Mjallhvít, Hamlet og Konungur Ljónanna í einum pakka: The Chronicles of Narnia: Prince Caspian (2008)

 

The Chronicles of Narnia: Prince Caspian er ein af þessum sjaldgæfu framhaldsmyndum sem er betri en frummyndin. Samt byrjar hún frekar illa og er að mestu hræðilega illa leikin, en tekur síðan lokakipp sem verður til þess að ævintýraheimur Narníu verður loks lifandi og spennandi, svipaður því sem maður upplifði með því að lesa bækurnar eftir C.S. Lewis.

Það er margt líkt með The Lord of the Rings og The Chronicles of Narnia, nema að leikstjórn, handritsgerð og öll sú vinna sem fór í The Lord of the Rings skilaði sér fullkomlega á kvikmyndatjaldið. The Chronicles of Narnia er álíka gott viðfangsefni en skilar sér ekki jafnvel á tjaldið.

Reyndar voru höfundur beggja sagnanna afar góðir vinir og deildu með sér hugmyndum, þannig að ekki á að koma neinum á óvart að verur og þemu sem birtast í Hringadróttinssögu birtist einnig í Narníuheimum. Reyndar voru þeir það góðir vinir að báðir skammstöfuðu þeir nöfnin sín. En hvað um það.

Prince Caspian (Ben Barnes) er svona blanda af Mjallhvíti, Hamlet og Lion King. Hann er bara hvorki danskur né ljón, né stúlka. Hins vegar koma dvergar honum til bjargar. Faðir hans hefur verið myrtur af bróður sínum, hinum valdagráðuga og gegnsýrða af mannlegri illsku Miras (Sergio Castellito), sem hefur jafn valdagráðuga ráðgjafa að baki sér, sem hann getur treyst til þess eins að hjálpa honum þegar hann sýnir styrk eða stinga sig í bakið þegar hann sýnir veikleika. 

Þegar Miras eignast son vill hann strax losna við Caspian úr ríki sínu og sendir sín menn á eftir honum. Hins vegar á prinsinn góðan að sem skilur ástandið, en það er fræðimaðurinn Cornelius (Vincent Grass) sem hjálpar honum undan. Prince Caspian þeysir á skeið undan örvum og flugeldum og kemst inn í myrkvan skóg þar sem Narníuverur búa. Hann rekur hausinn í trjágrein, og rétt áður en hann missir meðvitund blæs hann í horn sem kalla á saman hina fornu konunga drottningar Narníu.

Það eru börnin úr fyrra ævintýrinu, en þau eru stödd í London á seinnistríðsárunum, og hverfa nú inn í Narníu á ný. Þau uppgötva fljótt að ekki er allt eins og það áður var og læra að um 1200 ár hafa liðið í veröld Narníu síðan þau voru þar síðast fyrir ári síðan, sem þýðir að allir þeirra gömlu vinir og þau sjálf eru ekkert annað en gömul ævintýri fyrir þá sem lifa í ævintýraheiminum.

Þrátt fyrir þessa bráðsnjöllu hugmynd þokast myndin frekar leiðinlega áfram þar til kemur að einvígi á milli Peter Pevensie (William Moseley) sem er elstur syskynanna sem fara til Narníu, og kóngsins Miraz. Á sama tíma fara Lucy (Georgie Henley) og Susan (Anna Popplewell) að leita ljónsins Aslam (Liam Neeson) sem er einhvers konar Jesús í heimi Narníu. Edmund (Skandar Keynes) bróðir þeirra er hins vegar frekar snjall og virðist eiga ráð undir rifi hverju.

Í kjölfar einvígisins fylgir ein af skemmtilegri orrustum sem maður hefur séð á tjaldinu og jafnast á við sumt af því sem maður sá í The Lord of the Rings,  en það er eins og allt í einu hafi einhver kraftur losnað úr læðingi og ímyndunarafl kvikmyndagerðarmanna tekið völdin.

Þannig að í lokin fáum við bara hina ágætustu skemmtun þrátt fyrir frekar langan, leiðinlegan og klisjukenndan aðdraganda.

 

Ég get mælt hóflega með þessari.

 

7/10

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Þarna þekki ég þig

Ómar Ingi, 3.12.2008 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband