Er eitthvað samband á milli 9-11 og heimskreppu?

✈ ▌▌
 
 

Karl stóð uppi á sviði með míkrófón í annarri hendi og bjórkrús í hinni. Hann söng og það nokkuð vel, þrátt fyrir falska millikafla:

 

"On a dark desert highway,
cool wind in my hair,
warm smell of colitis
rising up through the air."

 

Stöku sinnum missti hann tóninn, en hann var meðvitaður um það og tók sér þá bara sopa, þannig tókst honum að fela fölsku nóturnar, hélt hann. Tvær konur sem sátu við sama borð klöppuðu þegar laginu lauk og brostu báðar til hans, en þegar þær litu hvor á aðra þurrkaðist brosið út jafnhratt og brosið hafði birst. 

Allir hinir á barnum voru í hrókasamræðum. Maður með langa barta og klæddur skínandi jakka ruddist upp á svið og byrjaði að söngla með djúpum Elvistöktum áður en Karl komst af sviðinu og tónlistin byrjaði:

"Heh heh have I told you lately that I love you..."

"Jæja stúlkur, hvernig var kallinn?" sagði Karl og hlammaði sér við hlið Þuríðar. Hann lagði hönd á læri hennar og rak tánna í fót Sylvíu á sama augnabliki.

"Þú varst æðislegur," sagði Sylvía og lagði hönd sína á hönd hans.

"Umfram æðislegur," sagði Þuríður.

"Þið eruð ekkert smá sætar að segja þetta," sagði Karl og sötraði á bjórnum. "En hann er ömurlegur þessi Elvis." Hann benti á sviðið.

Maðurinn á sviðinu hnykkti til mjöðmum svo að ístran bærðist eins og marmelaði, benti á dolfallna áhorfendur og tók lagið af heilmikilli snilld. Það eina sem vantaði var smá tign.

"Vitiði stelpur, þó að heimurinn sé að hrynja akkúrat núna, vildi ég hvergi vera."

"Þú meinar, hvergi annars staðar vera?" spurði Þuríður.

"Einmitt."

"Heimurinn er nú varla að hrynja þó að einhver smá kreppa sé í gangi," sagði Þuríður.

"Ef þið kæmust að því að sólin kæmi ekki upp á morgun, að þetta væri síðasti dagurinn... alveg..." hann sýndi alvöru málsins með því að banda frá sér með hægri hendi og halla sér fram á borðið. "Hvað mynduð þið gera í kvöld ef þið vissuð með fullri sannfæringu að þetta væri sá allra síðasti?"

"Fullvissa og sannfæring eru nú tvennt ólíkt," sagði Þuríður. 

"Og það er sko líka komið kvöld," sagði Sylvía. "Þýðir það að morgundagurinn á morgun sé eftir?"

"Nei, ég meina hvað ef kvöldið í kvöld væri síðasti dagurinn."

Það ískraði aðeins í Sylvíu. "Síðasti dagurinn í kvöld? Tí hí hí."

"Ég er að meina svona hvað ef," sagði Karl og gjóaði augunum á Þuríði. "Hvað ef sko. Engar staðreyndir endilega, en samt satt."

"Viltu fá alvöru svar?" sagði Þuríður.

Karl kinkaði kolli og Sylvía fékk sér sopa af Bloody Mary.

"Þarf það að vera satt?" sagði Þuríður.

"Já."

Þuríður dró upp úr veski sínu svartan rýting.

"Ég myndi leita uppi ákveðinn náunga og skera hann á háls með þessu. Eftir að hafa skorið hann á háls myndi ég drekka úr honum allt blóð til að öðlast eilíft líf án hungurs. Ég er nefnilega vampíra."

"Fokk," sagði Karl.

"Æ, ég er svo hrædd. Ekki drekka blóðið mitt, vampíran þín," sagði Sylvía og skellti upp úr. 

"Fokk," endurtók Karl.

"Hvað myndir þú gera?" spurði Þuríður Sylvíu og setti rýtinginn aftur í töskuna. Sylvía hugsaði sig lengi um. 

"Má ég segja alveg satt? Það sem mig myndi í alvöru langa að gera?"

"Fokk," sagði Karl og starði á Þuríði. Þuríður kinkaði kolli og leit glottandi á Karl. 

"Þú ert búinn að segja eff-orðið þrisvar. Ertu að segja okkur að þig langi að gera það í kvöld?"

Karl eldroðnaði í framan og brosti vandræðalegur, en þá sagði Sylvía.

"Ég veit, ég veit. Ég myndi ferðast átta ár aftur í tímann til að koma í veg fyrir fjármálakreppuna."

"Ókey," sagði Þuríður brosandi og kinkaði kolli hæðin á svip. "Svo var það fyrir átta árum, að ég kvaddi þig, með tárum. Hvernig hefðirðu getað komið í veg fyrir kreppuna með tímaflakki?"

"Jú, sko... Ég hefði keypt mér flugmiða til New York og varað við hreðjuverkjaárásunum á tvíburana tvo."

"Tvíburaturnana?"

"Já, eða það. Og ég hefði látið Róbertó Gúlíaní vita að hryðjuverkamenn ætluðu að fljúga á þá með flugvélum."

"Og hvernig myndir þú vita það?" sagði Karl.

"Ég hefði komið úr framtíðinni stjúpid," sagði hún og veifaði honum frá sér. "Málið er að fjármálakreppan hefði aldrei orðið án ellefta október."

"September," sagði Þuríður.

"Sko...," sagði Sylvía. "Turnarnir sem sprungu voru peningabyggingar sem stjórnuðu öllu fjármálakerfi heimsins. Þegar þeir voru gjöreyðilagðir af hreðjuverkjamönnum þá voru allir klárustu peningamennirnir drepnir. Bara þeir heimsku lifðu af, því þeir fengu ekki vinnu í turnunum."

"Ég skil hvað þú ert að fara," sagði Þuríður. "Haltu áfram." Karl horfði ennþá tortrygginn á Þuríði.

"Þú ert engin fokkins vampíra,"

"Segðu!" sagði Þuríður og brosti til hans. 

"Sko...," sagði Sylvía. "Nú voru bara ónýtir peningamenn eftir sem höfðu ekkert vit á peningum. Þeir bjuggu til ný kerfi og fóru að eyða peningum ógeðslega mikið, og þessi hegðun smitaðist út um allan heim, eins og krabbamein, sérstaklega til Íslands, þar sem allt peningafólk varð öfgavitlaust."

"Margur verður af aurum api," sagði Karl spekingslega.

"Og hrokafull, gráðug elíta sem reynir að mergsjúga allt líf," bætti Þuríður við.

"Sko...," sagði Sylvía. "Allir öpuðu upp þetta ógáfaða við peningamálin og allir eyddu og eyddu og þóttust vera svo flottir til að sýna að hreðjuverkjamennirnir töpuðu, að þeir byggðu sér turna úr fölskum lánum og hlutabréfum, sem síðan hrundu eftir að kreppan skall á þá eins og flugvélarnar í New York."

"Fokk," sagði Karl.

Þrjár stelpur með kúrekahatta voru að reka Elvis niður af sviðinu. Hann vildi ekki skila míkrófóninum og það leit út fyrir slagsmál, þegar hann snéri sér heilan hring á gólfinu og setti míkrófóninn upp að munni, og söng djúpri röddu: "Love me tender, love me dear, never let me down... gjörið svo vel. Takk fyrir," og hann hneigði sig þessi dramakóngur fyrir gestina, og uppskar gífurleg fagnaðarlæti. Hann fór beint á barinn til að skrá sig í fleiri lög.

"Heyrðu, Þurý," sagði Karl. "Hvað meintirðu með að segjast vera vampíra? Töluðum við ekki um að segja satt? Hvað myndir þú gera í alvöru?"

"Ég er vampíra," sagði Þuríður og þóttist móðguð. "Þetta er maðurinn sem ég þarf að finna." 

Hún dró mynd upp úr handtöskunni og sýndi fyrst Sylvíu, sem virtist hafa meiri áhuga á að kveikja sér í sígarettu með bensínlausum kveikjara, og þegar hún sýndi Karli myndina hrökk hann við.

"Ertu að grínast í mér?" sagði hann. Myndin var svarthvít, af hávöxnum og grönnum manni í jakkafötum sem hélt á barni í fanginu. Bakvið hann var svartur bíll, Ford T-Bird, og hann var með barðastóran hatt á höfðinu, svona eins og tíðkaðist fyrir hippatímann."

"Nú? Hefurðu séð hann?"

"Þetta getur ekki verið hann. Útilokað."

"Það er ekkert útilokað í þessum heimi," sagði Þuríður og lagði hönd á læri hans.

"Það er útilokað að kveikja í þessari sígó með þessum kveikjó," sagði Sylvía.

"Segðu mér, hvar sástu hann og hvenær?"

"Ég hef aldrei séð þennan mann. Skál í botn." Karl drakk það eftir var úr bjórkrúsinni og stóð á fætur.

"Þarf á klóið," sagði hann og vaggaði vandræðalegur yfir stelpunum. Þuríður leit beint í augu hans og slík greind skein úr brosinu að Karl fékk gæsahúð. Sylvía var ennþá að fikta í kveikjaranum, en maður á næsta borði rétti henni eld. 

"Takk," sagði hún og tók út úr sér sígarettuna, "en veistu ekki að það er bannað að reykja. Það getur drepið starfsfólkið."

Karl gekk í átt að klósettinu og leit um öxl. Þegar hann sá að þær voru komnar í hrókasamræður lagði hann krúsina frá sér og tók stefnuna á útgöngudyrnar. Þegar hann opnaði tók hvínandi vindur við. Það var farið að snjóa. Það var runnið af honum. Hann flýtti sér að Land Krúsernum, settist í leðrið og brunaði af stað.

 

***

 

Nokkrum mínútum síðar fóru stúlkurnar að skima eftir Karli. 

"Hann er farinn," sagði Þuríður. "Myndin! Hvar er hún?" Hún kíkti í töskuna, undir borðið, á gólfið.

"Helvítis, hann stal myndinni," sagði hún.

"Hvað með það?", sagði Sylvía. Þú átt milljón eintök."

"Æ, stundum geturðu verið svo heimsk."

 

***

 

Á rauði ljósi við gatnamót Grensás og Bústaðavegs tók Karl myndina úr vasanum. Þetta var greinilega hann. Föli maðurinn á gamlársdag, maðurinn sem stoppaði hann, maðurinn sem var í speglinum en var svo hvergi sjáanlegur. Nema í speglinum. Fokk!

Hann kveikti á Léttbylgjunni af gömlum vana. Hann virti myndina fyrir sér og sneri henni við, það var eitthvað skrifað á bakhliðina. 

 

"Karl Ingólfsson, fjármálaráðgjafi, 555-4908"

 

Það var annað nafn fyrir neðan:

 

"Úlfur Skarphéðinsson, 555-4795"

 

"Fokk," sagði Karl, en hækkaði í útvarpinu þegar hann heyrði hvaða lag var verið að spila, stakk myndinni í vasann, gleymdi öllum áhyggjum og söng með:

 

 

Up ahead in the distance, I saw a shimmering light
My head grew heavy and my sight grew dim
I had to stop for the night

There she stood in the doorway;
I heard the mission bell
And I was thinking to myself,
'This could be Heaven or this could be Hell'
Then she lit up a candle and she showed me the way
There were voices down the corridor,
I thought I heard them say...

Welcome to the Hotel California
Such a lovely place
Such a lovely face
Plenty of room at the Hotel California
Any time of year, you can find it here

 

 




Textar:

Hotel California, Eagles

Have I Told You Lately That I Love You, eftir Van Morrison

Love Me Tender: W.W. Fosdick, Vera Matson og Elvis Presley

Fyrir átta árum: Tómas Guðmundsson

 

Mynd: On a Dark Desert Highway, eftir From The Field á Flickr

 

Þessi saga er skáldskapur. Nöfn, persónur, staðir og atburðir eru að mestu hugarsmíð höfundar og finnist samsvörun í raunveruleikanum er um hreina tilviljun að ræða. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband