Hvað gerist ef Ísland verður gjaldþrota?
19.10.2009 | 16:30
Þeir sitja hlið við hlið, vagninn er troðfullur, en kona nokkur stígur á fætur og Jón sest í sæti hennar, við hlið síns gamla félaga úr boltanum. Jón hnippir í öxl Ísleifs.
"Alltaf í boltanum?"
"Ha?" svaraði Ísleifur og þóttist ekki kannast við Jón.
"Manstu ekki eftir mér? Nonni! Ég var í vörn."
"Já, allt í lagi. Jú. Hæ."
"Ennþá í boltanum? Þú varst orðinn svo helvíti góður? Fórstu ekki út að keppa?"
"Jú," svaraði Ísleifur.
"Kominn heim?"
"Já, var seldur en meiddist á hné."
"Ég skil. Hvenær fluttirðu heim?"
"Það eru komin sjö ár. Djöfulsins ástand maður."
"Segðu. Allt að fara til andskotans," sagði Jón. "Þú ættir að sjá lagerinn í Bónus. Hann er ekki svipur hjá sjón. Ég held að Ísland sé komið á hausinn."
Við þessi orð rétti Ísleifur úr sér og leit hvössum augum á Jón. "Í fyrsta lagi er gjaldþrot þjóðar afar ólíklegt. Sérstaklega í nútímaheimi."
Það stóð ekki á svarinu frá Jóni: "Gunnar Tómasson skrifaði í dag um að ekki verði hægt að komast undan greiðsluþroti íslensku þjóðarinnar. Þar að auki er afar erfitt að segja eitthvað um nútímann, þar sem að manneskjur eru oftar en ekki vitrar ekki fyrr en löngu eftirá. Held að þumalputtareglan sé 50 ár þegar kemur að þjóðfélagsmálum."
"Sagðistu ekki vera á lager hjá Bónus?" spurði Ísleifur forviða, enda svarið aðeins dýpra en hann reiknaði með.
"Ég er með doktorsgráðu í bókmenntafræði og sagnfræði," sagði Jón. "Gagnslausar upp á vinnu að gera, en fínar til að greina ástandið. Venjulega þegar þjóð uppgötvar að hún stefnir í þá átt að ríkið geti ekki lengur stutt við hagkerfið, þá er fyrsta skrefið að fara á fund með öðrum þjóðum til að breyta forsendum viðskiptasamninga á milli landa til að auka viðskipti. Til dæmis, Land A, gæti fundað með Landi B og beðið land B að fella niður tolla eða gjöld til þess að auka innflutning á vörum Lands A.
"Þetta er að sjálfsögðu fín hugmynd og segir sig sjálf," sagði Ísleifur og virtist allt í einu ákafur, eins og þegar hann spilaði sóknarleik í gamla daga, eða rétt fyrir vítaspyrnu. "En hvað gerðum við? Jú, við lokuðum á gjaldeyrisviðskipti og í stað þess að leysa úr höftum jukum, bundum við allt niður. Hefur einhver umræða verið um það að fella niður tolla tímabundið frá öðrum löndum til að fyrirtæki á Íslandi haldi sér á floti, einhverjar pælingar um að lækka skatta á meðan erfiðleikar steðja að? Ha?! Ekki tekið í mál. Það á bara að hækka skatta, ekki breyta álögum, handstýra krónunni í einhvers konar sjálfsfróunarvíti. Er þetta lið ekki í lagi?"
Það glampaði í kristalstær augu Jóns Hreggviðssonar þegar hann uppgötvaði að það var komin í gang samræða. Þeir gætu kannski talað saman af viti án þess að blanda stjórnmálaflokkum eða þekktum persónum úr þjóðlífinu inn í umræðuna. Hann vonaði það. "Ef þessi leið gengur ekki upp," sagði hann, "mun þjóðin sækja um lán frá öðrum löndum."
Ísleifur var eldrauður í framan eins og hann ætlaði að springa úr reiði, en orðin komu samt afar öguð út úr strikinu hans, sem við köllum oft munn: "Væri ekki lágmark að reyna fyrst að taka á sínum málum, áður en óskað er eftir nýjum lánum? Erum við ekki eins og fulli frændinn sem er búinn að eyða öllu í bús, og vill fá smá lán fyrir bara einni flösku í viðbót?" Ísleifur horfði á Jón. Jón horfði á Ísleif og reyndi að halda andlitinu kyrru á meðan. "Ef ég væri önnur þjóð og Ísland væri að biðja mig um lán, og ég vissi hvað ég vissi, um rótgróna spillingu, skuggalega viðskiptahætti, kúlulán og niðurfellingu skulda fyrir suma en ekki aðra, þá myndi ég einfaldlega taka tvö skref til baka og segja nei takk. Að lána Íslandi pening við þessar aðstæður er eins og að kasta þeim ofan í logandi hraun og vonast til að peningurinn stöðvi hraunið."
Jón gat varla haldið í sér flissinu þegar hann sá fyrir sér vörubílana keyra fulla farma af peningum og sturta ofan í rjúkandi Heklugíg. "Venjulega leita þjóðir að vinaþjóðum þar sem friðarsáttmálar þeirra eiga venjulega við um, ekki aðeins frið frá styrjöldum heldur einnig hagfrið sem þýðir að hitt landið mun styrkja það."
"Kaninn," sagði Ísleifur. "Helvítis Kaninn! Tryggðu þeir efnahagslegan frið hjá okkur herstöðvarinnar vegna og hugsanlega sé meginástæða þess að við eigum engan bakhjarl í dag að að þeir fóru frá okkur? Höfum við alltaf verið háð öðrum þjóðum til að halda hagkerfi okkar gangandi?"
"Þetta er með líflegri strætóferðum," sagði Jón skælbrosandi, en reyndi að murka lífið úr sælubrosinu og tala af alvöru. "Ef þetta gengur ekki upp, mun þjóðin leita aðstoðar frá öðrum þjóðum og bjóða eitthvað í staðinn sem þjóðin getur borgað með."
"OK, Kaninn er farinn," sagði Ísleifur niðurlútur á svip. "Norðurlandaþjóðirnar eru búnar að fá nóg af íslenskum oflátungum sem hafa reynt að yfirtaka og eyðileggja fyrirtæki í þeirra löndum, og skilið eftir sig sviðna jörð þar sem annars staðar, sérstaklega í Hollandi og Bretlandi. Hverja getum við beðið um hjálp og hvað getum við boðið þeim í staðinn? Hvað um Pólverja og Rússa? Vilja þeir lána og ef svo er, hvað vilja þeir í staðinn?"
"Herstöð?" stakk Jón upp á. "Skilyrðislausa pólitíska hlýðni á alþjóðavettvangi, sama hvað það kostar? Nýja heimsmynd í anda þjóðarinnar sem styrkir okkur. Við gætum selt sál okkar til að bjarga okkur."
"Ertu að segja mér að Íslendingar hefðu þurft að sýna Íraksstríðinu áframhaldandi skilning og stuðning til að halda Kananum á Íslandi, að kannski þá og aðeins þá hefðum við komist hjá því að missa Kanann og þar með alla tryggingu fyrir efnahagslegum stöðugleika úr landi?" sagði Ísleifur og horfði lengi á Jón. Báðir þögðu um stund, virtust hugsi, en svo sagði Ísleifur: "Hefðum við semsagt átt að selja George W. Bush sálu okkar og styrkja heilagt stríð hans gegn Írak, þó að það hafi verið óréttlátt, til þess eins að tryggja efnahagslegan stöðugleika heima fyrir? Ekki datt mér í hug að svona mál gætu haft áhrif."
"Já, kannski," sagði Jón.
"Ertu þá líka að segja að Íslendingar séu amerískir í hugsunarhætti? Það er nú ekki eins og við horfum stöðugt á bandaríska sjónvarpsþætti og bíómyndir, lifum í raunveruleikasjónvarpi þeirra og drekkum kók alla daga, né fáum okkur Cheerios eða Cocoa Puffs í morgunmat? Ætlarðu kannski að segja mér að Íslendingar séu farnir að ganga í kínverskum Nike skóm frekar en sauðskinnsskóm?"
"Áttu flatskjá?" spurði Jón.
Ísleifur kinkaði kolli.
"I rest my case," sagði Jón. "Ef þetta klikkar..."
Ísleifur greip frammí fyrir Jóni. "Ég veit ekki betur en að þetta hafi klikkað. Það hefur engum höftum verið létt, og ekkert land virðist vilja lána okkur pening. Hvað gerist næst?"
"Verðbréfamarkaðurinn mun hrynja og lánveitingar hætta," sagði Jón.
"Ó? Hefur það ekki þegar gerst?" sagði Ísleifur.
"Allar fjármálastofnanir munu hrynja."
"Virkilega? Fleiri en þær sem hafa þegar hrunið?"
Jón kinkaði kolli. "Allar stofnanir ríkisins munu leggjast af, eins og heilbrigðiskerfi, lögregla, slökkvilið, menntun, vegagerð, og svo framvegis."
Ísleifur bankaði hausnum lauslega í rúðuna. "Það er nú óþarfi að dramatísera hlutina. Er ekki nóg að skera niður um 30%?"
"Fyrirtæki munu loka og störf tapast," bætti Jón við.
Ísleifur bankaði hausnum aðeins harðar í rúðuna. "Hvenær verður botninum náð?"
"Það verða fjöldamótmæli og engin lögregla til að stoppa þau eða slökkvilið til að slökkva elda."
"Mótmælunum lauk í janúar," sagði Ísleifur. "Ég var þar. Ríkisstjórnin féll."
"Og hvað breyttist?" spurði Jón. "Þau mótmæli eru ekkert miðað við hvernig næsti vetur getur þróast. Fólk er þegar byrjað að drepa hvert annað fyrir mat."
"Á Íslandi? Nei, þetta er kjaftæði í þér. Heldurðu að við séum eitthvað bananalýðveldi?"
"Sjáðu til," sagði Jón. "Hinir ríku munu kaupa landið og snúa lýðræðinu í harðstjórn."
"Ertu að tala um fortíðina eða framtíðina?" spurði Ísleifur, ég veit ekki betur en að hinir ríku hafi átt Ísland frá því áður en það öðlaðist sjálfstæði, og þeim hafi einfaldlega tekist að stjórna upplýsingaflæði þannig að sagan hefur verið skrifuð og samþykkt af þeim sjálfum, að sjálfsögðu til að almúginn rísi ekki upp gegn þeim. Kannski er bloggið að breyta þessum hluta af heiminum og þess vegna er allt að hrynja!"
"Hvað heldur þú?" sagði Jón og ýtti á rauðan hnapp merktur STOPP.
Samkvæmt Gunnari Tómassyni, hagfræðing, er þetta raunverulegur möguleiki og hann telur að hugsanlega verði Ísland orðið gjaldþrota innan árs. Ekki það að ég vilji hræða fólk með þessum pælingum, en mér sýnist nokkuð ljóst að ef ekki verður gert neitt af viti, heldur þjóðin áfram að renna niður þessa hálu brekku þar til á endann er komið. Það sem þessi grein fjallar um er fyrst og fremst hvað það er sem biði okkur á þessum afturenda hagkerfis sem hefur dáið drottni sínum.
Segjum að Ísland fengi enga aðstoð frá öðrum löndum aðrar en stanslausar kröfur, og að Ísland yrði loks lýst algjörlega gjaldþrota. Segjum að vöruflutningar til Íslands myndu algjörlega stoppa. Flugvélar og skip hætta að ganga á milli Íslands og annarra landa, nema ef eitthvert erlent fyrirtæki myndi ákveða að viðhalda samgöngum milli Íslands og útlanda, kannski vegna þess að enn eru margir ferðamenn hrifnir af landinu og svo heyrist að fullt af orku sé til sem hægt væri að selja úr landi. Þetta eru því miður ekki fjarstæðukenndar pælingar.
Ég ákvað að Googla aðeins um þetta og leitaði svara við spurningunni, "What happens to bankrupt countries?" og fann nokkuð gott svar á síðunni WikiAnswers. Svörin sem ég fann datt mér í hug að setja upp í samtal tveggja náunga sem hittast í strætó, enda hafa bílar þeirra verið gerðir upptækir og seldir, en þeir sitja uppi með skuldirnar.
Athugasemdir
Sæll vertu, það er engin hættá að landið verði gjaldþrota.nægur fiskur í sjónum,smábátaútgerð var stoð og stytta landsins. Þegar Davið og Halldór ásamt ingibjörgu S spiluðu í tríóunu hér í denn unnu þau öll að svikráðum og stráðu svikafræjum um allt land,þetta var útkoman,og nú virðist ljósið framundan.
þökk sé Jóhönnu og Steingrími
Bernharð Hjaltalín, 19.10.2009 kl. 18:15
Hmmm... Við getum orðið gjaldþrota þó að það sé fiskur í sjónum, rétt eins og fyrirtæki geta verið gjaldþrota þó að það séu peningar í bankanum.
Ég tek Gunnar Tómasson nokkuð alvarlega, en held samt að það sé ákveðinn munur á gjaldþroti og heimsendi, - enda er til fiskur í sjónum. :)
Hrannar Baldursson, 19.10.2009 kl. 18:19
Allir okkar atvinnuvegir eru háðir gjaldeyri . Við höfum fiskinn í sjónum og sjómenn- allt annað sem þarf til að veiða hann og koma á markað er innflutt. Í landbúnaði er það bara bóndinn og grasið-allt annað er innflutt til að stunda nútíma landbúnað.
Viðskipti við útlönd eru okkur lísfnauðsyn. Sennilega engin þjóð eins háð gjaldeyri og innflutningi lífsnauðsynja....
Sjálfur upplifði ég þá tíma sem barn og unglingur þegar þjóðin var búin að eyða öllum stríðsgróðanum milli 1945-1950 og nánast gjaldþrota. Allt skammtað - það litla sem fékkst innflutt . Lítil landbúnaðaframleiðsla vegna þess sem tilgreint er að framan...Þá kom Kaninn (1949)og við fengum aðstoð eins og stríðshrjáð þjóð Evrópu...Og nú er Kaninn farinn.
Gjaldþrot þjóðar sem er vinalaus í dag er ekkert gamanmál
Bgörgunarhringurinn gæti verið ESB aðild
Sævar Helgason, 19.10.2009 kl. 22:54
Ég held að Gunnar Tómasson hafi vit á því sem hann segir.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.10.2009 kl. 00:37
Hluti af IceSave samkomulaginu er að Bretar og Hollendingar hafa veð í öllum okkar auðlindum, þar með töldum fiskimiðunum. Bretar telja sig enn hafa allan rétt til veiða hér, grundvallaðan á 400 ára veiðireynslu og styðjast þar á meðal við dóm Alþjóðadómstólsins í Den Haag frá 1972 í því efni.
Bangsímon (IP-tala skráð) 20.10.2009 kl. 08:58
Alþingismenn ÆTTU að hlusta á Gunnar Tómasson. Gunnar er ekki maður að leita eftir athygli, hann hefur áhyggjur hvert stefnir.
Birgir Viðar Halldórsson, 20.10.2009 kl. 09:11
Ég held að fyrsta skrefið sé að skilja milli löggjafans og framkvæmdavaldsins. Í dag þurfum við að sætta okkur við að meirihluti alþingis (löggjafinn) myndar ríkisstjórn (framkvæmdavaldið) svo prófkjör ráða í raun hverjir sitja að kötlunum.
Þórður Bragason, 20.10.2009 kl. 10:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.