Eru einhverjir annmarkar á skáldaleyfi* fjármálaráðherra?
30.12.2008 | 22:41
"Þegar völd gera mann hrokafullan, minna ljóð hann á eigin takmarkanir. Þegar völd þrengja áhugasvið og umhyggju manns, minna ljóðin hann á ríkidóm og fjölbreytileika hans eigin tilvistar. Þegar völd spilla, hreinsa ljóð, því að listin sýnir sannleika þess mannlega sem verður að þjóna sem hornsteinn dómgreindar okkar." (John Fitzgerald Kennedy, 1917-1963)
Ljóst er að settur dómsmálaráðherra tók ranga stjórnskipulega ákvörðun og að hún lítur út eins og afsprengi spillingar fyrir almenningi öllum. Hvort sem um spillingu hafi verið að ræða eða ekki, þá hlýtur sú tenging sem fólk gerir við athöfnina að skipta lykilmáli. Oft er grunur um sekt jafn afrifaríkur og sönn sekt. Hverri ákvörðun fylgir ábyrgð hefði ég ætlað. Hvernig ætli þessi ábyrgð verði öxluð?
Ég hjó eftir eftirfarandi í grein mbl.is um þetta mál:
Umboðsmaður telur annmarka á þessu en þó ekki meiri en svo að hann telur að þeir leiði ekki til ógildingar," sagði Árni Mathiesen við Morgunblaðið í kvöld.
Hlutverk umboðsmanns Alþingis var einungis að meta hvort að um annmarka hafi verið að ræða eða ekki. Hann hefur ekkert að segja um hugsanlegar afleiðingar þessa brots, eins og fram kemur í niðurstöðu umsagnar hans, ef lesið er aðeins lengra:
Úr niðurstöðu umboðsmanns alþingis:
Eins og áður sagði er það niðurstaða mín að tilteknir annmarkar hafi verið á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð setts dómsmálaráðherra við skipun í umrætt embætti héraðsdómara. Að teknu tilliti til dómaframkvæmdar hér á landi og að teknu tilliti til hagsmuna þess sem hlaut skipun í embættið tel ég ekki líkur á að ofangreindir annmarkar leiði til ógildingar á skipuninni. Það fellur hins vegar utan starfssviðs míns að taka afstöðu til þess hvaða lagalegu afleiðingar þessir annmarkar á meðferð málsins kynnu að öðru leyti hafa í för með sér ef um þetta yrði fjallað af dómstólum t.d. í formi skaðabótamáls. Ég beini þó þeim tilmælum til skipaðs dómsmálaráðherra að framvegis verði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem lýst er í áliti þessu við undirbúning og veitingu embætta héraðsdómara.
Við getum ekki sagt að um lögbrot sé að ræða, heldur verður löglærður dómari að skera úr um það. En til þess þarf sjálfsagt einhver að kæra málið, eða hvað? Líklegasta niðurstaðan er að hinir þrír sem metnir voru hæfari kæri málið og semji um sæmilegar skaðabætur frá Ríkinu, og þar með verði málinu lokið.
Væri þá réttlætinu fullnægt?
Undarleg er íslensk þjóð!
Allt, sem hefur lifað,
hugsun sína og hag í ljóð
hefur hún sett og skrifað.
Hlustir þú og sé þér sögð
samankveðna bagan,
þér er upp í lófa lögð:
landið, þjóðin, sagan.
Stephan G. Stephansen (1853-1927)
* Skilgreining á skáldaleyfi, af vefsetrinu Bókastoðin:
Stundum taka skáld sér skáldaleyfi en með því er átt við að þeir virða ekki settar reglur, t.d. hvað málform eða bragform varðar. Þetta gerði Halldór Laxness til dæmis, en hann hundsaði ng- og nk-reglurnar í stafsetningu og skrifa orð á borð við langur svona lángur. Skáldaleyfi getur einnig falist í því að hagræða sögulegum staðreyndum eða tíma.
Telur nýmæli í niðurstöðu umboðsmanns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt 31.12.2008 kl. 01:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.