Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Er tapið sem skuldarar taka á sig til að verja innistæður eigenda mannréttindabrot?

 

 

Úrræði Ríkisins virðast því miður vera skammtímaúrræði, fyrir langtímavandamál. 

Svona eins og að fá sér í glas til að verða glaður, frekar en að gleðjast án áhrifa vímuefna.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn virðist vera að gera Ríkinu það sama og Ríkið gerir þegnunum. 

Þegar lengt er í hengingarólinni höldum við nefnilega að við getum með smá heppni lent á jörðinni, en áttum okkur ekki á því að þegar hleranum verður kippt undan okkur, þá munum við ekki kafna smá saman, heldur mun hálsinn brotna. 

Ég skil vel ef Ríkið sér þetta ekki. Þetta er ekki augljóst fyrir starfsfólk sem vinnur á grundvelli hámarks fjögurra ára í senn. Ábyrgðin nær ekki út fyrir kjörtímabil. Þess vegna finnur Ríkið ekki hversu óþægilegt ástandið er. Starfsmenn þess telja sig nefnilega geta losnað þegar þeim dettur það í hug.

Þegnar Ríkisins geta hins vegar ekki losnað hvenær sem er. Kjörtímabilið er lífið sjálft og nær hugsanlega yfir líf barna þeirra. Þeim finnst þjarmað að sér þegar í ljós kemur að aldrei muni takast að greiða fyrir húsnæði sem það taldi sig eiga mikið í fyrir aðeins tæpu ári síðan. Fólk skuldbindur sig nefnilega ekki að gamni sínu. Það vill klára að borga sínar skuldir og er ekki sátt við ef 20 milljónirnar sem átti að borga verða 30 milljónir, 40 eða meira.

Hugsanlega á nafni minn erfitt með að setja sig í spor skuldara, einfaldlega vegna þess að hann sjálfur er ekki í slíkum sporum? Hverjir af þeim sem voru kosnir í þessum síðustu Alþingiskosningum eru annars í þeirri stöðu að heimili þeirra séu í hættu vegna kreppunnar? Og hvernig var það annars með styrkjamálin? Hvernig geta þeir sem taka greiðslur frá fyrirtækjum til að borga sínar skuldir sett sig í spor einstaklinga sem sjá sig sem fórnarlömb þeirra fyrirtækja sem styrktu stjórnmálamennina sjálfa?

Það er ekki sanngjarnt að skuldarar eigi að bjarga kerfinu og að þeir skuli blóðmjólkaðir, og að þeim skuli haldið góðum með úrræðum sem með smá umhugsun sést að eru óhugsandi fyrir manneskju sem vill lifa sómasamlegu lífi og búa að velferð fyrir framtíð eigin barna. 

  • Er það skylda Ríkisins og þjóðarinnar allrar að verja þau sjálfsögðu mannréttindi að allir hafi tryggt þak yfir höfuðið, að allir hafi í sig og á?
  • Verður þjóðin að standa saman í lífinu sjálfu? Ekki bara á íþróttaviðburðum?
  • Er bilið á milli ríkra og fátækra kannski orðið það mikið að íslenska þjóðin hefur skipst upp í andstæðar fylkingar?
  • Getur það verið að Íslendingum sé orðið sama um náunga sinn?
Góða og nákvæma úttekt Marinós G. Njálssonar á úrræðum Ríkisins má finna hér. Marinó skrifar ekki undir rós og af nákvæmni.
mbl.is Aðgerðirnar eru taldar duga flestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef Íslendingar fordæma erlenda ríkisborgara, er þá í lagi að erlendir ríkisborgarar fordæmi Íslendinga?

 


Það kreppir að um allan heim. 

Atvinnuleysisbætur eru laun fyrir virka atvinnuleit. Atvinnuástandið í heiminum er orðið það erfitt að fólk hefur sífellt færri kosti. Þó það sé hörkuduglegt fær það einfaldlega ekki starf við hæfi. Og jafnvel ekki nein störf. Hvað getur slíkt fólk gert annað en að leita bestu aðgengilegu úrræða?

Ég get skilið að örvæntingarfullt fólk sem búið er að missa alla von, eftir mikla leit að vinnu í heimalandi sínu, leiti réttar síns á Íslandi hafi það áður áunnið sér slík réttindi. Það er ekkert athugavert við það, þó að það þyki fréttnæmt. Misnotkun á kerfinu er annað mál.

 


 

Erlenda vinnuaflið sem vann á Íslandi fyrir hrunið og hjálpaði þjóðinni í uppbyggingu á Babelsturni nýfrjálshyggjunnar er ekki bara 'erlent vinnuafl'; þetta eru manneskjur: konur, karlar, börn, unglingar og kannski gamalmenni. Þau borða, horfa á sjónvarp, versla í Smáralind, fylgjast með Eurovision, lesa Moggann. Þú gætir verið í svipuðum sporum eftir örfáa mánuði.

Það er fátt mikilvægara fyrir manneskju en að vera í vinnu sem skilar góðri afurð til samfélagsins. Það er afleitt að geta ekki gefið af sér. Að taka við atvinnuleysisbótum án endurgjafar er niðurlægjandi og mannskemmandi til lengdar. Samt finna þetta ekki allir hjá sjálfum sér og finnst jafnvel þægileg tilhugsun að fá pening í hendurnar án þess að lyfta hendi til annars en að taka við honum.

Við megum ekki fordæma þá sem koma til landsins í leit að betri tækifærum, frekar en við viljum að við séum fordæmd erlendis frá fyrir að leita betri tækifæra fyrir okkur sjálf.

 

Myndir: 

Áhyggjur: Technical University of Kosice

Heimssamfélag: Organizing for America

Fánabrenna: aftaka.org 


mbl.is Útlendingar snúa aftur til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

3. Don Hrannar skrifar frá Noregi: Draumur eða veruleiki?

 


 

Í nótt dreymdi mig að mér hefði tekist að svindla mér inn á milli alþingismanna og ná mér í autt sæti á Alþingi Íslendinga. Enginn tók eftir því að ég átti ekki að vera þarna, þrátt fyrir að ég eigi nokkra kunningja sem sitja á þingi. Mér fannst þetta áhugaverðara sjónarhorn en frá myndavél eða úr stúku. Þarna gat ég fylgst með svipbrigðum alþingismanna og hegðun af fyrstu hendi.

Í þessum draumi sá ég þingsalinn sem stóra kennslustofu þar sem kennaranum tekst ekki að halda uppi neinum aga, nema kannski að forminu til, og í þessum kennslusal voru einstaklingar sem ég kannaðist við að voru vinsælir fyrir flest annað en greind og umhyggju fyrir samfélaginu. Þarna var nokkuð stór hópur af íþróttamönnum sem hver og einn hallaði sér digurbarkalega aftur í sætinu og tyggðu tyggjó til að ganga í augun á prinsessunum sem höfðu aðeins það eina markmið að vera vinsælar vinsældanna vegna.

Ekkert af því gáfulega fólki sem birtist í viðtölum á sjónvarpsskjánum var í salnum, enda voru þau upptekin einhvers staðar úti í þjóðfélagi að útskýra fyrir þjóðinni af hverju ekkert væri að ganga upp á þingi.

Þá stóð þingmaður upp á ræðupall og hélt ræðu um eitthvað sem ég gat ekki skilið. Held að hann hafi verið að tala afturábak. Í salnum rúllaði fólk augunum fram og til baka. Einhverjir voru að leika sér með blýanta, sumir voru að kasta skutlum, einn var að skjóta pappírskúlum með röri að ræðumanninum, og þar fram eftir götunum. Sérstaka athygli vakti þó einn þingmaðurinn sem fór að tromma á pott og pönnu með stórum míkrófóni og inn á milli hrópaði hann "Niður með spillinguna" eins og eftir settu ferli, settist svo niður með gífurlegt háð eða montbros á andlitinu, stakk höndum í vasa og hallaði stólnum eins langt aftur og hann gat. Þetta voru bara einfaldir tréstólar.

Mig langaði til að segja eitthvað um hvað þetta væri allt absúrd, en áttaði mig þá á því að sama hvað ég myndi segja, þá yrði hvort eð er ekkert á mig hlustað. Fólkið í salnum bar enga virðingu fyrir þinginu sjálfu né þeim ræðum sem voru fluttar. Ræðumenn reyndu ekki einu sinni að koma neinu af viti út úr sér.

Það var hringt út í frímínútur og ég ákvað að nota tækifærið og koma mér í burtu. Þetta væri staður þar sem ég gerði ekkert gagn. Einn kunningi minn á þingi kom upp að mér og spurði mig hvað ég væri að gera, hann vissi ekki að ég hefði verið kosinn á þing. Ég sagði honum að svo hefði ekki verið, að ég hefði bara svindlað mér inn. Hann klappaði þá hlæjandi á öxl mér og sagði kátur: "Hver okkar hefur ekki svindlað sér inn? Bara að það væri jafn auðvelt að svindla sér út."

Á leiðinni út af Alþingi hljóp framhjá mér dvergvaxinn maður, dökkur á hörund, og á eftir honum tveir lögregluþjónar.  Ég spurði einn viðstaddan hvað væri á seyði. Hann svaraði að óvart hefði eitthvað mannréttindafrík komist inn í þingsal og ætti að koma honum úr landi og til síns heima sem allra fyrst, sama hvaðan hann hafði komið.

Þegar ég vaknaði fór ég að velta fyrir mér þessum draumi, og það sem kom mér á óvart er að mér fannst þess virði að leggja hann á minnið og skrifa um hann, því að mér fannst hann endurspegla veruleikann ágætlega.

Svona gerist þegar maður horfir á David Lynch, einn af mínum eftirlætis leikstjórum, og Njörð P. Njarðvík, einn af mínum eftirlætis kennurum, birtast í Silfri Egils hver á eftir hinum, þar sem sá fyrrnefndi ræðir um innhverfa íhugun (ég túlka það sem huXun um drauma), dverga og afturábak tal, en sá síðarnefndi um hversu absúrd það er að láta Jóhönnu og Steingrím stjórna landinu eins og tvíhöfða þurs (hann notaði reyndar ekki þessi orð, en fyrirgefur mér örugglega skáldleyfið).

Ég vildi einfaldlega deila þessum draumi.

Seg þú mér: draumur eða veruleiki?


2. Don Hrannar skrifar frá Noregi: Veðrið eða verðið?

 


 

Það er tvennt sem sérstaklega hefur vakið athygli mína hérna í Noregi fyrstu vikuna: veðrið og verðið.

Veðrið hérna er eins og í eins og í Tinnabók eða ímynduðum minningum um æskusumar á Íslandi. Sólin skín flesta daga, himinninn blár með hvítum bómullarskýjum, vindurinn bærir varla trjákrónurnar. Dádýr skoppa um skóga. Fuglasöngur og rólegheit þegar kvölda tekur. Fólk hópast niður á strönd með veiðistangir. Það eina sem vantar eru syngjandi prinsessur umkringdar smádýrum að vinna húsverk.

Til samanburðar fannst mér ansi oft hvasst og blautt heima á Íslandi.

Verðið er hins vegar eitthvað sem manni er ráðlegt að bera ekki saman við Ísland. Ég geri það samt.

  • Úti á bensínstöð kostar pulsa með hálfum lítra af kók 56 krónur á tilboði, eða um 1100 krónur íslenskar.
  • Á sömu bensínstöð kostar mjólkurlítri 20 krónur, eða 400 krónur íslenskar.
  • Það kostar um kr. 30 í strætó, eða kr. 600.
  • Í bíó kostar um kr. 90, eða 1800 krónur!

Athyglisverður munur. Ég reyni að huXa ekki um þetta.

Atvinnuumsóknir enn í gangi... meira seinna!


1. Don Hrannar skrifar frá Noregi: Heimsborgari eða heimborgari?

 


 

Ég er feginn að vera kominn með fjölskyldu mína úr landi, þó að mikil óvissa bíði okkar. Við höfum ekki atvinnu, börnin ekki komin í skóla og við tölum varla tungumálið. Hins vegar eigum við góða vini að sem hafa veitt okkur húsaskjól og styðja okkur við atvinnuleit, með góðum ráðum fyrir börn okkar og framtíð.

Á þessum áratug hef ég tapað eignum í fellibyl, flóði og fjármálakreppu, starfað sem kennari í Mexíkó, Costa Rica, Ecuador og Íslandi, verið námsráðgjafi gegnum Netið fyrir framúrskarandi nemendur í Bandaríkjunum, kennslubókaráðgjafi í Puebla, fararstjóri Mexíkó og Kúbu, þýðandi, skákþjálfari, vefsíðustjóri, við hönnun rafræns kennsluefnis, upplýsingaöryggi, sem tæknihöfundur, verkefnastjóri í upplýsingatækni, þýtt stærðfræðivef yfir á spænsku, verið verkefnastjóri bjartsýni.is hjá forseta Íslands, verið formaður húsfélags og vefstjóri hjá Hagsmunasamtökum heimilanna í nokkra mánuði. Þar að auki tók ég upp hjá sjálfum mér rétt fyrir kosningar að styðja Borgarahreyfinguna með bloggskrifum rétt fyrir kosningar, og var sáttur við launin - fjórir gagnrýnir hugsuðir (vona ég) á þing. Einnig hef ég tekið þátt í skákmótum þegar tími hefur gefist til, skrifað um kvikmyndir, bloggað um ýmislegt sem mér hefur þótt skipta máli og sinnt fjölskyldunni.

Ég hef kynnst mörgu góðu fólki á leiðinni um heiminn og í störfum mínum, og kynnst því sem fylgir því að næla í heimsmeistaratitil. Ég hef ekki tekið hefðbundið sumarfrí sem felst í að liggja á sólarströnd og sötra bjór, en frá árinu 2000 hef ég heimsótt Mexíkó, Guatemala, Belize, Costa Rica, Ecuador, Kúbu, Bandaríkin, Danmörk, England, Spán, Tékkland, Þýskaland, Namibíu, Noreg, Ísland og hið ofursjálfstæða ríki Vestmannaeyjar. Í gær heimsótti ég svo Svíþjóð í fyrsta sinn.

Það má segja að ég sé að lifa lífinu, þó að mér líki samt best að sitja við tölvu inni í herbergi og skrifa, hvort sem ég blogga eða skrifa sögur. 

Ég mun ná þeim markmiðum sem þarf til að fjölskylda mín fái að lifa mannsæmandi lífi við hófleg kjör, enda með góða menntun, mikla starfsorku, er heilsteyptur og heilbrigður, og vil láta gott af mér leiða, og fái ég tækifæri til þess, geri ég það.

Er ástæða til annars en bjartsýni?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband