Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Draumur um betri stjórnmálatíð á Íslandi - eða bara útópía?

Ég er einn af þeim sem hef fengið ógeð á Alþingi Íslendinga. Á fjögurra ára fresti kjósum við ókunnugt fólk til að setja okkur lög og taka ákvarðanir byggðar á almannahag. Alltaf kemur í ljós, sama hver hefur verið kosinn og sama af hvaða ástæðum, að þingmenn og ráðherrar taka ákvarðanir fyrir þjóðina sem fyrst og fremst koma þeirra eigin hagsmunum vel. Og á fjögurra ára fresti trúum við að hlutirnir geti breyst með nýju fólki. Við ýtum þungu bjargi upp að fjallsbrún og kemur alltaf jafnmikið á óvart þegar það rúllar niður hinumegin.

Það mætti loka þingsölum til eilífðar, reka alla þingmenn og ráða enga í staðinn, þar sem hugtakið er úrelt og virkar ekki í dag, hefur aldrei virkað og mun aldrei gera það, og færa löggjafavaldið til fólksins gegnum beint lýðræði. Það er ekki bara mögulegt, heldur raunsær og góður kostur, sem gæti gert Ísland að réttlátu samfélagi. Það er nefnilega ekki nóg að Íslendingar séu upp til hópa gott og samviskusamt fólk, það sem vantar er að koma þessum anda Íslendingsins inn í löggjöfina og ákvarðanatökur fyrir heildina.

Það gæti komið í veg fyrir þetta endalausa hagsmunaplott. Það mætti þó ráða nokkra ráðherra í persónukjöri - sem hefðu takmörkuð völd og væru helst ráðnir til að verja almannahag sem tengist þeirra ráðuneyti. Til dæmis ætti menntamálaráðherra að berjast fyrir því að allir þegnar landsins hefðu aðgang að góðri menntun, sama hver staða þeirra er í samfélaginu, og sama á hvaða aldri manneskjan sem þarf menntunina er. Það sama myndi gilda um önnur ráðuneyti.

Íslendingar mættu einnig ákveða nákvæmlega hvernig þeir vilja greiða skatt og í hvaða málefni skattur þeirra ætti að fara. Það mætti jafnvel gera slíkt á klókan hátt með upplýsingatækni. Hugsaðu þér að þú værir skyldugur til að greiða 20% tekjuskatt, og gætir valið hvaða prósentuhlutföll færu í hvern málaflokk, en ávallt með lágmark 2% í hvern? Þá yrði skattur greiddur með glöðu geði, sérstaklega ef fjármunum yrði vel varið. Því kjósendur gætu refsað á hverju ári þeim sem fara illa með almannahag.


Stríðið um verðtrygginguna

Ég sé tvo hópa á vígvellinum, ennþá rauðum eftir miskunnarlausa slátrun á íslenskum heimilum.

Nokkur skuldug heimili standa þó eftir. Þeim til varnar standa örþreyttar hetjur, vopnaðar bogum, sverðum og skjöldum. Örmagna reyna þær að mynda skjaldborg, til að vernda þá sem minna mega sín.

Hinumegin á vellinum eru þeir sem eiga peninga og vilja vernda þá. Þeir hafa þegar eytt miklum fjármunum í fallbyssur, dróna og sprengjur sem ættu auðveldlega að sprengja hinu veikburða skjaldborg í loft upp.

Fjármagnið fyrir vopnakaupin eru beintengd í verðtryggingu. Báðir hóparnir fjármagna vopnakaup auðmanna, hinir skuldugu með því að borga skuldir sínar, og hinir sem vald hafa yfir auðnum, með því að krefjast greiðslu á skuldum.

Skuldugu heimilin vilja verðtrygginguna burt, því þau vilja ekki fjármagna árásir á þá fáu sem enn vernda þau. Hinir vilja vernda verðtrygginguna, þar sem hún ekki aðeins fjármagnar vopnakaupin, heldur gefur þeirra hópi kost á að lifa áhyggjulausi lífi.

Hagsmunaöfl takast á. Sagan segir okkur að þeir sem eru betur vopnaðir og grimmari, vinni sigur í styrjöldum, þó eru til undantekningar.

Endar stríðið um verðtrygginguna sem hreinn sigur ofbeldisafla, eða mun réttlætið sigra í þetta skiptið?Það er lítil von í dag fyrir hin varnarlausu heimili, og útlit fyrir að valtað verði algjörlega yfir þau og þar með næstum heila kynslóð Íslendinga. 

Er eitthvað sem getur komið í veg fyrir algjöran sigur þeirra sem vilja græða áfram á hinni grimmu verðtryggingu? Munum við þurfa 50 ár eða meira til að hörmungin sem verðtryggingin leiðir af sér verður meðvituð á meðal almennings? 

Af hverju er svona erfitt að sýna illskuna í nútímanum, sem augljóslega verður fordæmd sem hin mesta grimmd, sambærileg við þrælahald, þegar framtíðarkynslóðir okkar líta yfir farinn veg? 


Er upptaka Evru og innganga í ESB galin hugmynd á þessum tímum?

scale

Ræddi við félagi minn frá Grikklandi í hádeginu um ESB og evrumálin. Hann sagði, nokkurn veginn svona: "Þið Íslendingar eigið aldrei, aldrei, aldrei að taka upp Evru. Þið eigið aldrei að ganga í Evrópusambandið. Sjáðu hvernig fór fyrir okkur! Horfðu til Kýpur."

Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að innganga í Evrópusambandið sé alls ekki galin hugmynd, en nú eru farnar að renna á mig tvær grímur, enda virðist Evran að nálgast hættumörk og krísan langt frá því að vera horfin úr Evrópu.

Einnig fannst mér athugavert þegar hann sagði að Grikkir hefðu tekið upp Evru á sínum tíma þar sem að trúin var að það myndi redda hagstjórninni. Gallinn var hins vegar sá að hagstjórnin sjálf var vandamálið, og hún breyttist ekki með upptöku Evru.

Nú er talað um að taka upp líruna að nýju og hætta algjörlega með Evruna, enda hækkar hún verðlagið það gríðarlega að fólk hefur ekki lengur efni á neinu.

Vildi bara deila þessu með ykkur.


Stjórnlagamálið og atkvæðagreiðsla: Pólitískar klíkur gegn almannahag?

1221_Die_Revolution_1848_in_Be

Málið hófst í byltingu. Hinni svokölluðu búsáhaldabyltingu. Þúsundir Íslendinga lögðu leið sína að Alþingishúsinu og börðu á potta og pönnur, kröfðust þess að hlustað yrði á þjóðina. Árangurinn var sá að ríkisstjórn var steypt af kolli og ný kosin í staðinn, engu betri, fyrir utan fjóra einstaklinga sem kosnir höfðu verið til að breyta stjórnskipulaginu. Einn þeirra var fljótur að skipta um lið, og þá voru eftir þrír. Þau sem eftir eru eiga heiður skilið fyrir að standa sinn vörð, og hrópa á hjálp þjóðarinnar á ögurstundu - sem er í dag. 

Hóparnir sem takast á eru tvennir:

  1. Þeir sem vilja klíkupólitík, eru sáttir við spillingu, mútur (styrki), og að litlar klíkur ráði öllu á landinu, vilja viðhalda ósanngjarnri verðtryggingu á húsnæðislán og styðja við gjörspillt bankakerfi. Þeir vilja koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu.
  2. Þeir sem vilja heiðvirð stjórnmál, vilja að almannahagur ráði frekar en sérhagsmunir, sjá ýmislegt athugavert við að stórfyrirtæki styrki þingmenn, vilja að fólk hafi efni á að eignast heimili. Þeir vilja atkvæðagreiðslu.

Þetta er það sem búsáhaldabyltingin snerist um! Þetta er byltingin sjálf. Ekki potta og pönnur. Ekki reiði og úlfúð. Heldur kröfu um alvöru breytingar á ómögulegum starfsháttum og verklagi.

Næsta mánudag er mikilvægasta augnablikið. Og þjóðin sjálf þyrfti að gera eitthvað róttækt, mæta á staðinn og sýna nýju stjórnarskránni stuðning í verki. Annars verður sú vinna sem unnin hefur verið síðustu fjögur ár af mikilli elni og þolinmæði, töpuð á einu bretti.

Sjáum við það ekki? Erum við nokkuð að sofna aftur?

Þór Saari sér það. Hann á heiður skilinn fyrir að varðveita málstaðinn af miklum krafti. Hann hefur gert í fjögur ár það sem kjósendur hans báðu hann að gera. Ég er ekki viss um að fólk átti sig almennilega á því hvað hann gekk mikilvægt skref með því að leggja fram þessa vantrauststillögu - og maðurinn liggur undir gríðarlegu einelti fyrir vikið, er hæddur og uppnefndur, en hann stendur eins og klettur. Aðdáunarvert!

Klíkupólitíkusar gera allt sem þeir geta til að sverta málstað stjórnarskrárfrumvarpsins, fara í manninn frekar en boltann, því verið er að tefla um mikla hagsmuni. Þeir sem vilja koma málinu í gegn, eru hins vegar þeir sem hafa fengið upp í háls af spillingu og ógeði á sviði íslenskra stjórnmála og hagsmunapots. Þeir sem vilja kjósa um málið á þingi eru góði gæinn. Það er engin spurning.

Verði málið ekki lagt til atkvæðagreiðslu, einfaldlega vegna þess að fólk er ósammála "á bakvið tjöldin", þá er öll von úti þegar kemur að endurreisn íslenskra stjórnmála, og rétt það sem Þorvaldur Gylfason segir, að um valdarán sé að ræða.

Klíkuveldið þarf að stöðva.

Tíminn til þess er núna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband