Bloggfærslur mánaðarins, október 2023
Um skyldusiðfræði og nytjahyggju
31.10.2023 | 07:32
Eftir samræðu í gær fór ég að velta fyrir mér íslensku siðferði, hvað það væri sem stýrir hegðun okkar meira, skylda okkar til að gera það sem við trúum að er gott og rétt, eða afleiðingar þess sem við gerum.
Heimspekingar hafa lengi deilt um það hvor viðmiðin séu betri til að taka réttar ákvarðanir, skyldusiðfræðin eða nytjahyggjan.
Skyldusiðfræðin byggir ákvarðanartöku ekki á afleiðingum þess sem við gerum, heldur á það sem við trúum að sé skylda okkar og í samræmi við lífsreglur okkar. Helsti leiðarvísirinn eru setningar eins og þessar: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig, og Ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér.
Nytjahyggjan byggir ákvörðunartöku hins vegar algjörlega á afleiðingum þess sem við gerum eða gerum ekki, og grundvallarhugmynd hennar er að rétt ákvörðun sé sú sem skapi mestu gæðin fyrir sem flesta. Þetta hefur verið mikið gagnrýnt, sérstaklega í ljósi þess að oft gætu komið upp þannig aðstæður að einhverjum manneskjum og lífum getur verið fórnað til þess að aðrir hópar verði farsælir í lífinu.
Hægt væri að nota nytjahyggju til að réttlæta hluti eins og fátækt og hungur, svo framarlega sem að meirihlutinn græði á því, en skyldusiðfræði gæti aldrei samþykkt hluti eins og fátækt og hungur, heldur myndi berjast gegn slíkum fyrirbærum með öllum tiltækum ráðum.
En svo má spyrja hvort ekki væri hægt að splæsa þessum tveimur kenningum saman, reyna að gera alltaf það sem er rétt, eða skyldu okkar, auk þess að velta fyrir okkur afleiðingum þess sem við gerum. Ef við sjáum að það sem við ætlum að gera kemur til með að valda hörmungum, þó ekki nema hjá einni manneskju, væri ekki þess virði að leita betri leiða?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um að bæta hegðun okkar og hugsun
30.10.2023 | 07:40
Það er sífellt eitthvað sem við getum bætt í okkur eigin lífi, en til að bæta okkur á ákveðnu sviði þurfum við að þjálfa okkur, venja okkur á þessa góðu hluti.
Að minnsta kosti síðustu 2000 árin hefur verið talað um að ef við viljum bæta okkur á einhverju sviði, þá veljum við eitthvað til að gera sem er í samhljómi við það sem við viljum bæta, og gerum það svo í þrjátíu daga, en eftir þrjátíu daga verður þetta orðið að vana, hluti af okkar daglegu rútínu.
Ef við viljum bæta heilsu okkar, til dæmis, þá getum við valið að venja okkur á einhvers konar líkamsrækt eða mataræði, eða hugsunarhátt sem getur hjálpað okkur.
Betra er að byrja smátt.
Til dæmis getum við valið að ganga 1 km hvern dag 30 daga í röð, og þegar okkur hefur tekist það, ekki hætta því, heldur bæta við einhverju öðru, eins og til dæmis að borða einn ávöxt á dag í 30 daga, og eftir það til dæmis ákveðið að sleppa gosi eða nammi úr mataræðinu næstu 30 daga á eftir.
Síðan getum við breytt þessari hegðun eins og við treystum okkur til, við gætum til dæmis lengt gönguna í 2 km eða ákveðið að ganga mjög rösklega, eða jafnvel byrjað að skokka þessa vegalengd.
Byrjum á einhverju sem við ráðum auðveldlega við, og bætum smám saman við.
Þetta á við um allt sem við gerum. Ef við viljum vera rithöfundar þurfum við að skrifa hvern dag. Ef við viljum hugsa betur þurfum við að gefa okkur tíma til að hugsa hvern dag. Ef við viljum verða húsasmiðir þurfum við að iðka þá iðn hvern dag með einhverjum hætti, og þar fram eftir götunum. Ef við viljum vera auðug manneskja, venjum við okkur á að leggja smá pening til hliðar hvern einasta dag, taka aldrei lán og fjárfesta síðan í einhverjum fyrirtækjum sem eru líkleg til að vaxa til lengri tíma.
Við verðum nefnilega það sem við gerum, og getum sjálf ákveðið hvað við gerum. Það er kjarninn í frelsinu sem við höfum. Samt höfum við ólíkar tilhneigingar, eiginleika og langanir sem við þurfum að hlusta á. Við getum nefnilega ekki öll verið best af öllum í því sem við tökum okkur fyrir hendur, en við getum svo sannarlega orðið betri á morgun heldur en við erum í dag. Það krefst aðeins þess að við hugsum um það sem við gerum, og gerum það vel sem við ákveðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um heimspekinga og leit að visku og skilningi
29.10.2023 | 09:20
Oft hef ég heyrt fólk segja þegar mér dettur í hug að velta aðeins betur fyrir mér hugmyndum sem ræddar eru í daglegu tali að ég sé alltof heimspekilegur. Reyndar tek ég því ekki illa, þó að oft greini ég háð frá sumum þeirra sem skjóta þessu að mér.
Frá unga aldri hef ég verið svona, og man eftir minni fyrstu heimspekilegu samræðu við félaga minn í vinnuskólanum þegar við vorum þrettán ára. Hörður heitir hann. Hann talaði um hvað hann þoldi ekki flugur, en þá var flugnager á sveimi yfir okkur, og ég svaraði honum á þá leið: En þurfum við ekki á flugunum að halda?
Hvernig þá? spurði hann.
Þær bera fræ á milli blómanna.
Hvað með það?
Blómin gefa okkur súrefni.
Og?
Við þurfum súrefni til að anda.
Hörður hló og klappaði mér vinalega á öxlina. Svo héldum við áfram að raka saman grasi.
Mér hefur alltaf þótt vænt um þessa stuttu samræðu, og í gegnum tíðina hef ég haldið áfram að velta fyrir mér hlutunum, aðallega vegna þess að mér finnst áhugavert að sjá stærra samhengi en það sem liggur á yfirborðinu.
Heimspekingur hefur áhuga á gagnrýnni hugsun, hann vill rannsaka hugtök og greina þau, skoða röksemdarfærslur af dýpt til að athuga hvort þær séu réttar eða rangar. Hann hefur djúpan áhuga á að spyrja spurninga og spurningarnar snúast um heiminn, lífið, samfélagið, hugann og jafnvel um það að spyrja í sjálfu sér.
Heimspekingur hefur áhuga á að taka þátt í samræðum þar sem aðrir áhugamenn um heimspeki taka þátt, en samkvæmt ákveðnum leikreglum. Þar má spyrja að hverju sem er, það má dýpka leitina og fara um víðan völl, fólk má vera gagnrýnið, skapandi og sýna umhyggju, en umfram allt er það að leita eftir einhverju sem er satt, og getur síðan tekið mér sér heim eftir samræðuna og velt fyrir sér hvernig það passar í eigin heildarmynd. Slík samræða snýst á engan hátt um mælskulist, þar sem einhver reynir að sannfæra aðra um að þeir hafi rétt fyrir sér, með því að nota töfrabrögð tungumálsins, sannfæringarkraftinn, því gagnrýnin hugsun á það til að leysa slíkt upp nokkuð auðveldlega. Vandinn er þegar ekki nógu margir kunna að beita slíkri hugsun og þekkja ekki nógu vel grundvöll rökfræðinnar, eða neita að beita henni í daglegu tali.
Heimspekingar njóta þess að skrifa um pælingar sínar og deila með öðrum, hvort sem það er með útgáfu bóka, ritgerða, fyrirlestra, eða jafnvel í bloggpóstum eins og þessum. Það sem vekur oftast athygli heimspekinga eru siðferðileg álitamál, ósannar fullyrðingar, fáfræði, ónákvæmni, og mat byggt á skoðunum frekar en þekkingu; en ekkert þætti þeim skemmtilegra en að ekkert slíkt væri að finna í daglegri umræðu.
Því miður er svo mikið af slíku að taka, að það verkefni að taka til í hugsun samfélagsins reynist of mikið verk fyrir fáeina einstaklinga sem þrá ekkert meira en að fólk segi einfaldlega það sem er satt.
Sumir heimspekinga eru á launum við skóla eða rannsóknarstofnanir til að stunda heimspeki, og aðrir stunda heimspeki í frítíma sínum og á eigin forsendum. Það sem er þeim sameiginlegt er að þeir leita stöðugt eftir visku og skilningi og vilja taka þátt í samræðu sem leiðir í áttina að því sem er satt, og reyna að afhjúpa það sem er ósatt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um illgresið fordóma
28.10.2023 | 07:42
Mesti vandinn við fordóma er að við vitum ekki af þeim. Þeir læðast hægt og hljótt inn í líf okkar, og ef við höfum athyglina ekki í nægi, grafa þeir sig niður í svörðinn, eins og illgresi, sem verður til þess að okkur finnst þeir afar eðlilegur hluti af okkur, svo eðlilegur að við viljum jafnvel ekki losna við þá, því okkur finnst þeir jafn dýrmætir og heilbrigðu plönturnar í huga okkar sem þeir koma í veg fyrir að vaxi.
Einn slíkur fordómur, sem virðist festa rætur sínar í sérhverju samfélagi, nokkuð sem hægt er að sjá þegar þú fylgist með alþjóðlegum ráðstefnum æðstu fyrirmenna hverrar þjóðar, að þetta fólk hefur yfirleitt mikla hæfileika til að koma vel fram: það klæðir sig í fín föt, það talar flott mál, og það lítur vel út og virkar sannfærandi. Það er dæmi um fordóm að jafna saman góðri framkomu og góðum gáfum. Þetta vel klædda og sannfærandi fólk getur komið af stað styrjöldum, leitt yfir eigin þjóð fjármálakreppu, getur sýnt gríðarlega grimmd og fáfræði, en aðeins vegna þess að það kemur vel fram og hefur náð völdum yfir eigin þjóð, á það að komast upp með slíka hluti?
Til er fólk sem klæðist ósköp venjulegum fötum, jafnvel með bótum og sem þykja ekkert sérlega flott, sem hafa verðuga vitsmuni sem vert er að hlusta á, en vandinn er að fjöldinn er ekki tilbúinn að hlusta á slíkt fólk, enda kann það ekki að koma nógu vel fram, þó að viska þeirra geti verið djúp og leitt til farsældar fyrir alla sem vilja taka þátt í samræðu þeirra. Af hverju dæmum við þekkingu og visku eftir útliti og framkomu? Og af hverju virðast valdhafar eiga það sameiginlegt að leggja miklar fjárhæðir í að líta sem best út rétt fyrir kosningar? Er það til að leggja rækt við þetta illgresi sem fordómar eru, því þannig er auðveldast að ná völdum?
En fordómar, eins og illgresi, er ekki nauðsynlega eitthvað slæmt í sjálfu sér. Það sem gerist er að þegar þú leyfir aðeins einni tegund gróðurs að vaxa í garðinum þínum, og gefur honum meira pláss en öllum hinum tegundunum, þá fær aðeins þessi eini tækifæri til að vaxa á kostnað allra hinna. Það sem þú tapar með því að leyfa einhverjum fordómum að hreiðra um sig í garðinum þínum er að þú færð ekki fjölbreyttan garð þar sem öll viðhorf fá að blómstra, þú færð aðeins einn lit á meðan þú gætir fengið margbrotið litróf. Það krefst vinnu að uppræta fordóma, sérstaklega manns eigin og þá sérstaklega ef maður áttar sig ekki á að maður hefur þá, til að lifa farsælu lífi og verðskulda hamingju. En þá þurfum við að skilja að hamingjan er ekki eitthvað sem kemur utanfrá, eins og peningar eða völd, heldur eitthvað sem kemur innanfrá, eins og skilningur, viska, hugrekki, réttlæti, hófsemi, og fleira.
Ég hef lengi stundað heimspeki, og reynt að átta mig á hvernig best er að lifa mínu eigin lífi. Víða hef ég leitað, hef flakkað um heiminn og lifað í ólíkum löndum, sem námsfús kennari á lágum launum, hef verið atvinnulaus og þurft að læra tungumál til að fá störf við hæfi, hef þurft að klóra burt mína eigin fordóma til að geta lifað í ólíkum menningarheimum. En það var samt ekki fyrr en ég byrjaði að skrifa heimspekilegar dagbækur upp á hvern einasta dag að ég fór að átta mig á því djúpa gildi sem felst í að þrá dyggðir og forðast lesti, og nú þegar ég hef loks áttað mig á þessari hugmynd, þá finnst mér heimurinn aðeins skýrari fyrir vikið, mér finnst auðveldara að skilja hlutina, og mér finnst þess virði að deila þessum skilningi með öðrum, ræða hann og halda áfram að vera fús til náms.
Ég sé ennþá fordóma spretta upp í samræðum við annað fólk sem lifir við ólíkar aðstæður, og ég tek eftir mínum eigin tilhneigingum til að meðtaka fordóma og hlúa að þeim, og ég sé þetta við ólíkar aðstæður og í öllum lögum samfélagsins. Mér finnst þetta áhugavert og þykir nauðsynlegt að vera vakandi fyrir þessari ógn sem fordómar eru gagnvart okkar eigin lífsgæðum og hamingju.
Hinn fordómafulli forðast það að læra ef það sem hann ætlar sér að læra er ekki á hans eigin forsendum, og er eitthvað sem getur verið afar erfitt; hafnar hann af fullum krafti öllu því sem ógnar þeim möguleika að einhver önnur sjónarmið nái að festast í garðinum hans.
Það er oft þannig með visku. Hún er sjaldgæf, og þegar hún birtist, þá er ráðist á hana úr öllum áttum. Enda vilja fordómarnir ekki undan láta, þeir vilja halda áfram að eiga garðinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um það sem við ættum að þrá og forðast
27.10.2023 | 18:54
Allt það sem ég get breytt er eitthvað sem felst í skoðunum okkar, þekkingu og hegðun, en allt það sem við getum ekki breytt stendur fyrir utan okkur, til dæmis fortíðin og framtíðin, skoðanir, þekking og hegðun annarra. Eitthvað er það þó sem við getum haft áhrif á með einhverjum hætti, og málið felst í að átta sig á hvar vald okkar liggur. Samt er ljóst að við höfum algjört vald yfir okkar eigin vilja og vali. Sem þýðir að sjálfsagt er best að byrja þar.
Það liggur beint við að velja hluti sem gera manns eigin líðan betri með einhverjum hætti.Það þarf lítið annað en vel stillt hugarfar til að komast á rétta braut, með því að velja það að vera vingjarnlegur, námsfús, elskulegur, glaðlyndur, góðviljaður, vinnusamur, heiðarlegur, umhyggjusamur, bera virðingu, leitast við að skilja aðra, halda í vonina og frelsið, leita eftir visku, samúð, þroska, þekkingu og að vera í samskiptum við fólk sem hefur bæði mikla þekkingu, skilning og auðmýkt. Þetta segir sig í rauninni sjálft, en samt er áhugavert hversu mörgum virðist mistakast að öðlast þessa eiginleika, enda erum við afar breyskar lífverur. Hér má taka fram að dyggðirnar sem hafa verið upptaldar hér er alls ekki endanlegur listi.
Síðan er ýmislegt sem borgar sig að forðast. Hægt væri að segja að maður þurfi í raun að forðast allt sem er í andstöðu við þessar dyggðir sem minnst var á hér að ofan, og að andstæðurnar eru öfgar í tvær áttir. Þannig eru andstæður þess að vera vingjarnlegur bæði það að vera fjandsamlegur og of vingjarnlegur, og andstæður þess að vera námsfús er að hafna öllu námi annars vegar eða hins vegar gera ekkert annað en að læra, og hver kannast ekki við að andstæður vinnusemi geti verið leti annars vegar og þrælkun hins vegar?
Með þessu má sjá að dygðirnar eru sífellt í jafnvægi á milli tveggja póla, eins og hlutur sem haldið er á floti milli tveggja segulstála.
En svar mitt er jafn einfalt og það er flókið. Við þurfum að þrá dyggðirnar og forðast lestina, eða öfgarnar sem eiga það til að afvegaleiða okkur. Þetta er ekki eitthvað sem við lærum á einum degi. Til að læra hreinskilni þurfum við að stunda hreinskilni, til að læra heiðarleika þurfum við að æfa okkur með því að vera heiðarleg, til að læra skilning þurfum við að æfa okkur að skilja sífellt eitthvað nýtt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um það mögulega og ómögulega
26.10.2023 | 07:23
Hver kannast ekki við þá löngun að geta ýmsa ómögulega hluti eins og lifa að eilífu, öðlast fullkomleika, vita allt, geta allt, fara aftur í tímann og laga eigin mistök, öðlast vinsælda meðal allra, ráða öllu, búa yfir stöðugri hamingju, endalausum auði og fá alla drauma uppfyllta?
Það er einnig margt sem við viljum forðast en er samt óhjákvæmilegt, eins og að eldast, deyja, veikjast, finna fyrir sársauka og kveljast, missa ástvini, tapa starfi, glata tækifærum, gera mistök, lenda í deilum, upplifa breytingar, borga skatta, bera ábyrgð, lenda í náttúruhamförum og vera hafnað.
Stundum þráum við það sem er utan okkar seilingar, leyfum okkur að dreyma sem við vitum að er ómögulegt. Við viljum kannski geta teygt okkur í tunglið og stungið því í vasann, og á meðan það er ómögulegt, getum við þó komist til tunglsins og fært hluta af því til jarðar.
Manneskjuna hefur dreymt um að geta flogið, og þó að henni hafi ekki tekist að setja á sig vængi og flogið daglega til skóla eða vinnu, eða út í búð, þá hefur okkur tekist að byggja vélar sem geta fært okkur á milli staða með flugi. Án draumsins hefði veruleikinn líkast til aldrei náðst.
Með sama hætti hefur okkur dreymt um að geta haft stöðug samskipti við annað fólk sem er fjarri. Það er ekki langt síðan að það varð mögulegt, nú getum við verið í stöðugu sambandi við ástvini í öðrum löndum og rætt við þá án þess að ferðast eða senda bréf, það eina sem við þurfum að gera er að kveikja á appi og vera nettengd, og þá getum við rætt við hvern sem er, nánast hvar sem er í heiminum. Það hefði ekki verið mögulegt ef við hefðum ekki leyft okkur að dreyma um hið ómögulega.
Hver veit hvort að eilíft líf, fullkomleikinn og tímaflakk séu ómöguleg í öllum mögulegum myndum, kannski er einhver leið að finna einhverjar lausnir á hlutum sem virðast í dag algjörlega útilokaðar.
Síðan vitum við af takmörkunum okkar, við vitum að við getum veikst, fundið fyrir sársauka og dáið, og við viljum forðast það. Sjálfsagt eru til einhverjir mögulegir heimar þar sem við veikjumst ekki, finnum aldrei til sársauka og deyjum aldrei, en þessir heimar verða þó varla nákvæmlega eins og upphaflegu draumarnir, heldur fáum við einhverja útgáfu sem við getum sætt okkur við.
Helsta lausnin sem mannkynið hefur fundið eru trúarbrögð, sem leyfa okkur að halda áfram að dreyma um að allt sem okkur langar sé mögulegt og að hugsanlega sé hliðstæður heimur til staðar þar sem okkur tekst að forðast allt sem okkur langar til að forðast.
Önnur lausn er að stýra löngunum okkar og horfast í auga við veruleikann. Í stað þess að langa í ódauðleikann, sætta okkur við að hann sé utan seilingar, í stað þess að langa í mikinn auð, sætta okkur við það sem við höfum, í stað þess að forðast dauðann, sætta okkur við að einn daginn munum við öll deyja.
Báðir kostirnir eru áhugaverðir, annar þeirra er tilbúinn til að sveigja veruleikann en hinn er tilbúinn að taka við honum eins og hann er. Það eru ekki allir sem ráða við að sveigja veruleikann eftir eigin vilja og verða því fyrir nokkrum vonbrigðum þegar það gengur ekki upp, en þeir sem horfast í augu við veruleikann eru líklegri til að vera sáttari við lífið og tilveruna.
Stóra spurningin er hvort við gætum ekki fengið hvort tveggja. Látið okkur dreyma um heiminn sem við viljum og líka sætt okkur við heiminn eins og hann er? Berjast fyrir því að breyta heiminum til hins betra, en líka geta lifað hamingjusöm í heiminum sem er?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um jákvæða og neikvæða gagnrýni
25.10.2023 | 07:27
Til er alls konar gagnrýni. Við gagnrýnum bækur og kvikmyndir, greinar í tímaritum, stjórnmálamenn og skoðanir. Oft er þessi gagnrýni byggð á tilfinningu og skoðunum, og fer ekkert endilega djúpt. Þegar gagnrýnin fer dýpri og beinist að því að bæta eitthvað, þá tölum við um gagnrýna hugsun - en gagnrýnin hugsun er ekki bara dómur um eitthvað, heldur dýpri pæling sem krefst skynsemi, sköpunar og umhyggju. Gagnrýnin hugsun verður oftast til vegna djúprar og raunverulegrar umhyggju, og er án nokkurs vafa jákvæð tegund gagnrýni, en einnig eru til neikvæðar myndir af gagnrýni sem gera ekki jafn mikið gagn.
Þegar okkur langar að gagnrýna aðra manneskju fyrir eitthvað sem okkur finnst vont, þá væri kannski betra að staldra aðeins við og velta fyrir sér hvort að gagnrýnin gagnist meira hinni manneskjunni eða okkur sjálfum, því við áttum okkur á að eitthvað gagnrýnisvert hefur gerst, og þar með eitthvað sem við teljum ekki vera gott. Þýðir það þá að við ættum að gera okkar besta til að forðast að gera sama hlutinn sjálf, frekar en að reyna að sannfæra aðra manneskju um að halda áfram með það sem okkur þykir slæmt?
Því það sem við gagnrýnum, hvað er það annað en ráð til okkar sjálfra um hvernig við ættum að haga okkur, út frá þeirri heimsmynd sem við göngum út frá í daglegu lífi?
Helsta ástæðan fyrir gagnrýni á annað fólk er samanburður, og þegar við berum okkur saman við annað fólk geta alls konar tilfinningar sprottið fram, eitthvað eins og öfund og afbrýðisemi, skortur á sjálfstrausti, varnarviðbrögð, hneykslun, móðgun og þar eftir götunum. Þegar við gagnrýnum aðra manneskju erum við að segja sjálfum okkur frá hvernig við ættum að haga okkur, en kaldhæðni örlaganna getur verið sá að við látum duga að reiðast öðrum, en tökum ekki til sjálfra okkar þessari gagnrýni sem við beitum.
Ef einhver gagnrýnir þig fyrir eitthvað sem þú hefur gert illa, þá hafa sumir spekingar ráðlagt að svara þannig: þú tókst þá til allrar hamingju ekki eftir því sem ég geri ennþá verr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um ný orð
24.10.2023 | 07:53
Snemma á níunda áratug síðustu aldar sat ég í bíl með nokkrum heimspekinemum og Þorsteini Gylfasyni, sem þá kenndi okkur áfanga í HÍ um sköpun. Þetta var einstaklega skemmtilegur og áhugaverður kúrs sem gaf margar nýjar hugmyndir.
En í þessari bílferð ræddum við það hvernig ný íslensk orð verða til, og reyndum að átta okkur á hvað það væri sem stjórnaði því hvernig sum orð festust og önnur ekki. Það var eins og einhver æðri máttur stjórnaði því, en samt trúði enginn okkar í þessari bílferð að það væri svarið við spurningunni.
Við veltum fyrir okkur hugtakinu tölva, og af hverju það festist frekar en töluvél, hugsandi vél, kompútari, skipuleggjari og þar eftir götunum; en einhvern veginn varð þetta flotta orð tölva til, sem nokkuð einfalt var að skilja, en það var saman brætt úr orðunum völva og tala, nokkuð sem enn í dag virkar afar vel.
Það sama á við um orð eins og sími. Af hverju festist það frekar en telefónn, sem væri þá nánast eins og sama orð í nánast öllum öðrum tungumálum um þetta tæki, en sími er fornt orð sem þýðir lína eða snúra?
Mér varð hugsað til þessarar skemmtilegu samræðu þegar í gær var ég spurður upp úr þurru af eigin samstarfsmanni mínum, hvað þýðir orðið kvár? Í fyrsta lagi þá hafði ég ekki hugmynd um hvað það þýddi, né hvernig það væri stafað, hvort það væri kvár eða hvár. Ég vissulega hafði heyrt hugtakið og reynt að skilja merkingu þess, en á þessu augnabliki áttaði ég mig á að ég vissi ekki hvað það þýddi, og það sem meira er, ég hafði ekki einu sinni hugmynd um það, annað en að þetta væri nýtt hugtak tengt kynjafræði.
Eftir nærtækari skoðun kemur í ljós að þetta orð, kvár vann í samkeppni sem Samtökin 78 stóðu fyrir árið 2021 sem ókyngreint nafnorð um fullvaxta manneskju. Gott og vel. Ég átta mig samt ekki á því af hverju þarf ókyngreint nafnorð um fullorðna manneskju, samt hef ég spurt þessarar spurningar nokkrum sinnum og get gert það núna. En ég sé ekki hvernig þetta orð fellur að tungumáli mínu og daglegri notkun, og því grunar mig að þetta sé eitt af þessum orðum sem festist ekki í málinu. Vissulega verður barist fyrir tilvist þess og reynt að setja upp heila hugmyndafræði sem gæti gjörbreytt tungumálinu, en þessi þróun virkar ekki á mig eins og þegar ný orð verða til, heldur frekar eins og uppástunga á nýju orði, sem svo annað hvort festist eða festist ekki.
Í sjálfu sér hafa einstaklingar eða samtök engin völd yfir tungumálinu, tungumálið er fyrirbæri sem vex og þróast áfram með frekar dularfullum hætti, sem virðist ekki vera á valdi neinnar einnar manneskju eða hóps. Tungumálið er eitthvað sem tengir okkur öll saman og það lifir sjálfstæðu lífi, þar til það gerir það ekki lengur. Tungumál eiga það til að deyja og orðin þeirra með, og það hefur verið stöðug barátta á Íslandi meðal skálda og þeirra sem halda í menningararfinn að tapa því ekki.
Fyrr á dögum var hætta á að íslenskan yrði dönskunni að bráð, nú á dögum hefur einn helsti ógnvaldur þess verið enskan, en einnig gætu nýjar hreyfingar sem vilja breyta tungumálinu verið ógn við málið, sérstaklega ef það verður til þess að fólki fer að finnast íslenskan of erfið og fer að leita í önnur tungumál í staðinn.
En já, ég held að ekki sé hægt að þvinga nýjum orðum í tungumál, heldur samþykkjum við með einhverjum hætti þau orð sem við þurfum, og þau annað hvort festast eða ekki. Þegar erfitt er að finna dæmi um notkun á slíkum orðum í eigin veruleika, og maður notar þessi orð ekki dags daglega, þá má vel vera að þau hverfi eins og hver önnur tískubylgja.
En það verður tíminn að leiða í ljós.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um þekkingu og fordóma
23.10.2023 | 08:06
Í fyrstu hljómar það undarlega að velta fyrir sér hvort að hugtökin sem við veltum fyrir okkur séu byggð á þekkingu eða skilningi annars vegar eða skoðunum og fordómum hins vegar, en málið er að áður en við látum til okkar taka í stóru málunum, þá þurfum við sjálf að skilja hugtökin af dýpt, og jafnvel þegar sá skilningur hefur þroskast í einhvern tíma verðum við að vera tilbúin til að velta fyrir okkur hvort við séum á réttri leið þegar kemur að þessum skilningi.
Fordómar eru alls staðar. Þeir líta ekki út eins og eitthvað ógeð, þeir líta ekki út eins og eitthvað illt, heldur þvert á móti, okkur líður vel með þá. Þeir gera heim okkar kunnuglegan, þægilegan og einfaldan. Ef okkur stendur á saman hvort við höfum skilning eða fordóma, þá mun ekkert geta sannfært okkur um að við séum á rangri leið, því okkur líður yfirleitt ágætlega þegar við vitum ekki betur. Ef markmið okkar í lífinu er að líða bara vel og leyfa lífinu að líða á þægilegan máta, þá borgar sig kannski alls ekki að dýpka eigin skilning eða losa sig undan fordómum. Vandinn við það er að þá verður líf manns frekar tilgangslítið, og eins og Sókrates sagði af töluverðri hörku, ekki þess virði að lifa því.
En hverjum er svo sem ekki sama um það, svo framarlega sem það gaman, maður fær peninga, kemst ofarlega í virðingarstigann, á fjölskyldu sem gengur vel, hefur góðan húmor og kann kannski að spila aðeins á píanó?
Sértu hins vegar ekki í sátt við eigin fordóma, og skilur þau skaðlegu áhrif sem af þeim getur stafað, og vilt ekki vera í þeim hópi sem skaðar, heldur í þeim hópi sem bætir, þá eru nokkrar leiðir til að átta sig á hvort að maður byggi skoðanir sínar á fordómum eða þekkingu.
En það er of langt mál að rekja fyrir stuttan pistil eins og þennan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um heimspekilegar spurningar
22.10.2023 | 17:24
Fólk er ólíkt.
Sumir eru sáttir við að heimurinn sé nákvæmlega það sem hann virðist vera og aðrir vilja skyggnast dýpra. Þeir sem vilja skyggnast dýpra gera sér grein fyrir að ekki er allt sem sýnist. Sumir þeirra reyna að útskýra heiminn út frá eigin sjónarhorni og finna endanleg svör við þeim spurningum sem fyrir þeim vakir.
Aðrir sjá hversu margbreytilegur heimurinn er og hversu vandasamt getur verið að skilja hann, og sjá að endanlegar útskýringar eru meira draumsýn og óskhyggja heldur en svör sem eru sannleikanum samkvæm, og ákveða frekar en að svara öllum heimsins spurningum að semja spurningar um hluti sem hjálpar okkur að skilja aðeins betur hversu lítið við vitum.
Þessi viðleitni til að spyrja stöðugt spurninga hefur áhrif á þann sem spyr spurningarinnar, og einnig á þá sem reyna af fúlustu alvöru að svara henni. En þau áhrif sem það hefur haft á mig að spyrja slíkra spurninga, og gera mitt besta til að sífellt spyrja betur og um hluti sem hafa raunveruleg gildi í mínu eigin daglega lífi, hafa verið nokkuð sem ég tel afar æskilegt og gott.
Bloggar | Breytt 23.10.2023 kl. 07:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)