Bloggfærslur mánaðarins, desember 2018

Þegar kjörnir stjórnmálamenn brjóta af sér

Það er ekki hægt að krefja stjórnmálamann um afsögn eða reka hann úr starfi, sama hvað á dynur. Það verður að bíða í nokkur ár þangað til kosið verður að nýju. 

Ætti þetta að vera svona?

Er hægt að laga biluð kerfi?

Þegar þú stendur ekki við kosningaloforð þín er sjálfsagt að þú fáir ekki kosningu aftur. Samt gerist það oft. Lítið við því að gera.

En þegar stjórnmálamaður brýtur gegn siðareglum eða lögum er málið mun alvarlegra. Þegar stjórnmálamaður brýtur gegn alvarlegri siðareglu, gengur bókstaflega fram af fólki, þá er engin leið til að losna við viðkomandi önnur en að þvinga hann eða hana til að segja af sér, sem annað hvort gerist eða ekki. Sé viðkomandi siðspilltur og eigingjarn, mun hann sitja sem fastast. Hafi hann smá vit í kollinum, segir hann af sér og fer að gera eitthvað betra við tíma sinn.

Væri ekki betra að hafa ferli fyrir svona lagað?

Það er áhugaverður stigsmunur, og kannski eðlismunur á siðareglum annars vegar og lögum hins vegar, og það má spyrja hvort sé mikilvægara fyrir þá sem setja okkur reglur, að hafa siðferðið í lagi eða fara eftir lögum. Kannski bæði. Siðferðið er nefnilega alltaf grundvöllur laganna.

Það er ljóst að með siðferðilega vafasamri hegðun tapa stjórnmálamenn trausti umbjóðenda sinna. Það er svo augljóst að ekki þarf að útskýra það. Það sést úr flugvél. Þegar stjórnmálamaður er ásakaður um slíka hegðun, væri þá ekki réttast að senda málið til umfjöllunar siðanefndar, sem fjallar um málið af hlutleysi, og getur síðan metið hvort að viðkomandi verði hugsanlega vikið úr stjórnmálum, og þá með lýðræðislegum hætti, hugsanlega með sérstökum kosningum? Stjórnmálamaður sem brýtur lög ætti ekki að geta setið áfram af eigin vilja, af sömu ástæðu. 

Myndi slíkt ferli hefta frjálsa tjáningu, eða gera það að verkum að fólk í leiðtogastöðu gætti sín aðeins betur, talaði betur um annað fólk? Myndi það byrja á að forðast spillingu og berjast gegn henni í stað þess að falla í meðvirkni?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband