Athugasemd mín við grein Láru Hönnu um pælingar Páls Skúlasonar í Silfrinu
15.12.2009 | 06:48
Lára Hanna tekur daginn snemma og skrifar þessa hörkugóðu grein hérna. Við virðumst vera á sömu bylgjulengd, þó að við tökum kannski ólíkt á málunum, hún með hörkugóðum færslum og myndskotum þar sem hún greinir málefnin á snilldarlegan hátt, ég með því að leita lausna erlendis. Hvort tveggja einstaklingsframtak, án stjórnmálatengsla, með almannaheill ofarlega í huga. Hennar helsta markmið virðist vera að taka á gullfiskaminni landans, að hafa til staðar tæki til að rifja upp mál sem gleymast í amstri dagsins, og vera vakandi í umræðunni. Þetta virkar vel. Mitt markmið hefur leynt og ljóst verið af sama meiði, og tel ég mig hafa fundið leið sem getur hentað íslensku þjóðinni vel, en er hræddur um að fáir séu að hlusta.
Þeir sem mig þekkja kannast við virðingu mína fyrir Páli Skúlasyni, bæði sem manneskju og heimspekingi. Ég lít á Pál sem kæran vin, sem hefur verið mér leiðarljós og virkur leiðbeinandi um torfærur heimspekinnar, en hann ásamt Róberti Haraldssyni unnu með mér að BA ritgerð minni sem ég skrifaði fyrir mörgum árum um gagnsemi heimspekinnar. þrátt fyrir að ég sé oftast á flakki um heiminn og fjarri íslensku samfélagi, er hugur minn oftast hjá minni þjóð.
Ég endurbirti hér athugasemd mína við grein Láru Hönnu:
Sæl Lára Hanna.
Ég hef sjálfsagt kinkað kolli álíka oft yfir lestri þessarar greinar og þegar þú fylgdist með Páli Skúlasyni í Silfrinu. Eins og þú veist, þá fór ég í víking til Noregs með góða hvatningu á bakinu, meðal annars frá þér, og hef hafið störf hjá fyrirtæki sem sett hefur saman aðferðarfræði og hugbúnað sem hjálpar stjórnendum og starfsmönnum við að tengja í heildarmynd samhengi á milli gilda og verka, í stað þess að setja af stað vinnuferli sem þarf að síendurtaka, hugsanlega í einstöku samhengi, hugsunarlaust.
Ég hef minnst á þetta víða og vakið litla athygli. Veit ekki alveg af hverju það er. Kannski vegna þess að þessi aðferðafræði gæti hafnað spillingu eins og regnkápa hafnar rigningu, í réttum höndum.
Aðferðafræði sem byggir á því að umfang starfsemi byggi fyrst og fremst á gildum, sem eru sett fram myndrænt í hugbúnaði og fylgt eftir með verkefnum sem verða til útfrá gildunum, en ekki í einhverju tómu tilgangsleysi, hlýtur að vera eitthvað eftirsóknarvert á þessum tímum, sérstaklega þar sem að þessi leið virkar. Ég hef séð hana virka, hún gerir öll verkefni gagnsæ, og ég ýki ekki þegar ég segi 'öll'.
Ég held að þetta sé nákvæmlega það sem stjórnsýslu okkar vantar. En óttast að slíkar aðferðir séu hugsanlega það sem stjórnsýslan óttast mest. Hugsaðu þér stjórnsýslu þar sem allir starfsmenn fá verkefni sem beintengt eru þeim markmiðum og gildum sem þjóðin velur, og fer að öllu eftir þeim lögum og kröfum sem tengjast þessum markmiðum.
Það besta af öllu væri að fá stofnanda þessarar hugmyndar og leiðtoga fyrirtækisins í sjónvarpsviðtal, þar sem hann gæti sýnt fram á af hverju og hvernig þetta virkar. Ef hægt væri að gefa honum krefjandi skipulag til að greina, sem útskýrt hefur verið í skjali, þá getur þessi aðferðarfræði fundið hver þau röklegu vandamál sem krefjast nánari umhugsunar og tengingu við markmið, kröfur, lausnir og afurðir.
Hægt er að nota þetta til að hagræða í stjórnsýslu, án þess að grípa fyrst og fremst til þess frumstæða að segja upp fólki. Hægt er að finna fólki gagnlegri verkefni, frekar en segja því upp. Hægt er að nýta betur skattpeningana sem þegar fást inn, frekar en að hækka skatta hugsunarlaust og halda að með því einu, magni frekar en gæðum, takist okkur að ráða við þann vanda sem að steðjar.
Ég hef notað þessa aðferðafræði sjálfur til að greina mínar eigin hugsanir um ICESAVE, og þannig áttað mig á af hverju það mál er á villugötum. Mig grunar að markmið allra aðila sé að klára málið sem fyrst, annað hvort með samþykkt eða höfnun. Ástæður fólks fyrir samþykkt eða höfnun er einnig ólík. Þeir sem vilja samþykkja geta haft áhuga á 1) Evrópusambandinu sem lausn eða 2) áframhaldandi stjórnarsamstarfi sem lausn. Þeir sem eru á móti geta litið á höfnun þess sem 1) réttlætismál, þar sem almenningur eigi ekki að borga skuldbindingar einkafyrirtækja og einstaka stjórnmálamanna sem hugsanlega höfðu ekki rétt til að taka slíka ákvörðun án samþykkis Alþingis eða 2) öðlast auknar vinsældir til að ná völdum eftir næstu kosningar.
Afurðir fyrri hópsins reyndist vera að þvinga málinu í gegn til samþykkis og án samræðu, en afurðir seinni hópsins var að gera það eina sem þau gátu, hafið málþóf til að tefja og höfða til réttlætisins. Þjóðin virðist vera að hlusta og átta sig smám saman. En þetta er erfitt mál, og mikið af innihaldslausum skoðunum sem rugla fólk í ríminu, sem byggja fyrst og fremst á því hver heldur með hverjum.
Þetta átti ekki að verða svona langt, en svona gerist þegar maður byrjar að kinka kolli. Held ég birti þessa athugasemd sem eigin færslu í dag.
Með bestu kveðju,
Hrannar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.