Er spillingin búin að umkringja okkur?

 

 

Með fréttum af stórskuldum allra stjórnmálaflokka landsins nema Sjálfstæðisflokks og Borgarahreyfingar, og með þá vitneskju í huga að fyrirtæki mútuðu Sjálfstæðisflokknum sem virðist hafa á móti verið flokkur fyrirtækja umfram landsmenn, flokki sem ég hef einu sinni greitt dýrmætt atkvæði mitt, sé ég ekki nema tvo kosti eftir fyrir næstu alþingiskosningar: Að skila auðu eða kjósa Borgarahreyfinguna, X-O (Ex núll eða Ex o?).

Allt annað er útilokað, enda hafa flokkarnir sýnt að annað hvort eru þeir með allt niður um sig eða hlaðnir blóðpeningum.

Þetta er reyndar ekkert nýtt.

Manneskjur hafa frá upphafi vega barist gegn alheiminum í því endalausa stríði sem felst í að merkja sér eitthvað smápláss og vona að fyrir vikið taki alheimurinn eitthvað eftir okkur.

Þó að mannkyninu takist að pissa utan í ljósastaur alheimsins, þá er ólíklegt að hann verði ánægður með það finni hann lyktina af hlandinu. Mér finnst við vera í miklu hafróti - stjórnmálaflokkar hafa ráðist á þjóðina sem stendur eins og ljósglæta innan um heljarmikið brim.

Hvort þjóðin standi af sér þetta ofsaveður er undir henni komið. Hún verður að losna úr þessum böndum, koma sér upp úr hafinu til að forðast drukknun, og upp á þurrt land, þar sem við getum náð áttum á ný.

Hvort að rétt fyrsta skref sé að merkja kjörseðil með X-O, hef ég ekki enn ákveðið - en athygli minni hefur vissulega verið snúið í þá átt.

 

Mynd: TAZmanian look at the World Wierd Web


mbl.is Flokkarnir skulda hálfan milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Íslenskt flokkakerfi löngu orðið gjaldþrota. Sönnunn þess er opinber.

Spillingin er alger í öllum flokkum.

Ómar Ingi, 11.4.2009 kl. 14:31

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Heill og sæll Hrannar. Les gjarnan bloggið þitt, finnst það mjög oftast frumlegt, íta við manni og málefnalegt. Nú ætla ég að vera þér örlítið ósammála. Þú segir að Sjálfstæðisflokknum hafi verið mútað, þá finnst mér nú ekki það hafa komið fram í þessu máli, að hægt sé að fullyrða um slíkt.

Komið hefur fram að fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins Kjartan Gunnarsson hafi miðað hámarksstyrkupphæðir við 3 milljónir. Það hefur örugglega verið gert af einhverjum ástæðum.

Þekki það úr mínu umhverfi, að aðilar hafa veitt stuðning til stjórnmálaflokki, með þeirri hugsun að það kæmi þeim til góða síðar. Reynslan af slíku var afar misjöfn. Hef líka verið í fyrirtæki þar sem öll framboð voru studd, og einungis með þeirri hugsun, að starfsemin væri góð fyrir lýðræðið.

Þessar tvær greiðslur frá FL og Landsbanka finnst mér afar óheppilegar. Þeim sem sóttu þær og vissu um til minnkunar. Frá því að þetta kom upp finnst mér hins vegar að Bjarni Benediktsson hafi tekið á málinu af festu.

Ákveðnir stjórnmálaflokkar og stuðningsmenn þeirra hafa ákveðið að eyða páskunum í englaleik. Það er hins vegar síðasti vettvangurinn til að sækja þá hvítþvegnu.

Sigurður Þorsteinsson, 11.4.2009 kl. 15:02

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ómar: sammála þér

Sigurður: Þakka hrósið. Maður getur víst ekki alltaf átt góðan dag. Kannski ég sé bara farinn að örvænta um íslenska flokkspólitík. Ég er sammála þér að Bjarni hefur komið mjög á óvart, verið hreinskiptinn og ákveðinn í að koma upp um ruglið í eigin flokki, og axla ábyrgð á því. Hins vegar er flokkurinn einfaldlega ekki trúverðugur í augnablikinu, enda útilokað að aðrir flokksmenn hafi ekki vitað af þessu, og einfaldlega þótt þetta flott, og kannski ekkert hugsað út í hvað svona háir styrkir merkja. Aðrir flokkar eru ekkert skárri, enda reknir eins og fyrirtæki af atvinnupólitíkusum, og það er bara einhver frumkjarni innan í mér sem segir að það sé rangt. Stjórnmál eru ekki viðskipti.

Það getur líka vel verið að ég hafi dramtíserað færsluna eitthvað meira en venjulega.

Hrannar Baldursson, 11.4.2009 kl. 15:17

4 Smámynd: Bjarni G. P. Hjarðar

Bjarni Ben segir "sátt innan Sjálfstæðisflokksins" um mútumálið.  Hvernig á að útskýra 55 milljóna framlag helstu hagsmunaðila í REI-málinu, algerlega á svig við samkomulag allra stjórnmálaflokka og almenningsálitið, nema með "smurningu" við að koma almenningsfyrirtæki í (skráða) eigu réttra aðila?

Bjarni G. P. Hjarðar, 11.4.2009 kl. 19:37

5 Smámynd: Þór Jóhannesson

Þið segið "spilling í ÖLLUM íslenskum stjórnmálaflokkum er algjör" - nefnið dæmi um álíka spillingu hjá VG takk!?

Þór Jóhannesson, 11.4.2009 kl. 21:29

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sæll Þór,

Ég held því hvergi fram að VG sé spilltur flokkur, heldur skuldugur. Ég kýs ekki VG vegna þess að ég er ekki sáttur við málefnaskrá og heildarstefnu flokksins. Svo einfalt er það.

Hins vegar held ég að VG sé til fyrirmyndar að mörgu leyti, fyrir utan það að vera rekinn eins og fyrirtæki - rétt eins og hinir flokkarnir.

Hrannar Baldursson, 11.4.2009 kl. 22:14

7 Smámynd: Þór Jóhannesson

Takk fyrir heiðarlegt svar Hrannar - það er óvenjulegt hér á moggabloggi þessa daganna!

Tek ofan hattinn fyrir það!

Þór Jóhannesson, 11.4.2009 kl. 22:22

8 identicon

Ég verð að taka undir með Þór. Vinstri grænir eru merkilega óspilltur flokkur og í raun enn svo ósnortinn af kerfinu að hann er betri kostur en Borgarahreyfingin - því hann er orðinn stór og öflugur að auki.  

ábs (IP-tala skráð) 12.4.2009 kl. 00:53

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Hrannar.

Þó við séum augljóslega sitt í hvorri herdeildinni þessa dagana og ég sé ekki sammála þér þegar þú leggur alla að jöfnu við Sjálfstæðisflokkinn í spillingarmálum ... og þó mér finnist það rosaleg alhæfing hjá þér að tala um "blóðpeninga" stjórnmálaflokkanna ...

... þá ætla ég engu að síður að óska þér gleðilegra páska vegna bloggvináttunnar sem nú hefur staðið all lengi.

Njóttu hátíðanna.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.4.2009 kl. 11:38

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sæl Ólína. Ég legg hvergi alla að jöfnu við Sjálfstæðisflokkinn í spillingarmálum, eins og ég hef áður tekið fram í athugasemdum við þessari grein. Einnig skulum við skoða betur "alhæfingu" mína um blóðpeninga:

Allt annað er útilokað, enda hafa flokkarnir sýnt að annað hvort eru þeir með allt niður um sig eða hlaðnir blóðpeningum.

Þegar ég tala um að flokkarnir séu með allt niður um sig, er ég að vísa í þá fimm flokka sem sagt er frá í upphaflegri frétt og að hver og einn þeirra skuldar margar milljónir fyrir rekstur stjórnmálaflokks. Með "hlaðnir blóðpeningum" á ég við stóra styrki sem líklegast hafa verið 'gefnir' með von um að fá einhver samfélagsleg verðmæti á móti.

Gleðilega páska sömuleiðis. Vonandi skilst greinin betur eftir þessar skýringar.

Hrannar Baldursson, 12.4.2009 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband