Mars 2009: Hvernig Samfylkingunni tókst að tapa mínu trausti

Heldur áfram upptalning mín á þeim greinum sem fengu vöktu öflugustu viðbrögðin. Eftir á að hyggja sé ég hvað sorglegt er að greiða atkvæði til alþingiskosninga þegar þingmenn þeir sem komast til valda fara ekki einu sinni eftir eigin loforðum, þó að þeir hafi allar aðstæður til þess:

 

Hvernig Samfylkingunni tókst að tapa mínu trausti

Útslagið gerðu viðtöl í Kastljósi og Silfri Egils 15. og 16. mars 2009.

04compass

 

Fyrir síðustu kosningar las ég vandlega stefnumál hvers flokks og tók þá ákvörðun að kjósa Samfylkinguna. Stefnurnar tók ég saman hér. Loforðin snerust um að setja heimilin í forgang, auka sanngirni í samfélaginu, og koma í veg fyrir sjálftökur og orðrétt:

"Það er þjóðarnauðsyn að bæta fyrir vanrækslusyndir ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum. Samfylkingin berst fyrir auknum jöfnuði, jafnvægi í efnahagsmálum og félagslegum framförum."

Ég axla ábyrgð með því að hrópa yfir heiminn að ég kýs þennan flokk ekki aftur.

Í fyrsta lagi stóð Samfylkingin máttlaus hjá þegar hrunið reið yfir, og gerði í raun minna en ekkert gagn. Hápunkturinn í flokknum var þegar Björgvin G. Sigurðsson sagði af sér ráðherraembætti degi áður en ríkisstjórnin féll, og með þessari afsögn og því að afþakka laun næstu sex mánuði sem hann hafði rétt á, bjargaði hann eigin heiðri, þó að ekki hafi hann bjargað flokknum.

 

avalanche


Í Samfylkingunni hef ég orðið var við undarlega tregðu við að taka af skarið og koma heimilum landsins til hjálpar. Við heyrum frasa eins og 'skjaldborg um heimilin' sem reynast síðan ekki hafa mikið innihald.

Ég vil reyndar þakka Samfylkingunni fyrir að hafa greitt leiðina fyrir útgreiðslu séreignarsparnaðar, hugmynd sem fyrrum samstarfsfélagi minn kom með í hádegismat og ég birti síðan hér á blogginu og sendi nafna mínum, aðstoðarmanni Jóhönnu þá félagsmálaráðherra - og fékk ágætar undirtektir. 

Hér er sú færsla frá 3. nóvember 2008: Af hverju má ekki nota séreignalífeyrissparnað til að borga húsnæðislán?

Mér finnst leitt að þessar hugmyndir komi ekki frá fólkinu sem hefur verið kosið. Af hverju þurfa svona hugmyndir að koma frá fólki utan úr bæ? Af hverju spretta þær ekki upp í hugum þess fólks sem kosið hefur verið á þing og ráðið í embætti? Það skil ég ekki.

Ég var upptekinn við önnur störf en tók samt eftir að eitthvað undarlegt var á seyði í bönkunum þegar ég skrifaði greinina Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska? 25.3.2008

 

 

Það er eitthvað mikið að þegar maður út í bæ eins og ég sé þetta skýrt og greinilega en fólk með nákvæmar upplýsingar og við völd verður ekki var við neitt.

Ég hvatti fólk til að kjósa Samfylkinguna fyrir síðustu kosningar. Það geri ég ekki aftur.

Eftir að hafa heyrt Árna Pál Árnason gjamma innihaldslítið í Silfri Egils og Sigríði Ingadóttur rífast af hörku gegn skynsamlegri hugmyndi í Kastljósi kvöldsins, mun ég sjálfsagt mæla af hörku gegn því að fólk kjósi þennan flokk aftur. Að Samfylkingin standi fyrir lengingu í hengingarólinni með greiðsluaðlögunum er skammarlegt. Það skammarlegt að ég skammast mín fyrir að hafa kosið flokkinn í síðustu kosningum og lofa því að ég muni ekki kjósa hann aftur. Það hafa þessi tvö viðtöl sannfært mig um.

Þessi rök sem við höfum lengi séð fyrir að ekki skuli koma með heildarlausn af því að það hjálpi fólki sem er ekki komið í alvarlegan vanda núþegar er ljótur stimpill á flokk sem hefði getað átt sér fína framtíð.

Málið er að neyðarúrræðið er komið. Það er búið að fresta eignatöku á heimilum til ágúst næstkomandi. Næsta skref er að fólk fái til baka þá peninga sem var rænt. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hjá Framsóknarflokknum og Tryggvi Þór Herbertsson hjá Sjálfstæðisflokknum sjá þetta sem nauðsynlega réttlætisaðgerð - að það fólk sem átti sína fasteign fyrir hrun, eignist aftur í sinni fasteign og festist ekki við hana áratugi til viðbótar. Að Samfylkingarfólk sjái þetta augljósa mál ekki skýrum augum og slái upp í kringum það pólitísku ryki er óskiljanlegur afleikur hjá flokki sem var næstum búinn að bjarga andlitinu.

Það þarf að hlusta á það sem fólk hefur að segja, sérstaklega ef það eru hugmyndir um lausnir, án þess að falla í skotgrafir flokkspólitíkar.  

 

career%20choice%202

 

Við höfum tvo kosti. Þeir eru einfaldir. Hvorugur fullkominn.

1) Framkvæmum aðgerðir fyrir þá sem eru verst staddir og látum þá sem eru illa staddir bíða eins og lömb sem fylgja blindum hirði þar til þau eru nálægt því að fjalla fram á bjargsbrún - þá skal þeim bjargað í réttri röð, þó að þeir séu 100.000 talsins ef þeir standast skilyrði sem sett eru fram.

2) Drögum til baka tapið sem fólk hefur orðið fyrir vegna árásar á gengi íslensku krónunnar og gífurlegar verðbólgu sem er á ábyrgð þeirri sem eiga lánin - til þess eins að mjólka hraðar úr spenum skuldara. Látum það sama ganga yfir alla. Ljóst er að einhverjir græða á þessu og það er vissulega ósanngjarnt - en getur einhver virkilega staðið við þá hugmynd að það sé mikilvægara að koma í veg fyrir að einhver græði pening á ástandinu, heldur en að gera fyrirbyggjandi aðgerðir til að bjarga heimilum tugi þúsunda mannvera?

 

fries

 

Í augnablikinu er allt útlit fyrir að ég skili auðu í næstu kosningum og með því meina ég megna óánægju gagnvart því sem verið er að bjóða upp á, sem er sambærilegt við að ganga út af veitingastað ofbjóði þér verðið, framkoman eða maturinn. Eða allt þrennt.

Við þurfum að framkvæma flata aðgerð við fyrsta tækifæri og þurfum að gagnrýna af hörku þá sem standa í vegi fyrir slíkri framkvæmd með þeim rökum að þá græði einhverjir á ástandinu.

Björgunaraðgerðir kosta ákveðnar fórnir. Að koma í veg fyrir hamfarir er ennþá verra.

 

Umræddir sjónvarpsþættir:

Kastljós 16.3.2009

Silfur Egils 15.3.2009

 

Myndir:

Áttaviti: ABC Radio National

Snjóflóð: All About Snow

Maður út í bæ: Roaring 20 - Somethings

Maður á krossgötum: University of Westminster

Ógirnilegur réttur: Weight Loser Blog

 

(Til að fyrirbyggja misskilning, þá er ég ekki á leið í framboð og hef engan áhuga á að starfa á vettvangi stjórnmála). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

addInitCallback(commentWatch.init);
1 Smámynd: Víðir Benediktsson

Sérlega góð færsla og ég er svo hjartanlega sammála. Tillaga Sigmundar og Tryggva er allrar athygli verð og skylda stjórnvalda að skoða hana í fullri alvöru en ekki slá hana út af borðinu umhugsunarlaust fyrir það eitt að hún er ekki komin frá "réttum" aðilum. Skjaldborgin virðist týnd og það eina sem virðist í boði er að lengja í hengingarólinni en ekki skera á hana. Ef Össur ynni jafn hratt og hann talaði væri ekki mikið að en því miður virðist öll hans orka fara í málbeinið. Get ómögulega séð það sem aðrir virðast sjá við Árna Pál

Víðir Benediktsson, 17.3.2009 kl. 00:37

2 identicon

Mjög góð grein hjá þér og ég verð að taka undir með þér að málflutningur Samfylkingarinnar við þessum tillögum er ekki að virka.

Innihaldslaust gjamm og glamur Árna Páls Árnasonar var eins og glamur frá tómri tunnu sem reyndi með yfirgangi að rúlla yfir aðra þáttekendur í Silfrinu.

Sigríður Ingadóttir var nú ekki eins yfirgengilega drambsöm en hún gat þó ekki í neinu mótmælt því sem Tryggvi Þór Herbertsson hafði um þetta mál að segja.

Þessar tillögur verður að skoða opið og fordómalaust.   

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 01:00

3 Smámynd: Einar Jón

Það er einn galli við líkinguna á veitingastað og að skila auðu. Auð atkvæði hafa ekkert vægi (talin með ógildum og eru ekki reiknuð með), svo þetta er að líkara því að ganga út af hlaðborði sem þú ert búinn að borga fyrir. Þetta er semsagt táknræn aðgerð, en skaðar vertana ekki neitt því þeir skipta aðgangseyrinum bróðurlega á milli sín.

Svo sá ég komment hjá púkanum sem mér finnst summera 20% niðurfellinguna ágætlega: "Þessi tillaga Framsóknarflokksins er álíka gáfuleg og ef menn færu út í að bregðast við miklu atvinnuleysi með því að greiða öllum verkfærum mönnum atvinnuleysisbætur óháð því hvort þeir eru atvinnulausir eða ekki."

Einar Jón, 17.3.2009 kl. 04:24

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Rökin á bakvið þetta eru einföld: 

Sá sem lánaði heimilum tók sjálfur lán. Lán hans hafa verið niðurfelld. Þess vegna getur hann og ætti að fella niður þær skuldir sem hann á. Til eru gömul og skiljanleg rök fyrir þessu í dæmisöguformi úr Biblíunni, en sagan hefur gildi óháð trúarafstöðu:

"Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur.

Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.
Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum."

 Matt 18.21-35

Hrannar Baldursson, 17.3.2009 kl. 07:28

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það má reyndar beita heilbrigðri skynsemi til að réttlæta flata leiðréttingu. Segjum að tveir menn sitji að tafli. Annar þeirra er með mun betri stöðu en hinn, þegar þriðji aðilinn kippir tveimur fótum undan skákborðinu. Báðir keppendur grípa í borðbrúnina en í stað þess að rétta borðið við ákveður sá sem var að tapa skákinni að viðhalda hallanum þannig að taflmennirnir renna hægt og rólega út af borðinu.

"Við getum bara gripið þá í fallinu og sett á sinn reit þegar þeir detta," segir sá sem var með verri stöðu.

Hinn svarar: "Þetta er fáránleg hugmynd. Réttum við borðið til að við getum teflt skákina áfram."

"Nei, það er ósanngjarnt," svarar sá sem var með verra. "Því þá gætirðu unnið skákina. Það vil ég ekki."

Að borðinu kemur dómari sem spyr af hverju þeir láti borðið halla. Þeir segja frá manninum sem kippti löppunum undan borðinu og þeir ráði einfaldlega ekki við að halda þessu svona. 

Ákveður dómarinn, sem er ágætis vinur þess sem var að tapa skákinni, að láta borðið halla áfram þar til allir taflmennirnir eru dottnir út af því - og rétta svo borðið við þegar báðir eru búnir að tapa öllum sínum mönnum. Það er nefnilega meira réttlæti í því að bjarga þeim sem eru í háska, heldur en þeim sem eru það ekki.

Hrannar Baldursson, 17.3.2009 kl. 07:51

6 Smámynd: Vilhjálmur Andri Kjartansson

Það var fjöldinn allur af fólki sem lifið hér á efnum fram og hafði það gott og naut þeirra lífsgæða á meðan grasið var grænt og blóm í haga. Við hin sem sýndum smá skynsemi og lögðum fyrir til að eiga fyrir hlutunum eigum nú að fá reikninginn frá neysluseggjunum í hausinn. Þetta er alveg gífurlega sanngjörn tillaga þ.e. þeir sem eyddu mest munu græða mest á því samkvæmt þessari tillögu.

Auðvitað eru líka til skuldarar sem keyptu sér ekki jeppa eða glæsibifreiðir, endalausar utanlandsferðir eða flatskjái og nýjar innréttingar en þeir eru bara fórnarlömb þessa ástands eins og svo margir aðrir. Ég get tekið dæmi af sjálfum mér en ég beið með það að kaupa mér íbúið sumarið 2007 því ég taldi heppilegra að leggja meira fyrir og eiga stærri hluta og taka minna lán. Ég var það heppinn hafa ekki keypt mér íbúið fyrir hrun en það óheppinn að hluti af sparnaði mínum var í hlutabréfum og skuldabréfum sem ég tapaði. Það er ekki hægt að bjarga öllum og ekki fæ ég 20% af hlutabréfunum eða skuldabréfunum greidd til baka frá ríkinu.

Þjóðin tók bara allt of mikið af lánum og kann ekki að spara og nú verðum við bara að súpa það súra seyði.

Vilhjálmur Andri Kjartansson, 17.3.2009 kl. 13:05

7 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ég setti þetta inn hjá Tryggva.

Einnig er ég afar sammála því að Árni er galtómur og að því er virðist EKKI að vinna fyrir Litlu Gunnu og mann hennar hann Litla Jón.

Hann vill bara borga allt sem ,,kröfuhafar" biðja um og að bankaleynd er sjálfsögð í hans huga. Fyrir hverja er þessi drengur að vinna?

Hér kemur innslagið:

Ég setti inn færslu á svæði Þráins Bertelssonar um sama efni.

Ástæða þess, að ég kysi frekar þessa aðferðafræði er, að þá væri um leið VIÐURKENNT, að þjóðin var beitt blekkingum og verulega brotið á SAMNINGSRÉTTINDUM manna.

Þar lýsi ég í nokkrum orðum, hvernig farið var í fyrstu gegn þjóð okkar þegar Lífeyrissjóum var leyft, að ,,dreyfa áhættu” eins og það var látið heita á sínum tíma. Menn fengu að lána erlendum aðilum og kaupa erlend verðbréf.

Þetta leyfi var svo misnotað,– eins og svo margt sem gert var af góðum hug í frómum tilgangi að leysa höft af mönnum,–gegn þjóð okkar með því að yfirkeyra þol Krónu okkar og þannig fella gegnið og hækka þannig HÖFUÐSTÓLA lána innlendra. Með þeim hætti lagaðist ,,eigin fjár hlutfall” sjóðanna og menn gátu blásið til aðalfundar með reikningana vel út lítandi.

Sama gerðist í bankagamblinu.
Ársfjórðungslega var ráðist á gegnið og gert svo stórkarlalega ða allir tóku eftir ,,patren” í útliti línurita um gegnisvísitölu.

Því vil ég skrúfa einfaldlega verðtryggingarvísitöluna (auðvelt að finna út reiknistuðulinn) aftur til 01.01.1998 í það minnsta.

Þetta er svona nokkuð misjafnlega mikið, allt eftir því hvenær lán var tekið en hér er um algerlega korrekt aðferðafræði að ræða þar sem ekki er mismunað með nokkrum hætti.

Viðurkenningin og afnám Verðtryggingar er lágmark sem hægt er að fara fram á það felst í þessari gerð.

SVo í forbifarten.

EKKI stuðla að því að menn greiði offjár inn í sparisjóði eða fyrirtæki, sem ekki hafa skilað inn bónusum og ,,fyrirfram teknum ARÐI!!!!”

Ef það verður gert verður allt brjálað.

Kjósendur setja því miður = milli fjárglæframannana og Sjálfstæðisflokkins.

AFnemum þau hugrennignartengsl.

Með tilhlökkun að vinna með þér á Landsfundi.

Miðbæjaríahldið

Bjarni Kjartansson, 17.3.2009 kl. 13:17

8 Smámynd: Hrannar Baldursson

Vilhjálmur Andri: Góð athugasemd hjá þér að þetta eigi ekki að eiga við um allt heila klabbið. Ég tel að réttlátt væri að þetta eigi við um húsnæðislán heimila fyrst og fremst, og þá væri ég ekkert á móti því að þak væri á þessum hugmyndum, þannig að þeir sem borguðu 200 millur fyrir einbýlishús á 100% komi ekki kerfinu á höfuðið.

Ég er ekki að tala um að koma eins til móts við þá sem eyddu um efni fram, heldur þá sem keyptu og fengu lán þar sem lítið annað var í stöðunni. Ég skil að þú skulir ekki hafa keypt árið 2007, en þá voru merkin um tilvonandi hrun farin að birtast.

Hrannar Baldursson, 17.3.2009 kl. 13:27

9 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Takk fyrir frábært blogg Hrannar.

Ég skil ekki hvað er svona slæmt við hugmynd Tryggva Þórs, að það megi ekki ræða hana og framkvæma hana þannig að hún geri fólkinu kleift að halda heimilum sínum.  Ég horfði á þáttinn með Tryggva og Sigríði Ingibjörgu og gat ekki betur heyrt en það væru sammála um að það þyrfti að skoða þessa hugmynd vel áður hún yrði sett í framkvæmd. Það er hægt að vinna hratt og gera margt á einni nóttu, það kom fram þegar neyðarlögin voru sett við fall bankanna í haust.

Það má alveg nota aðra nótt í að semja önnur neyðarlög.

Ég er sammál þér að auðvitað hafa menn væntingar til samfylkingarinnar um að gæta að hagsmunum heimilanna í landinu. Vonandi gera fulltrúar hannar það.

Með kveðju.

Jón Halldór Guðmundsson, 17.3.2009 kl. 14:15

10 Smámynd: Vilhjálmur Andri Kjartansson

Þetta á náttúrulega ekki bara við um þá sem keyptu 200 milljón króna einbýlishús. VÞað að húsnæðisverð hækkaði hér upp úr öllu valdi varð til þess að gífurelg "eignarmyndun" átti sér stað hjá fólki sem hafði keypt íbúðir fyrir hækkun. Mjög margir notfærðu sér þetta til að taka lán fyrir eyðslu og hafa í uppsveiflunni notið þeirra lífsgæða umfram aðra sem ekki gerðu slíkt hið sama. Ég er ekki tilbúinn að koma þessu fólki til bjargar eins mikið og maður finnut til með því.

Það fólk sem hefur orðið verst úti myndi ég ætla að væru einstaklingar á mínum aldri sem eru að ljúka námi eða eru nýbúnir að ljúka námi og hafa á undanförnum 2-3 árum verið að kaupa sér sína fyrstu íbúð. Ég öfunda ekki það fólk sem fór inn á markaðinn á þeim tíma. Ég tel að það væri skynsamlegra að miða lán þessa fólks við brunabótamatið eins og það er í dag og taka afganginn og lengja hann um 10 ár og þá byrjar fólk að greiða þann hluta eftir 10 ár. Fólk getur þá gert ráðstafanir svo sem lagt fyrir eða eitthvað annað til að mæta þeim kostnaði sem mun bætast við lánið í framtíðinni. Þar fyrir utan verður flest af þessu fólki sem ég myndi ætla að vær í yngri kantinum búið að vinna sig upp í betri stöður og komið með hærri tekjur eða það vona ég fyrir þeirra hönd.

Síðan má líka bara gera ekki neitt og láta þá falla sem tóku áhættu.

P.s. þessi hugmynd er ekkert úthugsuð en hef heyrt menn tala um eitthvað svipað og mætti alveg skoða þetta eins og annað.

Vilhjálmur Andri Kjartansson, 17.3.2009 kl. 14:48

11 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bara að benda á að skv. þumaputtareglu um að afborgun sé um 6 til 7 þúsund af hverri milljón af verðtryggðu húsnæðisláni á mánuði þá þýðir 20 lækkun láns upp á 20 milljónir aðeins um 25 til 30 þúsund króna lækkun á mánuði í greiðslum. Það segir held ég lítið fyrir þann hluta þjóðarinnar sem verst stendur.

Einnig þá bendi ég á að þó að bankarnir hafi fengið einhvern afslátt af þessum lánum þegar þeir tóku þau yfir frá gömlu bönkunum þá hafa þessi lán verið reiknuð sem eignir í nýju bönkunum. Og því velti ég því fyrir mér hvort að við þurfum ekki að bæta þeim þessar eignir svo að eigna staðan verði ekki neikvæð. Og ef íbúðarlánastjóðum kaupir þessi lán þá eru þau ekki eins mikið niðurfærð. Erlendir kröfuhafar lánuðu ekki beint í íbúðarkaup hér heldur lánuðu íslensku bönkunum sem lánuðu áfram. Og eins þá er ekkert held ég búið að semja við erlendum bankana um afskriftir á þessum lánum.

Held að menn verði a.m.k. að fá heildarmynd á þessar skuldir áður enn menn tala um að þessi eða hin leiðin sé alveg framkvæmanleg.

Minni á að Tryggvi Þór taldi að raunverulegar skuldir okkar yrðu um 465 milljarðar eftir að allt dæmið yrði gert upp. En Gyfli Magnússon hefur talað um að réttara sé að tala um 6 til 800 milljarða. Þannig að maður veltir fyrir sér hvaða forsendur Tryggvi hefur um stöðu mála.

Magnús Helgi Björgvinsson, 17.3.2009 kl. 16:16

12 identicon

Því fór nú fjarri að Sigríður Ingibjörg hafi mótmælt flötum niðuskurði af hörku, heldur fannst henni (ekkert frekar en flestum sem um málið hafa fjallað) málflutningur Tryggva Þórs ekki sannfærandi. Hún sagði síðan að ef hann kæmi með skýrari rök fyrir sínu máli þá væri hún til í að samþykkja slíkar aðgerðir. Mér fundust reyndar viðræður þeirra til fyrirmyndar óvenju uppbyggilegar af tveimur frambjóðendum. Vonandi verður kosningabaráttan á svipuðum nótum.

GH (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 16:18

13 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Það er nú einfaldlega svo, að bestu hugmyndirnar koma oft frá "fólki utanúr bæ" Wink

Hildur Helga Sigurðardóttir, 17.3.2009 kl. 17:21

14 identicon

Veistu ég er líka búinn að segja skilið við Samfylkingu hún og hennar forysta er svo langt í burtu frá mínum raunveruleika!  Vinstri flokkarnir eiga eftir að fá sjokk þegar við sem eigum  um sárt að binda ... látum atkvæði okkar falla til þeirra sem ætla raunverulega að slá skjaldborg um okkur!

ÞE (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 17:48

15 identicon

Glæsil. færsla.

Ég get ekki smellt á linkinn (hér), þar sem stefnumál Samf. eiga að birtast í blogginu þínu.

Gaman væri ef þú nenntir að senda mér þá samantekt þína. 

Bkv. Valdemar velar@emax.is

Valdemar Ásgeirsson (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 20:14

16 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Góður pistill Hrannar. Mér finnst vandi Samfylkingarinnar í dag kristallast í tilsvörum þeirra þegar spurt er um lausnir. Svarið er alltaf ESB. Það hjálpar ekki karlalandsliðinu í fótbolta að ganga í ESB og það hjálpar heldur ekki heimilunum eða fyrirtækjunum í landinu NÚNA. Árni Páll gat ekkert sagt þegar Egill Helgason rak þetta í hann í Silfrinu á sunnudaginn.

Á meðan ekki koma fram aðrar betri tillögur en Framsóknar-Tryggva þá styð ég hana.

kveðja,

Muggi.

Guðmundur St Ragnarsson, 17.3.2009 kl. 20:27

17 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sæll Valdemar, búinn að laga linkinn: Alþingiskosningar 2007 - Stefnur allra flokka

Ég er mjög ánægður með umræðuna sem skapast hefur um þetta mál, og hef áttað mig á að hugsanlega séu ákveðnir hagsmunir að takast á í þessum máli: annars vegar þeirra sem vilja að verð húsnæði standi í stað eða hækki, og þessir aðilar væru þá hlynntir hugmyndum Tryggva og framsóknar, og aðrir sem sæju hag sinn í að húsnæðisverð lækki, því að þá gæti losnað um töluvert af ódýru húsnæði sem hægt væri að braska með til framtíðar.

Þetta er snúið mál, en réttast væri að horfa framhjá hagsmunum og huga að almannaheill, sem eru þau ráð sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið að berjast fyrir.

Hrannar Baldursson, 17.3.2009 kl. 20:38

18 Smámynd: Ómar Ingi Friðleifsson

Hvernig þeir öðluðust traust þitt í fyrsta lagi er í meira lagi skrítið Wink

Ómar Ingi Friðleifsson , 17.3.2009 kl. 20:55

19 identicon

Sammála þér Hrannar. Góðar nótur! Tek líka heilshuga undir gagnrýni á Árna Pál, sem að mínu og margra annarra mati, er óttalegur "lýðskrumari". Varði Sjálfstæðis-flokkinn, meðan hann var með honum í stjórn en breytti svo aldeilis um tóntegund á einni nóttu og fann þessum sama flokki allt til forráttu. Ósköp lítið sannfæran við slíkan málflutning.

Högni V.G. (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 21:17

20 identicon

Þið ættuð öll að panta tíma hjá mér sem hér sýnið sjúklega borgaralega heimsku (nema 1 eða 2) með því að trúa kosningarlygum siðleysingjans Tryggva Þórs Herbertssonar.

Þessi hugmynd er skelfileg í alla staði fyrir almenna borgara, hreint út sagt skelfileg. Og þótt síðuhöfundur sé hér að ljúga því að hann hafi kosið Samfylkingu í síðustu kosningum þá vita allir heiðarlegir að það er helber lygi og siðleysi í takt við stuðningsfólk auðvaldsflokksins.

AÐ þið skulið ekki kunna að skammast ykkar að leggja blessun ykkar yfir siðspillinguna og viðbjóðinn - þið heimsku flón.

Geðlæknirinn (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 23:24

21 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Mér finnst ekki samasemmerki á milli þess að vilja að húsnæðisverð lækki og þess að ætla að braska með húsnæði. Húsnæðisverð hækkaði alltof skart síðustu árin. Það er ekki óeðlilegt að verðið gangi að einhverju leyti til baka.

Hvað með að bakka með skuldastöðu til 1. janúar 2008 og miða skuldir við þá dagsetningu, þ.e. gengi erlendra lána og vísitölu innlendra lána? Ég skulda ekki húsnæðislán og er sjálfsagt heppin en hluti af sparnaði mínum hefur verið hirtur af mér og ég er alveg til viðræðu um að minnka ávöxtunarkröfuna á rest ef það verður til þess að rétta hag heimila þeirra sem hafa keypt of dýrt. Mér finnst undarlegt að reyna ekki að ná samkomulagi við sparifjáreigendur um að slá af og ráðast gegn verðbólgu og fáránlega háum vöxtum. Það eru ekki bara lífeyrissjóðir sem eiga í bönkunum.

Við erum jú öll í sama bátnum, það eru bara sumir sem róa og aðrir sem fá far (þarf vonandi ekki að tíunda það góða fólk).

Berglind Steinsdóttir, 18.3.2009 kl. 00:14

22 Smámynd: Landið

Þegar heimskreppan skellur svona harkalega á landinu og ofan á allt kemur hrun krónunar þá held ég að við ættum ekki að segja nei við neinum hugmyndum. Ég er samt ekki viss um að þetta sé góð hugmynd hjá honum Tryggva vini mínum. Það er rétt sem hefur komið hér fram áður í athugasemdakerfinu að þetta yrði gert á kostnað þeirra sem hafa lagt fyrir og væri um leið kjaftshögg framan í það fólk sem sýndi fyrirhyggju og lagði fyrir eða skuldsetti sig ekki um of.

Hrannar það er ekki sanngjarnt að setja þetta upp sem baráttu milli þeirra sem vilja sama húsnæðisverð (og virðast í þínum augum vera góða fólkið) og svo þeirra sem vilja braska með íbúðir (vonda liðið). Þetta snýst miklu frekar um að ganga ekki á þá sem eiga sparnað eða hafa ekki skuldsett sig um of til að borga undir þá sem skulda mikið. Það er lítið réttlæti í því. Mér finnst hugmyndin hans Vilhjálms, míns ágæta frænda, góð eða þó skref í réttari átt.

Landið, 18.3.2009 kl. 01:13

23 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir frábæra umræðu!

Landið: áhugaverðar pælingar sem ég mun svara.

Hrannar Baldursson, 18.3.2009 kl. 07:49

24 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svarið hjá mér er einfalt. Ef það er lögfræðingur, sem er í odda fyrir þinn lista, þá slepptu þí að kjósa hann. 

Mér finnst Simmi trúverðugur, en slíðruorð flokksins verður seint afmáð. Þar á bakvið lúra kafbátar á borð við Alfreð og Halldór Ásgríms.  Það er ansi úldinn köttur í sekk til að kaupa.

Í sjálfstæðisflokki eru það Illugi, Pétur Blöndal, Guðlaugur, Bjarni Ben og BB. Það væri sjálfsmorð að kjósa það hyski yfir sig. (að ógleymdum litlu aðstoðarmönnunum og leikbrúðum gömlu aflanna)

Það er vandséð hvað hægt er að gera sér að góðu hér. L listinn er hópur alþýðufólks, með litla ef nokkra reynslu á stjórnmálum og efnahagsmálum í bland við trúarmaníulið, sem virðist vera að leggja hann undir sig.

Borgaraflokkurinn miðar að breytingum í stjórnskipan og kosningalögjöf, en hefur ekki glóru um hvað ber að gera í stöðu þjóðarbúsins. Þeir eru Evru sinnar og fara með þá möntru eins og hún sé einn allsherjar elexír á ástandið.

Hvað er þá eftir? Frjálslyndir? Ég veit ekki einu sinni fyrir hvað þeir standa.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2009 kl. 17:42

25 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Sammála greinarhöfundi, samfylkinguna munu ég og mínir aldrei kjósa aftur.

"Það er nú einfaldlega svo, að bestu hugmyndirnar koma oft frá "fólki utanúr bæ" " Hildur Helga

Það er líka oft "fólk utanúr bæ" en ekki "sérfræðingarnir" sem sjá þegar augljóslega stefnir í óefni....eða er óhræddara við að tala tæpitungulaust.

Georg P Sveinbjörnsson, 18.3.2009 kl. 20:41

26 identicon

Ef við afskrifum 20% skuldir heimilanna er þá ekki sanngjarnt að lækka húsnæðisverð um 20% þannig að þeir sem ekki hafa enn keypt sér húsnæði fái 20% niðurfellingu á húsnæðinu sem þeir þurfa að kaupa? Þeir þurfa jú að borga fyrir hina sem voru búnir að kaupa sér...

Það er annað sem ekki má gleymast og það er að þeir sem áttu húsnæði áður en húsnæðisbólan blés út (sem alfarið má rekja til Framsóknarflokksins) græddu ótæpilega á húsnæði sínu. Um aldamótin kostaði 4 herbergja íbúð 5-7 milljónir. Í dag kostar sambærileg íbúð ekki undir 25 milljónum. Það vantar alfarið í þessa umræðu að hugsa hvaða leiðir við þurfum að fara til að fólk geti komist í húsnæði. Áttahagafjötrarnir eru ekki það versta sem blasir við ef ungt fólk getur ekki eignast húsnæði í framtíðinni. Haldist verðið óbreytt er augljóst að næsta kynslóð á engan möguleika á að kaupa sér fasteign...

Kristbjörn H. (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 01:14

27 identicon

Mig langar að benda á það að það sem fólk skuldar í dag í heimilum sínum vegna verðtryggingarinnar eru peningar sem voru aldrei fengnir að láni. Þar liggur ósanngirnin. Ég væri fullkomlega sátt af höfuðstóllinn af lánununum hjá íbúðalánasjóði væri sá sem ég fékk í hendurnar og er búin að greiða samviskusamlega af með vöxtum og mun gera næstu fjörtíu ár. Nú er hann hins vegar fjórum miljónum hærri og hækkar um 200 000 kr í hverjum mánuði.

Ég á að gera mig glaða með að borga einhverja hundrað þúsund kalla fyrir að dreifa láni sem ég fékk ekki eða frysta. Ég skil ekki af hverju það ekki hægt að leiðrétta þessa óeðlilegu hækkun á höfuðstól gagnvart heimilum. Íbúðalánasjóður lagði þessa peninga aldrei út og það er ljóst að allar forsendur fyrir því kerfi sem við þekktum eru brostnar og komnar úr samhengi.

Til þess aðila sem kvartaði yfir því að það þyrfti að lækka íbúðaverð, þá er það á hraðri niðurleið en það sem kemur helst í veg fyrir meiri lækkun eru lánin sem hvíla á eignunum. Ef höfuðstóll þeirra lækkar þá skapast svigrúm til að lækka verðið í kjölfarið. 

Elín Arnar (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 13:06


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Þetta virðist vera gömul færsla hjá þér síðan í mars. Hún fór fram hjá mér þá. En hún er engu að síður hressileg núna.

Að greiða út séreignasparnað er bara að pissa í skóna. Þetta er aðferð AGS að nýta sér sparnað almennings. Sorry.

Ég skil vel vonbrigði þin með Samfylkinguna. Ég tel kjósendur VG séu líka mjög miður sín.

Ég tel að ef við hefðum sameinast um að berjast fyrir fullvalda Íslandi hefðum við náð árangri. Þá hefðum við kannski getað leyft okkur að rífast um pólitík einhvern tíman seinna.

Gunnar Skúli Ármannsson, 26.12.2009 kl. 22:30

2 identicon

Er gamall hægrimaður en hef kosið Samfó 2x áður, en sá í gegnum þetta fyrir kosningar. Sá að 20% á línuna væri málið og kaus Framsókn í fyrsta skiptið á ævinni.

Árni Páll og þessi Sigríður Ingibjörg fá mig til að æpa á sjónvarpið!!!

 Þeim hefur líka tekist að gera mig andstæðan EU. Við förum ekki þar inn með buxurnar á hælunum..

Aldrei aftur XS !

LS (IP-tala skráð) 27.12.2009 kl. 00:56

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég held reyndar að fá útgreiddan séreignasparnað sé að bjarga fjölmörgum frá gjaldþroti. Hins vegar er stóra spurningin sú hvort slæmt sé að verða gjaldþrota. Ég tel fátt verra. En það er bara ég.

Hrannar Baldursson, 27.12.2009 kl. 09:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband