Svona er Ísland í dag

 

 

Þeir mættu undir styttu Jóns Sigurðssonar laugardaginn 21. mars, stundvíslega klukkan þrjú. En það voru engin mótmæli. Davíð hélt á skilti sem sagði "Helvít.is" en Steingrímur huldi andlit sinn með lambhúshettu, þannig ekki sást í neitt nema varir og augu.

"Hvar er Hörður Torfa?" sagði Steingrímur. "Hvar eru allir?"

"Ég veit ekki", sagði Davíð og tók upp farsímann. Hann hringdi í eitthvað númer. "Halló... mótmælafundurinn er ekki... ha? ekki í dag... ókei... takk... bless..."

Hann stakk símanum í vasann og yppti öxlum. "Enginn fundur í dag. Sjáumst!" Hann var fljótur að kveðja og gekk af stað. 

"Bíddu," kallaði Steingrímur og hljóp á eftir honum. "Hvað er í gangi? Eru mótmælin hætt? Höfum við sigrað? Höfum við gefist upp?"

"Við höfum ekki sigrað," sagði Davíð.

"Við höfum þá gefist upp," sagði Steingrímur.

Davíð snéri sér að Steingrími og horfði blíðlega í augu hans. "Heldurðu virkilega að hlutirnir lagist að sjálfu sér? Heldurðu að Hörður Torfason sé eini maðurinn á Íslandi sem þurfi að fórna sér fyrir fjöldann? Heldurðu að Hörður Torfason geti barist einn áfram til eilífðar, þegar þjóðin sýnir honum ekki meiri stuðning en hún hefur gert síðustu vikurnar? Af hverju tekur þú ekki af þér grímuna og heldur mótmælafund sjálfur?"

Steingrímur leit undan ákveðnu augnaráði Davíðs. Davíð starði áfram á hann þar til Steingrímur svaraði. "Ég er ekki tilbúinn til að tapa öllu. Ert þú það?"

"Hvað ertu að bulla?" spurði Davíð. 

"Ja," sagði Steingrímur. "Frændi minn. Hann sagði mér að taka af mér grímuna og berjast fyrir betra Íslandi undir eigin nafni. Nú er hann að flytja úr landi einmitt vegna þess að hann mótmælti grímulaus og birtist í sjónvarpinu. Hann var rekinn úr starfi stuttu síðar og flutti úr landi í janúar."

"Nú?"

"Sjálfselska, ofmetnaður og spilling er það eina sem gildir á Íslandi," sagði Steingrímur. "Þeir spilltu safnast í hópa og ráðast á þá sem skera sig úr og berjast fyrir betri heimi. Sjáðu hvernig hefur stanslaust verið ráðist á Hörð Torfa, og hann hefur svo gagnrýnt þá sem hafa viljað vernda sjálfa sig og fjölskyldur sínar með grímum, en þegar fólk ver sig ekki er það einfaldlega lagt í einelti þar til það flýr land. Þannig fækkar mótmælendum."

"Já, það er kannski eitthvað til í þessu," sagði Davíð. "Sjálfur þekki ég mann sem reyndi að hjálpa öðrum eftir efnahagshrunið í október með því að koma af stað og vera í ábyrgð yfir verkefni með sjálfum forseta Íslands, í þeirri barnslegu trú að hann gæti komið einhverju góðu til leiðar - en yfirmaður hans var ósáttur, hótaði honum uppsögn í nóvember og sagði honum upp í janúar. Sönn saga!"

"Þetta er grimmur heimur," sagði Davíð.

"Ekkert smá. Þessi maður er á leið úr landi með fjölskyldu sína," sagði Steingrímur.

"Honum var nær að leggja nafn sitt undir."

"Heldur betur var honum nær, hann taldi sig undir verndarvæng áhrifamikilla einstaklinga, en þegar á hólminn var komið, stóð hann einn og yfirgefinn uppi á hæð, reyndi að verjast höggum eins og Gísli Súrsson í denn, og féll loks í valinn eftir stuttan bardaga."

"Gísli hver?" spurði Davíð.

"Úr Íslendingasögunum, gleymdu því," sagði Steingrímur.

"Svona er Ísland í dag," sagði Davíð, tók lambhúshettu úr vasanum og dró yfir andlit sitt. 

 

 

Mynd: China Daily


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband