Hvað er heimurinn? Kúla, heild, hugmynd, tákn eða sundruð veröld í tíma sem líður misjafnlega hægt eða hratt?
28.3.2009 | 12:03
Í gær sótti ég alþjóðlega ráðstefnu í Osló þar sem fræðimenn úr ýmsum fögum veltu fyrir sér eðli heimsins.
Það virðist ekki skipta máli úr hvaða fræðigrein viðkomandi kemur, alltaf er leitað til tveggja grundvallarhugtaka: tíma og rúms. Talað var um heimstíma annars vegar, og síðan hvernig fólk upplifir tímann á ólíkan hátt eftir ólíkum menningarsvæðum og störfum.
Til dæmis var rætt um það hvað tíminn virðist sífellt líða hraðar, og sérstaklega í samkeppnissamfélagi þar sem allir keppast um að vera fljótari en hinir til að ná tímans gæðum. En þegar spurt er hvað það er sem við stefnum á með öllum þessum hraða verður oft fátt um svör. Við trúum kannski að það sé einhver betri heimur, en er það virkilega raunin?
Hugsanlega kemur sú stund að þessi hraði leiðir okkur ekki í sjálfvirka þróun, heldur bara út í einhverja óreiðu og vitleysu, svona rétt eins og ávanabundin fíkn - og eina leiðin út úr slíkri óreiðu verður algjör endurhæfing og með því mun spretta sterk þörf fyrir trúarbrögð og æðri máttarvöld - því að þegar í óefni er komið og fólk getur ekki bjargað sér, þarf það að finna einhvern æðri tilgang.
Einnig veltu fræðimenn fyrir sér hvort að nútíminn væri liðinn og hvað gerðist þegar nútíminn væri á enda. Getur verið að við séum kannski á síðustu augnablikum nútímans, en 'nútíminn' þrátt fyrir orðið, er trú um að heimurinn sé á einhvern ákveðinn hátt akkúrat NÚNA.
Hvernig er þá þessi trú okkar um nútímann? Höfum við öll sömu trú? Hvernig er veruleikinn um heiminn óháð trú okkar og skoðunum?
Sum okkar þegar við reynum að teikna upp heiminn sjáum fyrir okkur jörðina sem hnött, aðrir sjá ennþá lengra út í geym og undir yfirborð jarðar, en hugtakið sem virðist vera ofaná er að jarðkúlan sé heimili okkar. Hvernig þessi jarðkúla er í raun og veru getur síðan verið erfitt vandamál að glíma við.
Það er nefnilega ekki nóg að fá gervihnattamynd af jörðinni, benda á hana og segja þessa bláu kúlu vera heiminn. Þegar aðrir menningarheimar eru skoðaðir, kemur í ljós að til dæmis ættbálkar í Pólinesíu trúa að hver einstaklingur fæðist innan í svona kúlu sem sköpuð er af móður viðkomandi, og að á leiðinni gegnum lífið bætist við nýjar og stærri kúlur sem hafa í för með sér réttindi og stöður í samfélaginu.
Enn önnur pæling barst að því að hugmynd okkar um heiminn væri að finna í þeim textum sem skrifaðir hafa verið um aldirnar og haft hvað mest áhrif á mannkynið. Með þessum hætti fer þá skilningur okkar á heiminum fram með táknrænum hætti, og í raun og veru væri heimurinn þá ekkert annað en táknmyndir sem spretta fram úr textum. Spurning hvort að kalla mætti það goðsagnir.
Enn ein pælingin fólst í spurningunni um mögulega heima, og aðgreiningunni á skáldheimum og mögulegum heimum, en skáldheimar eru búnir til með ákveðnum merkjum sem við skiljum, en hafa alltaf þann galla að vera endanlegir. Mögulegur heimur er hins vegar nær veruleikanum, því að við gerum okkur mynd af raunverulegum heimi, og með sífellt betri upplýsingum og sönnunargögnum komumst við nær því að gera okkur mynd af því sem heimurinn er í raun og verum.
Þær vangaveltur sem höfðu þó dýpstu áhrifin á mig var þegar rætt var um hvernig við sjáum heiminn gegnum hnattvæðinguna, þar sem léttvægar hugmyndir og hlutir flæða yfir veröldina nánast óhindrað, en strax og kemur að dýpri speki, guðfræði og raunverulegri menningu þjóða, þá verði strax til tregða. Mesta hindrunin felst hins vegar í landamærum heimsins, þar sem lokið er fyrir flæði fólks, þrátt fyrir að hugmyndir þeirra megi fljóta yfir landamærin nokkuð frjálst, hugsanlega á Internetinu.
Internetið virðist vera að búa til ákveðna trú um heiminn, vera hálfgert dogma, kenning um heiminn, nánast trúarbrögð (eða töfrabrögð) þar sem við sjáum ekki lengur landamæri heimsins heldur sjáum við stöðugt heildarmyndina og förum að trúa því að allir jarðarbúar séu jafnir.
Mætirðu hins vegar á staðinn þar sem fólk er að klifra rafmagns og gaddavírsgirðingar til að flýja eigið land og inn á "frjáls" landsvæði eins og Evrópu eða Bandaríkin, þá renna á þig tvær grímur. Það sem virðist nefnilega einkenna heiminn er ekki heild, eins og við höfum sterka tilhneigingu til að halda, heldur eru það sundranir sem sýna okkur hvernig heimurinn er.
Dæmi um slíka sundrun er að nú hafa verið háð stríð á þeirri forsendu að mannréttindi hafa verið brotin.
Í lok ráðstefnunnar var ég afar pirraður, enda hafði heimsmynd mín orðið fyrir miklum áhrifum. Ætlunin var að fara í mat eftir ráðstefnuna, en ég hafði enga lyst - ég hafði alltof mikið af hugans mat til að melta, og er enn að því. Fyrstu viðbrögð mín eftir ráðstefnuna voru að þetta hafði verið tómt rugl, en nú þegar þetta er allt að síast inn og ég að átta mig á alla þá undrun sem ég upplifði á þessum fáeinu klukkustundum, hefur gefið mér tilefni til að hugsa um heiminn út frá nýjum forsendum - og með því fararnesti ekki aðeins bætt sjálfan mig, heldur hugsanlega heiminn eitthvað með.
Því ef við reynum að bæta heiminn án þess að vita hvað heimurinn er, getum við þá virkilega vitað með vissu að við séum að bæta heiminn?
Eftir á að hyggja er ég afar sáttur við að hafa mætt á þessa ráðstefnu, enda finn að búið er að kveikja í mínum gömlu hugmyndum og nýjar að glæðast. Ég vil þakka þeim Helge Jordheim, Hartmut Rosa, Dorthe Gert Simonsen, Helen Kelly Holmes, Pia Lane, Ingjerd Hoem, Karen Gammelgaard, Kristin Asdal, Anne Eriksen og Katja Franko Aas fyrir að kveikja hjá mér þessar vangaveltur um heiminn.
Ég er sérstaklega þakklátur fyrir að sjá hversu grunna hugmynd ég hafði um heiminn og hversu langa ferð ég á enn fyrir höndum.
Svona sér McDonalds heiminn:
Myndir:
Jörðin frá tunglinu: Cosmos4Kids
Nútími Charlie Chaplin: The Jog
Landamæri: InfoWars
Eldspýtur: PhotoBucket
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Íþróttir | Breytt s.d. kl. 12:25 | Facebook
Athugasemdir
Ég skil ekki af hverju þú ert svona lengi að ná þessu, ég fattaði þetta allt saman fyrir löngu. Fyrir þig og restina af "seina fólkinu" ... http://en.wikipedia.org/wiki/World_community
kv. af klakanum,
Sancho
p.s. fékk eftirfarandi villumeldingu
Eftirfarandi villur komu upp:
Rangt svar var ritað í ruslpóstvarnarreit
:}
Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 28.3.2009 kl. 12:28
Sæll Sancho skjaldsveinn minn góður,
Ég eins og þú hélt ég væri með þetta allt á hreinu. Svo kemst maður einfaldlega að því að það býr eitthvað meira að baki.
Held ég fari að ráðast á vindmyllur eins og í gamladaga.
Hrannar Baldursson, 28.3.2009 kl. 13:09
Gaman af þessum pælingum , en munum við einhvertíma komast á lokapunkt í þessari umræðu allri ?.
Ómar Ingi, 28.3.2009 kl. 13:57
Nei, við komumst aldrei á lokapunkt fræðilega séð, en það er annað mál ef við byggjum heimsmynd okkur á skoðunum og trúarbrögðum sem þurfa ekki rök eða sönnunargagn til að sannfæra okkur um það hvernig heimurinn er í öllu sínu veldi.
Hrannar Baldursson, 28.3.2009 kl. 14:49
Væri gaman ef eðalpenni eins og þú myndir kryfja ræða Davíðs Oddsonar frá landsfundi og mála upp stórfurðulega heimsmynd sem sá einkennilegi fýr hefur.
Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 28.3.2009 kl. 22:47
Sancho: Komið!
Hrannar Baldursson, 28.3.2009 kl. 23:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.