Af hverju styð ég greiðsluverkfall?
18.9.2009 | 06:45
Frelsisskerðing sú sem heimilin hafa orðið fyrir í mynd ofbeldiskenndrar gróðafíknar sumra auðmanna, gáleysi og ráðleysi stjórnvalda sem og skortur á trausti gagnvart þeim stjórnvöldum sem nú halda völdum er megin ástæða þess að þörf er á friðsamlegum aðgerðum. Greiðsluverkfall heimila sendir skýr skilaboð. Við erum ekki sátt. Það er eitthvað að. Við viljum lifa lífinu sem frjálsir einstaklingar með mannvirðingu.
Einnig spilar inn í dæmið miskunnarleysi bankastofnana, en þær þurfti að stöðva frá því að henda fólki út á götuna þegar það gat ekki borgað. Í dag hefur fólk úrræði, ekkert ólíkt alkahólisma í sjálfu sér, það getur fryst lán sín (deift huga sinn) með þeirri afleiðingu að höfuðstóll þeirra hækkar enn ógurlega og verður enn óviðráðanlegri en áður þegar frystingu lýkur. Ríkinu sem ætlað er að vernda þegna þjóðarinnar virðast stefna sofandi að feigðarósi, með að selja smám saman auðlindir þjóðarinnar út í heim, og gera ekkert fyrir heimilin annað en að fresta aftökunni.
Stjórnvöld hafa fengið góðan tíma til aðgerða. Fyrst var talað um mögulegt greiðsluverkfall fyrir tæpu ári síðan, en þá þótti rétt að gefa ríkisvaldinu tækifæri til að reisa þá skjaldborg sem lofað var fyrir heimilin í landinu. Hlustað var á hugmyndir ríkisvaldsins til að mæta fólki, en eftir stutta skoðun kom í ljós að aðgerðirnar voru fyrst og fremst þykjusturáðstafanir til að svæfa múginn. Og sífellt kveður við sama svar þegar spurt er um raunverulegar aðgerðir fyrir heimilin: "Á næsta leiti,um næstu mánaðarmót, en við getum ekki lofað miklu." Það er komið nóg!
Ég mæli með því að allir þeir sem vita að á þeim var brotið taki þátt í greiðsluverkfallinu. Ég veit að á mér var brotið, og er hikandi vegna starfsfólksins góða sem sinnir mér í mínum banka. Þetta er gott fólk og ég vil ekki að þau haldi að ég hafi eitthvað á móti þeim. Gjaldkerar og ráðgjafar í bönkum eru þú og ég. Þessu er ekki beint gegn þeim eða okkur sjálfum, heldur þeim sem eru að láta þetta yfir okkur ganga. Staðreyndin er sú að á okkur var brotið. Það verður að leiðrétta. Eina færa leiðin er réttlæti, og réttlætið sefur á meðan börn þess þegja.
Tekin var staða gegn íslensku krónunni. Virðist ástæðan hafa verið sú að láta ársfjórðungsreikninga stórra fyrirtækja og fjármálastofnana líta betur út en staðan var í raun og veru, sem var í kaldakoli, og til að fjármagna greiðslur erlendra lána sem voru komnar á eindaga. Við vitum nefnilega hvað gerist ef við borgum ekki lán okkar. Þessi lán hafa verið greidd, en ekki af þeim sem báru ábyrgð á þeim. Þeim tókst að skuldfæra skuldirnar yfir á heila íslenska þjóð og þessi þjóð hefur þegar byrjað að borga. Verðbólgan, verðtryggingin, gengisfellingin, skattahækkanir, niðurskurðir: þetta eru allt birtingarform á hvernig íslensk þjóð er að greiða skuldir óreiðumanna.
Þessi staða sem tekin var gegn krónunni varð til þess að hún féll reglulega, eða á þriggja mánaða fresti, þegar kom að afborgunum og ársfjórðungsuppgjöri, en að því kom í október 2008 að það dugði ekki lengur til að greiða lánin. Reynt var að fá lán frá Ríkinu og Seðlabankanum, sem höfðu í maí fengið leyfi frá Alþingi til að taka 500 milljarða erlent lán og dæla í hagkerfið. Eftir að þessir peningar gufuðu upp, ákvað Davíð Oddsson, þáverandi Seðlabankastjóri ásamt Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra að segja "hingað og ekki lengra" og ákváðu að ríkisstjórnin tæki yfir hina illa reknu banka. Það má gagnrýna þessa menn fyrir ýmislegt, en þarna tóku þeir rétta ákvörðun. Verst að Geir vildi ekki viðurkenna stöðuna áður en hún varð vonlaus, og verst að enginn hlustaði á viðvaranir Davíðs Oddssonar sem ná að minnsta kosti aftur til apríl 2008, en vitneskjan um í hvað stefndi hefur þó örugglega náð í það minnsta aftur til 2006.
Í kjölfarið áttar fólk sig smám saman á því að eigendur og stjórnendur bankanna léku þann leik að lána eigin fyrirtækjum (yfirleitt ekki sjálfum sér - eins og einhver raunverulegur munur sé þar á) gífurlegar fjárhæðir til að fjármagna kaup á öðrum fyrirtækjum, flytja síðan allar eignir í nýju fyrirtækin og keyra það skulduga í þrot eins og ekkert væri sjálfsagðara. Að sjálfsögðu voru lánaskuldir sumra einstaklinga með góð sambönd, sem höfðu verið svo vitlausir að fá lán á eigin persónulegu kennitölu felldar niður.
Á meðan eru heimilin að krefjast þess fyrst og fremst að grunnþörfunum þremur verði fullnægt: að fólk hafi þak yfir höfuð, klæði og fæði. Einnig má ekki gleyma að þarfirnar í nútímasamfélagi eru fleiri og að erfitt er fyrir fólk að temja sér margfalt minna en það hefur vanist, en þegar í ljós kemur að margar fjölskyldur eiga ekki fyrir þessum grunnþörfum án þess að taka lán sem þau hafa fullan vilja til að greiða til baka, en munu sjálfsagt aldrei geta það, þá er ljóst að eitthvað róttækt þarf að gera.
Greiðsluverkfallið eins og það er boðað, er ekki sett til höfuðs fjármálakerfinu eða óbreyttum bankastarfsmönnum, eða starfsmönnum þeirra fyrirtækja sem eru í eigu auðkýfinga sem rústað hafa hagkerfinu. Það er fyrst og fremst tæki sem nota skal til að sýna fram á vilja fólks til að gera eitthvað strax og raunverulega í vanda heimilanna. Ef greiðsluverkfall hefði verið sett á til frambúðar, yrði afleiðingin annað Hrun. Það er engin spurning. Við erum ekki að tala um það.
Við erum að tala um það að heimilin í landinu hafa verið beitt hörðu óréttlæti og að skálkarnir bíða enn færis að ráðast á þennan varnarlausa hóp sem hefur til þessa stillt sér upp við vegg með bundið fyrir augu, og beðið eftir að skothríðin hefjist, með þeirri von að í aftökusveitinni miði skytturnar jafn illa þar og í viðskiptum.
Þetta snýst um óréttlæti og frelsissviptingu. Þegar þú verður fyrir óréttlæti eru tveir kostir í stöðinni. Gera ekkert og láta níðast á þér frekar, eða stöðva ofbeldissegginn með einhverjum hætti. Gandhi og Martin Luther King yngri kenndu heiminum aðferðir til að stöðva slíkt ofbeldi á friðsamlegan hátt, og það er markmið Hagsmunasamtaka heimilanna, en eftir því sem ég best veit er upphafsmaður hugmyndarinnar um greiðsluverkfall heimilanna stjórnarmaður í HH, Ólafur Garðarsson, sem hefur reynt að vinna þessari hugmynd brautargengi mánuðum saman. Hagsmunasamtökin hafa leitað allra annarra úrræða fyrst, en nú er svo komið að ekki er lengur hægt að sitja aðgerðarlaus.
Gandhi, sem hafði þjónað breska heimsveldinu í áratugi sem tryggur þegn, maður sem elskaði breska ríkið af einlægni, tók þátt í stríði gegn Zulu þjóðinni í Suður Afríku, þar sem hann sá Breta framkvæma fjöldamorð, og ekki nóg með það, hann sá hann einstaklinga sem nutu þess til hins ýtrasta með ánægjugrettum að pynta og limlesta Zulumenn, og þeim var ekki refsað, heldur varð það viðtekin hegðun. Af einhverjum ástæðum spretta andlit útrásarvíkinga nú fram í huga minn sem segja: "Ég skulda trilljón milljarða, þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af mér, ég á fyrir kóki, nafnlausir bloggarar eru sökudólgurinn, og það eru allir vondir við mig." Gandhi fylltist viðbjóði og gaf sig frá þeirri stundu allan í það að hjálpa saklausum einstaklingum, þá aðallega Indverjum, að losna undan ánauð breska heimsveldisins. Við þurfum að hjálpa íslenskum heimilum undan oki auðmanna.
Martin Luther King yngri varð fyrst áberandi þegar kona nokkur í borginni Montgomery í Alabama var þreytt í fótunum og settist í strætisvagnasæti sem ætlað var hvítum. Hún var svört á hörund. Þegar henni var skipað af hvítum farþega að færa sig, sagði hún "Nei, mér er illt í fótunum," og hún neitaði algjörlega að færa sig. Hún var fangelsuð. Athygli Martin Luther King yngri var vakin á þessu máli, og hann stakk upp á því að svertingjar sniðgengju strætisvagna Montgomery þar til reglum yrði breitt og konan beðin afsökunar. Honum til furðu tóku allir þátt í mótmælunum. Helstu farþegar strætisvagnanna voru dökkir á hörund. Daginn sem strætóverkfallið hófst, voru vagnarnir tómir. Galtómir. Fólk gekk frekar til vinnu. Sniðgangan tók ár. Þá var farið að hlusta. Ári síðar var lögum breytt, þar sem svartir máttu sitja þar sem þeim sýndist í strætó. Rosa Parks, konan sem hafði neitað að færa sig, fékk afsökunarbeiðnina árið 2006, 51 ári eftir atburðinn.
Viljum við bíða í 51 ár þar til ríkisstjórnin áttar sig á að óréttlæti hefur verið framið og að heimilunum er að blæða út? Vilja þau virkilega að fólkið sem áttar sig á stöðunni flytji úr landi? Er eitthvað sem getur réttlætt það í huga nokkurs ráðamanns, nokkurrar viti bornar veru, að einn einasti Íslendingur flytji úr landi á flótta undan óréttlæti og frelsissviptingu?
Greiðsluverkfall eru friðsamleg mótmæli gegn hörðu óréttlæti. Verði það til að vekja ekki aðeins ríkisstjórnina og auðmenn heldur einnig stóran hluta þjóðarinnar sem virðist ekki skynja að eitthvað alvarlegt sé að, af mannavöldum, þá er mikið til unnið.
Skili þetta greiðsluverkfall nákvæmlega engu fyrir heimilin verður staðan einfaldlega þannig að ótímabundið greiðsluverkfall mun sjálfkrafa eiga sér stað, ekki vegna þess að heimilin eru að mótmæla, heldur einfaldlega vegna þess að þau geta ekki lengur, og þá mun ástandið fyrst fara úr böndunum.
Það er að mínu mati vítavert kæruleysi af stjórnvöldum að hafa leyft ástandinu að þróast í þá stöðu sem komin er upp í dag, þó svo að Hrunið sé þeim ekki að kenna: að fólk eigi ekki fyrir helstu nauðsynjum og að í stað þess að minnka álögur séu þær auknar og fólk hundelt fyrir að skulda ríkisstofnunum þúsundkall.
Það er óréttlæti, og allt óréttlæti er frelsisheftandi. Sérstaklega ef það er kerfisbundið.
- Viljum við ekki vera frjáls þjóð?
- Viljum við ekki að þeir sem komu heimilunum í þessa stöðu skammist sín?
- Viljum við ekki sjá þá sem komu heimilunum í þessa aðstöðu biðjast afsökunar og gefa þeim tækifæri til að bæta fyrir misgjörðir sínar?
Það vil ég og eftir að hafa heyrt í helstu forsprökkum útrásarvíkinga og í stjórnmálaþeytuvindum sem leiðist aldrei að hlusta á sjálfa sig er ég sannfærður um að þau heyri ekkert annað en það sem blæs úr þeirri vindátt sem þeim hentar. Því er um að gera að koma á logni. Hætta að mása og blása.
Það er nefnilega tvennt ólíkt, annars vegar að vera friðsamur og hins vegar að mótmæla á friðsamlegan máta. Hið fyrrnefnda gerir þig að þræli. Hið síðarnefndi gerir þér fært að halda mannvirðingunni og óska þannig eftir að fólkið sem hefur völdin og auðinn sjái að sér, skammist sín, öðlist grundvallarskilning á að það hefur brotið af sér. Og fari að rækta garðinn sinn.
Ef við gerum ekkert, mun ástandið einfaldlega versna og sagan endurtaka sig. Ef við mótmælum friðsamlega er þó von um að það verði hlustað.
Stærsta og sterkasta vopn okkar er umhyggja fyrir þjóðfélaginu öllu, hverjum einasta þegn. Hver einasti þegn er ómetanlegur. Sá sem segir annað ætti að skammast sín. Að bera fólksflóttann í dag miðað við fólksflótta annarra tíma á Íslandi er skammarlegt. Hvort tveggja er afar illt, og annað engan veginn betra en hitt.
Að grípa til friðsamlegra aðgerða er ekki aðeins réttlætanlegt, það er óréttlætanlegt að gera það ekki.
Um friðsamleg mótmæli, frá Martin Luther King, yngri.
Óraunsæi að hundsa verkfall | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vanhugsuð aðferð! Þá er úti um okkur sem þjóð! HvaHið rétta væri að greiða áfram af lánum, með vöxtum, en án verðbóta og vaxta af þeim.
Hrúturinn (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 08:28
Þú styður greiðsluverkfall vegan vanefna og vangetu þessrar Ríkistjórnar - hin almenni borgari á ekki nein vopn nema svona sem bitna líka illa í viðkomandi, sorglegt þetta
Jón Snæbjörnsson, 18.9.2009 kl. 08:39
óréttlætið voru 90-100% lánin. Hvers vegna reis fólk ekki upp strax og mótmælti? Það á öllum að vera ljóst að peningaprentun endar með verðbólgu. Þegar lánahlutfall er hækkað úr 65% í 90-100% þá getur verðbólgan sem fylgir í kjölfarið ekki annað en hækkað lánið yfir 100%!! Það er almenn skynsemi.
Fannst þér þetta réttlátt á sínum tíma? Að þeir einstaklingar sem áttu húsnæði græddu á þessu á meðan þeir sem komu inn í kerfið síðar töpuðu?
Nú er verið að biðja um leiðréttingu vegna verðbólgu sem er búin að vera fyrirsjáanleg í mörg ár.
Hverjir borga þessa leiðréttingu sem þú vilt fara fram á?
Eru leiðréttingar réttlátar? Hver borgar þær?
Lúðvík Júlíusson, 18.9.2009 kl. 08:48
Lúðvík: Ég veit að þetta er skítt, en staðan er þannig að ALLIR verða að leggja sitt að mörkum, hvort sem þeim líkar betur eða verr, vilji þeir lifa í friðsamlegu samfélagi.
Jón: Já, því miður. Er eitthvað annað í stöðunni? Bíða og vona?
Hrútur: Hvað er vanhugsað við þessa aðferð? Það er einmitt það sem þú stingur upp á sem verið er að berjast fyrir.
Hrannar Baldursson, 18.9.2009 kl. 09:20
Hrannar, þetta hljómar eins og kúgun.
Ég lagði mitt af mörkunum að vara við! Er það ekki nóg?
Þú gerir þér líka vonandi grein fyrir því að krónan lækkar, verðbólgan eykst, vextir hækka og lífskjör versna við þessa aðgerð? Er þessi kostnaður réttlætanlegur? Á að leiðrétta óréttlæti með meira óréttlæti?
Hverjir borga fyrir þessa leiðréttingu?
Þessar slæmu afleiðingar verða minni ef erlendir lánadrottnar taka hana alla á sig.
Lúðvík Júlíusson, 18.9.2009 kl. 09:30
Lúðvík, er eitthvað réttara kerfi þar sem að fjármagnseigandi er tryggður í alla staði á meðan lántaki tekur á sig alla áhættuna. Afhverju er ekki eðlilegra að veðið sem viðkomandi tók fyrir láninu standi undir því láni og þá sé sagan öll, hann ákvað jú að lána á þessum forsendum.
Jóhannes (IP-tala skráð) 18.9.2009 kl. 10:07
Lúðvík: ertu ekki að gleyma því að þessi aðgerð er tímabundin og mun því ekki valda neinum fjárhagslegum skaða. Það væri ekki nema farið væri út í verkfall til lengri tíma að fjármagnseigendur og þjóðin öll færi að finna til. En er sanngjarnt að hálf þjóðin þjáist á meðan hinn helmingur þjóðarinnar ypptir öxlum eins og það skipti ekki máli. Þjóðin er ein, ekki margar stéttir.
Hrannar Baldursson, 18.9.2009 kl. 10:07
Ég verð með.
Rut Sumarliðadóttir, 18.9.2009 kl. 11:24
Hrannar,lægri króna, aukin verðbólga, hærri vextir og verri lífskjör koma í kjölfar almennrar 'leiðréttingar' á vísitölubundnum lánum. Er það ekki það sem fólk sækist eftir, þe. leiðrétting á vísitölubundnum lánum?
Hverju vilt þú ná fram með greiðsluverkfallinu?
Ég get alveg stutt leiðréttingar á gengisbundnum lánum, en man sjálfur eftir því að við þeim var varað á sínum tíma enda óráðlegt að hafa tekjur og gjöld í ólíkri mynt.
Ég var að lesa skýrslu um afleiðingar hækkunar veðhlutfalls húsnæðislána frá 2004. Skýrslan er frá Seðlabankanum til félagsmálaráðherra sem þá var Framsóknarmaður. Í henni stendur meðal annars:
"Að lokum gerir hækkun markaðsverðs húsnæðis einstaklingum kleift að nýta eigið fé í húsnæði til að auka einkaneyslu með aukinni skuldsetningu (e. Equity withdrawal). Á móti kemur að einstaklingar sem eru að kaupa sitt fyrsta húsnæði standa frammi fyrir hærra kaupverði og greiðslum af hærri lánum sem rýrir neyslumöguleika þeirra." (Húsn.skýrsla, bls. 62)
"Til skemmri tíma hefur þetta í för með sér bætt aðgengi að lánsfé sem eykur eftirspurn eftir húsnæði og hækkun húsnæðisverðs. ... sem hvetur til aukinnar húsnæðisfjárfestingar og leiðir þar með til hækkunar fjárfestingarhlutfallsins. Eftir nokkurra ára skeið snúast þessi áhrif við þar sem aukin lántaka leiðir til hækkunar skulda og aukinnar greiðslubyrði, sem dregur úr eftirspurn eftir húsnæði að öðru óbreyttu." (Húsn.skýrsla, bls. 65)
"Meginniðurstaða þessara útreikning er að fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi íbúðalána séu til þess fallnar að auka á þenslu í hagkerfinu þegar síst skyldi, þ.e. einmitt þegar stóriðjuframkvæmdir standa sem hæst. Verðbólguþrýstingur mun því aukast í kjölfarið, og Seðlabankanum er skylt að bregðast við því." (Húsn.skýrsla, bls. 70)
"Þar að auki eru langtímaáhrif kerfisbreytinganna þau að skuldsetning íslenskra heimila eykst sem veldur því að hagkerfið endar á lægra neysluferli en ella. Þetta veldur áhyggjum í ljósi þess að skuldsetning íslenskra heimila er þegar orðin mjög há í sögulegu og alþjóðlegu samhengi." (Húsn.skýrsla, bls. 71)
"Fyrir rúmum áratug gengu fjármálakreppur yfir í Evrópu og Norður-Ameríku. Ein helsta ástæðan fyrir þessum vandræðum var sú að fasteignaverð lækkaði svo mikið að veð dugðu ekki fyrir skuldum. Þetta náði ekki til Íslands að ráði, enda eignir ekki orðnar mjög hátt veðsettar." (Húsn.skýrsla, bls. 72)
Er eitthvað nýtt að gerast? Eitthvað annað en sagt er í þessari skýrslu? Eru svona skýrslur ekki næg viðvörun um að ástand á fasteignamarkaði sé ekki eðlilegt og að nauðsynlegt sé að fara varlega?
Hingað til hefur verðbólgan aðallega verið 'eftirpurnarverðbólga', þe. verðbólga sem drifin er áfram af eftirspurn. Sumir einstaklingar fá þá nýprentaða peninga í hendurnar og hækka verðlag með því að yfirbjóða aðra í hagkerfinu(þeir sem fá nýju peningana verða hlutfallslega ríkari en aðrir verða hlutfallslega fátækari). Til þess að tryggja að menn græði ekki á því að prenta peninga þá var sett á vísitala. - Þegar verðbólgan er eftirspurnardrifin þá er verðtryggingin réttlát.
Ég er á þeirri skoðun að einstaklingar sem geta ekki staðið í skilum eigi að fá aðstoð að einhverju leiti, hvort sem það eru skuldaniðurfelling, greiðsluaðlögun eða tekjutengdar afborganir. Hins vegar geri ég mér líka grein fyrir því að þetta þurfa aðrir Íslendingar að borga. Geri allir kröfu um 'leiðréttingar' þá er augljóst að einungis er verið að færa pening úr einum vasa í annan og ávinningurinn verður enginn.
Lúðvík Júlíusson, 18.9.2009 kl. 13:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.