Hvað getur sameinað okkur?

Ég upplifði Ísland ekki sem stéttaskipta þjóð á mínum uppvaxtarárum, en held að það hafi breyst fyrir nokkrum árum þegar velmegun varð gífurleg og sumir urðu miklu ríkari en aðrir. Eftir Hrunið skiptist þjóðin upp í enn fleiri stéttir:
  1. Fólk sem á gífurlega mikið.
  2. Fólk sem á eitthvað.
  3. Fólk sem á ekki neitt en skuldar ekki neitt.
  4. Fólk sem skuldar vegna húsnæðisláns, bílaláns og námsláns.
  5. Fólk sem skuldar vegna kúlulána, lánum fyrir lánum, lánum fyrir hlutabréfakaupum. 

Búið er að fella niður skuldir fjölmargra í hóp 5. Hópur 3 hefur ekki þurft að hafa miklar áhyggjur, en skattar og vöruverð fara hækkandi, þjónusta ríkisstofnana lækkandi. Hópar 2 og 1 voru tryggðir í bak og fyrir af Ríkinu við Hrunið.

Hópur 4 hefur verið skilinn algjörlega eftir í kuldanum, og oft flokkaður eins og viðkomandi væri í hópi 5, af þeim sem eru í hópum 1-3 og eru ekki tilbúnir að tapa einhverju af því sem þeir hafa, og hafna algjörlega að bera einhvern kostnað af þeirri leiðréttingu lána sem hópur 4 krefst, með þeirri hótun 'að allt verði vitlaust' ef farið verði að hafa fé af þeim sem það eiga til að bjarga þeim sem fóru illa að ráði sínu.

Hvernig er hægt að finna sanngjarna og réttláta leið í þessari pattstöðu?

Ef allar stéttir verða sameinaðar að nýju í einu mun fólk sem hefur eignir og völd rísa upp og öskra 'ranglæti', 'vanhæf ríkisstjórn' og 'kommúnismi', og þar að auki gæti orðið annað Hrun vegna slíks ósættis. Ef ástandið verður látið ríkja áfram mun í það minnsta þriðjungur þjóðarinnar tapa öllu sínu. Það tap verður á kostnað allra hinna og gæti líka þýtt annað Hrun.

Ríkisstjórnin í dag er í vandræðalegri stöðu, með báðar hendur bundnar fyrir aftan bak og hefur ákveðið að yfirgefa eigin stefnu þar sem hún skilur að stefna VG og Samfylkingar virka ekki við þessar aðstæður. Stjórnmálaleg hugmyndafræði hefur hlotið gjaldþrot, sama hvert þú lítur.

Eina hreyfingin sem ætlaði sér að brjóta upp hugmyndafræðileysið, Borgarahreyfingin, ákvað síðan á aðalfundi að taka upp hugmyndafræði eins og allir hinir flokkarnir og sigla sjálfa sig í strand. Reyndar standa þingmenn hreyfingarinnar eftir, en hreyfingarlausir og án baklands eru þeir einfaldlega á reki á reginsjó.

Staðan er erfið. Þjóðin á ekki aðeins í efnahagskreppu. Þjóðin á einnig við mannúðarkreppu að stríða. 

Eina lausnin er ef fólk stendur og þraukar saman, og í stað þess að leyfa fjölskyldum að gjöreyðast vegna fátæktar og skuldar að hjálpa þeim að rísa upp, en til þess þarf vilja og mannúð. Það þarf sameiningarkraft til sem hægt er að finna í trúarbrögðum.

En þjóðin virðist orðin trúlaus, lúterska kirkjan þykir ekki lengur svöl, og þjóðin hætt að hugsa sem 'við' og er þess í stað orðin að mörg þúsund sundruðum 'ég'. Satt best að segja held ég að eina lausnin fyrir okkur eins og staðan sé í dag er að vekja kristin trúarbrögð aftur til lífsins, hvort sem að fólk sé trúað eða ekki. Við þurfum eitthvað sem sameinar okkur á þessum erfiðu tímum. Því miður hafa fjölmargir Íslendingar snúist gegn trúarbrögðum eins og þau séu upphaf alls ills í heiminum, aðallega vegna þess að sumir forsprakkar þeirra hafa reynst eiginhagsmunaseggir, stífir pólitíkusar, kynferðisbrotamenn og tækifærissinnar, sem og vegna þess að gömlum kreddum virðist fylgt í blindi sem ekkert erindi virðist eiga í samtímanum. Veruleikinn getur hins vegar verið sá að samtíminn á ekki heima í gömlu kreddunum og að þær séu í raun margar hverjar góðar og gildar.

Okkur vantar sameiningarafl og sama hversu auðvelt og réttlætanlegt er að gagnrýna trúarbrögð, þá er sameining það raunverulega gildi sem trúarbrögð geta gefið, þó að þau séu ótrúleg.

Veit einhver hvað orðið hefur af okkar frægð?

Lútersk trú hefur tapað trúverðugleika sínum á Íslandi í baráttu sinni gegn nýfrjálshyggju, og nýfrjálshyggja hefur tapað öllu sínu gildi. Eftir stöndum við slipp og snauð, í fjárhagslegri, mannúðarlegri og siðferðilegri kreppu sem hótar að leggja landið í eyði.

Hvað getur sameinað okkur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Hvað með þá aðhyllast önnur trúarbrögð en kristni eða engin?

Því miður hafa fjölmargir Íslendingar snúist gegn trúarbrögðum eins og þau séu upphaf alls ills í heiminum

 Nei,vegna þess að þau eru ekki sönn. 

Okkur vantar sameiningarafl og sama hversu auðvelt og réttlætanlegt er að gagnrýna trúarbrögð, þá er sameining það raunverulega gildi sem trúarbrögð geta gefið, þó að þau séu ótrúleg.

"Ótrúleg"?  Nei, ósönn.

Lútersk trú hefur tapað trúverðugleika sínum á Íslandi í baráttu sinni gegn nýfrjálshyggju

Lútersk trú var ekki í nokkurri baráttu gegn nýfrjálshyggju.

Hvað getur sameinað okkur? 

Það er alveg ljóst að það sem sameinar okkur þarf að vera eitthvað sammannlegt.  Það gildir ekki um einhver ein tiltekin trúarbrögð, jafnvel þó þú og um helmingur þjóðarinnar aðhyllist þau.  Hinn helmingurinn þarf líka að fá að vera með!

Þetta er álíka gáfulegt og að ég segði að til að sameina fólk þyrftu bara allir að byrja að halda með Liverpool.

Matthías Ásgeirsson, 22.9.2009 kl. 08:41

2 Smámynd: Arnar

Lútersk trú hefur tapað trúverðugleika sínum á Íslandi í baráttu sinni gegn nýfrjálshyggju..

Bull, eins og Matti benti á.  Lútersktrú 'tapaði' ekki neinni baráttu við nýfrjálshyggju.  Trúinn er að tapa baráttunni við almenna skynsemi og þekkingu.

Eftir stöndum við slipp og snauð, í fjárhagslegri, mannúðarlegri og siðferðilegri kreppu sem hótar að leggja landið í eyði.

Vona að þú sért ekki að segja að þetta sé afleiðing þess að trúin 'tapaði' fyrir nýfrjálshyggjunni.

Hvað í ósköpum hefur trú að bjóða þjóðinni?  Falsvon um betra líf að lokum og þess vegna eigum við að sætta okkur við ömurlegt líf núna (að því gefnu að við séum í hóp 4).  Get ekki séð að trúin leysi neinn vanda.

Arnar, 22.9.2009 kl. 10:02

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég er löngu búinn að missa trúna á Guð, Jesús og Biblíuna, enda er þetta bara tilbúningur og uppsafnaður söguburður til alltof margra alda. Það sýnir sig enginn Guð og bullið í kringum átrúnaðinn er í raun hlægileg þvæla. Þessi þvæla er samt alveg réttlætanleg sjálfssefjun fyrir hina trúuðu til að skapa þeim hugarró. Þetta á þó ekkert með að vera á kostnað okkar hinna sem hugleiðum stóru lífsgátuna á annan hátt.

Ég hins vegar trúi á hið góða í manninum og reyni að lifa skv. því. Það er þess vegna ekkert skilyrði að upphefja þá vitleysu sem trúarbrögðin bera með sér bara til þess eins og fólk sýni hvert öðru samkennd á erfiðleikatímum.

Það er útbreiddur misskilningur að kærleikur sé ekki til nema í gegnum trúarbrögð. Það er óhætt að vakna af þeim leiða misskilningi.

Haukur Nikulásson, 22.9.2009 kl. 11:42

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Svör við athugasemdum í næstu grein.

Hrannar Baldursson, 22.9.2009 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband