10 flottustu DVD pakkar sem komið hafa út frá upphafi
1.6.2008 | 17:54
Nú er DVD formatið búið að vera í gangi síðustu 10 árin eða svo, og margir farnir að tala um næstu kynslóð: BlueRay sem arftaka DVD.
Reyndar er ég sjálfur ekki að fatta hvað fólki finnst svona miklu merkilegra við BlueRay en DVD. Vissulega er upplausnin og hljóðið töluvert betra, en maður sér samt sömu kvikmyndirnar og upplifunin er ósköp svipuð. Að minnsta kosti á enn eftir að sannfæra mig um annað.
En á þessum tíu árum hafa verið búnir til DVD pakkar sem maður einfaldlega getur ekki annað en slefað yfir. Smelltu á örvarnar fyrir neðan hringekjuna til að skoða titlana. Svo smellirðu bara á myndirnar ef þig langar að kaupa þær frá Amazon.co.uk, en þrátt fyrir skatta og tolla er enn ódýrast að kaupa svona stóra pakka í gegnum netið. Því meira sem er í einni sendingu, því minna er maður líka að borga.
Þetta eru allt flottir pakkar og erfitt að bera þetta saman.
Klassískar kvikmyndir um valdabrölt ítalskra mafíósa í New York. Einn mesti harmleikur kvikmyndasögunnar. Fyrstu tvær myndirnar fengu óskarinn sem besta kvikmynd ársins, The Godfather, árið 1972 og The Godfather Part II fékk óskarinn sem besta kvikmynd ársins 1974.. The Godfather Part III var tilnefnd sem besta kvikmynd ársins 1990 en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Dances with Wolves.
Star Wars gjörbreytti heimi kvikmynda með því að grípa ímyndunarafl áhorfenda á nýjan hátt. Árið 1977 var hún tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta kvikmyndin. Kvikmynd Woody Allen, Annie Hall vann það árið.
Þó að margir telji fyrstu framhaldsmyndina, The Empire Strikes Back, betri en þá upprunalegu, var sú mynd aldrei tilnefnd. The Return of the Jedi var svo komin út í hálfgerða vitleysu, en skemmtileg kvikmynd engu að síður. Forsagan sem kom út mun síðar er ansi langt frá því að ná þeim hæðum sem upprunalegu myndirnar náðu.
Engar af Alien myndunum fengu óskartilnefningar sem besta myndin, en flestar fengu þær einhverjar tilnefningar fyrir tæknibrellur og sviðsetningu. Alien er framúrskarandi hrollvekja sem byggir fyrst og fremst á persónusköpun og hvernig venjulegt fólk úti í geim bregst við þegar geimskrímsli ræðst á skip þeirra og ógnar lífi þeirra allra.
Það áhugaverða við framhaldsmyndirnar er að þær fylgja engri ákveðinni formúlu. Þannig er Aliens hörku stríðs- og hasarmynd, og Alien 3 er meira pæling um tilvistarkreppu einangraðra karlmanna á fangaplánetu, og síðan fáum við skemmtilegan viðsnúning þegar franskur gamanmyndaleikstjóri gerði eina vanmetnustu svörtu kómedíu síðari tíma: Alien Ressurection, sem er reyndar meira framhald af Delicatessen og City of Lost Children heldur en Alien myndunum.
Raiders of the Lost Ark er fyrsta ævintýri Indiana Jones á hvíta tjaldinu, þar sem fornleifafræðingurinn snjalli er í kapphlaupi við þriðja ríkið til að ná valdi á guðlegu afli sáttmálaarkar Móses. Raiders var tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta kvikmyndin árið 1981, en það ár vann mynd sem allir væru búnir að gleyma hefði hún ekki fengið óskarinn: Chariots of Fire.
Framhaldsmyndin, The Temple of Doom er álíka slök og hin glænýja Kingdom of the Crystal Skull, en The Last Crusade er stórgóð skemmtun þar sem Indy fær engan annan en James Bond sjálfan sér til aðstoðar, það er að segja Sean Connery í hlutverk föður síns.
The Ultimate Matrix Collection
The Matrix er ein frumlegasta og skemmtilegast kvikmynd síðari ára, sem gaf tilefni til mikilla vona um framhaldið, The Matrix Reloaded og The Matrix Revolutions. Því miður voru framhaldsmyndirnar langt frá því að vera jafn góðar frummyndinni, en þær eru engu að síður nokkuð skemmtilegar, með gífurlega flottum tæknibrellum.
Það sem gerir þennan pakka sérstaklega skemmtilegan eru nákvæmar útskýringar á hvernig tæknibrellurnar voru unnar, og þar að auki fylgja með hinar ágætu teiknimyndir sem safnað er saman undir heitinu The Animatrix.
The Lord of the Rings Trilogy (Extended Edition)
Þegar The Fellowship of the Rings kom út varð allt vitlaust. Peter Jackson hafði tekist að koma sýn fjölmargra aðdáanda J.R.R. Tolkien yfir á hvíta tjaldið með slíkri nákvæmni og natni, að flestum var sama þó að nokkrum atriðum úr bókunum var sleppt úr myndinni, og nokkrum persónum breytt.
Árið 2001 var Fellowship tilnefnd til óskarsins sem besta kvikmynd ársins, en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir hinni mistæku A Beautiful Mind, sem að mínu mati er engan veginn sambærileg við afrekið sem Fellowship er. Næsta ár fylgdi í kjölfarið hið engu síðra framhald: The Two Towers, en hún var einnig tilnefnd til óskarsverðlauna sem besta kvikmyndin, en árið 2002 vann önnur kvikmynd sem er engan veginn á sama stalli, Chigago - söngvamynd sem auðvelt er að gleyma.
Árið 2003 var hins vegar árið þegar The Return of the King kláraði dæmið og fékk óskarinn sem besta kvikmyndin. Reyndar þótti mér Peter Jackson takast heldur illa með að enda síðustu myndina, og fjarlægðist hann kjarnann í sögunni alltof mikið fyrir minn smekk. Á meðan hobbitarnir í bókinni þurftu að berjast til að koma mennskum skúrkum úr Hobbiton með þeirri reynslu sem þeir höfðu aflað sér í fyrri ævintýrum, þá var endirinn gerður auðveldur og alltof væminn. Ég hefði frekar viljað sjá Mystic River taka óskarinn það árið.
Mínir uppáhalds sjónvarpsþættir fyrr og síðar, betri en The X-Files og Star Trek, einfaldlega vegna þess hversu leiftrandi vel þeir eru skrifaðir. Vissulega er viðfangsefnið út í hött, unglingsstúlka sem er hin eina valda til að forða vampírum frá því að taka yfir jarðríki með því að opna púkum og árum leið úr helvíti til jarðar. Persónusköpunin er afar góð og þá skarar sérstaklega fram úr hin illa vampíra Spike sem verður ástfangin af Buffy. Tölum um tilvistarkreppu.
Reyndar eru seríur fimm og sex ekki jafn góðar og þær sem á undan komu, en þeim líkur með fersku yfirbragði sjöundu seríunnar þar sem persónurnar þurfa að safna saman her til að berjast við vampírur sem komast í gegnum hlið helvítis ef ekkert verður að gert.
Monty Python: The Definitive, Outrageously Luxurious Special Edition Monster Box Set
Þetta safn er nákvæmlega það sem það þykist vera. Öllum verkum grínhópsins Monty Python hefur verið safnað saman í einn pakka. Reyndar kom Monty Python aldrei til greina þegar um óskarsverðlaun er að ræða, en það er meira vegna meinloku í hugsunarhættu en að þeir hafi átt þetta skilið.
Frá þeim koma nokkrar snilldarkvikmyndir en tvær þeirra eru hrein klassík: Life of Brian sem fjallar um ævi Brian, sem fæddist undir Betlehemstjörninni, bara í næsta hverfi við Jesús, og The Holy Grail, sem fjallar um leit Arthúr konungs að hinum heilaga kaleik, með ansi skemmtilegum útúrdúrum og atriðum.
Einnig er í pakkanum The Meaning of Life, vel heppnuð kolsvört gamanmynd um öngstræti lífsins. Einnig er í pakkanum kvikmyndin And Now for Something Completely Different, sem ég hef reyndar aldrei séð. Einnig, og síðast en ekki síst, er í pakkanum öll sjónvarpssería Monty Python's Flying Circus ens og hún leggur sig. Þetta er enginn smápakki.
James Bond þarf varla að kynna, en þessi pakki inniheldur allar James Bond kvikmyndirnar sem gerðar hafa verið fyrir utan sjónvarpsmynd sem var gerð áður en Dr. No kom út, og hann inniheldur ekki heldur hina hörmulegu Peter Sellers, David Niven og Woody Allen útgáfu af James Bond: Casino Royale: frábært dæmi um lélegt grín. Einnig vantar í kassann Never Say Never Again, sem gerð var af öðru stúdíói, en með Sean Connery í hlutverki Bondsins.
Í þessum pakka er hægt að rifja upp ævintýri James Bond í túlkun þeirra Sean Connery, George Lazenby (í best skrifuðu Bond sögunni), Roger Moore, Timothy Dalton, Pierce Brosnan og loks Daniel Craig. Það góða við alla þessa leikara er að þeir leifa eigin persónuleika að njóta sín í hlutverkinu, reyndar allir nema Lazenby sem mér fannst reyna alltof mikið að feta í sömu fótspor og Sean Connery. Bara ef Connery hefði leikið í þeirri mynd.
The BBC TV Shakespeare Collection
William Shakespeare þarf ekki að kynna, en BBC hefur í gegnum árin tekið upp öll hans leikrit, og nú er hægt að fá þau öll í einum pakka. Þetta er mun aðgengilegri nálgun á Shakespeare heldur en að lesa handritin að leikritunum eða kíkja í tilvitnanir. Þessu mæli ég með fyrir alla sem hafa áhuga á að skemmta sér vel og hlusta á svo myndríkar samræður að heilu bardagaatriðin geta birst í manns eigin ímyndunarafli hlusti maður bara nógu vel.
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Mig langar bara að hrósa þér fyrir frábæra færslu og ég er 80% sammála.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 1.6.2008 kl. 19:13
gaman að þessu bíódóti. alien serían er auðvitað snilld og bondinn alveg nauðsyn.
nú monty phyton koma manni í gírinn og svo er auðvitað fullt af öðru stöffi til og misjafn er smekkur mannanna....
en gott hvað þú ert duglegur að setja inn.
arnar valgeirsson, 1.6.2008 kl. 19:19
Reyndar er ég sjálfur ekki að fatta hvað fólki finnst svona miklu merkilegra við BlueRay en DVD.
Villtu gera svo vel að fara til læknis strax í fyrramálið.
Ómar Ingi, 1.6.2008 kl. 19:32
Gunnar Helgi: það væri gaman að vita hvaða tveir pakkar ættu frekar heima þarna. Ég er ennþá tilbúinn að læra.
Arnar: Takk fyrir þetta.
Hrannar Baldursson, 1.6.2008 kl. 21:34
Ómar: BlueRay gerir nákvæmlega það sama og harðir diskar, nema hvað harðir diskar eru orðnir mun öflugri í dag og geta keyrt á miklu fleiri kerfum. Hvers konar læknis ætti ég að leita í fyrramálið?
Hrannar Baldursson, 1.6.2008 kl. 21:36
aaaa buffy, slef!
Oddur Ingi (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 08:22
Stökkið frá VHS yfir í DVD var auðvitað stærra en frá DVD yfir í Blu-Ray. DVD bætti mynd- og hljóðgæði, bauð upp á mörg tungumál, fullt af aukaefni auk þess sem ekki þurfti að eyða tíma í að spóla til baka. Blu-Ray eykur á ný mynd- og hljóðgæði en hefur ekki mikið annað umfram DVD. Það er auðvitað misjafnt hversu mikið vægi þessi gæðamunur hefur á fólk. Sumum er slétt sama en öðrum finnst þetta vera stórt stökk. Það að myndin sjálf verði ekkert betri við að horfa á Blu-Ray átti einnig við um DVD en það hlýtur að vera jákvætt að sjá myndina skýrar. Ég skil ekki alveg þetta með að Blu-Ray geri það sama og harðir diskar. Venjulega ef maður horfir á eitthvað af hörðum diski sem er sambærilegt Blu-Ray er eitthvað sem er rippað af Blu-Ray og þá fær maður ekki sömu hljóðgæði.
Ég efast um að þó þurfir á læknishjálp að halda við Blu-Ray blindu en ætli hann meini ekki augnlækni.
Róbert Arnar Úlfarsson (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 11:29
DVD er dautt. Lengi lifi Bluray. Ég er opinberlega hættur að kaupa DVD diska. Úrelt format.
Jesús Kristur (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 14:56
Oddur Ingi: Buffy.
Róbert: Vissulega er jákvætt að sjá og heyra skýrar, en spurningin er hvort að það réttlæti kaup á nýjustu græjum. Það má segja að þetta sé svona lúxusuppfærsla frá DVD í BlueRay, en hins vegar þróun þegar DVD urðu til og skyldu spólur eftir í rykmekki.
Ég skil BlueRay þannig að þetta er einfaldlega geisladiskur með miklu meira geymsluplássi en diskar höfðu fyrir. Annað mál er hins vegar hvort að BlueRay diskum hafi á einhvern veginn verið læst þannig að hljóðið fari ekki rétt yfir á harðan disk. Það þekki ég ekki.
Jesús: Opinberlega hættur að kaupa DVD. Þýðir það að þú sért að kaupa þá í laumi?
Hrannar Baldursson, 2.6.2008 kl. 17:37
Augna og heyrnalækni elsku kallinn minn
Þú getur ekki hafa séð munin heima hjá þér og ef svo ertu ekki með réttu græjurnar.
Það er ansi mikið stökk að sjá 560 eða 1080
og hljóðið OMFG
En ef þú sérð engan mun á Digital sýningu og 35 mm þá er ég að skilja sem svo að þú sért aðalega að horfa á poppið þitt og minna á tjladið
Annars var þetta auðvitað sagt í gríni þetta með læknin eins og þú veist.
En munurinn er gífurlegur allavega í mínum græjum .
Ómar Ingi, 2.6.2008 kl. 22:07
Ómar, ég veit að það er mikill munur. Ég hef bara ekki fallið fyrir þessu ennþá. Það kemur sjálfsagt að því, fyrr eða síðar, og þá á ég eftir að dauðsjá eftir að hafa ekki stokkið á það nýjasta og flottast jafnóðum, eða...
...ekki.
Hrannar Baldursson, 2.6.2008 kl. 23:14
Ég held að það sé rétt að DVD eigi eftir að henta flestum í mörg ár í viðbót og Blu-ray á líklega aldrei eftir að ná sömu fótfestu og DVD hefur náð á sínum líftíma. Blu-ray verður líklega lúxusformat næstu 5-7 árin, lifir líklega ágætis lífi við hlið DVD þangað til hægt verður að bjóða fólki að kaupa og niðurhala myndum af netinu í sambærilegum gæðum og Blu-ray býður upp á. Eins og er getur sá markaður ekki keppt við gæði Blu-ray diskana. Það verður þó alltaf markaður fyrir myndir á diskum þar sem safnarinn í manni þarf að hafa eitthvað til að setja upp í hillu og stæra sig af. Ekki alveg jafn skemmtilegt að horfa á safnið sitt í einhverri möppu í tölvunni. Sitt sýnist þó hverjum.
Ég kaupi nær eingöngu kvikmyndir á Blu-ray núna en þó geri ég undantekningu af og til ef um sérstaklega áhugaverða mynd er að ræða sem ég tel ólíklegt að eigi eftir að skjóta upp kollinum á næstunni á Blu-ray. Tek sem dæmi DVD pakka sem mér finnst að eigi heima á Topp 10 listanum þínum, "The Up Series". Þetta eru heimildamyndir sem gerðar á 7 ára fresti þar sem fylgst hefur verið með sömu einstaklingunum í Bretlandi frá 7 ára aldri og var byrjað árið 1964.
Róbert Arnar Úlfarsson (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 02:44
Þegar Blu-ray myndir eru rippaðar þá er DD eða DTS tekið með sem veitir alveg fínustu hljómgæði. Það fylgja hinsvegar oftast með hljóðrásir með hærra bitrate á Blu-ray diskunum en þær eru líklega ekki rippaðar vegna þess að það eru ekki til codecar sem supporta þá eða kannski út af því þær eru plássfrekar.
Annars hef ég sjálfur ekki heyrt í þessum betri hljóðrásum því ég hef ekki ennþá uppfært magnarann sem er orðinn úreltur þó hann sé "ekki nema" 3 ára gamall. Styður ekki þessar nýju hljóðrásir og er ekki einu sinni með HDMI tengi. Það þarf talsvert budget til að halda í við allar þessar nýjungar.
Róbert Arnar Úlfarsson (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 02:46
Sæll Róbert,
Ég keypti mér UP seríuna á sínum tíma og finnst hún alveg mögnuð. 49 Up hefur komið út síðan þá. Að fylgjast með 7 ára börnum vaxa úr grasi og sjá hvað verður úr þeim, hvernig þau byrja að eignast börn og síðan barnabörn, starfsferill og draumar. Það merkilegasta við 7 UP er hvernig einstaklingarnir eru alltaf þeir sjálfir og virðast nánast ekkert breytast síðan 1964, með ákveðnum undantekningum þó. Ég mæli með þessari seríu, engin spurning.
Hér er tengill á Up seríuna hjá amazon.com.
Hrannar Baldursson, 3.6.2008 kl. 08:00
Ég vil líka benda fólki á http://www.play.com/ frá Bretlandi.
Verðið er oftast svipað og Amzon.co.uk, en sendingarkostnaður til Íslands er innifalinn. Stundum er stór munur á verðinu, en oftast eru þau svipuð.
Dæmi: Sami Bond pakki á 99.99£ (139.99£ á amazon). Buffy er dýrari á Play.com, svo það getur borgað sig að gera verðsamanburð.
Einar Jón, 3.6.2008 kl. 13:03
Rétt hjá þér Einar. Ég hef notað Play.com, en gallinn er sá að maður getur aðeins fengið eina vöru senda í einu, og það þýðir kr. 450 aukalega fyrir hverja sendingu.
Hrannar Baldursson, 3.6.2008 kl. 19:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.