Undarlegt þetta ICESAVE mál.
Steingrímur J. Sigfússon hefur einhverjar upplýsingar sem þurfa að fara leynt, bæði gagnvart Alþingi og gagnvart almenningi í landinu. Hann hefur víst sagt forystumönnum hinna stjórnmálaflokkanna hvert leyndarmálið er. Og ennþá fer það leynt.
Enginn forystumaður stjórnmálaflokks á Íslandi þorir semsagt eða vill segja þjóð eða Alþingi hvað er í gangi.
Viðbrögð Alþingis finnst mér eðlileg. Þar sem að ekki fást rök fyrir málinu og koma skal málinu í gegn án umræðu, geta viðbrögðin ekki kallast málþóf. Kannski væri réttara að kalla þetta ekki-málþóf?
Það að troða máli í gegn án raka flokkast náttúrulega ekki undir lýðræðisleg vinnubrögð, slíkt gerðu reyndar þeir flokkar sem áður voru við völd, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, og nú hafa Vinstri Grænir bæst í þann hóp. Allir virðast vilja vera harðstjórar, og ráða sama hvað hver segir. Furðulegt.
Ekki-málþófið er skiljanlegt. Þetta er eina ráðið til að stoppa þá ákvörðun að samþykkja ICESAVE samninginn án fyrirvara og án réttar til að fara með málið fyrir alþjóðadómstól. Það á semsagt að knýja þjóðina til að greiða að fullu fyrir lántökur og eyðslu einkafyrirtækis, þar sem hagnaðurinn er annað hvort horfinn eða hugsanlega notaður til að kaupa bankann að nýju þegar hann verður einkavæddur á ný.
Hins vegar getur vel verið að þetta sé allt saman ryk sem verið er að þyrla upp til að dreifa athygli þings og landsmanna. Það er ekki bara eitt mál í gangi. Það er fullt annað að gerast. Á meðan stjórnarliðar eru ekki í sölum Alþingis, og stjórnarandstæðingar eyða kröftum sínum í að flytja innihaldslausar tölur, hvað eru ráðamennirnir að gera? Hvar eru þeir? Undir hvaða pappíra er verið að skrifa?
Fyrirgefið grunsemdirnar. Annað mál. Hin nýja einkavæðing Arion banka er náttúrulega annað furðumál, sem gerist á sama tíma og athygli allra beinist að ICESAVE. Ég hélt að reynslan hefði kennt okkur að fara varlega í slíkum málum.
Enn annað mál eru efnahagsleg áhrif Hrunsins í Dubai sem var í síðari hluta síðustu viku. Það mun hafa gífurleg áhrif á efnahagslífið í Englandi og ljóst að athygli Englendinga mun fyrst og fremst beinast að Dubai, enda er ómögulegt að segja hvaða áhrif það hrun mun hafa á heimskreppuna.
Það ætti að fresta ICESAVE málinu vegna þeirrar miklu óvissu sem er í gangi. Það veit enginn hvort íslenska þjóðin geti staðið undir þessum skuldbindingum, sama hvað hver fullyrðir, og að samþykkja þær er í raun það sama og að gefa loforð sem aldrei verður hægt að standa við.
Ég held að stjórnarandstaðan sé að gera rétt með ekki-málþófi sínu, og að vel íhuguðu máli tel ég rétt að skora á forseta Íslands að beina ICESAVE til þjóðaratkvæðis, enda held ég að ýmislegt kraumi undir sem hefur ekki náð upp á yfirborðið enn og skiptir miklu máli fyrir þá takmörkuðu heildarsýn sem við búum yfir í dag.
Það er ekkert endilega eitthvað samsæri í gangi hérna innanlands, og hugsanlega er verið að draga leiðtoga okkar á asnaeyrum, og því mikilvægt að hlutirnir séu ræddir á opnum vettvangi. Við munum hvað gerðist þegar Bush tókst að sannfæra Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson um að fara leynt með ástæður um að koma Íslandi á lista yfir viljugar þjóðir í stríðinu gegn Írak, en þar fengu Davíð og Halldór rangar upplýsingar sem hefði verið hægt að stinga niður með opinni umræðu. Í raun reyndist þessi ákvörðun þeirra pólitískt sjálfsmorð, og mig grunar að eitthvað svipað sé nú í uppsiglingu hjá Steingrími og Jóhönnu.
Það er nefnilega ekki nóg að þjóðin treysti Steingrími eða Jóhönnu. Þau verða líka að treysta þjóðinni. Annað er ekki-lýðræði.
Athugasemdir
"Enginn forystumaður stjórnmálaflokks á Íslandi þorir semsagt eða vill segja þjóð eða Alþingi hvað er í gangi," segirðu hér, Hrannar, en það er nú reyndar komið í ljós, að Birgitta Jónsdóttir kom upp um allt saman í gær, og þá reyndist þetta bara vera "fake" hjá Steingrími, hræðslutaktík einber, sjá HÉR í aths. Jóns Steinars!
Jón Valur Jensson, 1.12.2009 kl. 10:25
Þetta eru gagnlegar upplýsingar Jón Valur. Takk!
Hrannar Baldursson, 1.12.2009 kl. 10:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.