Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Olía á Drekasvæðinu?

map

Frétt dagsins í Wall Street Journal er án nokkurs vafa niðurstaða rannsóknar á sýnum frá Drekasvæðinu við Jan Mayen. Niðurstöðurnar gefa tilefni til mikillar bjartsýni. Fundust þar 250 milljón ára steintegundir, en áður var talið að jarðvegurinn á þessu svæði væri of ungur til að olía hefði getað mótast. Nú hefur sú kenning verið afsönnuð.

Ég hafði spurt norskan sérfræðing í olíuborun um möguleika á olíu fyrir norðan Ísland fyrr á þessu ári og hann taldi algjörlega óhugsandi að einhverja olíu væri að finna á þessu svæði, af þeirri ástæðu að landið væri of ungt, það væri í mótun.

hele_oya

Mig hlakkar til að spyrja hann aftur.

Nú hlýtur næsta mál á dagskrá að vera afmáun spillingar úr íslenska stjórnkerfinu, til að þessi líklegi fundur verði ekki hagsmunaöflum einum að bráð, en það er mesta hættan fyrir sérhverja þjóð þegar nýjar náttúruauðlindir finnast.

Takist það eru þetta miklar gleðifréttir.


Spurning brjálæðingsins: "Hvað er þetta Guð sem við drápum?"

Inngangur

Þessi texti á við þegar spilling virðist hafa fest rætur í íslenskri jörð, og eftir standa tómar kirkjur mammons; bankar og ein harpa sem grafhýsi og minningar um það sem áður var, eða áður virtist vera. Á tímum mesta brjálæðisins, sem hugsanlega er nákvæmlega núna, hrópa einstakir bloggarar dæmdir sem rugludallar og brjálæðingar, þeir kvarta yfir ranglæti, blindni og svefnpurrkuhætti samlanda sinna og fararstjóra. 

Öll þau margbreytilegu stórvirki mannsins sem hafa leitt yfir okkur hörmungar vegna oftúlkunar, heimsku og græðgi, þau geta verið túlkuð sem samnefnari yfir Guð; öll þau kerfi sem vaxa okkur yfir höfuð og stjórna okkur, jafnvel sjálft lýðræðið, markaðshagkerfið, trúarbrögð, fjölmiðlar og  Internetið. Við verðum að sjá sjálf okkur sem manneskjur án kerfa, og við þurfum að átta okkur á hvernig kerfin stjórna okkur og hversu lítil áhrif við höfum á þessi kerfi.

Við þurfum hugtök eins og réttlæti og ranglæti þegar kerfin vaða stjórnlaus yfir líf samtímamanna okkar, og það er þá sem stjórnendur þjóða og heims þurfa að taka í taumana og stýra þessum risavöxnu kerfum í aðrar áttir en yfir fólkið. Því miður sitja í dag við stýrið manneskjur sem vita ekki hvert skal halda, hlusta ekki á farþega sína sem vara við öskrandi fólkinu sem verið er að valta yfir, og stýra bara til vinstri eða hægri í nokkur ár, sama hvað aðstæður segja, án umhyggju.

Það er hin sanna geðveiki.

 

---

 

Brjálæðingurinn og dauði Guðs, eftir Friedrich Nietzsche

Hefur þú heyrt um brjálæðinginn sem á björtum morgni kveikti á lampa og hljóp um markaðstorgið hrópandi viðstöðulaust: "Ég leita Guðs! Ég leita Guðs! Þar sem margir trúlausir voru á staðnum, höfðu þeir gaman af. Af hverju! Er hann týndur? sagði einn. Hefur hann villst eins og barn? sagði annar. Eða hefur hann farið í felur? Er hann hræddur við okkur? Sigldi hann burt? Hefur hann flutt úr landi? Fólkið hrópaði spurningar sínar hlæjandi, öll í einum klið. Hinn geðveiki maður stökk inn í miðju þeirra og stakk þau með augnaráði sínu. 

"Hvert hefur Guð farið?" hrópaði hann. "Ég skal segja ykkur! Við höfum drepið hann, - þið og ég! Við erum öll morðingjar hans! En hvernig fórum við að því? Hvernig tókst okkur að drekka allt hafið? Hver gaf okkur svampinn til að afmá allan sjóndeildarhringinn? Hvað gerðum við þegar við aftengdum þessa jörð frá sólinni? Hvert stefnir hún núna? Hvert stefnum við? Burt frá öllum sólum? Þjótum við ekki viðstöðulaust? Til baka, til hliðar, áfram, í allar áttir? Er ennþá fyrir ofan og neðan? Ráfum við ekki, eins og gegnum endalaust ekkert? Andar ekki tómt rúm ofan í hálsmál okkar? Hefur ekki kólnað? Myrkvar ekki að nóttu, sífellt dimmar og dimmar? Þurfum við ekki að kveikja á lömpum að morgni? Heyrum við ekki lætin í gröfurunum sem eru að jarða Guð? Finnum við ekki dauninn af hinni guðlegu rotnun?"

"Því jafnvel Guðir rotna! Guð er dauður! Guð verður áfram dauður! Og við höfum drepið hann! Hvernig getum við huggað okkur, mestu morðingja allra morðingja? Því heilagasta og máttugasta sem heimurinn hefur til þessa höndlað, hefur blætt út undan hníf okkar, - hver mun þverra blóðið af höndum okkar? Með hvers konar vökva getum við hreinsað okkur? Hvaða fórnir, hvaða helgu leiki eigum við að skipuleggja? Er stærð þessa glæps ekki of mikil fyrir okkur? Þurfum við ekki sjálf að gerast Guðir, til þess eins að virðast þess verðug? Það hefur aldrei átt sér stað meiri viðburður, - og vegna hans, munu allir þeir sem fæðast eftir okkar dag tilheyra æðri sögu en allri sögu samanlagt til okkar dags!" 

Hér þagnaði brjálæðingurinn og leit aftur á áheyrendur sína; þeir höfðu þagnað og horfðu gáttaðir á hann. Loks kastaði hann lampa sínum í jörðina þannig að hann brotnaði í mola og ljósið slökknaði. 

"Ég kem of snemma," sagði hann þá, "Ég er ekki á réttum tíma. Þessi merki viðburður er ennþá á leiðinni, og á ferðalagi, - hann hefur ekki enn náð eyrum manna. Eldingar og þrumur þurfa tíma, ljós stjarnanna þarf tíma, athafnir þurfa tíma, jafnvel eftir að þær hafa verið framkvæmdar, til að vera séðar og heyrðar. Þessi gjörð er ennþá fjarlægri þeim en fjarlægustu stjörnur, og samt hafa þeir framkvæmt hana!"

Síðan er sagt að brjálæðingurinn hafi ratað inn í ólíkar kirkjur á þessum sama degi, og þar tónað Requiem aeternam deo.* Þegar hann var leiddur út og beðinn að útskýra sitt mál, svaraði hann alltaf eins: "Hvað eru þessar kirkjur nú, ef þær eru ekki grafhýsi og minnisvarðar um Guð?"

 

* Requiem aeternam deo (eilífð hvíld fyrir Guð)

 

---

 

Þýðing: Hrannar Baldursson úr "Yndisvisku" Friedrich Nietzsche.


Realizing Your True Business Value Potential

41cBAj1seiL._SS500_

Út er komin í öllum helstu bókaverslunum heims bókin "Realizing Your True Business Value Potential" en höfundar innihalds eru þau Øystein Ullnaess og Marianne Ericsson. Undirritaður ritstýrði. Øystein hefur skapað hugmynda- og hugbúnaðarkerfinu TrueValue4U sem notað er til þess að fylgja eftir viðskiptahugmyndinum, allt frá sköpun hugmyndar til framkvæmdar.

Hægt er að nota kerfið til að fylgja eftir hvaða hugmynd sem er, allt frá því að hún verður til og að afurð. Það öfluga við kerfið er að sérhver liður í hugmyndasögunni getur verið unninn saman í teymi, þannig að hugmyndir er auðvelt að skapa í hópi og vinna til afurðar með eins mörgum flækjustigum og nauðsynlegt er. Reyndar einfaldar kerfið flækjurnar og gerir leiðina að framkvæmd auðveldari, en það er önnur saga.

Þetta er ekki fyrsta bókin sem ég gef út. Áður hef ég unnið handbækur fyrir hugbúnaðarkerfi og tekið þátt í útgáfu bóka fyrir íslenska stjórnsýslu. Ég hef skrifað nokkur hundruð smásögur og fjölda ljóða, en aðeins gefið út fjórar af þessum sögum og eitt ljóð. Reyndar hef ég bloggað mikið, en tel það ekki með. Mér finnst ég eiga mikið inni.  Og nú kann ég að gefa út sjálfur. Kannski ég fari að nota þessa þekkingu fyrir sjálfan mig.

Hugbúnaðarkerfið virkar eins og hugmyndamiðstöð þar sem þú byrjar að kortleggja verðmæti eða gildi, til dæmis markmið, og síðan þær kröfur eða hindranir sem liggja í veginum. Síðan tengir þú þessar kröfur og hindranir við vinnu sem þarf að framkvæma eða lausnir, sem síðan leiða til framkvæmdar. Allt er þetta sett saman í gagnagrunni á myndrænan hátt fyrir notendur, þannig að hægt er að sjá alla starfsemi fyrirtækis á einni litrænni mynd, og síðan er hægt að skoða nánar einstaka þætti.

img_1

Ég hef notað þetta kerfi sjálfur og það virkar. Fyrir um ári síðan bauð ég fólki sem vinnur að rannsóknarstörfum ókeypis kynningu á kerfinu, en ég tel að það gæti hjálpað mikið við rannsóknir í kjölfar hrunsins, sem og verið góður grundvöllur fyrir hugmyndasköpun inn í framtíðina. Að sjálfsögðu var ekkert hlustað og boð mitt fyrir hönd öflugra sérfræðinga hérna í Noregi að engu haft. En það mátti svo sem alveg búast við því. Þegar fólk telur sig vita nákvæmlega hvað þarf að gera og telur sig hafa fullkomna stjórn á hlutunum, þá er öndverðan yfirleitt hið sanna, og kerfi eins og þetta leiðir hið sanna í ljós.

Í þessu bloggi er ég hvorki að auglýsa bókina né kerfið, enda fæ ég engan arð af sölu. Hins vegar er þetta kerfi sem ég hef notað sjálfur til að ná tökum á eigin hugmyndum, og er afar sáttur við afleiðurnar, og að sjálfsögðu stoltur yfir að hafa gefið út fallega og gagnlega bók sem hefur verið vel tekið.

Bókaútgáfa er skemmtileg. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband