Þannig hljómar texti Hannesar Hólmsteins á bloggi hans Vinstrisveifla á Íslandi:
Ég skrifaði grein í Wall Street Journal í dag um stjórnarskiptin á Íslandi. Þar benti ég á, að hin nýja stjórn er minnihlutastjórn, sem komst til valda í skjóli ofbeldis, eftir götuóeirðir. Þrátt fyrir svo hæpið umboð ætlar hún að ráðast á sjálfstæði Seðlabankans og reka Davíð Oddsson, sem ekkert hefur til saka unnið annað en vara nánast einn Íslendinga við hinum öra vexti bankana fyrir hrunið, jafnt opinberlega og í einkasamtölum. Fjármálaeftirlitið var fært frá Seðlabankanum 1998, svo að Davíð varð að láta sér nægja viðvaranir, ekki athafnir.
Ég hef tvennt við þetta að athuga, annars vegar þá hugmynd að götuóeirðir hafi átt sér stað á Íslandi, þar sem mér þykir heldur strangt tekið til orða, og vil í því sambandi skoða aðeins betur merkingu óeirða.
Hitt er uppsögn Davíðs Oddssonar, sem vissulega varaði við örum vexti bankanna fyrir hrunið, en starfar í umboði sitjandi forsætisráðherra, og þar sem forsætisráðherra treystir ekki sitjandi Seðlabankastjóra er ósköp eðlilegt að hún vilji leysa hann frá störfum. Málið er að þetta snýst ekki um Davíð Oddsson, heldur um að uppstokkunar hefur verið krafist í öllu kerfinu, óháð einstaklingum eða flokkstengslum.
Málið er semsagt lagt þannig upp að ríkisstjórnin rændi völdum, og með þessum völdum er verið að reka Davíð Oddsson, sem er vinur greinarhöfundar. Þannig að ef hægt er að viðurkenna þær forsendur að um valdarán hafi verið að ráða, þá hefur forsætisráðherra ekki alvöru vald, heldur stolið vald, og því ætti uppsögnin ekki að vera tekin gild.
Til að komast að sannleikanum í þessu máli, hvort að ríkisstjórnin hafi tekið völdin með götuóeirðum, langar mig að bera saman hugtakið 'óeirðir' og það sem gerðist í raun og veru.
Það sem gerðist: Fjöldi manns safnaðist saman og kastaði mjólk og skyri í lögreglumenn, og þar að auki kastaði einhver múrsteini í lögregluþjón sem slasaðist alvarlega. Fjölmargar rúður voru brotnar og brennur kveiktar hér og þar um bæinn. Til allrar hamingju hefur enginn verið drepinn.
Hvað eru óeirðir?
Samkvæmt Encyclopedia Britannica eru óeirðir:
Ofbeldisfull árás gegn opinberri reglu unnin af þremur eða fleiri manneskjum. Eins og ólögleg hópmyndun, eru óeirðir ólögleg hópmyndun fólks í ólöglegum tilgangi. Öfugt við ólöglega hópmyndun, samt sem áður, eru óeirðir ofbeldisfullar. Hugtakið er augsýnileg vítt og nær utan um blóðug átök verkfallsbrjóta og fólks með kröfuspjöld til hegðunar glæpagengja.
Samkvæmt þessari skilgreiningu voru mótmælin í miðbæ Reykjavíkur ekki óeirðir, þar sem að ofbeldisverk voru undantekning frekar en regla.
Ég hafna þessari grein Hannesar Hólmsteins algjörlega, og hafna því að ríkisstjórnin hafi tekið sér völd í skjóli ofbeldis og götuóeirða, enda var ofbeldi aðeins beitt í undantekningu af einum eða tveimur einstaklingi, í hópi mörg þúsund manns. Það er kraftaverki líkast að enginn var drepinn og hversu fáir meiddust miðað við tilefni mótmælanna.
Niðurstaða mín er sú að það voru engar óeirðir á Íslandi, enda er megineinkenni óeirða ofbeldisfullur verknaður, en þar sem ofbeldisverk heyrðu til undantekninga frekar en reglu, þá hlýtur þessi grein að falla um sjálfa sig.
Það eru hreinar getgátur sem eiga sér enga stoð í veruleikanum að Jóhanna Sigurðardóttir vilji víkja bankastjórum Seðlabankans vegna persónulegrar óvildar, - hvert barn sér í hendi sér að þetta er leið til að vinna Íslandi traust á nýjan leik, óháð persónulegum ríg, enda er þessi ákvörðun studd af mjög traustu baklandi Jóhönnu, og ekki hægt að slá upp sem persónulegri árás. Slík ásökun er afar ósanngjörn miðað við það sem á undan er gengið.
Leitt er að skrifað sé á svo óvandaðan hátt af Íslendingi í áhrifaríkan erlendan fjölmiðil. Grein Hannesar í Wall Street Journal má lesa hér.
Til að skýrt sé að ég hef ekkert á móti Davíð Oddssyni sjálfur vísa ég í greinar sem ég skrifaði um mótmælin gegn honum í haust sem leið, og þetta eru greinar sem ég get staðið við enn í dag:
9. október 2008: Á að reka Davíð Oddsson, leggja hann í einelti og ásaka hann um ófarir bankanna?
18. október 2008: Má ég vinsamlegast mótmæla mótmælunum gegn Davíð Oddssyni?
Athugasemdir
Ég las greinina á Wall Street Journal. Aðdáunarvert hvað hann Hannes talar alltaf fallega um tengdapabba sinn.
Jón Hreggviðsson (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 19:19
Ég get nú ekki tekið þessi ummæli Hannesar svo alvarlega um meintar óeirðir; greinin er öll mjög "dramatíseruð" og þetta er einfaldlega hans sýn.
En fólkið í landinu er búið að fá upp í kok af "ástandinu" og nú verðum við að halda áfram.
Og það þýðir breytingar sem eru sumar þannig að núna verður að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.
Þannig er lífið.
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 19:33
Það verður ekki af Hannesi skafið, hann er foringjahollur.
Ég sé ástandið ekki í alveg sama ljósi og hann. Hannes Hólmsteinn hefur verið einn helsti efnahagsráðgjafi ríkisstjórna Davíðs, sem er ótrúlegt í ljósi þess að sú ráðgjöf kom frá undirmáls stjórnmálafræðingi, að mati fagnefndar hjá Háskóla Íslands, sem mat hann tvisvar óhæfan í þá stöðu sem Birgir Ísleifur Gunnarsson tróð honum engu að síður í. Innvígt og innmúrað. Í hverju er eiginlega vígsluathöfnin fólgin? Tryggðin og sporsluveitingarnar eru rannsóknarefni.
Sigurður Ingi Jónsson, 3.2.2009 kl. 20:50
Mótmæli heita það þegar hinir fá grjót í hausinn; óeirðir þegar bölvaður skríllinn hendir grjóti í hausinn á mér .
Flosi Kristjánsson, 3.2.2009 kl. 20:56
HHG þarf að hvíla sig vel og lengi.
Ásdís Sigurðardóttir, 3.2.2009 kl. 23:09
Þarna kemur fram afar þröngt sjónarhorn manns sem við vitum að er mjög langt til hægri og það að auki góður vinur og mikill aðdáandi Davíðs Oddssonar. Það gerir ekki svo mikið til þó HH skrifi svona í blöð hér heima þar sem fólk þekkir hann. Það er hinsvegar graf alvarlegt að hann skuli leyfa sér að fara með svo grófar ásakanir og ósannar fullyrðingar í erlenda fjölmiðla. Þar þekkja ekki lesendur Hannes Hólmstein og geta þess vegna trúað þessu.
Aðgerðir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir eru margþættar og þetta er skipulagsbreyting sem núverandi stjórnarflokkar telja óhjákvæmilega og hefur ekkert með stjórnarmenn SI persónulega.
Þetta er álíka og þegar aldurhniginn sveitungi keyrir hér um svæðið eins og hann sé nær einn í heiminum. Nágrannarnir þekkja hann, en ókunnir ökumenn vit ekki um hættuna.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 4.2.2009 kl. 01:16
Hvernig dettur nokkrum manni með óbrenglaða dómgreind að elta ólar við HHG?
Sigurður Sveinsson, 4.2.2009 kl. 08:38
Mikið er ég "lánsamur í lífinu" að "hafa ekki hugsanir Hannesar í kollinum".
Tek undir með Sigurði Sveinssyni.
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 10:26
Ég rek nú augun strax í þessa fullyrðingu
"May you live in interesting times, says an ancient Chinese curse which has now hit Iceland"
Fyrir utan það hve blár Hannes er þá þykir mér með ólíkindum að prófessor við Háskóla skuli vera jafn illa lesinn og illa að sér að hann láti svona út úr sér, sýnir kannski betur en margt annað að Hannes er alls enginn menntamaður né vísindamaður. Þetta orðatiltæki á ekkert skilt við gamalt kínverska bölvun. Þetta orðatiltæki er ekki hægt að rekja lengra aftur en til 1936 og þá ekki til Kína. Það er líka merkilegt að ekki heyrist múkk frá þessum boðbera nýfrjálshyggjunnar hér heima við ? Skyldi það vera að þessi hugmyndasmiður stefnu sjálfstæðismanna síðustu áratugi veit sem er að arfleifð hans er algert HRUN íslensks efnahagslífs. Honum yrði ekki sérlega vel tekið af almúga held ég ef hann opnaði munninn hér heima við.
Johann Á Helgason (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 11:31
HHG hlýtur líka að hafa verið efnahagsráðgjafi ríkistjórnar Verkamannaflokksins í Bretlandi og Sósialistaflokksins á Spáni, svo ég tali nú ekki um Rússland, Ástaralíu og Nýja Sjáland, þar sem gjaldmiðlar fyrrgreindra landa (þ.e. R, Á, NS) hafa fallið jafn mikið og íslenska krónan á síðastliðnum 12 mánuðum!
Eða var kannski Davíð Oddson seðlabankastjóri í þessum löndum líka?
Athygliverð grein í Mbl. í dag eftir starfsmann Seðlabankans, en þar kemur m.a. fram að aðal-kandídat ,,Jóhannista'' sem nýr yfirmaður Seðlabanka er Már Guðmundsson. Mætur maður þar á ferð og vel metinn af verkum sínum, en hann var m.a. aðalhöfundur þeirrar peningamálastefnu sem framfylgt hefur verið hér á landi síðan 2001, sem var samþykkt á Alþingi af flest öllum ef ekki öllum flokkum sem þá sátu á þingi.
Andstæðingar HHG og DO virðast ekki sjá útfyrir naflan á sjálfum sér eða eru hreinlega rökþrota og kenna því fyrst þeim um sem þeir hatast mest við!
Elías Bjarnason (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 13:21
Elías ég skora á þig að rifja upp útskýringar HHG í íslandi í dag þar sem hann útskírir "íslenska efnahagsundrið"síðan er annað viðtal við þennan vitleysing þar sem hann útskírir barnauppeldi fyrir þjóðinni,æ það er svo margt sem hann hefur látið frá sér fara, þú getur bara slegið inn hannes hólmsteinn á youtube,og eftir það getur þú reynt að svara því hvort þessi maður geti verið prófessor af eigin verðleikum eða pólitísk stöðuveiting sem fór úr böndunum.
árni aðals (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 14:14
Tek undir með Sigurði Sveinssyni. Enginn maður á að elta ólar við HHG. Ekki þess virði.
Valdemar Ásgeirsson.
Valdemar Ásgeirsson (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 16:20
Takk fyrir þetta Hannes góð auglýsing fyrir okkur Íslendinga, við þurfum svo mikið á því að halda núna og þú stendur þína vakt, að byggja upp landið, þetta er örugglega ekki sjálfsblekking, nei, nei, hér er á ferðinni einhverjar hvatir, eins og t.d. ég er æðislegur, ég er gáfaður, ég er gáfaðastur, ég veit allt best, allir hlusta á mig, ég er eini maðurinn á Íslandi með vit....................
ER HÆGT AÐ SENDA HANNES ÚR LANDI FYRIR SKEMMDARVERK, HROKA OG LANDRÁÐ.
Sigurveig Eysteins, 4.2.2009 kl. 16:44
Ekki þess virði!
Ritþjófurinn og skoffínið er háskólaprófessor og fram til þessa bankaráðsmaður í seðlabanka.
Það er mikils virði að koma þessum mannorðsþjófi úr öllum embættum og leyfa honum að njóta sín í einkageiranum.
Þá og fyrst þá verður ekki þess virði að hrauna yfir hann.
marco (IP-tala skráð) 4.2.2009 kl. 16:45
Ég reikna með að flestir sem að lesa Financial Times reikni með að einungis virtir greinarhöfundar fái greinar sínar birtar þar og treysti þar af leiðandi því sem þar er sagt, jafnvel þó að frásögn sé ýkt eða ósönn. Það er spurning hvort slíkt hafi einhver áhrif á alþjóðavettvangi, og þá einnig væri ágætt að velta fyrir sér hvaða áhrif slík grein getur haft til lengri tíma.
Það er ekki nóg að segja greinina vera marklausa af því að hún er skrifuð af ákveðnum einstaklingi, heldur er mikilvægt að greina af hverju hún er marklaus og þá helst koma þeim skilaboðum til réttra aðila, hverjir svo sem þeir eru í þessu tilfelli.
Hrannar Baldursson, 4.2.2009 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.