er fólk sem skuldar að upplifa sig í greiðslugildru sem erfitt er að losa sig úr.
Það er hægt að tala um lausnir sem munu eiga sér stað á næstu árum, en ef þú ert við völd í dag og sérð að fólkið er í vanda, ekki bara þeir verst stöddu, heldur allir sem hafa tekið lán, þá þarftu að taka á vandanum strax í dag, ekki á morgun. Það þýðir ekki að setja fætur upp á borð, klóra sér í hausnum og vonast til að þessir hlutir reddist, heldur verðum við öll að gera okkar besta til að taka á þessum vanda. Málið er að vandamálin sem við sjáum ekki og gerum ekkert við eiga það til að vaxa og verða verri, og að því kemur að þeir sem hafa völdin til að gera eitthvað standa fyrir slíkum vanda að þeir geta ekkert lengur gert.
Það sem þyrfti að gera strax í dag er að minnka skatta og gjöld tímabundið, gera eins og Norðmenn sem þó eru þekktir að hafa gríðarlega mikla skatta á þegnum sínum, gefa eftir skatta á veggjöld tímabundið og hafa þak á húsaleiguhækkunum.
Það mætti jafnvel taka til baka alla þá skatta og öll þau gjöld sem lögð voru á síðustu áramót. Það væri frekar sársaukalaus aðgerð. Það kæmi minna í ríkiskassann og stofnanir þyrftu sjálfsagt að herða beltisólarnar, en það er nákvæmlega það sem seðlabankastjóri hefur beðið um að verði gert, að við vinnum öll saman í þessu. Ekki taka þetta sem gagnrýni á núverandi stjórnarhætti, heldur vinsamlegar hugmyndir um hvað hægt er að gera áður en það verður of seint. Og fljótlega verður það of seint.
Það er erfitt að skilja hvers vegna ríkisstjórnin sýnir áhugaleysi gagnvart þessum málum og aðeins örfáar raddir í stjórnarandstöðu tali um þetta, sem skiljanlega reyna stöðugt að vekja athygli á þessu vandamáli. Kannski er það ekki til að vinna sér inn pólitíska punkta, kannski er vandinn raunverulegur og þau vilja að fólk sem geti spyrnt við opni augun.
Þegar við sjáum snjóhengju stækka yfir bæ og byggð, þá hljótum við að velta fyrir okkur hvort við ættum ekki að bæta í snjóflóðavarnirnar eða jafnvel rýma byggð þar til snjóhengjan hefur bráðnað eða fallið. Ef ekkert verður gert geta hörmungar átt sér stað. Við getum skipulagt okkur áður en miskunnarlaus náttúran tekur völdin. Miskunnin er nefnilega á okkar valdi.
Verðbólgan er ekki af náttúrunnar hendi, hún er mannanna verk, en hún er lík þessari snjóhengju sem virðist hanga þarna efst í fjallinu. Bæjarstjórinn gæti yppt öxlum og sagt að hún sé alltof langt í burtu, að ekkert slæmt hafi gerst í 30 ár, þetta reddist. Þegar snjóflóðið loksins skellur á og hrífur með sér hús og líf þeirra sem í þeim búa sjáum við að eitthvað hefur gerst sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir, segja sumir, en þeir sem sinntu ekki eigin ábyrgð segja sjálfsagt fölir í sjónvarpsviðtali: það var ekki hægt að sjá þetta fyrir.
Þannig er með verðbólguna og áhrif hennar. Núna er tíminn til að gera eitthvað í málunum. Seðlabankastjóri hefur sent út skilaboðin, það er bara eins og enginn hlusti á hann. Hann virkar svolítið eins og lögreglustjórinn í "Jaws" sem varar bæjarstjórnina við, segir þeim að loka bænum vegna hákarlahættu, en ekkert er gert fyrr en harmleikur hefur átt sér stað, og jafnvel þá er ekki nóg aðhafst.
En tækifærið er núna. Það má lækka skatta og fyrir þá sem telja gjöld ekki vera skatta, þá má lækka gjöldin líka. Þessar lækkanir mega vera tímabundnar og geta þýtt að minni peningur streymir sjálfkrafa inn í ríkissjóð.
Því það sem gerist í augnablikinu með stýrivaxtahækkunum er að fólk sem er að greiða af húsnæðislánum á óverðtryggðum lánum þarf að borga mun hærri upphæðir en það ræður við. Það vilja allir standa við skuldbindingar sínar, en það sem gerist í raun með stýrivaxtahækkunum er að bankarnir velta allri ábyrgð yfir á þá sem hafa tekið lánin, fá miklu meira í eigin vasa og borga út miklu meiri arð. Það er örugglega ekki það sem seðlabankastjóri hafði í huga með auknum stýrivöxtum, en það er það sem er að gerast. Þeir eru ekki að breyta hegðun þeirra sem þurfa að breyta hegðun sinni, heldur eru þeir að kúga þá sem geta síst varið sig.
Ég vil skora á þá sem sjá þennan augljósa sannleik að tala þessu máli, vekja athygli á því, og ef þetta er nógu vel skrifað og skýrt, endilega deila. Fáum vini okkar með til að gera þetta frábæra samfélag sem við lifum í ennþá betra, þetta samfélag nýsköpunar, með dugnaðarfólki sem stöðugt gerir heiminn betri með eigin verkum, fáum þá sem stjórna landinu til að skilja hvað er að gerast. Og ef þau skilja það, fá þau til að sýna málinu áhuga og gera það sem þarf að gera, ekki á morgun, ekki í fyrradag, heldur í dag. Lifa í núinu sko.
Tíminn líður. Klukkan slær. Við getum ekki stoppað það. En við getum bætt aðstöðu okkar með sameiginlegu átaki. Það getur kostað einhver átök, en við þurfum að passa upp á hvert annað.
Mynd: DALL-E 2
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvernig stöðvum við verbólguna?
16.3.2023 | 08:06
Eftir örstutta rannsókn með Open AI - Chat, sem stakk upp á að tvennt væri hægt að gera til að berjast við verðbólgu, annars vegar væri það að hækka stýrivexti, nokkuð sem Seðlabanki Íslands hefur nú gert 11 sinnum án þess að það sýni mikinn árangur. Hin leiðin sem gervigreindin stakk upp á varr að hámarka verð á vörum, það er setja neyðarlög þar sem til dæmis væri tímabundið bannað að hækka leiguverð, bankavexti, matreiðsluvörur, húsnæði, eða alls konar vörur og þjónustu sem eru of dýrar, þar til verðbólgumarkmiðinu hefur verið náð. Það er ekki góð leið.
Hvaða afleiðingar hefði það að banna hækkun á vöruverði almennt? Gervigreindin var spurð, og hennar svar að það myndi sjálfsagt skaða einhver fyrirtæki og minnka framboð á þeim vörum sem til staðar eru. En málið er að ef megin grundvöllurinn á bakvið verðbólguna er vöruskortur, þýðir það ekki að átak þurfi í að gera að framleiða þær vörur sem vantar? Ef það kostar svona mikið að flytja vörurnar inn til landsins, þyrftu landsmenn þá ekki að keppast um við að skapa fyrirtæki sem bjóða fram þessar vörur? Væri þetta tækifæri til að styðja nýsköpun enn frekar?
Af hverju ætti það ekki að vera mögulegt? Þyrftum við að greina hvaða erlendu vörur það eru sem hækka svona mikið vöruverðið hjá okkur? Við vitum að heimsmarkaðsverð á bensíni hefur hækkað mikið, en einnig álögur íslenskra stjórnvalda á þessari vörutegund.
Þýðir það að kannski væri réttasta leiðin að finna leiðir til að lækka gjöld og skatta á fólk tímabundið, kannski tímabundið?
Norðmenn stoppuðu vegaskatt í landi þeirra fyrir árið 2023 og hafa sett þak á húsnæðisleiguverð. Hollendingar hafa sett þak á húsnæðisleigu og lagt aukaskatt á þá sem eru að leigja út íbúðir sem þeir nota ekki sjálfir sem eigið heimili. Svo má lengi telja. Ríkisstjórnir víða um Evrópu hafa brugðist við ástandinu af skynsemi og festu, sem hefur dregið úr heimatilbúnni verðbólgu.
Íslenska ríkisstjórnin hefur hins vegar brugðist. Það er ljóst. Hún hækkaði meira að segja álögur um áramótin í stað þess að setja þær á salt eins og hvert mannsbarn sér að þurfti að gera. Samt getur hún ennþá bætt úr ráði sínu, verið okkar Herkúles í þessum bardaga við skrímslið verðbólguna sem á okkur herjar, en það lítur í augnablikinu út fyrir að þar skorti samstöðu og vilja. Kannski er það vegna þess að alþingismenn og ráðherrar finna ekki fyrir ógninni á sama hátt og venjulegt fólk? Kannski hafa allir sem sitja á hinu háa alþingi lokið við að greiða sín lán og skulda ekkert lengur, enda með laun sem gera þeim fært að safna í sarpinn. Hver veit?
Það er ljóst að miklar áskoranir eru til staðar og nú er þörf á að lyfta Grettistaki til að vernda þá sem þurfa vernd. Rangt væri að flokka þá sem þurfa vernd eftir einhverjum eiginleikum sem þeir hafa, aldri, kyni, þjóðerni, eða jafnvel aðstæðum, heldur þarf að finna raunhæfar leiðir til að skera á verðbólgu og stýrivexti, ekki eftir einhverja mánuði eða ár, heldur strax í dag, áður en afleiðingarnar og skaðinn verða að óafturkræfum skaða.
Við ættum að beita kröftum okkar gegn þeim ógnum sem að okkur steðja. Sama þó að sumir séu í vari, þá er það skylda okkar sem samfélag að vernda alla þegnana jafnt. Annað er brjálæði.
Mynd: DALL-E 2
Bloggar | Breytt 17.3.2023 kl. 06:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)