Bloggum betur 3: Ekki láta hafnanir stoppa þig
27.3.2009 | 09:10
Ég trúi því að frjáls hugsun sé aðeins möguleg ef maður getur tjáð hana og gert það vel. Hvirfilvindarnir í hausnum, ótjáðir, eru einfaldlega nær því að vera draumar en hugsanir - því þeir gufa upp jafnskjótt og þeim er sleppt. Að frelsa hugsanir með lyklaborði eða penna gefur þeim nýtt líf, óháð því hvort að þær komist milli eyrna lesenda.
Flestir ef ekki allir þeir sem hafa unun af að skrifa þekkja höfnun. Höfnun er óþægileg tilfinning, og þýðir einfaldlega að einhver metur rituð orð þín ekki jafnmikið og þú gerir. Hugsanlega fundu orð þín ekki réttan lesanda eða þá að þau voru einfaldlega ekki nógu vel unnin. Það er þitt að meta.
Ef einhver segir að þú skrifir illa, þá skaltu spyrja hvað það er við skrif þín sem er slakt, og þú þarft að meta hvort að gagnrýnin sé gefin af heilum hug eða kannski af illkvittni eða öfund. En metirðu svo að gagnrýnin sé góð og gild, þá er spurning um næsta skref: annað hvort hættirðu að skrifa af því að þú skrifaðir eitthvað illa, eða þú bætir þig.
Rithöfundar sem eitthvað er spunnið í velja seinni kostinn. Þeir sem velja fyrri kostinn hafa gefist upp og verða því aldrei rithöfundar.
Tilvitnanir um hafnanir rithöfunda:
Jane Yolen: "Rithöfundur venst aldrei höfnunum. En ef hann hefur sent frá sér nógu mörg handrit verður sérhver höfnun lítilvægari. Lítilvægari? Að minnsta kosti minna særandi."
Isaac Asimov: "Ég sparka og öskra þegar ég fæ höfnun, og það er engin ástæða til að þú gerir það ekki til að láta þér líða aðeins betur. Samt, þegar þú ert búinn með spörkin og öskrin mæli ég með að þú snúir þér að því að endurskrifa og senda verkið aftur til útgáfu."
Dæmi um rithöfunda sem hefur verið hafnað:
Ray Bradbury sagði að hann ætti um 1000 höfnunarbréf eftir 30 ára feril.
Edgar Rice Burroughs var stöðugt hafnað þegar hann reyndi að selja framhaldssögur um Tarzan.
Stephen King var hafnað í fyrstu þegar hann reyndi að selja metsölubókina Carrie.
Dagbók Önnu Frank var hafnað 16 sinnum áður en hún var gefin út árið 1952.
John Kennedy Toole var hafnað svo oft fyrir bók sína Confederacy of Dunces, að hann framdi sjálfsvíg. Móðir hans barðist eftir dauða hans fyrir útgáfu sögunnar. Að lokum fékk bókin Pulitzer verðlaunin árið 1980.
Richard Bach var hafnað 140 sinnum áður en Jónatan Livingston mávur var gefin út.
Annað í sama dúr:
Bloggum betur 1: Ekki brjóta gegn lögmálum sem þú skilur ekki.
Bloggum betur 2: Skrifaðu alla daga - þannig lærirðu mest
Myndir:
Pylsubrauð hafnar pylsu: Wovel movers
Foundation eftir Isaac Asimov: But what these unobservant birds
Tarzan: Michael May's Adventureblog
Athugasemdir
Hressandi lesning , en ertu ekkert búin að sjá Watchmen á að skrifa um hana ef ekki þá er ég allavega mikið forvitinn að vita þína skoðun á henni.
Ómar Ingi, 28.3.2009 kl. 11:21
Sæll Ómar Ingi,
Ég er staddur í Noregi og hef ekki komist á hana. Reyndar með falli krónunnar kostar það um kr. 1800,- að fara í bíó hér í Noregi, og því miður er myndin sýnd svo seint á kvöldin að ég á í vandræðum með að ná strætó eftir sýningu.
Ég fer á hana strax og ég kemst og skrifa þá að sjálfsögðu gagnrýni.
Bestu kveðjur,
Hrannar
Hrannar Baldursson, 28.3.2009 kl. 11:32
Hafðu það gott í Olso vinur minn Hrannar
Ómar Ingi, 28.3.2009 kl. 13:58
Takk fyrir hlýjar kveðjur, Ómar.
Hrannar Baldursson, 28.3.2009 kl. 14:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.