Getur verið að kreppan kveiki í og magni upp geðhvörf og aðra geðræna sjúkdóma?

 

bipolar2

Geðhvörf er alvarlegur geðrænn vandi sem fólk ber ekki utan á sér. Sumir geta jafnvel þakkað árangri í starfi fyrir þann kraft sem virðist geisla af viðkomandi á meðan hann er í örlyndishlið geðhvarfa. Vandinn við geðhvörf er margbrotinn. Annars vegar getur fólk talið að slíkar skapsveiflur séu bar eðlilegur hluti af tilverunni og áttar sig ekki á vandanum sem liggur að baki, en í henni getur falist mikil sjálfseyðingarhvöt, sem beinist einnig að öðru fólki í nánasta umhverfi. Fólk með geðhvörf þarf hjálp. Fólk sem umgengst fólk með geðhvörf þarf líka hjálp. Ég tek fram að ég er ekki sérfræðingur í þessum fræðum, en hlýt að geta dregið ályktanir útfrá eigin rannsóknum og heilbrigðri skynsemi, sem vissulega má gagnrýna.

Í síðasta mánuði lenti ég í klónum á einstaklingi sem ég tel að þjáist af geðhvörfum. Á ensku er þessi gerð geðveiki kölluð Bi-Polar Disorder. Ég vissi að eitthvað var að en áttaði mig ekki á hvað það var, og sú staðreynd hefur truflað mig töluvert.

Nú hef ég skráð niður ýmsar kenningar um hvað olli þessu slæma sambandi, og komist að því að þó margt hafi verið til í mínum kenningum, og þær hafi staðist gagnrýni, þá fóru þær ekki nógu djúpt. Þegar ég fór síðan að kanna sambandið á milli þessara hugmynda minna, áttaði ég mig á að viðkomandi einstaklingur þjáist hugsanlega af geðsjúkdómi.

 

 


 

Þannig að ég setti af stað persónulega rannsókn sem leiddi mig að hugtökum eins og marglyndi, maníu, jaðarpersónuleikaröskun (Borderline personality disorder), og fannst ég stöðugt vera að nálgast kjarna málsins þar til ég fann skilgreiningar og lýsingar á geðhvörfum.

Í rannsóknum mínum komst ég að því að ástand eins og er í íslensku þjóðfélagi í dag, með aukinni streitu vegna efnahagsástandsins, virkar það eins og kveikjuþráður fyrir fólk með geðhvörf - og eftir því sem ástandið er alvarlegra, því styttri er kveikjuþráðurinn.

Ef þú lendir í sambandi við manneskju sem þjáist af geðhvörfum, hvort sem um maka, samstarfsfélaga, vini, eða því sem er enn alvarlegra og getur haft bein áhrif á líf þitt og afkomu: embættismanni, yfirmanni eða kennara, þá verður þú að gera eitthvað í málunum, en kreppunnar vegna, er ólíklegt að þú getir það.

Claustrophobia_by_ArhcamtIlnaad

Ég er það heppinn að vera endanlega laus við þessa manneskju úr mínu lífi, en hef vissulega áhyggjur af þeim sem þurfa enn að umgangast hana, og ljóst að þetta fólk þarf að forðast eins og heitan eldinn að styggja viðkomandi, því ef að slík vera er styggð - getur hún tekið upp á því að ráðast á allt og alla sem verða í hennar vegi og grýti steinum út úr  glerhúsinu þar til hún telur að lausn hafi verið fundin - alls staðar annars staðar en mögulega í eigin ranni - og róast þar til sannleikurinn kemur í ljós, fyrr eða síðar

Ef þér finnst sumt fólk vera farið að haga sér undarlega þessa síðustu daga, skráðu niður það sem þér þykir undarlegt, rannsakaðu það og myndaðu þér skýra og fordómalausa skoðun, áður en það er of seint að gera eitthvað í málinu. Ef þú hefur rökstuddan grun, leitaðu þá aðstoðar sérfræðinga, sem geta þá vonandi komið viðkomandi eða þér til aðstoðar reynist grunur þinn á rökum reistur.

Athugaðu að á geðhvörfum eru tvær hliðar, önnur þeirra mun sýnilegri en hin. Örlyndi er sýnilegt á meðan hin hliðin, þunglyndið, er yfirleitt vel falið.

 

Af heimasíðu Geðhjálpar:

Talið er að um 1% þjóðarinnar séu með geðhvörf (Bi-Polar).  Geðhvörf kallast það þegar manneskja sveiflast milli oflætis og þunglyndis, geðhæðar og geðlægðar.  Langur tími getur liðið á milli geðsveifla og á þeim tímabilum er einstaklingurinn heill á geði.  Ef sjúklingur er án meðferðar má búast við 7-15 stórum sveiflum um ævina. Sumir veikjast þó aðeins einu sinni.  Framgangur geðhvarfa er einstaklingsbundinn og er því erfitt að alhæfa um hversu mörgum geðsveiflum fólk má búast við, hve lengi þær standa yfir og hve langur tími líður á milli þeirra.  Fyrsta geðsveiflan kemur oft í kjölfar aukins álags eða áfalls.

Lengi hefur verið talið að geðhvörf séu algengari hjá skapandi fólki með frjótt ímyndunarafl og margir af ástsælustu listamönnum heimsins eru taldir hafa þjáðst af geðhvörfum, t.d. Virginia Woolf, Sylvia Plath og Sting,

Helstu einkenni örlyndis eru:

  • Hækkað geðslag, minnkuð svefnþörf og hraðar hugsanir
  • Aukin líkamleg og andleg vellíðan
  • Óþol gagnvart áreiti
  • Oft stutt skil á milli gleði og reiði, ánægju og æsings
  • Oft yfirþyrmandi framkoma
  • Háar hugmyndir og góð færni í að sannfæra aðra
  • Minnkuð færni í að hlusta á aðra
  • Minnkuð dómgreind - óskýr skil á milli eigin hugarheims og raunveruleika

Á persona.is eru undirflokkar geðhvarfa skilgreindir nokkuð vel. Athugaðu endilega hvort að þú kannist við einkennin.

Geðhvörf I er það form geðhvarfa sem einkennist af gríðarlegum oflætissveiflum sem oft standa lengi yfir, en þunglyndissveiflurnar eru ekki mjög djúpar. Fólk með þessa tegund af geðhvörfum setur hvað mestan svip á sjúkdóminn og gefur honum andlit. Þetta eru einstaklingarnir sem í oflætinu eru ósigrandi og búa yfir óþrjótandi orku til að sigra heiminn. Þeir svífa um í hæðstu hæðum oflætisins. Iðulega þarf að leggja fólk með geðhvörf I inn á geðdeildir í langan tíma til að ná því niður úr oflætinu, sem oft hefur varað lengi og hefur jafnvel valdið líkamlegu tjóni.
 
Geðhvörf II er annað birtingarform á geðhvörfum sem lýsir sér með meira og langvarandi þunglyndi en hjá fólki með geðhvörf I. Inn á milli upplifa þessir einstaklingar stutt og oft væg oflætistímabil. Tímabil sem vara 3-15 daga. Þetta fólk er oft ranglega greint taugaveiklað eða með persónuleikaröskun.
 
Geðhvörf III er svolítill jaðarhópur. Hér er um að ræða fólk sem er oft þunglynt og er á þunglyndislyfjum eða í rafmeðferð sem kemur því í oflætisástand. Stundum geta jafnvel steralyf eins og cortisone komið fólki upp í geðhæð eða oflæti. Einnig getur fólk sem er ranglega greint þunglynt og sett er á þunglyndislyf skotist upp í oflæti. Þessir einstaklingar eru flokkaðir með geðhvörf III.
 
Hverfilyndi (cyclothymia). Í þessum flokki eru þeir sem kallast "rapid cyclers". Þeir sem fá vægar og örar geðsveiflur. Þetta er fólkið sem fær oft frábærar hugmyndir, byrjar á stórum verkefnum af krafti en klárar þau aldrei. Fólkið sem þarf stöðugt að vera á ferðinni. Fólkið sem kemur geysimiklu í verk á skömmum tíma en dettur svo niður inn á milli, án þess þó nokkurn tíman að missa dómgreind eða upplifa slæmt þunglyndi eða sturlunarkennt oflæti. Þessir einstaklingar eru oft ranglega greindir með persónuleikatruflanir.
 
Blandað ástand (mixed states). Margir sérfræðingar lýsa þessum blönduðu geðhvörfum sem "örvæntingarfullum kvíða". Þunglyndi með einstaka hugarflugi oflætis inn á milli. Geðsveiflurnar eru svo örar að einkenni þeirra birtast með mjög skömmu millibili í hegðun. Ef sveiflurnar vara skemur en tvær vikur er viðkomandi í blönduðu ástandi.
 

Skilgreining á maníu af doktor.is:

Á hinum manísku tímabilum er sjúkdómsmyndin gjörólík, nú er mikil hreyfiþörf og lífskraftur. Mikilvægustu einkenni maníu eru:

  • ört geð, árásargirni og ergelsi
  • aukin orka og virkni
  • málgleði, röddin er kröftugri en vanalega, hratt tal
  • minnkuð svefnþörf
  • ógagnrýnin hegðun, hvatvís.

What is Bipolar Disorder?



Myndir:

The Encouraging Times

Recluse

Throwing Stones in the Glass House


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Já þetta sýndi sig strax að fullt af fólki var að pæla í að kjósa Vinstri Græna það er nátturlega bilun.

Ómar Ingi, 25.2.2009 kl. 17:24

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér finnst orðið oflæti upp á ansi mikla mistúlkun á því ástandi, sem meira má líkja við ofvirkni en nokkuð annað. Þetta er frekar kreatíft ástand, þar sem viðkomandi lendir í því að hugsa örar en aðrir, svo erfitt er að fylgja viðkomandi eftir. Þetta fer svo yfir í það að vinnan og hugmyndaflugið tekur öll völd og fólk hættir að sofa og nærast, rétt eins og það sé á örvandi efnum. Úr þessu verður síðan örmögnun, sem steypir fólki í hyldýpi svartnættis, sársauka, vægrar vænisýki, skerts sjálfsálits og ekki síst skammar.

Þetta þekki ég, enda er ég greindur með þetta. Oflæti minnir einna helst á meglomaníu, sem er all allt önnur ella. Það er mikilmennskubrjálæði og er skyldara geðklofa.  Bipolar fylgir sjaldnast ofbeldisfull hegðun, né má finna dónaskapu, yfirgang og touretteinkenni, svo ég viti og finnst mér þú frekar vera að að lýsa geðklofa eða öðru geðröskunarafbrigði. Það má varast að hrapa svona að ályktunum, því það gerir engum greiða. Ég kannast akkúrat ekkert við þá tendensa sem þú lýsir hjá þessari manneskju, né hjá þeim er ég þekki með þessa röskun.  Ég held þú verðir að leita skýringa í öðru.  Leikmannsgreining kann sjaldan góðri lukku að stýra hér.

Annars varðandi snillana, þá er það rétt að margt hæfileikafólk er haldið þessu þótt ég sé ófær um að dæma hvort það er eitthvað algengara en í meðaltalinu. Þó eru margir þeirra sem ég þekki, einmitt áberandi og kreatífir einstaklingar og nafntogaðir hér.

Ég setti saman þetta myndband að gamni, sem einskonar hughreystingu fyrir þá sem eiga við þetta að stríað, svona til að sýna að við getum og höfum eitthvað að gefa heiminum, þrátt fyrir þetta.

Það er rétt hjá þér að kreppan er ákveðin grunnur sem gerir fólk viðkvæmara fyrir svona relaps.  Það þarf þó talsvert til að ýta fólki yfir brúnina ef það er á jafnvægislyfjum, sem hemja að það skrúfist upp úr þakinu. 

Mitt hlutskipti nú er það að hafa misst vinnuna fyrir þetta, þótt ég hafi verið í læknismeðferð. "geðveiksstimpillin" gerir mann að einskonar holdsveikisjúklingi í augum fólks og það sem verra er að maður hættir að vera marktækur í augum þess, þótt hausinn sé yfirleitt klárari og rökrænni en flestra annarra.  kannski er það það sem fólk þolir ekki. Ég veit það ekki, en ég veit það eitt að röng viðbrögð og þekkingarleysi getur frekar en nokkuð annað steypt mönnum í djúpt þunglyndi og afnvel handanyfir eins og sagt er.

Þetta er þó góð, ítarleg og fræðandi grein um Bipolar disorder og rétt í meginatriðum, nema hvað ég held að þú dragir rangar ályktanir með þessa manneskju.

Takk fyrir þetta kæri bloggvin.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.2.2009 kl. 19:01

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk fyrir þetta Ómar.

Jón Steinar: Vísvitandi lýsi ég ekki viðkomandi manneskju, og því tel ég ósennilegt út frá þeim forsendum sem ég tjái að þú getir dregið þá ályktun að mín ályktun sé röng. 

En kærar þakkir fyrir athugasemdina. Vissulega getur óréttlæti átt sér stað í tengslum við sjúkdóma sem þennan, sérstaklega ef fólk gefur á sér veikan blett, en vandinn er sá að stundum er það hinn "heilbrigði" sem veldur vandanum og stundum er það hinn "óheilbrigði". Hvert tilfelli er ólíkt.

Hrannar Baldursson, 25.2.2009 kl. 19:20

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það getur verið að ég sé eitthvað að mislesa, en mér sýnist á öllu að hún hafi verið ansi ógnandi, yfirgengileg og skelfileg í alla staði.

"..því ef að slík vera er styggð - getur hún tekið upp á því að ráðast á allt og alla sem verða í hennar..."

Þú virðist líka vera að tala um ansi viðvarandi ástand, en yfirleitt er manían tiltölulega skammvinn, því engin heldur hana út lengi og henni fylgir líka vanlíðan.  Ég las það út úr þessu sem um stanslausa plágu væri að ræða, en svona köst koma sjaldan og rapid cycling virðist ekki eiga við þetta. Það er vægara í báðar áttir. Má ég spyrja hvort hún hafi verið jákvæð samvinnuþýð og jafnvel hrókur alls fagnaða svona að mestu leyti?  Var áfengi eða alkohólismi með í för. Það getur lýst sér í slíku varanlegu spennuástandi, jafnvel eftir að drykkju er hægt ef fólk er ekki að lifa samkvæmt læknisráði (á hnefanum)

Það er svo talsvert algengt að fólk sem greint er með alkohólisma eigi einfaldlega við bipolar að stríað en það lendir í vítahring drykkjunnar til að sefa sársaukan og þyngslin. Þá er það ört í drykkju en annars flatt eð upptökkt.

Vilti bara velta þessu fyrir mér með þér. Ef þú horfir á myndbandið, ef ekki margt af þessu fólki þekkt fyrir aggression, en nokkri skandalamakerar og nokkrir fyrirfóru sér. Britney litla Spear er ekki þarna en hún er hrópandi dæmi um bipolar, sem neytir hugbreytandi efna ofan í alla hina delluna.

En eins og ég segi...fátt er hægt að alhæfa nema að vandlega skoðuðu máli. Bipolar virðist vera tískufyrirbrigði í dag og venjulegar sveiflur í bíórythma jafnvel skrifaðar á það.  Það er oft hárfín lína á milli geðsjúkdómaafbrigða, eins og sést á flokkun bipolar. Skjaldkirtilsjúkdómar geta lýst sér á þennan hátt líka. Þetta er faglegt greiningaratriði.

Svo vil ég biðja í vinskap um að þú kallir þetta ekki geðveiki. Það orð hefur einmitt tón, sem elur á fordómum að ósekju. Bipolar er meinlaust fólk fyrir það mesta og yfirleitt friðsemdarljós eins og ég.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.2.2009 kl. 19:56

5 identicon

Já ég held að kreppan magni ýmsa geðsjúkdóma upp...... Það er nóg að lesa sum blogg hér á mbl til að sjá það.......

Sumir þurfa virkilega að leita sér hjálpar og ég segi þetta án þess að vera með fordóma.......

Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 22:07

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Svona óvissuástand og yfirálag getur mjög auðveldlega aukið virkni geðsjúkdóma.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.2.2009 kl. 22:52

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ragnheiður: Fordómar eru einmitt það að dæma án þekkingar eða sannana, sem og að alhæfa breitt um hluti eins og geðsjúkdóma t.d. Það er þinn heimasmíðaði fílabeinsturn, sem hefur engar undirstöður að mínu mati.

Vona að þú hugleiðir það, þar sem þú tekur því sérstaklega fram að þetta sé ekki byggt á fordómum. Það er þín ályktun um eigin fullyrðingar, en ekki víst að margir sjái það með sömu augum.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.2.2009 kl. 06:25

8 identicon

Mér finnst það lýsa ákveðnum fordómum og skilningsleysi að tala um „að lenda í klónum á" og að „lenda í" fólki sem þjáist af geðsjúkdómum. Myndir þú tala um að „að lenda í klónum á "krabbameinsskúklingi ?? Ég bara spyr.

Olga Jenný (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 10:15

9 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Það þarf að niðurgreiða heilbrigðisþjónustu sálfræðinga þannig að almenningur eigi kost á sálfræðimeðferð og hægt sé að grípa fyrr en seinna inn í vanlíðan hjá fólki. Það er löngu tímabært að lagfæra þessa skekkju á íslensku heilbrigðiskerfi sem niðurgreiðir þjónustu geðlækna en ekki sálfræðinga þegar margsannað er að hugræn atferlismeðferð skilar oft betri árangri en lyfjameðferð. Ég er sannfærð um að slík aðgerð væri mjög til bóta og þjóðhagslega hagkvæm. Einnig þarf að halda áfram því góða starfi sem m.a. Geðræktarverkefnið og margir aðrir hafa staðið fyrir.

Kristbjörg Þórisdóttir, 26.2.2009 kl. 13:08

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jón Steinar bendir á megin vandamál fordóma, að manneskjan sem hefur þá er einmitt ekki líkleg til að vera var við þá.

Mér finnst ekki ólíklegt að sjálfur hafi ég myndað einhverja fordóma um málið á meðan ég hef hugsað um það í einrúmi, enda skrifa ég útfrá persónulegri reynslu - sem hefur vissulega áhrif á útkomuna sama hversu mikið ég vanda mig. Hins vegar tel ég mig geta uppgötvað og tekist á við eigin fordóma með því að taka þátt í opinni umræðu um málið og velta vandlega fyrir mér athugasemdunum sem berast. Ég geri mér fulla grein fyrir að enginn er fullkominn og að ég er ekki þessi enginn. 

Olga Jenný - þessi sjúkdómur er þess eðlis að hann hefur félagsleg virk áhrif, þannig að sjúklingur með þennan sjúkdóm þarf að vanda sig sérstaklega til að láta hann ekki hafa áhrif á fólkið í kringum sig - annað en með krabbamein. Sjúkdómar takmarka okkur á einhvern hátt - á meðan krabbamein ógnar líkama okkar, ógna geðsjúkdómar hug okkar, en hugur okkar stjórnar öllum ákvörðunum og athöfnum, og samskiptum við annað fólk.

Þannig ver ég slíkt orðalag, "að lenda í klónum á einhverjum sem á við geðsjúkdóm að stríða" tel ég vera orðalag sem er verjandi að nota, þó að viðkvæmt sé.

Hrannar Baldursson, 26.2.2009 kl. 14:26

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kristbjörg: Þarna er ég sammála þér, en tel að vandi sálfræðinga sé mun dýpri á Íslandi en þarna kemur fram. Málið er að stjórnkerfið vill sjálfsagt lítið gera fyrir stétt þar sem starfsheiður hennar er varinn af löngu úreltum lögum. Miðað við það sem ég hef kynnst af þessum lögum, og alvarlegum takmörkunum gagnvart þeim sem hafa sálfræðinám frá öðrum svæðum en norðurlöndunum, þá skil ég vel að erfitt sé að viðurkenna störf sálfræðinga sem hluta af velferðarþjónustu.

Þarna tel ég frumforsendu heillar starfsgreinar á Íslandi vera á hálum ís - sem ég tel að skapi ákveðna fordóma gagnvart henni.

Þegar prófessorar í sálfræði og viðurkenndir sálfræðingar á alþjóðavettvangi koma til Íslands og eru á Íslandi ekki viðurkenndir formlega sem sálfræðingar vegna þröngra og úreltra lagaskilgreininga - þá tapar stétt sálfræðinga á Íslandi ákveðnum trúverðugleika.

Hrannar Baldursson, 26.2.2009 kl. 14:35

12 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Fólk nærri mér þjáist af geðröskunum, mjög góð vinkona með geðklofa sagði mér að erfiðast viðsjúkdóminn hafi verið að sjá undir iljarnar á "vinum" og ættingjum þegar hún þurfti að leggjast inn um tíma vegna hans, enginn af þessum svokölluðu vinum fundu hjá sér þörf fyrir að heimsækja vinkonuna öll þau ár sem hún var á geðdeild og voru léttvægir fundnir. Bara hurfu, samt allt fólk sem voru æskuvinir og hún hélt að væru traustir, sannast það oft þegar fólk lendir í því að veikjast af geðsjúkdómum að það fysta sem fer eru vinirnir, í hennar tilfelli brugðust aðstandendur einnig illilega og hún fann sig eina og yfirgefna í heiminum þegar hún þurfti á mestum stuðningi að halda. Þetta er því miður hlutskipti æði margra sem glíma við geðsjúkdóma, vinkonan óskaði sér stundum að hún hefði fengið krabbamein frekar, þá er frekar stuðnings að vænta frá vinum og fjölskyldu og allt gert til að létta sjúklingnum lund og lífið.

Georg P Sveinbjörnsson, 26.2.2009 kl. 14:44

13 identicon

Mér finnst það lýsa ákveðnum fordómum og skilningsleysi að tala um „að lenda í klónum á" og að „lenda í" fólki sem þjáist af geðsjúkdómum. Myndir þú tala um að „að lenda í klónum á "krabbameinsskúklingi ?? Ég bara spyr.

Olga Jenný (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband