Hrunið og dómstóll götunnar: Hverjir eru sekir og hverjir saklausir?
1.8.2009 | 09:28
Davíð Oddsson - fórnarlamb nornaveiða - tek hann fyrir þar sem stöðugar og miskunnarlausar árásir hafa verið gerðar á hans persónu, vegna þess að hann vann að uppsetningu frjálshyggjukerfis. Hann gerði það vel. Vandinn er að hugmyndafræðin gengur ekki upp. Hann gat ekki vitað það, enda gerði enginn af hugmyndafræðingum frjálshyggjunnar um víða veröld sér grein fyrir því. Trú á ranga hugmyndakerfi - nokkuð sem stjórnmálamennska gengur útá. Saklaus.
Fjármálaeftirlitið - fámönnuð stöfnun sem hafði eftirlit með einkabönkunum. Hafði ekki innra skipulag og þekkingu til að taka á þeim glæpum sem framdir voru fyrir framan nefið á þeim í nafni eðlilegra viðskipta. Stofnunin hafði einfaldlega ekki tíma til að þróast í öflugt stjórntæki. Spilað var með hana. Hennar sekt var að geta ekki ráðið til sín þá þekkingu sem þurfti til að skilja og keppa við svikin sem grasseruðu út um allt - hugsanlega vegna slaks eftirlits. Saklaus.
Eigendur banka, bankastjórnendur og bankastarfsmenn sem högnuðust gífurlega til skamms tíma á meðan bankinn sjálfur tapaði gífurlega til langs tíma. Þarf að rannsaka. Krefjast þarf endurgreiðslu, þar sem að arðurinn var ekki rétt reiknaður - þú átt ekki að geta reiknað arð af lánum sem þú tekur eða veitir. Sekir.
Bankar og lánastofnanir sem krefjast veðs umfram verðmæti eigna, eftirbankahrunið. Algjörlega siðlaust. Þær stofnanir sem hafa fellt niðurskuldir eigin starfsmanna, eiga einnig að fella niður skuldirviðskiptavina sinna, sem eru umfram veðsetta eign. Verði það gert, munreyndar efnahagskerfið á Íslandi hrynja aftur og algjörlega til grunna.En væri ekki rétt að raða upp aftur. Þessi skák er töpuð hvort eð er.Hvernig væri að byrja nýja skák þar sem allir gætu byrjað meðfullskipað lið?
Lánveitingar upp á marga milljarða án veðs eða með veði í verðlausum eignum: vítavert kæruleysi. Kanna þarf hagsmuni lánveitanda í viðkomandi lánum. Erfitt að meta sekt. Krefst rannsóknar.
Ákvarðanir stjórnmálamanna í bankahruninu. Af hverju voru sumir bankar felldir og aðrir ekki? Hvernig spiluðu hagsmunaárekstrar inn í? Sjálfsagt ekki sekt, en áhugavert rannsóknarefni fyrir sagnfræðinga.
Björgólfsfeðgar og Jón Ásgeir sem leiðtogar og fyrirmyndir annarra íslenskra auðmanna. Misnotkun á fjölmiðlavaldi? Kennitöluflakksvik? Undanskot ábyrgða? Þarf djúpa og mikla rannsókn hæfra saksóknara. Sekt eða sakleysi þarf að sanna á ótvíræðan hátt.
Ég efast ekki um að fjöldi fólks hafi auðgast með því að lifa eftir hugmyndafræðileysi frjálshyggjunnar, og tína upp brauðmylnur af borði stórfyrirtækja og auðmanna. Ekkert við þetta fólk að sakast, en það þarf að horfast í augu við breytta tíma og sjálfsagt munu lífsgæði viðkomandi minnka til muna. Séu þessar manneskjur sjálfum sér nægar og hafa ekki þörf til að sýnast meiri og merkilegri en aðrar manneskjur vegna eigin ímyndaðrar þjóðfélagsstöðu eða efnahags, mun þetta fólk pluma sig á endanum.
Þeir sem eru þegar komnir í vandræði hafa flestir fengið frest á vandanum, og hugsa sér ef til vill að það sé einhver lausn. Því miður er það ekki raunin. En það að hengja einhvern með silkiklút um hálsinn frekar en grófum kaðli, og svæfa viðkomandi fyrst með einhverri ólyfjan, er líklegri til að kæfa öll mótmæli eða aðgerðir í fæðingu.
Málið er að fólk trúir að hlutirnir muni lagast að sjálfu sér.
Hvað ef það gerist ekki?
Þó er von.
Fólkið í Hagsmunasamtökum heimilanna, þar sem stjórnmálamenn fá ekki að vera í stjórn, og hugmyndin er að venjulegt fólk standi saman gegn þeim ógnum sem að heimilum steðja. Innritun og þátttaka í samtökum er ókeypis, en fólk getur greitt félagsgjald hafi það efni á því eða áhuga. Það er ekki skilyrði.
Svo er það náttúrulega Eva Joly sem hefur þegar reynst Íslendingum afar góður vinur, og sérstök krafa fyrir þá sem vilja taka þátt í samræðinni að lesa þessa grein hennar sem birtist í dag og Egill Helgason hefur birt á bloggi sínu.
Það er því von, en við þurfum að vinna saman.
Athugasemdir
Mikið er ég ósammála þer með Davíð Oddson og sakleysi FME.
Skðum Davíð fyrst. Seðlabankinn varð gjaldþrota á hans vakt. Festing gengis við Evruna sem hann og félagar stóðu fyrir, kostuðu okkur stórfé. Allar hans gjörðir hafa verið í hrópandi ósamræmi við hans orð og ofuráhersla hans á að verja vini sína í Landsbankanum hafa reynst ansi skaðleg. Feilsporin svo í upphafi hrunsins eru svo gífurleg auk hluta á borð við afnám bindiskyldu og fleira. Get svo sagt að í ræðu á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þá samkvæmt mínum heimildum, lét hann þau orð falla að einbeita ætti sér að því að afnema eftirlit með fjármálastofnunum og færa það í hendur markaðarins sjálfs, orð sem vöktu mikinn fögnuð viðstaddra.
Fjármála-eftirlitið brást ekki vegna of fámenns starfsliðs, heldur vegna þess að hugmynafræði öfgafrjálshyggjunar var látin ráða för við val á stjórnendum og FME gerði fátt eitt í málunum, heldur var meira eins og klappstýra þeirra sem þeir áttu að hafa eftirlit með. Vinskapur og kunnigjaskapur forstjóra FME þáverandi við bankastjóra Kaupþings, Landsbankans o.fl. áttu örugglega sinn þátt í að vægt var fylgst með.
Auðmenirnir og bankamennirnir eiga stóran þátt, það samþykki ég, en þáttur Davíðs, þáttur Sjálfstæðisflokks fyrst og fremst ásamt minni þætti annara flokka, þáttur FME, þáttur Seðlabanka og annara sem áttu að grípa inn í, má ekki afskrifa eins ódýrt og þú gerir með því að kalla það "nornaveiðar".
Það sem er þó fyrst og fremst höfuðorsakavaldur alls þessa ástands hér er spillingin sem er búinn að gegnsýra og eyðileggja þetta samfélag. Spillingin sem spratt upp úr og varð fullkomnuð á 18 ára valdatíð Sjálfsætðsiflokksins, spillingins sem kunnigjaklíkurnar innan bankanna sem teygðu vináttuna náið inn í þrjá stærstu stjórnmálaflokkana, spillingin sem sá til þess að bankarnir fóru í hendur kunningja framar almannahagsmunum, spillingin sem umlýkur allt Ísland og hefur komið því á vonarvöl. Þar er rót alls og það verður ekki hægt að sameina þjóðnia fyrr en þessi þetta hörmungarskeið spiltlrar frjálshyggju, verður gert upp og þá þarf t.d. Sjálfstæðisflokkurinn að hætta afneitun sinni, taka til í sínum ranni, reka Davíð, Kjartan, Björgúlfa og aðra úr FL-okknum með skít og skömm, láta hefja opinbera, óháða rannsókn á mútugreiðslunum frá FL og Lansanum, og viðurkenna skömm sína ogábyrgð sína á þeim hörmungum sem FL-okkurinn leiddi yfir okkur.
Það dugir nefnilega ekki að krota eitthvað niður á pappír, segja að það nægi og hylla svo manninn sem er táknmynd fyrir allar hörmungar landsins, á landsfundi sínum
AK-72, 1.8.2009 kl. 13:46
Davíð hlustaði ekki á gagnrýnendur hugmyndafræði sinnar sem þó rökstuddu gagnrýni sína vel.
Jafnvel sjálfur Adam Smith grunnhöfundur markaðskerfisins lagði ríka áherslu á skyldu yfirvalda til að setja góðar leikreglur og á mikilvægi eftirlitskerfis yfirvalda. Hann sagði það reyndar mikilvægasta hlutverk stjórnvalda að setja traustan ramma um markaðinn og fylgjast með að allir þátttakendur færu að settum reglum. Davíð hinsvegar fór fremstur í flokki við að tala niður allt eftirlit og vanrækti mikilvægasta hlutverk sitt sem forsætisráðherra í 14 ár að setja kerfinu sem hann sjálfur sleppti lausu, traustan regluramma og öflugt og sjálfstætt eftirlitskerfi.
Davíð er því sekur sem syndin.
Helgi Jóhann Hauksson, 1.8.2009 kl. 14:09
Hamslausar lánveitingar hefðu aldrei viðgengist án ríkisábyrgðar sem er fundin upp af sósíalistum. Þetta er ekki frjálshyggjunni að kenna heldur þessu drullumalli sem kallast "blandað-markaðs-sósíalisma-hagkerfi" sem hefur viðgengist allt of lengi hér á landi og víðar.
Látum bankana bera ábyrgð á sér sjálfum í stað þess að þeir geti bara hlaupið skælandi niður í Alþingishús og látið skattgreiðendurna "beila" sig út. Frekar að banki farið á hausinn heldur en öll þjóðin.
- Laxinn
Laxinn, 1.8.2009 kl. 15:04
Davíð verður hetja Íslendinga þegar þið vitleysingarnir opnið nú augun fyrir sannleikanaum en ekki lygi fjölmiðlakomma hans Jón Ásgeirs og félaga.
Ómar Ingi, 1.8.2009 kl. 16:07
AK-72: um Davíð, þá hrundi vissulega Seðlabankinn með öðrum fjármálastofnunum, en sýnist það hafa meira að gera með spillingu og fjársvik, en embættisverk Davíðs. Ég kannast ekki við áherslu Davíðs til að verja vini sína í Landsbankanum. Ég útiloka samt ekkert í þessu máli. Ég hef einfaldlega ekki séð að hann hafi brotið glæpsamlega af sér, þó að vissulega beri hann mikla ábyrgð á umgjörð þess sem átti sér stað.
Um FME, þá getur vel verið að kunningsskapur, spilling og hagsmunatengsl hafi verið orsök lélegs eftirlits, en það þarf að sýna fram á það í eitt skipti fyrir öll. Líklegra finnst mér að þekkingu hafi einfaldlega skort. Hvernig átti þessi litla og fámenna stofnun í Reykjavík að geta fylgst með hlutum sem voru að gerast úti í hinum stóra heimi? Ég held þeir hafi einfaldlega ekki verið með á nótunum.
Ég held að það sé stór munur á að framfylgja pólitískum hugsjónum og skort á hæfni til að gegna embætti, og að svíkja milljarða út úr bönkum og þjóðinni. Eitt er ásetningur, hitt er gáleysi. Tvennt gjörólíkt. Hugsanlega brot hvort tveggja, en eðlismunur þarna á.
Við erum 100% sammála um spillinguna, AK-47, ég er hins vegar ekki jafn viss um hverjir eru sekir og þú, og grunar að Davíð Oddsson reynist mun heiðarlegri en flestir eru tilbúnir að trúa í dag.
Helgi Jóhann: Davíð var að setja fram hugmyndafræði sem reyndist ekki standast. Eins og með alla hugmyndafræði, er hún gagnrýnd og því miður eru málin ekki rökrædd af skynsemi, heldur ákveðin í kappræðustíl, og því fer sem fer þegar hugsjónir eru annars vegar - sá frekasti og valdamesti vinnur - sama hvort að hugsjónin gengur upp eða ekki. Davíð fylgdi íslenskum leikreglum, rétt eins og ICESAVE ríkisstjórnin er að gera í dag - það gerir þau ekki ábyrgð fyrir ástandinu sem mun ríkja eftir 7 ár þegar þarf að borga lánið til baka - heldur einfaldlega fólk með hugmyndir sem gengu ekki upp. Því miður virðist fólk átta sig of seint á svona hlutum, sérstaklega vegna þess að hagsmunabull truflar sífellt umræðuna og villir fólki sýn.
Laxinn: sammála - bankarnir mega fara á hausinn fyrst þeir voru einkavæddir - sama þó að það muni lama atvinnulífið um stund og að þeir séu þjóðfélagslega mikilvægar stofnanir (fyrirtæki) - banki kemur í banka stað. Hef á tilfinningunni að pólitíkusar á Íslandi séu að gefa sér ábyrgð yfir röngum hlutum.
Óskar: réttar staðreyndir en ég er ósammála túlkuninni. Davíð sagði að við ættum ekki að borga skuldir óreiðumanna, og er ég honum ennþá hjartanlega sammála og þakklátur honum fyrir að hafa sagt þetta fyrir alþjóð. Það breytti engu um hvað hefði gerst í framhaldinu, við höfum fengið nógu miklar upplýsingar um fjármálamisferli og spillingu til að sjá að orð Davíðs í sjónvarpsþætti höfðu engin úrslitaáhrif.
Aðrar staðreyndir sem þú minnist á eru í versta falli umdeilanlegar ákvarðanir embættismanna og pólitíkusa. Ekki afbrot.
500 milljarða lánið var veitt af ríkisstjórninni, en það var samþykkt á Alþingi rétt fyrir sumarfrí í fyrra. Davíð hafði ekkert með það að gera - eftir því sem ég best veit. Skil reyndar ekkert í mér að verja Davíð, enda frekar ósammála honum í pólitík og þótti hann missa tökin í lok stjórnmálaferils síns, en tel að hann eigi þó að fá að njóta vafans.
Ómar Ingi: Kannski hetja sé rétta orðið. Hann gefst í það minnsta ekki upp, og hefur enn ekki gert neitt sem þýðir tap á heiðri og æru í mínum augum. Kannski er ég bara sjónskertur, en það þarf betri rök gegn honum en það að hann hafði pólitísk áhrif sem hann beitti fyrir ríkjandi hagfræðistefnu, eða að hann gjammaði sannleikann þegar þjóðin þurfti á honum að halda - en launaði aðeins með vanþakklæti.
Davíð hefur gert margt gott, og gerði þjóðina afar öfluga. Hins vegar tóku sumir þegnar valdið og misnotuðu á hátt sem enginn sá fyrir, nema þeir allra dýpstu og klókustu, en slíkt fólk fer varla í pólitík.
Þannig að enn stend ég ósannfærður um sekt Davíðs og FME, en hefði mikinn áhuga á að sjá sannanir sem sýna svart á hvítu hvernig viðkomandi á að hafa brotið gegn íslenskum lögum, eða gegn almennu siðferði. Ég hlusta, en hef ekki enn heyrt rök sem eru gild og góð.
Hrannar Baldursson, 1.8.2009 kl. 20:29
Maður er bara nokkuð vel sammála þér þarna Hrannar/Kveðja halli gamli
Haraldur Haraldsson, 1.8.2009 kl. 21:16
Alltaf jafn magnað að sjá menn skrifa eins og þetta "Davíð hefur gert margt gott, og gerði þjóðina afar öfluga."
Það er kominn tími til að við sem þjóð tökum á þessu án þess að það gerist eins og oft er gert í henni Ameríku að setja menn á stall. Davíð var stjórnmálamaður, sem slíkur laug hann þegar það hentaði honum, var heiðarlegur líka en alltaf var hann foringinn. Sem slíkur ber hann ábyrgð en fólk virðist ekki vilja viðurkenna hve mikil sú ábyrgð var og er.
Ég man þá tíð með 3 börn á framfæri að þurfa að taka ákvörðun og standa og falla með þeirri ákvörðun. Davíð var með þjóðina á framfæri ásamt þeim svo voru með honum í stjórn. Er hann laus mála vegna þess að enginn í veröldinni vissi að þessi frjálshyggja myndi næstum klára hagkerfi heimsins?
Hrannar, spurðu þig um þá einu spurningu sem þig skiptir í raun máli fyrir framtíðina. Hvað gerir þú í dag eftir þessa reynslu? Ferðu eftir einhverjum stall kalli/kerlingu eða viltu nota þína reynslu og fara eigin leið til að tryggja þér og þínum farborða?
Held þú hafir sannað það vel með að fara frá Íslandi að þú veljir annað en íslensk stjórnmál sem hafa beint og óbeint áhrif á þinn hag.
Gangi þér vel.
Ingi
Ingi (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 22:31
Ingi: Þetta er ekkert nýtt. Sagan er einfaldlega að endurtaka sig enn einu sinni. Enn ein hugmyndafræðin verður mannlegum breiskleika að bráð. Það vill bara þannig til að Davíð var sá stjórnmálamaður sem barðist við að koma henni inn og tókst það. Hann er fórnarlamb eigin trúar á hagkerfi sem einfaldlega virkar ekki að eilífu.
Um íslensk stjórnmál: ég hef ekki mikla trú á þeim í dag, það er rétt, en flutningur minn úr landi er ekki einungis vegna Hrunsins, atvinnuleysis og slakra stjórnmálamanna, þó að það hafi vissulega hjálpað til við að taka endanlega ákvörðun, heldur ná persónulegu ástæðurnar aðeins dýpra, og sannar því í raun ekki nokkurn skapaðan hlut annan en að ég vel velferð fjölskyldu minnar umfram allt annað.
Málið er að auðveldi er ekkert nýtt í stjórnmálaheiminum, og það er vitað mál að slík stjórnun lifir aðeins í skamman tíma, og að ákveðið form hefðarveldis tekur við, sem síðar verður leyst af með einveldi og þar á eftir verður líklega gerð uppreisn sem kallar á lýðræði - og þannig heldur boltinn áfram að rúlla næstu aldirnar. Þessu eru gerð ágæt skil í Ríki Platóns. Vandinn er bara að átta sig á hvers konar veldi er við völd á hverjum stað og hverjum tíma.
Hrannar Baldursson, 1.8.2009 kl. 22:49
Það var dómur sjálfstæðirflokksins að stefnan hefði ekki brugðist heldur persónur. Er á því að það hafi verið hvor tveggja.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.8.2009 kl. 22:56
ég skil ekki "sakleysi" Davíðs í því formi að hann ...setti fram hugmyndafræði sem stóðst ekki!?
Á það um Hitler og "nasismann"?
Á það um Lenin og "kommúnismann"?
Á það um við alla sem trúðu "rangri" hugmyndafræði?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 2.8.2009 kl. 01:18
Þarna skriplar þú á skötu.
Billi bilaði, 2.8.2009 kl. 01:33
Jakobína: hárrétt hjá þér.
Anna: Nákvæmlega. Munurinn er hins vegar sá að Hitler og Lenin voru virkir í að fyrirskipa aftökur og þjóðarmorð. Það er ekki hægt að líkja þeim saman við Davíð. Nefndu dæmi um hugmyndafræði eða hugsjón í stjórnmálum sem gengið hefur upp. Málið er að kerfin virðast alltaf stefna að heildarmynd sem lítur fallega út en gleyma eða sinna ekki lykilatriðinu: fólkinu sjálfu og farsæld þess.
Nasisminn og fasisminn: þjóðfélagið er vél sem þarf að smyrja og hreinsa. Þó að hreinsunin hafi kostað mannslíf skipti það ekki máli. Það er mannlegt að passa ekki inn í kerfið.
Kommúnismi: eignir er aðal vandamál heimsins og því verður að afnema eignarhugtakið þar sem fólk má ekkert eiga. Vandamálið er að það er mannlegt að eiga. Hugmyndin er að hér eiga allir að vera göfugir og óeigingjarnir, að þegar fólk á ekki neitt, þá verði það frekar tilbúið að deila með öðrum og það er svo flott. En fólk er ekki allt göfugt og sumir eru eigingjarnir þrátt fyrir að eiga ekki neitt. Þannig er þetta bara.
Frjálshyggjan: markaðurinn er réttlátt kerfi sem réttlætir sig að sjálfu sér, en það þarf að fylgjast vel með að fólk starfi heiðarlega við markaðinn. Óheiðarleiki og spilling, sem átti sér rót í græðgi, varð frjálshyggjunni að falli, því þegar heimsmyndin snýst um efnisleg gæði, þá færðu einfaldlega aldrei nóg af þeim, enda eru efnisleg gæði takmörkuð. Þess vegna eru sumir sem fá aldrei nóg og taka því af öðrum. Græðgi er mannlegur þáttur sem ekki tókst að hemja.
Þessir ismar eru útópíur, sem falla á endanum um sjálfar sig, en þær eru svo trúverðugar og sannfærandi að fólk einfaldlega verður að lifa eftir þeim, annað væri hallærislegt og ekki í takt við tímann. Vittu til og fylgstu með útópíunni sem er í gangi á Íslandi núna: öll eigum við að vera jöfn, en svo kemur í ljós að sumir eru einfaldlega jafnari en aðrir, samanber Animal Farm eftir George Orwell.
Billi: Hef ekki hugmynd um hvað setning þín þýðir, en hún hljómar ágætlega.
Hrannar Baldursson, 2.8.2009 kl. 02:12
Og Halli: takk fyrir innlitið :)
Hrannar Baldursson, 2.8.2009 kl. 02:14
Sannfærandi rök Hrannar...kíki betur á þetta , en auðvitað hefur þú rétt fyrir þér í að Daví skiðaði ekki aftökur g þar er ekki stigsmunur á , heldur eðlismunur! Takk!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 2.8.2009 kl. 02:15
sorry...tölvan er smá "klikkuð" eftir 6 ára son minn?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 2.8.2009 kl. 02:16
Hrannar ...er þá "sanngjarnt" að íslenskir sjálfstæðismenn eða "kapitalistar" (HHG) dæmi íslenska "vinstri" menn alla sem KOMMÚNISTA?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 2.8.2009 kl. 02:28
Anna: Nei, það er ekki sanngjarnt, enda er það ofureinföldun. Að greina flokka í vinstri og hægri getur verið svolítið villandi. Ég sé til dæmis ekki betur en að VG sé í raun hægriflokkur, rétt eins og Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, þar sem þeir einbeita sér allir að því að halda kapítalinu gangandi, þ.e.a.s. bankakerfinu.
Kommúnismi er náttúrulega byggður á kapitalisma sem viðbrögð við hversu ómanneskjulegur kapítalisminn er, þegar samfélagið er byggt á kerfum, ferli og auði, frekar en samhjálp og stuðningi við náungann.
Hvorug leiðin er fullkomin. Annað dýrkar eignir eins og þær væru leiðarvísir að paradís og hitt bannar þær.
Ég hef heimsótt bæði kapítalísk samfélög og kommúnisk - bæði fyrrverandi og ríkjandi. Það sem kom mér mest á óvart á Kúbu, sem er ennþá kommúnískt, var hversu mikilvægt virtist fyrir fólk að öðlast traust við ókunnuga, að vera vingjarnlegt, án þess að biðja um nokkuð í staðinn. Skuggahliðin er hins vegar sú að fólk lifir við fátækramörk, er sjálfu sér nægt og hefur lítil samskipti eða áhrif á umheiminn - enda er þetta fólk ofverndað frá hinum "illa" kapítaliska heimi. Einnig gengur kommúniskinn ekki alveg upp, því að fólk var upphaflega svipt eignum sínum og þeim deilt til allra, en svo kom í ljós að hæfileikafólk þurfti á hvatningu að halda til að sinna vinnu sinni vel. Þannig eru læknar hæst launaða stéttin á Kúbu, á meðan flestir aðrir eru á sömu launum. Nema ráðamenn - einhvern veginn enda þeir á því að njóta miklu meira en nokkur annar.
Kommúnismi og kapítalismi eru hugmyndafræði, og sem slík ganga þau ekki upp að sjálfu sér. Það þarf að finna ákveðinn milliveg og gleyma aldrei að taka tillit til fólks. Það virðist hafa gleymst, í það minnsta á meðan Geir Haarde var við völd sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Það er eins og Ísland hafi orðið að hreinu kapítalisku ríki, en slíkt endar alltaf með ósköpum.
Það er þess vegna sem nútímasamfélög reyna að finna milliveg. Byggja hagkerfi, en þó ekki á kostnað heill samfélagsins og fólksins í landinu. Í landi sem finnur slíkt jafnvægi er ekki þörf fyrir samtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna, en því miður er ljóst að þau eru nauðsynleg í dag, enda venjulegt fólk nánast óvarið fyrir þeim ósköpum sem allt bendir til að byrji í þessum og næsta mánuði.
Hrannar Baldursson, 2.8.2009 kl. 08:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.