Ólafur F. hemur reiðina gegn harðstjórn í Kastljósi

Gærdagurinn var frekar heitur. Það er ekki nóg með að hitamet hafi verið slegin víða um land, heldur steig hitinn greinilega til höfuðs nokkurra þjóðþekktra einstaklinga.

Fyrst var það Sverrir Stormsker sem í miskunnarlausum og gáskafullum spurningum gekk fram af Guðna Ágústssyni í þætti sínum á Útvarpi Sögu, þannig að Guðni á endanum gekk út. 

Í Kastljósi reyndi Helgi Seljan síðan að spyrja Ólaf F. Magnússon spjörunum úr, og vildi greinilega vera afar gagnrýninn í sínum spurningum, en klikkaði algjörlega á lykilatriði hnitmiðaðrar gagnrýni: að hlusta á hinn aðilann. Reyndar má segja Helga það til vorkunnar að Ólafur var ekki mikið skárri, þar sem hann hafði fyrst og fremst áhuga á að koma á framfæri því jákvæða í starfi borgarstjórnar, en Helgi vildi hins vegar gagnrýna einhverja fleti niður í þvílíkan kjöl að það var engan veginn hægt að fylgja honum eftir. 

En Ólafi til vorkunnar, reyndi hann að svara spurningum Helga, en komst aldrei langt því að greinilega var ekki hlustað á það sem hann hafði að segja, og hugmyndin var einungis að veiða út úr honum lokuð svör, frekar en leyfa manninum að tjá sig á frjálsan hátt.

Það þykir mér afar léleg stjórnun.

Með því að halda viðtalið út og gagnrýna þáttastjórnanda fyrir slaka frammistöðu hélt Ólafur F. höfði, og það þrátt fyrir að vera í erfiðri stöðu sem óvinsæll borgarstjóri sem tekið hefur mjög umdeildar ákvarðanir. Þáttastjórnendur mega aldrei gleyma því að þeir eru að ræða við manneskju, en ekki vel, sem gefur þeim nákvæmlega þau svör sem þeir vilja.

Ef ég ber þetta viðtal saman við viðtal þeirra Sverris og Guðna, þá er eðli þeirra gjörólíkt, því að Sverrir gerði stöðugt athugasemdir við það sem Guðni hafði að segja, á meðan Helgi virtist einungis þylja upp spurningalista sem hann hafði á borðinu fyrir framan sig.

Skondið hvernig Sverrir virkaði á mig sem virkilega forvitinn og skapandi einstaklingur, með meiri áhuga á skoðunum Guðna en upplýsingum, en Helgi Seljan sem vélrænn skriffinnskuþræll sem vildi draga fram upplýsingar úr Ólafi F. eins og lögreglumaður að setja saman skýrslu eða pyntari. Það er gott að leyfa viðmælendum sínum ekki að komast upp með hvað sem er, en það má nú leyfa þeim að segja það sem liggur þeim á hjarta. Hvernig getum við annars kynnst þeim?

Í báðum tilvikum snýst málið um stjórnun. stjórnmálamanninum finnst eðlilegt að hann stjórni. Sverrir Stormsker hunsaði það og spurði stanslaust eins og krakki sem bara þarf að vita hlutina og hefur engan áhuga á hver ræður. Mistök Helga Seljan voru hins vegar þau að hann hafði engan áhuga á að ræða við sinn viðmælanda, vildi kúga hann til hlýðni við sig og spyrja um tilfærslu einnar manneskju í starfi eins og það sé eitthvað höfuðmál, á meðan tugir manna hafa misst störf sín á sama degi hjá Ræsi, Just for Kids, og Mest. 

Þá má benda á að áhugavert væri að fylgjast með dýpri rannsókn á þessum málum:

  1. Hvernig Ræsir segir upp öllu sínu starfsfólki með það í huga að ráða einhverja aftur,
  2. Hvernig stjórnendur Just for Kids skilja fyrrum starfsmenn sína eftir í óvissu með því að segja þeim ekki hvort þeir fái borgað um mánaðarmót eða ekki og
  3. Hvernig Mest var skipt upp í tvö fyrirtæki áður en hluti þess var gerður gjaldþrota, og hvernig Glitnir fær gífurlegar fjárhæðir út úr þessu á meðan starfsmenn fá ekki full laun, þar sem Mest er ekki lengur skuldbundið til að borga þeim, heldur fyrirtækið sem var búið til og gert gjaldþrota á einum mánuði. 
  4. Bensín- og díselmál: hvernig verðið hækkar alltaf með verðhækkunum utan, en lækkar ekki í samræmi við það.
Öllum þessum málum voru reyndar gerð ágæt skil í Fréttum, en Kastljós ætti að mínu mati að kafa dýpra og snúa sér aftur að fréttaskýringum, í stað þess að vera blaðurþáttur um ekki neitt.

30. júlí 2008 var með undarlegri dögum. Ég get bara ekki sagt annað.

Það má taka fram að Ólafur sést rjúka út með þjósti að baki Þórhallar Guðmundssonar strax eftir viðtalið. Tímasetning útgöngunnar er góð. Kastljós fær falleinkunn að þessu sinn, Ólafur plús í kladdann fyrir að gagnrýna spyrjandann afar vel, með athugasemdum sem þáttastjórnandinn þarf að svara vilji hann fá einhvern aftur í viðtal til sín. Ekki myndi ég vilja fara í viðtal til Helga Seljan, en hefði sjálfsagt lúmskt gaman af því að ræða við Sverri Stormsker.

 

Hér má sjá brotið úr Kastljósi: Ólafur F Magnússon borgarstjóri

 

Myndir: 

Helgi Seljan á flickr

Ólafur F. Magnússon á vef borgarstjóraembættis


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband