Janúar 2009: Hverju er eiginlega verið að mótmæla?
25.12.2009 | 09:55
Ég vil rifja upp þær greinar mínar sem hlotið hafa flestar athugasemdir á árinu sem er að líða. Þessi fyrsta grein fékk 34 athugasemdir, sem á frekar skondinn hátt fjölluðu margar bæði um gæði greinarinnar og lengd hennar, en fæstar beinlínis efni hennar, en fyrsti lesandinn sagðist hafa gefist upp á greininni vegna lengd hennar, en sumir hrósuðu henni einnig fyrir innihald og töldu það skipta meira máli en fjöldi orða sem fóru í hana:
Hverju er eiginlega verið að mótmæla?
3.1.2009 | 13:40
Kemur ekki til greina. Ég mun aldrei hætta. Þið eruð ekki fólkið sem keypti húsið! Þið talið ekki fyrir þá sem eiga heima í húsinu! Þið eruð ekki ég! Ég hef ákveðið að leggja til hluta af skuldum ykkar í stofnun óeirðarhandrukkara, sem mun krefja ykkur um peninginn og banna ykkur að segja ykkur skoðun. Ef ykkur líkar það ekki, þá megið þið bara éta það sem úti frýs. Við þurfum að standa saman! Skiljið þið það ekki? Við erum öll í sama bát! (Sjá neðar)
Hugsum okkur að við ákváðum öll að kaupa okkur hús saman. Við leggjum til pening og húsið er keypt. Síðan ráðum við manneskju til að sjá um fjármál hússins; köllum hann fjárhirði, en hann sér um að borga reikninga og rukka nauðsynleg gjöld. Við ráðum fjárhirðinn til starfsins til fjögurra ára. Við treystum viðkomandi það mikið að okkur dettur ekki einu sinni í hug að fylgjast með hvort hann sé að gera rétt eða rangt. Við viljum bara heyra tölur um stöðuna á reikningnum á þriggja mánaða fresti.
Eftir þrjá fyrstu mánuðina trúum við ekki okkar eigin eyrum.
Fjárhirðirinn sendir dagblöðum svohljóðandi tölvupóst:
Húsið er fullbyggt, og reyndar ekki bara hús lengur, heldur höll. Við þurfum ekki lengur að borga gjöld, heldur er okkur lofað að verðmæti einfaldlega aukist margfalt, þó svo að við gerum ekki neitt. Eftir þrjú ár hefur húsið okkar þrettánfaldast í verðmæti, en þá kemur upp smá vandamál. Allur peningurinn er fastur í eignum og lokuðum reikningum, en þar sem við eigum svo ógeðslega mikinn pening, getum við einfaldlega tekið lán sem eru náttúrulega tryggð með okkar gífurlegu eignum.
Nafnlaus bloggari sem kallar sig 'Hirðfíflið' gerir athugasemd við greinina: "En af hverju ættum við að taka lán ef við eigum svona mikið?"
Svarið kemur frá fjárhirðinum sjálfum sem athugasemd: "Lán eru eina leiðin til að fá alvöru peninga í hendurnar. Allur hinn peningurinn sem situr fastur, það er bara erfiðara að ná í hann. Það er svoddan mál. Lán eru auðveld og ekkert mál að borga þau upp."
Nú skellur á mögnuð þögn. Þetta hljómar eins og ókeypis peningar. Allt í lagi. Við tökum lánið. Það þýðir reyndar að við þurfum að borga af láninu og vöxtum þess mánaðarlega að auki, en við eigum svo mikið af eignum að þær hljóta að borga þetta sjálfvirkt. Það er nefnilega allt sjálfvirkt í dag. Við erum svo þróuð.
Hálft ár líður og við eigum allt í einu ekki fyrir afborgun af láninu. Það er óhagstætt um þessar mundir að losa raunverulegu verðmætin sem við eigum, og því þurfum við eiginlega að taka lán til að borga lánið.
Við höldum opinn fund með fjárhirði okkar. Hann hefur safnað frekar stuttu og ósmekklegu yfirvaraskeggi, svona eins og Chaplin, og vatnsgreitt og örþunnt hárið liggur yfir enninu. Af einhverjum ástæðum beinir hann nefinu upp í loft en horfir á okkur þar sem við sitjum langt fyrir neðan púltið hans. Hann byrjar frásögn sína í föðurlegum tón, en ræðan á eftir að skerpast þegar spurningarnar verða erfiðari og svörin fjarstæðukenndari.
FJÁRHIRÐIR
Vandamálið er að það er enginn til að lána okkur. Þess vegna viljum við biðja ykkur húseigendur að lána okkur til að borga af húsinu.
HJÖRÐ
Við hljótum að geta reddað því.
FJÁRHIRÐIR
Vandinn er bara sá að lánið sem þarf að borga upp kostar í augnablikinu þrettán sinnum meira en húsið sjálft, og það er enginn til í að kaupa alvöru fjárfestingarnar. En þar sem húsið hefur líka þrettánfaldast í verðgildi, erum við að tala um þrettán sinnum þrettán.
HJÖRÐ
Já, allt í lagi. Ertu að segja mér að í stað þess að borga fyrir mat og aðrar nauðsynjar, þá þurfi ég og mín fjölskylda að skuldsetja sig með lánum til að greiða fyrir fjárfestingarnar sem gerðar voru vegna hússins sem við keyptum?
FJÁRHIRÐIR
Svarið er já.
HJÖRÐ
Hvað ef ég neita að borga?
FJÁRHIRÐIR
Þá ferðu á hausinn og öll þjóðin með, þú og þín fjölskylda mun ekki geta tekið þátt í virku alþjóðlegu samfélagi næstu þrjár kynslóðir, eða fleiri, og við þyrftum að selja húsið og allar hinar eigurnar og flytja aftur í moldarkofa.
HJÖRÐ
Ég skil. Þú komst okkur í þessi vandræði...
FJÁRHIRÐIR
Bíddu hægur. Þið völduð mig til að fara með fjármál hússins. Ég gerði allt samkvæmt bókinni.
HJÖRÐ
Hvaða bók? Símaskránni? Viltu ekki bara hætta þessu bulli og leyfa okkur að sjá reikningana. Kannski getum við fundið einhverjar leiðir.
FJÁRHIRÐIR
Nei! Þetta eru mínir reikningar. Þið völduð mig. Ég á þá.
HJÖRÐ
Viltu vinsamlegast láta okkur fá upplýsingarnar? Getur verið að þú hafir stungið einhverju í eigin vasa? Ertu að fela eitthvað?
FJÁRHIRÐIR
Hvernig vogarðu þér?
HJÖRÐ
Við viljum að þú hættir störfum.
FJÁRHIRÐIR
Kemur ekki til greina.
HJÖRÐ
Jú, láttu ekki svona. Segðu af þér.
FJÁRHIRÐIR
Ég þarf þess ekki. Engin lög segja að ég þurfi að segja af mér.
HJÖRÐ
Heilbrigð skynsemi segir annað.
FJÁRHIRÐIR
Það eru ekki lög.
HJÖRÐ
Við viljum að þú sýnir okkur allt sem þú hefur gert til að tapa þessum fjármunum. Við viljum fá tækifæri til að bjarga því sem bjargað verður. Við viljum fá hæfileikaríkt fólk sem getur tekið á þessu máli og unnið með það af hæfni. Við viljum ekki að fólk fari á hausinn vegna þessa. Við viljum ekki missa fólk úr landi. Við viljum standa saman og finna lausn. Eina lausnin er að þú farir frá völdum yfir bókhaldinu og hleypir öðrum að sem við veljum, en með betri ramma.
FJÁRHIRÐIR
Kemur ekki til greina. Ég mun aldrei hætta. Þið eruð ekki fólkið sem keypti húsið! Þið talið ekki fyrir þá sem eiga heima í húsinu! Þið eruð ekki ég! Ég hef ákveðið að leggja til hluta af skuldum ykkar í stofnun óeirðarhandrukkara, sem mun krefja ykkur um peninginn og banna ykkur að segja ykkur skoðun. Ef ykkur líkar það ekki, þá megið þið bara éta það sem úti frýs. Við þurfum að standa saman! Skiljið þið það ekki? Við erum öll í sama bát!
* * *
Fundargestir týnast úr salnum. Einn þeirra hripar hjá sér gátlista:
- Það verður að frysta verðtryggingu á lánum.
- Það verður að gefa fólki færi á að losna við eignir sem eru orðnar verðlausar miðað við skuldir og fá þessar skuldir felldar niður.
- Það verður að fá erlenda aðila til að rannsaka alla anga málsins af dýpt - sama hvern það kann að snerta.
- Það verður að skera á öll hagsmunatengsl milli auðvalds og ríkisvalds.
- Við þurfum að fá inn fólk með hæfileika og getu til að takast á við vandann, það má ekki vera sama fólkið og kom okkur í vandann og reyndist getulítið þegar á reyndi.
- Við hljótum að mega spyrja, hver gaf einhverju fyrirtæki út í bæ umboð til að fjárfesta með peningum hinna eldri, yngri, barna, barnabarna og ófæddra kynslóða?
- Við óskum svara án hroka. Við óskum eftir auðmýkt og samvinnu.
Myndir:
Höll: Mysore District
Chaplin: Itu Zosluk
Athugasemdir
Værir þú kannski til í að hafa þessar greinar þínar kannski svona FIMM METRUM STYTTRI .. Ég gafst upp en langaði að lesa þetta.
Brynjar Jóhannsson, 3.1.2009 kl. 15:30
Tessi færsla er hrein snilld.Takk fyrir tad.
Vonandi lesa hana sem flestir.
kvedja frá Jyderup
Gudrún Hauksdótttir, 3.1.2009 kl. 15:35
Brynjar: Fimm metrum styttri! Góður! Þú hefðir átt að sjá þessa grein áður en ég skar hana niður.
Jyderupdrottningin: Takk sömuleiðis.
Hrannar Baldursson, 3.1.2009 kl. 15:41
Kemur sterkur inn á nýju ári
Ómar Ingi Friðleifsson , 3.1.2009 kl. 15:52
Áður en þú styttir hana!!! Frábært. Í alvöru talað þá er hún í lengra lagi en mjög góð samt.
Sæmundur Bjarnason, 3.1.2009 kl. 15:58
Ómar: Sömuleiðis.
Sæmundur: Ég stytti hana varla úr þessu.
Hrannar Baldursson, 3.1.2009 kl. 16:39
Þetta verður bara þriggja lestra grein :)
Óskar Þorkelsson, 3.1.2009 kl. 16:46
Hrannar! þÚ ert algjör listamaður í orðavali. Pípið um að þetta sé löng grein er bara píp.
Ég er svo sem ekkert allaf sámmála þér í mörgum málefnum, enn þú ert hnitmiðaður og fjandi góður hugsuður.
Þertta er einn frábærasi pistill sem ég hef lesið frá þér, og ég les pistlanna þína þó ég nenni ekki að kommentara á allt.. Takk fyrir snilldarpistill.
Óskar Arnórsson, 3.1.2009 kl. 17:43
Óskar Þ: "Þriggja lestra grein"?
Óskar A: Kærar þakkir.
Hrannar Baldursson, 3.1.2009 kl. 17:56
Hrannar minn, af hverju ert þú ekki á pallinum við Austurvöll á laugardegi? Þú gætir fengið einhvern til að lesa frumsaminn leikþátt á móti þér. Þú átt nóg af efni, gætir notað þessa sviðsetningu eða sviðsett upp á nýtt í búð eða fjölmiðlafyrirtæki.
Berglind Steinsdóttir, 3.1.2009 kl. 19:23
jæja þetta tókst í þriðju atrennu :)
skemmtilegur lestur, takk fyrir mig.
Óskar Þorkelsson, 3.1.2009 kl. 19:31
Berglind: Ég er ekki á pallinum við Austurvöll einfaldlega vegna þess að...veit ekki. Ég væri reyndar ekkert á móti því að vanir leikarar léku leikþátt eins og þennan.
Þú átt nú sjálf ýmislegt gott í pokahorninu.
Hrannar Baldursson, 3.1.2009 kl. 19:34
Óskar Þ: Sömuleiðis.
Hrannar Baldursson, 3.1.2009 kl. 19:37
Gleðilegt ár vinur, frábær grein eins og alltaf. Bíó?
Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 3.1.2009 kl. 20:17
Gleðilegt ár Sancho. Hvenær?
Hrannar Baldursson, 3.1.2009 kl. 20:26
Snilld,,,algjör snilld.
Ásgerður , 3.1.2009 kl. 21:19
Greinin er góð en ekkert nýtt í henni og vinsamlegast framreiddu pistlana fyrir 5 ára og eldri, var smá tíma að trappa niður í barnabókina.
:) samt frábær samlíking og oft einfalt best "nema vodka" ;)
Gunnar Björn Björnsson, 3.1.2009 kl. 21:22
Ásgerður: Takk
Gunnar Björn: Takk, held ég. Ég vil einmitt að lesendur allt niður í þriggja ára aldur skilji textann.
Hrannar Baldursson, 4.1.2009 kl. 01:46
Snilldargrein, alveg passlega löng og ætti ekkki að vera neinum ofraun að lesa í einni lotu
Ég elska löng lög (ef þau eru góð) og þau mega gjarnan teygja sig vel yfir 10 - 15 mínútur, flestir í kringum mig eru þó búnir að missa þolinmæðina strax á 4-5 mínútu og vilja skippa yfir á nýtt lag...strax.
Georg P Sveinbjörnsson, 4.1.2009 kl. 10:30
Hvað skildi þessi Gunnar Björn vera gamall ef miðað er við þroska? Ætli hann hafi vit til að svara því sjálfur?
Óskar Arnórsson, 4.1.2009 kl. 11:51
Frábær grein. Ef fólki er ofviða að lesa hana þá skil ég betur af hverju við erum gjaldþrota. Fólk hefur líklega ekki haft það af að kynna sér nokkurt einasta málefni áður en það gekk til kosninga.
Eva Hauksdóttir, 4.1.2009 kl. 11:56
bara snilld - takk fyrir
Sigrún Óskars, 4.1.2009 kl. 12:19
AMEN
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 4.1.2009 kl. 13:10
Takk fyrir athugasemdirnar. Mig grunar að gagnrýni um lengd greinar og aldur lesenda hljóti að hafa verið sendar inn í gríni.
Hrannar Baldursson, 4.1.2009 kl. 13:27
Frábær lesning og þú ert hér með komin á lista yfir þá sem ég myndi vilja sjá við stjórn landsins.
Sigrún Jónsdóttir, 4.1.2009 kl. 13:55
Virkilega góð grein!
Ef menn geta ekki lesið 3-4 mínútur í beit þá verður bara að hafa það. Hvort sem veldur snilligáfa á svið grínsins eða síþreyta.
marco (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 14:50
Góður
Asdis Sig, 4.1.2009 kl. 15:49
Ef pistlar eru góðir þá hugsar maður eigi um lengd þeirra, frekar verður maður svekktur er þær klárast.
Flott hjá þér.
Takk fyrir mig.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 4.1.2009 kl. 16:29
Oft höfum við eldað silfur saman - oft verið sammála. Nú tek ég ofan, og bið auðmjúkur um afritunarheimild. Snilldar lesing - ég vildi hafa lesið lengri útgáfuna. Eflaust ágætis smásaga í PDF formi?
Skorrdal (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 17:14
Skorrdal: Auðvitað máttu afrita. Mundu bara að geta höfundar. Lengri greinin hafði inngang sem mér fannst að mátti missa sig. Þar sem þetta er skrifað beint á bloggsíðuna er inngangurinn nú farinn í rafræna gröf.
Guðrún, Marco, Sigrún og Ásdís: takk.
Hrannar Baldursson, 4.1.2009 kl. 17:56
Málið í hnotskurn! Frábær, einnar mínútu lesning.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 4.1.2009 kl. 21:23
Hrannar. Frábært lesning. Þeim tveim mínútum sem fóru í að lesa þessa "metra" var vel varið.
Sveinn Ingi Lýðsson, 5.1.2009 kl. 11:13
Frábær lesning. Byrjunin og endirinn bestur.
Þetta er okkar hús.
Halla Rut , 5.1.2009 kl. 15:46
Takk fyrir þetta. Þetta var ekki of langt, bara of satt!!!
Jón Halldór Guðmundsson, 5.1.2009 kl. 16:30