Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012
Ættu þingmenn að fylgja forystu flokksins í blindni eða ástunda gagnrýna hugsun í sérhverju máli?
29.7.2012 | 08:36
Á Íslandi, séð utanfrá, virðist flokkapólitík einkennast af skorti á gagnrýnni hugsun. Hópur fólks setur ákveðnar línur, markmið, reikna ég með, og síðan eiga allir þingmenn viðkomandi flokks að fylgja þessum línum. Eftir að hafa fylgt þessum línum blindandi í einhvern tíma, geta þeir farið að trúa meira á línuna sjálfa heldur en eigin dómgreind. Það er hættulegt og getur orðið til þess að slæmar ákvarðanir eru teknar og jafnvel barist af hörku til að eigin lína nái að halda. Sérstaklega slæmt er þegar línan verður afstæð og tengd hag flokksins fyrst og fremst: til dæmis er línan "að ná völdum" mun verri en að "vernda hag þjóðarinnar". Hversu göfug sem þessi lína getur orðið, má aldrei gera hana að tabú, einhverju sem ekki má gagnrýna.
Ég velti fyrir mer hvort að alþingismenn spyrji sig gagnrýnna spurninga fyrir hverja einustu lagasetningu, eða hvort þeir nenni kannski ekki að pæla í öllum þessum lögum og langi frekar að gera eitthvað annað. Spyrja þeir sig þessara grundvallarspurninga þegar kemur að nýrri lagasetningu?
- Eru nýju lögin sanngjörn?
- Hvert er markmið þeirra?
- Eru þau líkleg til að ná tilsettum árangri?
- Gætu þau óvart verið einhverjum skaðleg?
- Ef þau gætu verið skaðleg, getum við borið saman mögulegan skaða og mögulegt virði?
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Hver er munurinn á hugsun, gagnrýnni hugsun og umhugsun?
27.7.2012 | 18:57
Hugsun er kallað það fyrirbæri sem á sér stað þegar við tökum ákvarðanir. Þessar ákvarðanir geta verið misjafnlega góðar, og virðast tilviljunarkenndari eftir því sem hugsunin á bakvið þær er minni. Þannig mætti segja að við hugsum á þrjá ólíka vegu. Við getum sleppt hugsunarleysinu, sem yfirleitt birtist sem innsæi, fordómar, þrjóska eða jafnvel heimska, hvað svo sem það er.
Hugsun án umhugsunar virðist vera sem streymandi fljót, tengt þeim áreitum sem skynfæri okkar taka við í sífellu, og í athöfnum okkar renna hugsanir okkar saman við þessi áreiti. Dæmi um slíka hugsun er þegar við tökum manneskju algjörlega til fyrirmyndar, við hermum eftir því sem hún gerir, ekki vegna þess að það sem hún gerir er eitthvað gott eða merkilegt, heldur einfaldlega vegna þess að ef einhver gerir eitthvað ákveðið, þá er viðkomandi búinn að opna möguleikann fyrir því að aðrir geri það sama.
Umhugsun er næsta stig hugsunar, þegar manneskja sem horfir á aðra manneskju gera eitthvað, eða segja eitthvað, og í stað þess að apa eftir fyrri manneskjunni, þá staldrar viðkomand við og veltir hlutunum fyrir sér. Þetta getur orðið til þess að betri ákvarðanir eru teknar, og ekki apað eftir öllu frá hverjum sem er.
Gagnrýnin hugsun er ennþá æðra stig hugsunar. Munurinn á gagnrýnni hugsun og umhugsun er sú að umhugsunin á það til að vera tilviljunarkennd, á meðan gagnrýnin hugsun er kerfisbundin, að ákveðnu marki. Hinn gagnrýni hugsuður gerir sér grein fyrir hvort hann hafi þekkingu eða skilning á fyrirbæri, lætur þekkingu sína og skilning tala í gegnum eigin verk, getur einnig rannsakað og rýnt betur í eigin skilning, þekkingu og verk. Hann getur einnig tengt þessar hugmyndir öðrum hugmyndum og áttað sig þannig á óvæntum hliðum eigin þekkingar, og loks eftir slíka rannsókn verður viðkomandi tilbúinn til að taka ákvörðun sem byggir á viðkomandi þekkingu, skilningu og verkum. Og ekki nóg með það, hann áttar sig á að honum getur skeikað, þó að hann hafi unnið rannsókn sína vel, og er alltaf tilbúinn að endurskoða eigin dóma, sem og dóma annarra.
Það er fyrst þegar gagnrýnin hugsun er unnin í hópi fólks, sem hún verður að mögnuðu verkfæri, ekki aðeins til að bæta þekkingu sérhvers þátttakenda, heldur einnig til að mynda samræðu sem getur þróað þekkingu, skilning og verk sem framkvæmd fyrirtækis eða stofnunar.
Ég veit ekki hvort til sé enn æðra stig hugsunar eða hugsunarleysis, einhvers konar uppljómun eða innsæi; og er satt best að segja ekki viss um hver munurinn er á innsæi, fordómum, þrjósku og heimsku.
Í daglegu lífi reikna ég með að manneskjur stundi afar takmarkað gagnrýna hugsun, einfaldlega vegna þess að það kostar mikla vinnu og aga. Gagnrýnin hugsun er grundvallarstarfsemi í hátæknifyrirtækja og háskólum, í kennslu, þróun, forritun, verkfræði, og þar fram eftir götunum.
Ætli fólk almennt nenni að beita gagnrýnni hugsun? Er ekki miklu auðveldara að fylgja félögunum, eða staldra við og skoða hlutina aðeins betur, og taka síðan ákvörðun? Nennum við að kafa nógu djúpt til að taka vitrar ákvarðanir, nennum við að ræða saman af viti, rannsaka okkar eigin hugmyndir, eins og til dæmis fyrir lýðræðislegar kosningar á þingflokkum eða forseta?
Er það ástæða þess að almenningsálitinu er meira stjórnað af trú og pólitík en gagnrýnni hugsun? Leti? Skortur á aga? Þá er ég ekki aðeins að tala um íslenskt samhengi, heldur alþjóðlega þrælkunarhneigð til leti, agaleysis og skilyrðislausrar hlíðni gagnvart yfirvaldi, hvaða yfirvaldi sem er.
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvaðan sprettur illskan?
22.7.2012 | 19:17
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Á að þagga niður í óþægilegum röddum eins og Snorra í Betel og blaðamönnum Vikunnar?
12.7.2012 | 21:35
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
Er góðmennskan að hverfa úr heiminum?
5.7.2012 | 15:27
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Hver er munurinn á herskárri gagnrýni og gagnrýnni hugsun?
2.7.2012 | 16:58
Ekki aðeins á þessu bloggi, heldur í umræðum víðs vegar um vefinn, og í samfélaginu, bæði því íslenska og alþjóðlega, virðast tvær ólíkar merkingar vera lagðar í hugtakið gagnrýni. Önnur merkingin virðist líta á gagnrýni sem einhvers konar herskáan íþróttaleik, þar sem einn keppandi eða lið er gegn öðrum keppanda eða öðru liði. Þannig snýst kappræðan um það hver er meira sannfærandi og á endanum verður einhver að vera númer eitt: sigurvegari kappræðunnar. Hin merking gagnrýnihugtaksins, er mér meira hugleikin, en þá er gagnrýnin mikilvægur þáttur í samræðu þar sem sannleika málsins er leitað.
Afskræmi málefnalegrar umræðu á sér stað þegar að minnsta kosti einn aðili í samræðunni er herskár, þar sem þeir sem umræðan er tekin í gíslingu og ekki gefist upp fyrr en aðrir eru komnir á þeirra skoðun, eða gefast upp á að ræða málin á þeirra kappræðuforsendum. Þá telja hinir herskáu gagnrýnendur sig sjálfsagt hafa sigrað í umræðunni, eins og það að geta haldið í sér andanum lengur en hinn geri viðkomandi að fiski. Vandinn er sífellt sá að í slíkri tegund gagnrýni hefur gagnrýnandinn valið sína skoðun og ákveðið að verja hana, frekar en að leita skoðunarinnar með gagnrýnni aðferð. Þannig er kappræðumaðurinn viss um réttmæti eigin skoðunar, en gagnrýni hugsuðurinn er það ekki, og áttar sig á að óvissa getur verið nær sannleikanum en fullvissa.
Herská gagnrýni þarf að vera vel römmuð inn til þess að hún fari ekki úr böndunum. Gagnrýnin hugsun, aftur á móti, gerir út á að rannsaka forsendur hugtaka, fullyrðinga og hugmynda, og finni hún galla, reynir hún að lýsa gallanum af nákvæmni og alúð, og þar að auki reynir hún að finna forsendur gallans og hvort aðrar betri leiðir séu hæfar. Gagnrýnin hugsun er ekki skeytingarlaus gagnvart einum eða neinum, og er nákvæmlega sama hvort hún sé sannfærandi eða ekki, þar sem leiðarljós hennar er að leita sannleikans.
Öfgamenn eiga það sameiginlegt að þeir beita sjaldan gagnrýnni hugsun, því að slík hugsun krefst þess að viðkomandi setji sig í spor annarra aðila, gerir ráð fyrir þeim möguleika að þeir hafi rangt fyrir sér, en í hugum öfgamanna eru alltaf einhverjir andstæðingar á kreiki, og einhverjir áheyrendur, sem þarf að sannfæra um hvor aðilinn hefur réttara fyrir sér. Í það minnsta man ég ekki eftir einu einasta atviki þar sem öfgamaður taldi sig ekki eiga andstæðing eða andstæðinga.
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)