Rugla sumir sérfræðingar óþekkt og prakkaralátum saman við ofvirkni?

 


 

 

Það er eitt þegar barn hefur athyglisbrest eða ofvirkni, sem er beinlínis sjúkdómur, og annað þegar barn hagar sér á hátt sem hægt er að túlka sem ofvirkan eða þegar barnið hefur ekki þjálfað athyglisgáfuna nægilega.

Gott hjá Björgvini að vekja athygli á þessu máli. 

Ég starfaði við kennslustörf frá 1994 til 2004 og gríp ennþá inn í þjálfun og kennslu þegar ég hef tíma. Við störf mín hef ég kynnst fjölmörgum börnum og unglingum sem greind hafa verið með ofvirkni, og oftar sem ekki hef ég sem sérfræðingur í uppeldisfræðum verið ósammála greiningunni, en ekki haft neitt um það að segja þar sem að ég er ekki sérfræðingur í ofvirkni sem slíkri. 

 

 

 

Það eru fjölmargir lífrænir og félagslegir þættir sem geta valdið óþekkt hjá börnum. Dæmi um lífræna þætti eru alltof mikil sykurneysla, kyrrseta (við t.d. sjónvarp eða tölvuleiki) og óregla með svefn.

Félagsleg ofvirkni tel ég að birtist oft í skólastofunni, sem er því miður alltof sjaldan í takt við veruleikann sem börnin þekkja. Þekking í dag er ekki það sama og þekking var fyrir tíu árum. Ef þú vilt vita eitthvað geturðu einfaldlega gúgglað það og lært á mjög skömmum tíma. Börn eru farin að gúggla og við tölvuna kunna þau á youtube, wikipedia og Facebook, og geta verið ansi fljót að læra, og fengið upplýsingar sem eru jafnvel nákvæmari en í skólabókunum. Einnig geta þau lært stærðfræði á vefnum á síðum eins og rasmus.is.

 

 

sq-scary-mask-kids-wall

 

 

Ef börnin upplifa það að skólastofan og kennarinn eru ekki í takt við tímann, verða þau einfaldlega óþreyjufull, og ef þeim finnst að verið sé að bæla þau niður og halda aftur af þeim með skólakerfinu, brýst hegðunin fram og getur litið út sem ofvirkni.

Ofvirkni samkvæmt mínum skilningi er sjúkdómur sem gerir viðkomandi ekki kleyft að einbeita sér, og þá er mögulegt að hjálpa viðkomandi með lyfjum eins og rítalíni. En svo eru önnur börn sem haga sér eins og þau séu ofvirk en eru það ekki í raun, og eru líka róuð niður með rítalíni. Sumir sérfræðingar segja að það sé skaðlaust. Ég er ekki sannfærður. Sérstaklega ef við ætlumst ekki bara til þess að viðkomandi sýni góða hegðun, heldur framúrskarandi árangur.

 

 

human
 

 

Mannshugurinn er svo dularfullur, víðfeðmur og lítt kannaður að ómögulegt er að vita hvort að lyfjagjöf sé hindrun í vegi þess að einhver verði framúrskarandi einstaklingur.

Reyndar hafa íslenskir sálfræðingar verið að vinna að bættum greiningaraðferðum á ofvirkni og eiga hrós skilið fyrir það, en þeir notast við alþjóðlega staðla til að styrkja greiningarferlið, sem er vonandi þegar byrjað að skila sér í betri greiningu til framtíðar. Maður á aldrei að leggja svona mál algjörlega í hendur sérfræðinga.

Foreldrar og forráðamenn verða að kynna sér málin og þurfa að geta treyst á eigin dómgreind og heilbrigða skynsemi, sama hversu mikill þrýstingur kemur frá kennurum, heimilislæknum og sérfræðingum. Öll lyfjanotkun er ákvörðun sem ætti að taka með gát. Afleiðingar lyfjanotkunar eru óútreiknanlegar, sérstaklega þegar við tengjum hana saman við hugtökin greind og hæfileika.


 

 


 

 

 

Þó að átta mánuðir séu liðnir síðan ég skrifaði þessar greinar sem ég vísa í hér fyrir neðan er tilvalið að kíkja á þær aftur og fjörugar umræður sem fylgdu í kjölfarið.


Myndir:

Strákar í stuði: ADHD Canadian Seeker

Fjörugur krakki: More4Kids.info

Börn úr Pink Floyd's The Wall: MTV

Eitt höfuð, tvö andlit: EraMinda

Hugverkið: Frontier Psychiatrist


mbl.is Handboltinn bjargaði honum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein Hrannar. Langar að koma samt með tvær athugasemdir. Það er ekki ofvirknin sem slík sem gerir börnunum erfitt að einbeita sér það er athyglisbresturinn.  Þetta tvennt fer oft saman en samt ekki alltaf.

Varðandi sykurneysluna.  Nýjustu rannsóknir sýna að sykur hefur í raun engin áhirf á hegðun barna (þ.e. að þau verði eins og þau séu ofvirk).  Það er sennilega frekar umhverfið sem skýrir hegðun barnana þegar mikil sykurneysla er í gangi s.b.r. barnaafmæli.

Hafrún (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 15:46

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Góð pæling ...

Varðandi óþekkt þá held ég að hún sé mjög oft ,,sköpuð" af foreldrum og umhverfi  barnsins. Misvísandi skilaboð - eða hreinlega engin/fá skilaboð  eða reglur gerir það að verkum að barnið er óvisst hvernig það á að haga sér.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 23.8.2008 kl. 15:54

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sæl Hafrún. Reyndar eru rannsóknir á tengslum sykurneyslu og ADHD misvísandi og mikið deilt um þessi mál meðal vísindamanna í dag. Ég hallast að því að sykurinn hafi áhrif á athygli barna, þó að vissulega samþykki ég að sykurinn hafi engin áhrif á sjúkdóminn.

Ég hef ekki gert greinarmun á hugtökunum ofvirkni og athyglisbrest. Hver er munurinn?

Hrannar Baldursson, 23.8.2008 kl. 15:57

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

p.s. mér finnst að reyna eigi að nota höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun áður en barni er gefið rítalín. Heyrði af slíku tilfelli og var hægt að hætta við ritalínið. Fólk heldur að það sé húmbúkk, en ég og vonandi fleiri hafa góða reynslu.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 23.8.2008 kl. 15:59

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Var einmitt að skrifa um Björgvin á minni síðu.  Ég á dreng sem hægt var að lýsa á nákvæmlega sama hátt og Björgvini. ÉG tók þá ákvörðun með minn dreng að í stað þess að afsaka hann með sjúkdóm og gefa honum lyf, þá ætlaði ég að ala hann upp sem lítinn frekjudall og besservisser og aga hann til að verða góður drengurog það tókst og erum við stolt af því. Hann var ekki orðin nema 17 ára þegar hann sá sjálfur að þetta var enginn sjúkdómur sem var að í den, hann bara var svona orkubolti og var okkur óskaplega þakklátur fyrir að hafa ekki gefið honum lyf. Greining getur verið þörf og börn geta verið mjög veik, en svo er því miður fullt, fullt af börnum sem er ekkert verið að ala upp og þá finnst foreldrum ágætt að fá svona "greiningu" og þá er bara allt leyfilegt.  Nú bið ég ykkur sem lesið þetta og vitið að barnið ykkar er haldið sjukdóm ekki óþekkt  að taka þetta ekki til ykkar, ég er ekki að tala um raunverulega veik börn, heldur þau sem komast upp með allt og fá svo greiningu sem er enganvegin til góðs fyrir viðkomandi inn í lífið.  Foreldrar eiga að taka á uppeldi barna sinna, til hvers annars er verið að eiga þau. ??

Ásdís Sigurðardóttir, 23.8.2008 kl. 16:06

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

ÉG fór eitt sinn með soninn til svona jafnara, hún sagði okkur að í fyrra lífi hafi hann verið pabbi minn, þessvegna væri hann alltaf að reyna að stjórna mér, það var ekki svo vitlaust, en sagði líka að ég ætti að ráða en ekki hann, og þannig var það.  Börnin mín fengu aldrei sykur nema um helgar. Alltaf heitan hafragraut á morgnana alla sína skólagöngu og sögðu kennarar að þau væru mun rólegri, sérstaklega strákurinn, en aðrir fyrstu 3-4 tímana en þá var minn sko farinn að hressast.

Ásdís Sigurðardóttir, 23.8.2008 kl. 16:08

7 identicon

Ég hef í raun ekki nýlega skoðað rannsóknir á sykri og ADHD en þær nýjustu sem ég hef séð um sykurneyslu barna (almennt þýði) sýna fram á að sykur hefur ekki áhrif á börnin á þann hátt sem hingað til hefur verið haldið fram.

Varðandi munin á athyglisbresti og ofvikrni.  Það er í raun hægt að skipta ADHD niður í þrennt.

  1. Athyglisbrestur. 

Börnin eiga í erfiðleikum með að halda athygli og þá sérstaklega í endurteknum verkefnum sem þeim finnst leiðinleg.  Þau truflast auðveldlega og eiga erfitt með að útiloka áreiti (getur t.d.verið erfitt að fara í bíó og heyra í öllum popp-pokunum).  Þau eru óskipulögð og gleymin, eiga það til að týna förunum sínum og vita oft ekki hvar skólataskan þeirra er.  Þau klára ekki verkefni og fylgja ekki fyrirmælum til enda.  Í raun þarf að mata þau með skipunum, taka eitt skref í einu.  ADHD börn gleyma margskrefafyrirmælum og framkvæma oft bara fyrsta skrefið. (yddaðu blýantinn þinn og hentu svo yddinu í ruslið – þau ydda bara) Hugsanlega er það vegna truflunar í vinnsluminni.

ADHD börn eru sífellt að skipta um verkefni, eru til dæmis í mörgum íþróttum og sveiflast á milli áhugamála.Margir eru þó hissa á að börn sem greind hafa verið með athyglisbrest geta setið tímanum sama og spilað tölvuleiki.  Málið er að þar eru alltaf ný áreiti.  Þessi börn læra einnig betur á heimasíður þar sem auglýsingar koma skjótast upp á skjáinn!!1.    HvatvísiKrakkarnir framkvæma án þess að hugsa, þau grípa fram í, svara spurningum áður en þær eru kláraðar, eiga erfitt með að bíða í röð og geta ekki stoppað sig. Vegna þess hversu erfitt þau eiga með að stoppa sig lenda þau oft í árekstrum, auk þess sem þau eiga erfitt með að stoppa tilfinningaviðbrögð.  Þau eiga erfitt með að lesa svipbrigði.  3. Hreyfiofvirkni

Þau eiga erfitt með að setja kyrr, eru stanslaust á iði, tala mikið, fikta, klifra,    hoppa, hlaupa þegar það á ekki við.  Mikil virkni er í líkamanum, þau eiga það til að borða göt á fötin sín!

Þetta allt þarf ekki að vera til staðar hjá einhverjum sem greinist með ADHD.  Þess vegna er hægt að greina í raun þrjár týpur af ADHD hjá börnum samkvæmt DSM-IV sem er bandariskt geðgreiningarkerfi.

ADHD – PI eru þeir sem eiga einungis (eða að mestu leyti) við athyglisbrest að stríða. 

ADHD – PH eru þeir sem eiga við hvatvísi og hreyfiofvirkni að stríða en ekki (eða lítinn) athyglisbrest.

ADHD – C eru þeir sem greinast með hvatvísi, ofvirkni og athyglisbrest. 

Semsagt maður getur verið með ADHD án þess að eiga í vandamálum með að einbeita sér, og maður getur verið með ADHD án þess að vera ofvirkur.  Ofvirknin sem slík er því ekki beinlýnis að búa til athyglisbrest. 

Jóhanna:  Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun hjálpi til við ADHD. Það að einhver hafi farið til HS jafnara segir ekki okkur að HS virki við ADHD.  Það sem hefur reynst best við ADHD er lyfjameðferð og atferlismeðferð. 

Afsakið langlokuna

Hafrún (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 16:52

8 identicon

Athyglisbrestur er kvillinn sem veldur eibeitingarleysi og eirðarleysi. Ofvirkni er hegðunarmynstur sem oft (en ekki alltaf) fylgir athyglisbresti. Það eru ekki allir sem sýna einkenni ofvirkni með athyglisbrest og það eru ekki allir með athyglisbrest sem sýna ofvirknishegðun. Það dregur oft úr ofvirkninni með aldri en athyglisbresturinn fylgir fólki frekar fram á fullorðinsár.

Bjarki (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 16:56

9 identicon

Jæja Hafrún var á undan mér með nákvæmari útskýringar.

Bjarki (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 16:59

10 identicon

Æ úpps veit ekki afhverju þetta kom allt svona í belg og biðu og mismunandi stafagerð og ég veit ekki hvað og hvað.  Hrannar getur þú nokkuð lagað þetta eitthvað smá amk?

Hafrún (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 17:00

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hafrún, ég get bara eitt færslunni, ekki breytt neinu í henni. Ég get eytt þessu og gert copy/paste inn í Notepad og aftur í færsluna til að losna við stílana, en þeir hafa líklega komið ef þú hefur afritað eitthvað af upplýsingunum úr Word skjali.

Útfrá þinni skilgreiningu get ég auðveldlega flokkað sjálfan mig sem ofvirkan, en athyglisbresturinn er ekki til staðar - að minnsta kosti ekki lengur.

Hrannar Baldursson, 23.8.2008 kl. 17:20

12 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sonur minn sem ég fjallaði um áðan, átti erfitt með mikið áreyti. Þegar við vorum kannski heima um helgar með öll börnin sjö, þá á aldrinum 2-17 þá settist hann oft út á svalir og slakaði á og kom svo inn aftur. Ef það var vetur fór hann bara í kuldagalla.  Við lærðum snemma að tækla vandamálin.

Ásdís Sigurðardóttir, 23.8.2008 kl. 18:02

13 Smámynd: Ómar Ingi

Hrannar kemur á óvart

AGAIN

Ómar Ingi, 23.8.2008 kl. 18:10

14 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kærar þakkir öllsömul fyrir góð svör. Ég hef heilmikið til að pæla í núna, þökk sé ykkur.

Hrannar Baldursson, 23.8.2008 kl. 19:49

15 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Jóhanna:  Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun hjálpi til við ADHD. Það að einhver hafi farið til HS jafnara segir ekki okkur að HS virki við ADHD. ..

Hafrún ég tel ekki rétt að alhæfa svona eins og þú gerir. Þetta er seint innlegg, því ég hafði ekki kíkt hér inn aftur fyrr en í þessu, svo kannski lest þú þetta ekki, en vildi bara koma þessu að. Við ættum að fara varlega í að dæma.

Hér má skoða þetta nánar:

http://www.craniosacral.is/page2/page30/page30.html  

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 25.8.2008 kl. 13:39

16 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

p.s. setning Hafrúnar átti að sjálfsögðu að vera innan gæsalappa, svo það myndist nú enginn misskilningur.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 25.8.2008 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband