Hvers vegna er verið að kjósa í dag? Einkunnir frá 0-10. Hverjir lenda í fallöxinni?
25.4.2009 | 09:40
Ég reikna með að flestir séu búnir að gera upp hug sinn og ólíklegt að þessi greining hafi einhver áhrif. Samt vil ég birta hana, enda tel ég fátt mikilvægara en að við áttum okkur á því af hverju það eru kosningar í dag, en ekki á hefðbundnum tíma. Því miður tala flestir frambjóðendur eins og auðjöfrar og virðast í litlu sambandi við þjóðina. Vekur það virkilega engar spurningar?
Ef lokaorð formanna til kjósenda er ekki vísbending um hvað er efst í huga þeirra sem vilja komast á þing, og hvort þeir hafi fyrst og fremst sjálfan sig, flokkinn sinn eða þjóðina í huga, þá veit ég ekki hvað. Það kom mér reyndar ekki á óvart að einungis einn frambjóðenda virðist hafa fæturnar á jörðinni og er að hugsa um þá kreppu sem hefur rétt byrjað.
Hugsaðu um eitt: flestir þeir sem eru í ræðustól eru með yfir milljón í mánaðarlaun og telja sig engar áhyggjur þurfa að hafa á ástandinu - það skellur hvort eð er aðeins á þeim sem hafa lágar tekjur eða meðaltekjur.
Ég spyr um mikilvægi, fókus og hvort að viðkomandi átti sig á af hverju það eru kosningar í dag.
Skoðum nánar það sem viðkomandi hafði að segja, og í ljós kemur að einkunnir margra breytast, enda virðast sumir hafa viljandi gleymt að kreppa bíður handan hornsins - um 20% þjóðarinnar hafa þegar fundið fyrir henni, en hún er skammt undan nema takist að fella niður allar erlendar kröfur á Ísland, sem er að mínu mati óskhyggja ein og ekkert sem hefur vísað til þess síðustu mánuði nema grein skrifuð af Gylfa Magnússyni í vikunni - grein sem er algjörlega á skjön við annað sem hann hefur sagt, og merkilegt að þetta komi upp í kosningaviku. Kannski vill hann einfaldlega halda starfinu sínu, sem væri í sjálfu sér ágætt, því hann hefur sýnt mikinn styrk sem viðskiptaráðherra. En ég er hræddur um að þessi grein hans flokkist undir pólitískan áróður.
1
Þór Saari, Borgarahreyfingunni
Við verðum að muna eftir því hvers vegna er verið að kjósa á morgun. Það er verið að kjósa á morgun af því að hér varð algjört efnahagshrun. Stjórnvöld á Íslandi brugðust almenningi algerlega og sveipuðu efnahagsmálin hér í leyndarhjúp, þannig að heimilin lentu á vonarvöl. Við megum ekki gleyma því. Þessi sömu stjórnvöld þau sitja hér í kvöld, allt í kringum mig og bjóða almenningi upp á það að láta kjósa sig aftur á morgun. Við vitum hvað gerðist, hvernig það gerðist og við vitum hverjir bera ábyrgðina. Við megum ekki gleyma því heldur. Það er algjört grundvallaratriði. Ástæðan fyrir því að hlutirnir enduðu eins og þeir enduðu er þó kannski fyrst og fremst sú að við hættum að skipta okkur sjálf af stjórnmálum. Við gleymdum því, við sváfum á verðinum. Við megum ekki gera það. Á morgun þegar við göngum inn í kjörklefann, þá skulum við ekki spyrja okkur þessarar spurningar, aftur og einu sinni, hvað gerðist og hvernig gerðist það. Við vitum hvað það var. Við skulum spyrja okkur þeirrar spurningar, hvað er það sem ég get gert og hvað er það sem mér ber að gera á morgun.
Kjarni málsins og hreint ótrúlegt að leyndarhjúpurinn skuli ennþá vera að virka á um 80% þjóðarinnar, sem virðast ekki átta sig á hvað er í gangi. Ég er hræddur um að ef ekki verði hlustað á þessu skilaboð verði önnur bylting næsta vetur. Kreppan er nefnilega rétt búin að sýna tennurnar. Hún hefur ekki verið sýnileg þeim sem telja sig hafa hreiðrað örugglega um sig og eru skuldlaus. Borgarahreyfingin man af hverju verið er að kjósa í dag.
Fókus: Þjóðin
Einkunn: 10
2
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Framsóknarflokki
Framsóknarflokkurinn fór í gegnum gríðarlega mikla endurnýjun í janúar, svaraði kallinu um endurnýjun í stjórnmálum og hefur innleitt ný vinnubrögð og er að því, til að mynda í efnahagsmálum. Leitar yfirleitt ráða hjá þeim sem best þekkja til á hverju sviði, höfum haft samband við fólk í atvinnulífinu og færustu hagfræðinga við að móta tillögur um það hvernig eigi að bregðast við ástandinu eins og það er núna til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi hrun. Út á það ganga allar tillögur okkar og ég hvet menn til þess að kynna sér þær. Aðalatriðið er kannski það að það sem við höfum séð núna, síðustu daga, er að eina leiðin út úr þessum vanda er að gangast við því að Ísland er búið að taka meira að láni en það stendur undir og því þarf að koma til móts við skuldarana með því að gefa eftir.
Viðurkenna kreppuna og vilja takast á við hana. Framsóknarflokkurinn man hvers vegna er verið að kjósa í dag.
Fókus: Framsóknarflokkurinn
Einkunn: 9
3
Ástþór Magnússon, Lýðræðishreyfingunni
Lýðræðishreyfingin veitir þér frelsi. Á morgun ertu frjáls. Á morgun getur þú kosið þig undan oki gömlu, ónýtu flokkanna. Þú getur kosið þig undan kjaftvaskinu á Alþingi og látið verkin fara að tala. Þú getur sjálfur tekið þátt í atkvæðagreiðslum á Alþingi, í umræðum. Vegna þess að við ætlum að koma á beinu lýðræði, þar sem þú kjósandi átt þitt atkvæði. Þetta er mikilvægasta aðhaldið sem þú getur veitt þessu fólki hér sem mun hugsanlega starfa á þinginu. Þetta er það sem mun færa Ísland út úr kreppunni.
Það er sannleikskorn í þessu hjá Ástþóri. Hann orðar mál sitt hins vegar frekar klaufalega þannig að það lítur út fyrir að maðurinn sé fauti (ég er ekki að segja að hann sé það). Lýðræðishreyfingin man af hverju verið er að kjósa í dag.
Fókus: beint lýðræði (rafræn atkvæðagreiðsla)
Einkunn: 7
4-5
Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri hreyfingunni grænu framboði
Ég vil byrja á því að þakka þjóðinni fyrir kosningabaráttuna fyrir okkar hönd og mína. Ég hef átt marga ánægjulega fundi um allt land og þeir hafa aukið mér bjartsýni. Ég finn það að þjóðin er þrátt fyrir allt, tilbúinn til að berjast og vill það og við getum sameinað kraftana, bæði ungir sem aldnir. Valið er skýrt á morgun. Við getum kosið það sem var, það sem hrundi í október, hugmyndafræði nýfrjálshyggju og græðgi eða við getum kosið manneskjulegra og réttlátara samfélag í norrænum anda. Og einu get ég lofað ykkur góðir kjósendur, Þið ykkar sem kjósið Vinstri hreyfinguna grænt framboð á morgun, þið kjósið heiðarlegan og óspilltan flokk.
Segir satt og rétt frá. Viðurkennir hrunið sem var í október, en ekki kreppuna sem hangir yfir okkur og er að koma fjölda fólks í afar slæma stöðu. Vinstri grænir hafa gleymt af hverju það eru kosningar í dag, en minnast þó á að ástandið sé ekki eðlilegt. Að kjósa heiðarlegan og óspilltan flokk ætti ekki að vera kosningaatriði, heldur sjálfsagt mál.
Fókus: Steingrímur J. Sigfússon
Einkunn: 6
4-5
Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingunni
Þýðingarmestu kosningar í sögu Lýðveldisins eru á morgun. Við höfum það sögulega tækifæri að félagshyggju- og jafnaðarmannaflokkar fái meirihluta, þessir tveir flokkar, til þess að stjórna hér landinu. Þessir flokkar hafa mest haft fjörutíu og fimm prósenta fylgi 1978. Nú er þetta sögulega tækifæri. Og hvað gerist við þær breytingar? Við setjum til hliðar nýfrjálshyggjuna og það sem hún hefur lagt grunn að, því sem við erum núna að ganga í gegnum. Við munum geta breytt hér tekjuskiptingunni, sem hefur verið mjög óeðlileg á undanförnum árum, þar sem hefur orðið risavaxið bil milli fátækra og ríkra í þjóðfélaginu. Og ég segi, það skiptir máli hverjir stjórna. Ef Samfylkingin veðrur leidd til öndvegis í þessum kosningum, þá mun ríkja hér réttlæti og jafnrétti á næstu árum.
Þessi ræða er pólitísk í gegn og látið eins og kreppan sé ekki við dyrnar. Þetta er lýðskrum af verstu gerð, enda hefur Jóhönnu tekist að afla sér góðs orðspor fyrir að vera hreinskilin og koma hlutunum vel frá sér. Það gerir hún ekki hér. Samfylkingin man ekki af hverju það eru kosningar í dag.
Fókus: Samfylkingin
Einkunn: 6
6-7
Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki
Ég vil fyrst og fremst hvetja kjósendur til þess að nýta atkvæði sitt á morgun til þess að hafa áhrif á framtíðina. Ég tel að við Íslendingar eigum að vera stolt, við höfum öll tækifæri í hendi okkar, við erum meðal þeirra þjóða í heiminum sem er með mesta þjóðarframleiðslu á mann. Við verðum hins vegar að nýta auðlindirnar, grípa þau tækifæri sem gefast. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að ríkisstjórnarflokkarnir sem nú sitja, eru ósammála í mikilvægum grundvallaratriðum. Við kjósendur segi ég, spyrjið ykkur að því, hvaða flokkur er líklegastur til þess að skapa ný störf, stuðla að atvinnuuppbyggingu. Okkar leið er leið bjartsýni og vonar. Við ætlum að trúa á kraftinn í fólkinu í þessu landi og ég hvet fólk til þess að kjósa þá leið.
Algjör afneitun og höfðar til kristilegra viðhorfa um von. Sleppir öllu krepputali, enda hefur áróður Sjálfstæðisflokks snúið að því að telja fólki trú um að það sé engin kreppa yfirvofandi. Flokkurinn blekkir með svona töktum. Sjálfstæðisflokkurinn man ekki hvers vegna verið er að kjósa í dag. Þetta er blekkjandi lýðskrum.
Fókus: Sjálfstæðisflokkurinn
Einkunn: 4
6-7
Guðjón Arnar Kristjánsson, Frjálslynda flokknum
Það er alveg ljóst að ef við viljum vernda hér tryggingakerfið og heilbrigðiskerfið, þá þurfum við að ná nýjum tekjum. Það höfum við lagt til í Frjálslynda flokknum. Við treystum því að landsmenn sjái skynsemina í því og rökin fyrir því, að halda frjálslyndum þingmönnum inni á þingi Íslendinga, til að tala þar af skynsemi um málefni framtíðarinnar.
Algjör afneitun: Sleppir öllu krepputali og lætur eins og allt sé í sómanum. Frjálslyndi flokkurinn man ekki af hverju er verið að kjósa í dag og virðist engan veginn átta sig á hvað er að gerast eða hvað þarf að gera.
Fókus: Frjálslyndi flokkurinn
Einkunn: 4
Mér er ekki sama hvernig kosningarnar fara, en mig grunar að um 80% þjóðarinnar séu í afneitun um að kreppan sé á leiðinni. Þessi 20% sem eftir standa ættu að vera nóg til að þjóðin fái rödd á þing, en engu að síður er líklegt að þeir einu sem geta talist fulltrúar þjóðarinnar verði í stjórnarandstöðu.
Ég mun ekki líta á þessar kosningar eins og kappleik, heldur greindarpróf sem lagt hefur verið fyrir þjóðina, þar sem gildi gagnrýnnar hugsunar eru sett ofarlega á blað.
Vonandi fellur þjóðin ekki á þessu prófi.
Lesendum er velkomið að koma með eigin einkunnir í athugasemdakerfinu, en ég óska eftir rökstuðningi.
(Mynd úr Mogganum í dag)
Lokaorð formanna til kjósenda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Hrannar
Röðin hjá mér er talvert önnur og röksemdarfærslan.
1. Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki
Bjarni Benediktsson er mjög heiðarlegur og málefnalegur pólitíkus. Hann hlustar á skoðanir manna alveg sama hvaðan þær koma. Hann leggur áherslu á stefnu, stétt með stétt. Hann kom fyrstur fram og sagði að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að biðjast afsökunar á sínum þætti efnahagshrunsins. Hann gagnrýndi fyrri ríkisstjórn fyrir efnahagstefnuna löngu fyrir hrun. Hann leggur áherslu á endurreisn með því að endurreisa bankana, atvinnulífsins og heimilanna. Þekking hans á atvinnulífinu mun gagnast honum í þessari vinnu. Oft í þessari kosningabaráttu hefur mikil þekking hans á lögum og skýr rökhyggja komið fram. Hann hefur fengið óvenju erfið verkefni til að kljást við í upphafi formannsferils. Framtíðarleiðtogi þjóðarinnar.
2. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Framsóknarflokki
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gerði alvarleg mistök með því að treysta Samfylkingunni og VG fyrir bráðabiðgastjón. Það eina sem hann fékk í staðinn var að Steingrímur og Jóhanna spörkuðu í Framsóknarflokkinn. Sigmundur hefur komið með nýjar ferskar hugmyndir, en á nokkuð í land að hnoða saman flokki sem nánast er í molum. Það væri mikil synd ef Sigmundur sem flokksformaður Framsóknarflokksins kæmist ekki á þing.
3. Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri hreyfingunni grænu framboði
Steingrímur er mikill reynslubolti sem mun gagnast í þeim miklu erfiðleikum sem framundan eru. Refur í pólitík. Hann á ennþá eftir að taka flokkinn úr ,, alltaf á móti" gírnum. Það er auðvelt að velja sér málefni sem gefur 20% fylgi ef menn eru í stjórnarandstöðu. Þeir sem eru í stjórn þurfa hins vegar að velja á milli lausna, sem stundum eru bara erfiðar. Vandræði hans í fréttum í fyrradag þegar hann þurfti að svara fyrir olíumálið hennar Kolbrúnar Halldórssonar minntu mann nokkuð á tilsvör Geirs Haarde, önugheit. Hef trú að Steingrímur komi vaxandi upp í næstu ríkisstjórn.
4. Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingunni
Jóhanna hefur lengi notið traust hjá þjóðinni. Enginn sakar Jóhönnu fyrir að vera ekki sjálfri sér samkvæm, og standa ekki með sínu fólki. Heiðarlegur pólitíkus. Vandamálið er að Jóhanna hefur farið sínu fram, án þess að vera sveigjanleg og það mun skaða hana mikið á komandi mánuðum. Þekkingarleysi hennar á atvinnulífinu gæti skapað mikla erfiðleika í þjóðfélaginu á komandi mánuðum. Óttast að Jóhanna fái á sig brotsjó í þegar líða tekur á árið.
5. Guðjón Arnar Kristjánsson, Frjálslynda flokknum
Guðjón er orðinn þreyttur í pólitíkinni. Hann kunni ekki að hætta á réttum tíma til þess að Frjálslyndiflokkurinn gæti endurnýjast. Setti völd sín ofar hagsmunum flokksins. Hins vegar er Guðjón kominn með mikla reynslu og hefur komið með góðar tillögur og stutt góð mál.
6-7. Ástþór Magnússon, Lýðræðishreyfingunni
Lýðræðislegar kosningar og skoðanakannanir eru gott innlegg í þessar kosningar. Þá eru góðar áherslur hjá honum að kalla til sérfræðinga til þess að aðstoða við að leysa mál. Flest annað sem Ástþór hefur komið fram með er nánast móðgun við kjósendur og framganga hans segir meira um hann sjálfan en nokkuð annað.
6-7. Þór Saari, Borgarahreyfingunni
Gat illa gert upp ámilli Þórs og Ástþórs. Báðir tala oft mikið um mál sem þeir hafa nánast enga þekkingu á. Mér dettur alltaf í hug hugleiðingar Halldórs Laxness: ,,frádregnu monti og innantómum mikilmennsku draumum er ég ekkert" þegar ég hef hlustað á Þór.
Sigurður Þorsteinsson, 25.4.2009 kl. 11:14
Sæll Sigurður, með fullri virðingu fyrir þér, þá felst þín greining á huglægu mati á mannkostum frambjóðanda og framkomu þeirra, sem er náttúrulega töluvert annað sjónarhorn en ég sjálfur tel mikilvægt. Ég virði það að þú metir málin frá þessu sjónarhorni, og get verið sammála þínu mati á þessum forsendum.
Hins vegar tel ég mun mikilvægara að tekið sé á efnahagsástandinu, því sé ekki sópað undir teppi, heldur en framkoma leiðtoganna í sjónvarpi.
Ef ímynd er aðal kosningarmálið, þá erum við á villugötum.
Kærar þakkir fyrir gott innlegg.
Hrannar Baldursson, 25.4.2009 kl. 11:25
Þú misskilur þetta Sigurður. Hann er bara að leggja dóm á lokaorðin hjá þessum leiðtogum í þættinum. Þú ert hins vegar að dæma hvernig þú fílar hvern og einn frambjóðanda - sem er allt annað mál og reyndar ekki eins áhugavert.
Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 11:32
Don minn ef þú leggur spilin bra hreint á borðið var útkoman mjög dapur fyrir þjóðina og sú stjórn sem að öllu líkindum mun hér taka við mun gersamlega stúta þjóðinni endanlega í stað þess að gera nokkuð til þess að bjarga henni.
Ómar Ingi, 25.4.2009 kl. 11:55
Jæja Hrannar, flott úttekt að vanda og skemmtileg uppsetning hjá þér! Ég fer ekki ofan af því að þú ert með færustu bloggurum landsins og stend við það!
En hér er mín úttekt á þessu, röðin sem ég set þetta uppí skiptir ekki máli, það eru einkuninar sem gilda.
Þór Saari: Einkunn: 7
Það heillaði mig ekki að hætta útgerð í Reykjavík eins og hann sagði í þættinum, en hann fær stórt prik fyrir að setja fingurna uppí eyrun!
Sigmundur Davíð: Einkunn: 4
Hann viðurkennir alveg vandann, en hann þarf ekki að gera hann verri. Tal um annað hrun er óábyrgt þegar við þurfum á jákvæðni að halda inní fjármálalífið. Orð hafa afleiðingar. Og ég er set spurningamerki við hvaðan hann fékk þessar upplýsingar!
Guðjón Arnar: Einkunn: 3
Vantaði algerlega eldmóð og sannfæringu! Hann þarf að taka sér frí karlinn.
Jóhanna: Einkunn: 6.5
Er greinilega öllu vön og gaf ruglandi og óskýr svör, en hún hélt samt virðingu sinni þrátt fyrir allt.
Bjarni Ben: Einkunn: - 0!
Það þarf greinilega að verja kvótagreifanna með ÖLLUM tiltækum ráðum og hugsa um hagsmuni flokksmanna sinna ofar þjóðarinnar! FLokkurinn er spilltur inn að beini alveg eins og gullrassinn Bjarni Ben, gefum þessu pakki langþráð frí!
Steingrímur J. Einkunn: 7.5
Hann fær mínus fyrir að birta ekki bankaskýrsluna strax, því hann hafði lofað gagnsæi sem hann reyndi að tala sig útúr. En hann má eiga það að hann talaði af festu og ábyrgð!
Ástþór Magnússon: Einkunn: 6.5
Hvar værum við án Ástþórs! Honum einum hefur tekist að gera þessar kosningar skemmtilegar með geðveikislegum yfirlýsingum sínum, en hann má eiga það að hann segir stundum þá hluti sem þjóðin er að hugsa! Hann ætti frekar að gerast fréttamaður en pólitíkus, hann mynd jarða hvert spillta fyrirtæki og einstaklinga eftir öðrum.
Takk fyrir góða grein Hrannar og ég ítreka að ég er afar hrifinn af þessari úttekt þinni, því ég var sjálfur búinn að gera alveg eins grein og hætti snarlega við þegar ég sá þína, til þess að vera ekki sakaður um ritstuld! Það er greinilegt að við erum með svipaðann hugsunargang, og mundum við báðir eftir FF í þetta skiptið!
Mbk,
Guðsteinn Haukur Barkarson, 25.4.2009 kl. 11:59
Guðsteinn,
Já, við virðumst vera á sömu bylgjulengd þó að blæbrigðamunur sé á skoðunum. Þú ert í raun að meta frammistöðu leiðtogana fyrir allan þáttinn, sem er gott og blessað. En nokkur atriði:
Ég missti af því þegar Þór sagðist ætla að hætta með útgerð í Reykjavík. Eyrnaverkurinn er instant klassík.
Sigmundur held ég að hafi verið að segja satt og rétt frá, enda hef ég án skýrslu séð ýmis merki um að rokið sé rétt að byrja. Dæmum frásögn hans að hálfu ári. Leyfum honum að njóta vafans. Var ekki einmitt fyrri ríkisstjórn gagnrýnd fyrir að þegja í stað þess að veita þjóðinni nauðsynlegar upplýsingar? Getur verið að sá leikur sé að endurtaka sig og VG einfaldlega orðinn hægriflokkur? Þú sérð hvernig þeir fóru með Kolbrúnu Halldórs, sem gerir ekkert annað en að standa við eigin sannfæringu og hugsjónir flokksins. Hún hefur ekki breyst við völdin, heldur flokkurinn, og er nánast lögð í einelti fyrir að standa við eigin skoðanir.
Guðjón virtist varla nenna þessu.
Mér fannst Jóhanna standa sig afar illa. Hún var mjög pólitísk í svörum, kom ekki hreint fram, var langt frá því að vera jafn hreinskilin og heiðarleg í svörum og orðspor hennar segir og gargaði á erfison Sjálfstæðismanna beint í eyru grey Þórs Saari.
Bjarni sem slíkur fannst mér koma ágætlega út. Hann hefur mikla tilhneigingu til að tala í kringum hlutina og flækja þá svolítið fyrir sjálfum sér og öðrum, en það er náttúrulega bara gamli mælskulistarstíllinn ala Jón Vídalín.
Steingrímur hagaði sér þannig að ég einfaldlega gapti af undrun. Hann er ekki sami maður fyrir og eftir völd. Það er ljóst. Það var ekki nóg með að orðræða hans var eins og hann hafi verið búinn að lesa handbók Sjálfstæðisflokksins fyrir hverja náttstund, heldur var hann greinilega að gefa Sjálfstæðismönnum undir fótinn. Ég held að ef VG og Sjálfstæðisflokkurinn nái meirihlutaatkvæða, mun Steingrímur frekar vilja ganga í sæng með Sjöllum en Krötum, og berja Sjallana til hlíðni.
Ástþór finnst mér bráðskemmtilegur og svolítið óþolandi í bland, en hann má eiga það að skoðun hans um beint lýðræði hittir beint í mark. Af hverju ekki að setja upp rafrænt kosningakerfi fyrir þjóðina, sem hefur jafn traust upplýsingaöryggi og bankarnir? Þessi hugmynd hans og margar aðrar eru bráðsnjallar, og hann er ekki bara jarðýta heldur skriðdreki, sem því miður virðist eiga erfitt með að hemja sig í samsæriskenningum, skapofsa og dómhörku, og virðist eiga svolítið erfitt með að hlusta á aðra. Ómissandi maður fyrir íslenskt samfélag. En hann má alls ekki ná völdum.
Hrannar Baldursson, 25.4.2009 kl. 17:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.